Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
22.5.2009
Gjaldþrot og upprisa þjóðar
Ég skrifaði þennan pistil í upphafi efnahagshrunsins, eða 4. október sl. Mundi eftir Spegilsviðtali sem hafði vakið athygli mína tæpum tveimur mánuðum áður um argentínska efnahagsundrið og síðan gjaldþrot þjóðarinnar. Ég held að það sé ekki vitlaust að rifja þetta upp og birta aftur með myndinni um efnahagshrun Argentínu sem varð fyrir ekki svo ýkja löngu síðan. Hvort sem þið lesið pistilinn eða ekki - horfið að minnsta kosti á myndina. Hún er mögnuð. Neðst í færsluna hengi ég Spegilsviðtalið sem vitnað er í í pistlinum. Hlustið á það líka.
Verða hin nýju, íslensku yfirvöld of hrokafull - eina ferðina enn - til að læra af reynslu annarra þjóða? Verður enn og aftur talað um hinar frægu "séríslensku aðstæður" og öllu klúðrað? Maður spyr sig...
Ástand efnahagsmála á Íslandi yfirskyggir alla aðra umræðu þessa dagana og ekki að ástæðulausu. Við erum skelfingu lostin og dregist hefur úr hömlu að stjórnvöld finni lausn á vandanum sem blasað hefur við alllengi. En við erum líka öskureið út í þá ofurlaunuðu, eigingjörnu gróðapunga og áhættufíkla sem hafa leikið sér með efnahag þjóðarinnar og að því er virðist teflt svo djarft að ekkert mátti út af bregða til að spilaborgin hryndi.
Þegar ástandið jafnar sig, sem það hlýtur að gera um síðir, og óttinn hjaðnar náum við vonandi þeirri sálarró að geta íhugað hverju er um að kenna, lært af reynslunni og hindrað að slíkt ástand komi upp aftur. Þar á ég við þær aðstæður sem þessum mönnum voru skapaðar til að seðja áhættufíkn sína og græðgi, skort á regluverki, aðhaldi og eftirliti með því hvernig þeir umgengust fjármuni og spiluðu með efnahag og orðstír lítillar þjóðar sem ekki má við miklu hnjaski. Ég fæ ekki betur séð en þar sé við að sakast þá stjórnmálaflokka sem sátu við völd, veittu frelsið mikla, sömdu og samþykktu lögin en hirtu ekki um að hnýta lausa enda. Og létu undan þrýstingi. Meðal annars þess vegna er svo hlægilegt að hlusta á framsóknarforkólfana Guðna, Valgerði, Siv og fleiri sem öll bera ábyrgð á ástandinu eftir langa valdasetu og helmingaskipti, en tala nú af heilagri vandlætingu eins og þeim komi málið ekki við, þau séu alsaklaus og flokkurinn hafi breyst úr maddömu í mey við það eitt að lenda í stjórnarandstöðu.
Eftirsóttustu viðmælendur fjölmiðlanna, fyrir utan ráðherra, eru nú hagfræðingar. Einn segir eitt og sá næsti eitthvað allt annað. Sumir eru bjartsýnir, aðrir svartsýnir. Þeir láta sér um munn fara alls konar orð og hugtök sem enginn skilur nema kollegarnir og kannski þeir sem vinna í fjármálabransanum. Greiningardeildir bankanna, sem nú ku allir standa tæpt, hafa undanfarna daga, vikur og mánuði rutt út úr sér alls konar hagspám og þær eru með sérheimasíður hjá öllum fjármálastofnunum. Bunan stendur út úr talsmönnum þeirra um skortstöður, hagtölur og línurit og þeir spá hinu og þessu næstu vikur og mánuði. Rýnt er í tölur og gröf en það sem gleymist gjarnan er fólkið sem er á bak við tölurnar eða sem tölurnar vísa í, fjárhagur þess, heimili, heill, velferð, viðhorf og hamingja. Tölur eru blóðlausar og skortir alla mennsku og hlýju. Þær taka ekki tillit til raunveruleikans sem maður lifir í og sýna eitthvað allt annað. Enda þótt hagfræði og tölur séu nauðsynleg tæki til vissra hluta eru þau ekki veruleikinn sjálfur og geta ekki náð utan um allar hliðar hans.
Um miðjan ágúst sl. var að venju athyglisverð umfjöllun í Speglinum á RÚV.Þar var tilefnið gjaldþrot argentínsku þjóðarinnar ekki alls fyrir löngu. Látum Spegilsmenn hafa orðið: "Það var einu sinni talað um argentínska efnahagsundrið en svo varð argentínska ríkið gjaldþrota. Er nokkuð sameiginlegt með Argentínu og Íslandi og hvað segja hagtölur okkur? Við ræðum við Hólmfríði Garðarsdóttur, lektor.
Á tíunda áratugnum voru stofnanir í Argentínu einkavæddar í stórum stíl. Það var meðal annars fyrir tilstilli Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hagtölur voru svo jákvæðar að talað var um "argentínska efnahagsundrið". En svo varð landið gjaldþrota árið 2001 og nú huga stjórnvöld að því að ná aftur til ríkisins flugfélögum sem voru seld alþjóðlegu fyrirtæki. Hefðu Íslendingar átt að læra meira af þeirra reynslu? Hólmfríður Garðarsdóttir, lektor við Háskóla Íslands, þekkir vel til stjórnmála í Argentínu. Hún spyr í ljósi þess sem þar gerðist hversu raunhæf mælieining hagfræðin sé og hvaða merkingu tölur hennar hafa. Er hún raunveruleg speglun samfélagsins eða er þörf á því að skoða það með fjölbreyttari aðferðum."Þetta var bara byrjunin á umfjöllun Spegilsins, sem var afskaplega athyglisverð. Hólmfríður segir m.a. um það sem gerðist í kjölfar gjaldþrotsins að Argentínumenn hafi orðið mjög ákveðnir í að bjarga sér sjálfir eftir kaosástandið sem varði í um tvö ár. "Við höfum eitthvað annað til að bera heldur en það sem einhverjir aðrir ætlast til af okkur," sögðu þeir. Argentínumenn öðluðust sjálfsöryggi til að reiða sig á sjálfa sig í kjölfar niðurbrotsins. Þeir hættu að leita að módelum fyrir velgengni og velferð annars staðar og studdust frekar við það sem hentaði þeim við þær aðstæður sem þar ríktu. Þetta var ekki átakalaust og Argentína fór í gegnum hræðilegar hremmingar, náði upprisu en nú eru aftur komnar alvarlegar krísur sem snúast aðallega um atvinnuleysi.
Einkavæðingarferlið í Argentínu er að ganga til baka. Það gekk allt út á hagfræði en tók ekki tillit til annarra hliða á mannlífinu eins og kemur fram í viðtalinu við Hólmfríði. Í ljós kemur að hagtölur hafa enga merkingu fyrir almenning sem lifir í landinu. Hólmfríður segir: "Þú ert annaðhvort bóndi í norðurhluta landsins, suðurhluta þess, eða íbúi í borg. Það er búið að loka bankaútibúinu í þorpinu þínu, búið að loka búðinni, gjaldmiðillinn þinn hefur ekkert vægi, ekkert gildi, enga merkingu... þá skipta hagtölur engu máli." Íbúar hugsa um það eitt að lifa frá degi til dags.
Kannast einhver við þessa lýsingu?
Hólmfríður heldur áfram: "Ég hef svolítið verið að bera þetta saman við það sem hefur verið að gerast á Íslandi og upplýsingarnar sem komu fram í febrúar á þessu ári þar sem við vorum ennþá - okkar fjármálaspekúlantar voru ennþá að segja okkur að þetta væri allt í lagi. Hér væri allt á byljandi blússi og við værum í fínum gír. Svo kemur bara apríl, maí og júní og það er einhver allt annar veruleiki sem blasir við okkur. Hann er að byrja að hafa áhrif á Íslendinga. Þá einhvern veginn blasir kaldhæðnin í hagtölunum við." Virðing almennings fyrir þeim sem réðu og voru kjörnir til að hafa áhrif og fara með völd og peninga hrundi og ekki hvað síst virðing fyrir hagspekingum og fjármálaspekúlöntum.
Efnahagsundrið í Argentínu stóð yfir frá um 1990 til 2000, það er ekki lengra síðan.
Hólmfríður spyr að lokum: "Hversu raunhæf mælieining er hagfræðin? Hvaða merkingu hafa tölurnar? Er það einhver speglun á samfélagið? Eru bókmenntir ekki miklu betri spegill, þar sem lýst er raunverulegum aðstæðum fólks, viðhorfum, sjónarmiðum, vangaveltum og efasemdum, heldur en hagtölur?" Er það ekki? Ég held það.
Efnahagshrun Argentínu - 1. hluti
Efnahagshrun Argentínu - 2. hluti
Efnahagshrun Argentínu - 3. hluti
20.5.2009
Sannleikanum verður hver sárreiðastur...
...og sumir Draumalandinu líka. Ég hef ekki ennþá getað skrifað um Draumalandið, slík áhrif hafði myndin á mig. Þarf að sjá hana að minnsta kosti einu sinni enn - ef ekki tvisvar. En ýmsir hafa tjáð sig um myndina og sumir hrósað, aðrir gagnrýnt. Það sem gagnrýnendur myndarinnar hafa helst út á hana að setja er hægt að draga saman í eitt orð: "Áróður". Í neikvæðri merkingu.
En hvað er áróður? Orðabókin segir: "umtal eða skrif til að fá menn til að taka afstöðu með eða móti einhverju eða einhverjum; málafylgja, fortölur". Neikvætt? Ekki endilega. Það hefur hingað til ekki þótt neikvætt að beita einhvern fortölum eða vera málafylgjumaður - fylginn sér. En einhvern veginn hefur maður alltaf á tilfinningunni að í notkun orðsins "áróður" felist að verið sé að ljúga að manni. Yfirleitt er það líka svo.
En það er óralangt í frá að verið sé að ljúga í Draumalandinu. Þvert á móti - þar er sagður nakinn, harðneskjulegur, hrikalegur sannleikurinn. Og sannleikurinn hefur meðal annars þann eiginleika að afhjúpa. Það gerir Draumalandið. Myndin afhjúpar fáránleikann, ofstækið, niðurlæginguna, eyðilegginguna og firringuna í kringum aðdragandann að og vinnuna við Kárahnjúkavirkjun.
Sannleikurinn er svo sár að þótt ég hafi verið alfarið mótfallin framkvæmdunum tókst samt að láta mig skammast mín. Ég skammaðist mín fyrir þetta fólk, stjórnmálamennina og öfgamennina sem lögðust flatir fyrir erlendum auðhringum og keyrðu þetta verkefni áfram af mesta offorsi sem sögur fara af í íslenskri atvinnusögu. Og nú er þetta að endurtaka sig með álvershugmyndirnar í Helguvík og á Bakka. Öllu á að fórna, öllu að kosta til, eyðileggja allt sem fyrir er - fyrir nokkur störf í verksmiðju.
Draumalandið er ekki áróðursmynd. Hún er nákvæmlega það sem okkur vantaði - innsýn í hina hliðina. Hliðina sem var þagað um. Hliðina sem var falin þegar framkvæmdirnar voru keyrðar í gegnum kerfið, óhagstæðar rannsóknarskýrslur faldar, þaggað niður í þeim sem vissu hve fáránlegar framkvæmdirnar voru og hve hörmuleg áhrif þær hefðu á efnahag þjóðarinnar. Draumalandið er mynd, sem sýnir okkur upphafið að endalokunum. Sýnir okkur hluta firringarinnar sem varð Íslandi að falli - í alvörugefnum spéspegli.
Ef við Íslendingar værum skynsöm, klár þjóð myndum við sjá til þess að þetta gerðist aldrei, ALDREI aftur. En það á að endurtaka leikinn í Helguvík og á Bakka. Með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir efnahaginn sem er í rúst, náttúruna sem á sér engan sinn líka í heiminum, orkuauðlindirnar sem eru ekki óendanlegar og orkan hvorki endurnýjanleg né hrein. Og við gefum erlendum auðhringum orkuna, eða því sem næst. Eða hvað? Við vitum það ekki. Við fáum ekki að vita á hvað orkan er seld og hve mikið heimilin í landinu þurfa að niðurgreiða hana. Hvað er fólk að hugsa? Hvað eru fjölmiðlarnir að pæla?
Snemma í mánuðinum las ég grein í Fréttablaðinu eftir Skúla Thoroddsen. Hann var ekki ánægður með Draumalandið og býr enda á Reykjanesi. Hann vill álver í Helguvík og engar refjar. Önnur grein birtist fyrir nokkrum dögum, líka í Fréttablaðinu, eftir Jón Kristjánsson. Hann var heldur ekki ánægður, enda fyrrverandi þingmaður og ráðherra Framsóknarflokksins sem ber einna mesta ábyrgð á Kárahnjúkavirkjun. Grein Skúla er hér og grein Jóns hér.
Í dag birtist svo grein eftir annan leikstjóra Draumalandsins, Þorfinn Guðnason, þar sem hann svarar þessum tveimur herramönnum á mjög sannfærandi hátt. Ég tek undir allt sem Þorfinnur segir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.5.2009 kl. 00:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
19.5.2009
Halló, Kópavogur!
Þetta eru þónokkuð mörg árslaun. Eru ekki sveitarstjórnarkosningar að ári?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.5.2009 kl. 23:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
19.5.2009
Æmt og skræmt í eldhúsinu
Það er ekki oft að ég nenni að horfa og hlusta á eldhúsdagsumræður - sem ég held að heiti "Umræður um stefnuræðu forsætisráðherra" á virðulegu þingmáli í messu með hálstau. En það gerði ég í gærkvöldi - frá upphafi til enda. Vaðallinn í sumum fór reyndar inn um annað og út um hitt og mér finnst ótrúlegt að hlusta á fáfengilegt röflið í fulltrúum þeirra stjórnmálaflokka sem áttu stærstan þátt í að koma þjóðinni á hausinn. Þeir skjóta eiturörvum út og suður og kvarta sáran yfir að ekki sé búið að moka flórinn sem flokkarnir þeirra sáu um að dreifa í tonnavís í 12 til 18 ár. Eins og það sé hægt á örfáum vikum eða mánuðum.
Þessi tvískinnungur minnir óneitanlega á framferði auðjöfranna og furðulegt nöldrið í þeim um "þjóðnýtingu" og "ríkissósíalisma" eins og Egill bendir á hér. Bjarni Ben var líka fyrirsjáanlegur þegar hann eyddi mestöllum ræðutíma sínum í að tala máli kvótakónganna. Ekkert nýtt þar.
Sigmundur Davíð kom mér á óvart... og þó ekki. Framsókn er Framsókn hvort sem um er að ræða nýja vendi eða gamlar, úr sér gengnar og rispaðar plötur. Hann var fram úr hófi æstur og einkennilega ómálefnalegur miðað við efni og aðstæður. Ef marka má framgöngu og orð Bjarna og Sigmundar Davíðs er lítil von um að allir flokkar taki höndum saman og bjargi þjóðinni. Þeir ætla ekki að vera samvinnufúsir og Bjarni er harðákveðinn í að vernda kvótakóngana sína.
Ég vil annars leiðrétta leiðan misskilning sem víða veður uppi. Margir tala um að búsáhaldabyltingin hafi breytt öllu. Sagt er að allt hafi gerst 20. janúar fyrir framan Alþingishúsið og síðan fyrir utan Þjóðleikhúsið... var það ekki kvöldið eftir? Að þessir atburðir hafi valdið stjórnarslitunum. Þetta er röng söguskoðun. Frá því í byrjun október stóð Hörður Torfason á hverjum degi á Austurvelli og mótmælti. Þau mótmæli þróuðust síðan í laugardagsfundina sem héldu áfram viku eftir viku, mánuð eftir mánuð.
Hægt er að rekja sögu laugardagsfundanna á blogginu mínu, ég hef skrifað um þá velflesta, held ég. Þessi pistill er frá 17. október og þar furða ég mig á slakri mætingu og viðhorfi til mótmæla. Þennan skrifaði ég 3 dögum seinna og gagnrýni fjölmiðlaumfjöllun og talningu. Hér er pistill um 21. janúar, búsáhaldabyltinguna, og hér skrifa ég um laugardagsfundinn þar á eftir, þann 25. janúar, sem var líklega sá fjölmennasti fram að því.
Kjarni málsins er, að mótmælin byggðust upp og mögnuðust. Róuðust í jólamánuðinum en urðu síðan æ öflugri og náðu hámarki í lok janúar. Samt fannst mér aldrei nógu margir mæta og ég skildi ekki af hverju öll þjóðin kom ekki á Austurvöll. En Búsáhaldabyltingin, Kryddsíldarmótmælin á gamlársdag og Þjóðleikhúsmótmælin voru afleiðing, ekki orsök. Það má ekki gleyma laugardagsfundunum á Austurvelli og hlutverki þeirra - og Harðar Torfasonar - þegar talað er um byltinguna. Svo ekki sé minnst á alla frábæru Borgarafundina sem Gunnar Sigurðsson og félagar stóðu fyrir. Og það var ekki bara fólkið í Borgarahreyfingunni eða kjósendur hennar sem gerðu þessa byltingu. Hreyfingin getur ekki eignað sér hana þótt fólkið innan hennar hafi verið duglegt að mótmæla og tala á fundum. Á mótmæla- og borgarafundina mætti fólk úr flestum flokkum, ef ekki öllum. Ævareiðir Íslendingar sem fannst á sér brotið og kröfðust réttlætis. Sem við höfum reyndar ekki fengið ennþá. En við sem mættum og létum í okkur heyra eigum öll hlutdeild í búsáhaldabyltingunni - hvort sem við erum innan flokka eða utan, hægri-, vinstri- eða miðjusinnuð. Eða bara ópólitísk með öllu.
En hér eru eldhúsdagsumræðurnar - klippt eftir flokkum. Sumir æmta og skræmta, aðrir tala af skynsemi og yfirvegun. Dæmi hver fyrir sig.
Borgarahreyfingin
Vinstri hreyfingin - grænt framboð
Samfylkingin
Framsóknarflokkurinn
Sjálfstæðisflokkurinn
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
16.5.2009
Sofandi að feigðarósi - aftur?
Bók Ólafs Arnarsonar, Sofandi að feigðarósi, hefur verið mjög umtöluð síðan hún kom út fyrir nokkrum vikum. Í gær hitti ég konu sem hefur lesið hana og hún sagði að undiraldan í bókinni - það sem látið er ósagt en lesa megi á milli línanna - væri ekki síður áhugavert en sjálfur texti bókarinnar.
Ólafur var gestur í Silfri Egils 26. apríl sl.
Ólafur skrifaði vægast sagt athyglisverða grein í Pressuna sl. fimmtudag og var auk þess gestur Björns Inga Hrafnssonar í Markaðnum á Stöð 2 sama kvöld. Hann fylgdi greininni eftir með þessu ákalli í gær - Í guðs bænum opnið augun!
Markaðurinn með Birni Inga 14. maí sl.
Í kjölfarið skrifaði Jón Baldvin Hannibalsson opið bréf til viðskiptaráðherra í gær sem ráðherrann svarar á sama vettvangi í dag og útilokar ekki skuldaafskriftir. Öll þessi umræða fer fram á Pressunni.
Mér virðist almenningur búinn að skipta um gír og vera hálfdottandi á verðinum. Eftir hamfarir vetrarins er eins og margir hafi lagst í dvala. Þetta gerðist fyrst eftir að minnihlutastjórnin tók við í byrjun febrúar. Þá var eins og mörgum hafi fundist málin leyst, þeir hættu að mæta á mótmæla- og borgarafundi og vísir að fyrra sinnuleysi fannst greinilega. Mánuðinn fyrir kosningar komst lítið annað að en undarlegur, flokkspólitískur skotgrafahernaður og hann hefur haldið áfram eftir kosningar.
Furðuleg, einskis verð mál eins og eignarhald þingflokksherbergja, sykurskattur, hneykslan yfir að nokkrir þingmenn hafi ekki mætt í messu fyrir þingsetningu og fleira í þeim dúr hafa keyrt ýmsa mikilvægari umræðu í kaf. Svo virðist sem Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur ætli að vera á móti góðum málum á þingi - bara af því þeir eru í stjórnarandstöðu og "hefðin" kveður á um að þá eigi þeir að vera á móti málum stjórnarflokkanna. Þetta er auðvitað algjört rugl. En Borgarahreyfingin virðist ekki ætla að detta í þennan fúla pytt flokkspólitísks skotgrafahernaðar á kostnað þjóðarinnar. Vonandi sjá hinir flokkarnir að sér og styðja góð mál stjórnarinnar. Og öfugt. Stjórnarflokkarnir verða líka að átta sig á því, að ekki er allt alslæmt sem frá stjórnarandstöðuflokkunum kemur og gefa málum þeirra tækifæri - ef þau eru þess virði.
Pólitískar eða persónulegar flokkaerjur, svo ekki sé minnst á siðlausa og gjörspillta hagsmunagæslu örfárra auðmannahópa í samfélaginu er allsendis óviðeigandi eins og ástandið í íslensku þjóðfélagi er um þessar mundir. Við verðum ÖLL að gera þá kröfu til ráðherra og alþingismanna að þeir láti hagsmuni almennings ganga fyrir - alltaf, í öllum málum. Enn og aftur bendi ég á þennan Krossgötuþátt og hvet alla til að hlusta. Ég mæli líka með að fólk rifji upp þennan pistil, horfi og hlusti á viðtölin við Vilhjálm Árnason, heimspeking og prófessor, þar sem hann segir stjórnmálin líða fyrir valdhroka.
Og fjölmiðlarnir verða að standa vaktina. Fréttamenn verða að vera þeir hliðverðir lýðræðisins sem Óðinn Jónsson, fréttastjóri RÚV, segir þá vera í þessum pistli sínum. Þetta Lykla-Péturshlutverk frétta- og blaðamanna er með mikilvægustu hlutverkum í því þjóðfélagslega leikriti lífsins sem leikið er af íslensku þjóðinni um þessar mundir og þeir mega ekki klikka. Ábyrgð þeirra er slík að frammistaðan getur skipt sköpum fyrir framtíð þjóðarinnar. Við megum ekki fljóta sofandi að feigðarósi - aftur!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.5.2009
Ógleymanlegt bréf til Egils
Eins og þeir vita sem lesa blogg Egils Helgasonar reglulega birtir hann oft bréf sem hann fær. Stundum nafnlaus, stundum fylgja nöfn bréfritara. Þau eru misjöfn, þessi bréf. Sum eru stútfull af upplýsingum, góðum pælingum og öllum mögulegum fróðleik. Önnur lýsa persónulegum upplifunum fólks og snerta mann á annan hátt. Öll skipta þau máli í umræðunni og Egill velur þau yfirleitt af kostgæfni, að því er virðist.
Á hádegi í gær birti Egill nokkur bréf. Eitt þeirra hefur verið að velkjast í huga mér síðan og ég losna ekki við það úr huganum. Ég er búin að lesa bréfið þrjátíu sinnum og það er með ólíkindum. Bréfið vekur upp í mér gríðarlega reiði, nístandi sárindi, óskaplega skömm og djúpa sorg. Ég hef þráspurt sjálfa mig síðan ég las það hvers konar samfélag hefur fóstrað svona fólk. Hvort þeir séu margir sem hugsa svona. Hvernig hægt sé að vera svona þenkjandi í þessu litla samfélagi okkar. Svona eigingjarn og sérgóður á meðan þjóðinni blæðir út. Hvers konar siðferði hefur mótað slíka sérhagsmunagæslumenn sem gefa skít í allt og alla nema sjálfa sig?
Bréfið segir mikla og stóra sögu í látleysi sínu. Takið eftir eignarhaldi jöklabréfanna. (Vill einhver fjölmiðill vinsamlegast komast að eignarhaldi þeirra!) Ég skil mætavel niðurstöðu og ákvörðun bréfritara. Spurning hvort maður fetar í fótspor hans. Svona hljóðar bréfið:
"Ég var í samkvæmi um helgina. Þar var maður sem sagðist eiga nokkur hundruð milljónir í jöklabréfum skráð á félag á Tortóla. Hann sagðist ekki sjá ástæðu til þess að gefa tommu eftir, hann hefði jú fjárfest í góðri trú. Stuttu seinna fóru umræðurnar að snúast um afturköllun aflaheimilda. Útgerðarmaður í hópnum hló að þessar ríkisstjórn og sagði að þeir myndu fljótlega ganga á vegg með þetta. Þarna töluðu allir digurbarkalega um að verja rétt sinn og aflandseyjar.
Í dag opnaði ég netbankann minn. Teygjulánið var komið inn (skipti um íbúð rétt fyrir hrun og náði ekki að selja hina). Það sem á að bætast aftan við lánið er sett í reitinn VANSKIL. Mér sortnaði fyrir augum, það hvarf hjá mér öll löngun til að hjálpa þessu landi. Ég hafði jú fengið erlent lán hjá bankanum, en nokkrum vikum seinna hringdi sami bankinn og bað mig um að setja allan sparnaðinn í sjóð 9 því að það væri svo pottþétt.
Ég hef vel undan að borga en löngunin er horfin. Ég hringdi í lögfræðing og ætla að skipuleggja þrot mitt fram í tímann."
14.5.2009
Það ku vera gott að búa í Kópavogi
Enda vita Kópavogsbúar alltaf hvernig útsvarinu þeirra er varið.
14.5.2009
Athyglisverð umræða
Hér eru tveir menn heldur betur á öndverðum meiði. Ég veit ekki hvers vegna (jújú, ég veit það alveg), en ég trúi ekki einu orði sem frá kvótakóngunum og LÍÚ-grátkórnum kemur. Frá því ég man eftir mér hafa útgerðarmenn vælt og volað endalaust. En ég get ekki með nokkru móti séð að þeir hafi það skítt. Ekki bera þyrlukaup, bílafloti, laxveiðar og aðrir lifnaðarhættir það með sér. Hefur einhver spáð t.d. í "eignasafn" Samherjamanna? Eða er þetta kannski allt út á krít eins og hjá útrásarauðmönnum - og við sitjum uppi með skuldir þeirra ef illa fer? Kvótinn ku jú vera veðsettur fyrir hundruði milljarða mörg ár fram í tímann - vegna græðgi kvótakónganna. Þetta verður að stöðva.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
13.5.2009
Lúxusferð í boði íslensku þjóðarinnar
Við erum nú góðir í okkur og umburðarlyndir, Íslendingar. Er það ekki? Hópur manna rændi okkur aleigunni og kom þjóðfélaginu á heljarþröm og þeir ganga allir lausir. Voru búnir að koma eigum sínum og mestum fjármunum undan fyrir hrun og hafa síðan fengið að dunda sér við að redda restinni undanfarna rúma sjö mánuði. Við berum svo mikla virðingu fyrir mannréttindum þeirra að það má ekki frysta eða sækja þýfið. Ekki fyrr en kannski mögulega eftir áralöng réttarhöld, þegar og ef tekst að sakfella einhvern.
Á meðan blæðir samfélaginu út. Börn fá ekki að borða, dregið er úr kennslu í skólum, öll þjónusta er skert alls staðar, þjóðin rambar á barmi uppgjafar og fólk glatar aleigunni. En það hindrar nú ekki eiginkonur útrásarauðmannanna í að skemmta sér og fara í lúxusferðir fyrir þýfið - peningana sem ættu með réttu að vera með lögheimili á Íslandi og nýtast íslenskum almenningi. Ekki notast í óhóf og munað í eðalvillum í útlöndum og rándýrum skemmtiferðum. Og þetta er svo mikið einkamál að það er ekki einu sinni til umræðu.
Já, við erum höfðingjar, Íslendingar... en suma virðist skorta allt jarðsamband, heilbrigða skynsemi og almennt siðferði. Og þeir kunna ekki að skammast sín, svo mikið er víst. Smellið þar til læsileg stærð fæst.
12.5.2009