Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Frábært Silfur í dag

Ég var núna fyrst að sjá Silfrið og mér fannst það frábært. Einvalalið gesta (þótt ég segi sjálf frá) og ég vona innilega að sjálfstæðismaðurinn Jón Magnússon hafi horft á þennan "innantóma sleggjudómaþátt" eins og haft er eftir honum hér. Hann og fleiri stjórnmálamenn gætu lært heilmikið af ýmsum sem þarna voru - ef þeir vilja læra eitthvað yfirhöfuð, sem er alls ekki víst.

Vettvangur dagsins - Björn Þorri, Lára Hanna, Ólafur Stephensen, Páll Ásgeir, Íris og Elías

 

 Sverrir Hermannsson - nýi vefurinn hans hér

 

Benedikt Jóhannesson - greinin sem um er rætt hér

 

Kári Halldór - kom við sögu hjá mér hér og hér

 


Atvinnutækifæri fyrir bændur...

...eða kannski bara dægradvöl? Ég fékk senda slóð að þessu myndbandi um daginn og fannst uppátækið ansi skemmtilegt. Það eru bændur í Wales sem voru svona hugmyndaríkir.

Fyrir nokkrum dögum sá ég svo að fréttastofan Sky hafði komið auga á myndbandið og sá ástæðu til að fjalla um þessa nýstárlegu iðju sauðfjárbænda.


Orkuútrásin og sjálfsblekkingin

Páskar eru tími málshátta - en af þeim eigum við nóg - þökk sé páskaeggjunum. Mér duttu nokkrir í hug í tilefni upprifjunar á REI-málinu, t.d. "Dramb er falli næst", "Margur verður af aurum api" og "Hroki vex þá hækkar í pyngju". Þessi viskuorð hafa átt við ótalmarga undanfarin ár og eiga jafnvel enn.

Þá sem nenntu að renna í gegnum myndböndin í færslunni hér næst á undan rekur kannski minni til orða Franz Árnasonar, forstjóra Norðurorku, úr fréttum Stöðvar 2, 23. október 2007. Franz sagði meðal annars: "Það er sérþekking til staðar en það er líka sjálfsblekking til staðar". Þar var hann að vísa í hrokafull ummæli þeirra sem stóðu að hinni svokölluðu "orkuútrás" um alla séríslensku þekkinguna sem átti að nýta í útrásinni. "Við erum ekkert óskaplega stórir á jarðhitamarkaðnum," hélt Franz áfram.

Þessi ummæli hans og önnur slík eru í takt við það, sem Stefán Arnórsson, prófessor í jarðeðlisfræði, hefur margreynt að fá Íslendinga til að skilja en erfitt hefur reynst að fá þá til að hlusta á. Dramb græðgivæðingarinnar var slíkt að menn létu varnaðarorð vísindamanna sem vind um eyrun þjóta og  æddu áfram í villtri ásókn í peninga - sjálfum sér til handa, ekki þjóðinni. Auðlindum hennar og komandi kynslóða skyldi fórna á altari Mammons fyrir stundargróða og sértækt sællífi. Enn eru nokkrir valdamiklir einstaklingar þannig þenkjandi sem sést best á niðurlægjandi Helguvíkurfrumvarpi iðnaðarráðherra. Hann dreymir um að keyra það í gegnum þingið, fórna náttúru og auðlindum þjóðarinnar og bæta á hana byrðum sem hún getur ekki með nokkru móti staðið undir.

Ég fann viðtal við Guðmund Þóroddsson, fyrrverandi forstjóra OR og síðan REI, frá 4. október 2007. Daginn eftir að sameining REI og GGE var samþykkt. Þegar viðtalið er tekið eru Hannes Smárason og Bjarni Ármannsson líklega nýlentir í London með glærusýninguna frægu sem ég hengdi neðst í þessa færslu. Hér fyrir neðan hengi ég þrjú viðtöl við Stefán Arnórsson sem ég hvet fólk eindregið til að hlusta á og fræðast um sannleikann og staðreyndir málsins hjá einum reyndasta og fremsta jarðorkusérfræðingi sem við eigum.

Hádegisviðtalið á Stöð 2 - 4. október 2007

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

REI-málið í máli og myndböndum

Líklega er að bera í bakkafullan lækinn að rifja REI-málið upp enn frekar. En þar sem nýjasta hneykslið í Sjálfstæðisflokknum tengist því órjúfanlegum böndum er varla hægt annað. Auk þess geri ég ráð fyrir að fólk vilji vita hvað kjörnir fulltrúar þess voru og eru að gera við sameiginlegar eigur okkar allra og auðlindir þjóðarinnar. Fréttaskýring Péturs Blöndal, blaðamanns á Morgunblaðinu, sem ég birti í síðustu færslu er mjög upplýsandi og greinagóð. Það er líka yfirlit Sigrúnar Elsu Smáradóttur sem birt var í athugasemd nr. 12 við þá færslu og ég ætla að endurbirta hér á eftir.

Lítum á yfirlit sem hin frábæra fréttakona RÚV, María Sigrún Hilmarsdóttir, sýndi okkur í fréttum í gærkvöldi.

Skoðum síðan áðurnefnda frásögn Sigrúnar Elsu á atburðum, en hún sat á þessum tíma í stjórn OR fyrir Samfylkinguna:

Staðreyndir málsins:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leiddu stofnun REI og sameiningarviðræður milli REI og GGE en FL-Group var meirihlutaeigandi GGE. "Hetjuleg" framganga 6-menninganna í REI málinu birtist sem nafnlausir lekar í fjölmiðlum. Niðurstaða borgarfulltrúahóps Sjálfstæðisflokks var að selja ætti REI með 20 ára einkaréttasamningnum, en GGE átti forkaupsrétt. Undir forystu 100-daga meirihlutans var samrunasamningnum rift.

Tengsl REI-málsins við risastyrki Sjálfstæðisflokksins
Guðlaugur Þór Þórðarson tók við stjórnarformennsku í Stjórn OR eftir borgarstjórnarkosningar (en hann hafði stutt Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson dyggilega í prófkjöri). Skömmu eftir að Guðlaugur biður varaformann stjórnar FL-Group um að safna styrkjum fyrir Sjálfstæðisflokkinn, samþykkti stjórn Orkuveitu Reykjavíkur (í mars 2007) að stofna hlutafélagið Reykjavik Energy Invest utan um útrásarstarfsemi OR. Í júní 2007 tók Haukur Leósson við
Sigrún Elsa Smáradóttir stjórnarformensku í OR og sat einnig í stjórn REI og fylgdi því samrunaferlinu frá upphafi. Fram hefur komið í fréttum að Haukur Leósson var endurskoðandi Sjálfstæðisflokksins árið 2006 og vissi um risastyrkina og hafði rætt þá við forsvarsmenn flokksins.

Þetta er athyglisvert í því ljósi að í niðurstöðu stýrihóps borgarráðs sem Svandís Svavarsdóttir stýrði og Sigrún Elsa Smáradóttir sat í fyrir hönd Samfylkingar segir meðal annars: "Við vinnu stýrihópsins kom í ljós að FL-Group, sem hafði verulega fjárhagslega hagsmuni af því hvernig þjónustusamningur OR og REI yrði, hafði bein áhrif á samningsgerðina eins og fram kemur í tölvupóstsamskiptum milli FL-Group og OR. Þetta verður að teljast óeðlilegt í ljósi þess að samningurinn var á milli tveggja fyrirtækja í meirihlutaeigu borgarinnar og formleg staða FL-Group gagnvart þeim fyrirtækjum engin. Þannig telur hópurinn að hagsmuna OR hafi ekki verið gætt nægjanlega vel við samningsgerðina." Síðar í skýrslu stýrihópsins segir: "Stýrihópurinn gagnrýnir sérstaklega þau vinnubrögð að aðkoma einkaaðila að verkefninu skuli hafa verið með þeim hætti að einum tilteknum aðila stæði auðlindin til boða án þess að eðlilegs jafnræðis milli aðila væri gætt."

Einnig er rétt að hafa í huga að ef sjálfstæðismenn í borginni hefðu náð fram sínum vilja og REI hefði verið selt, eftir sameininguna við GGE, hefði GGE haft forkaupsrétt að hlutnum. Þannig hefði FL-Group getað eignast allan hlutinn í REI með 20 ára einkaréttarsamningi.

Aðdragandi REI-málsins, aðkoma minnihluta
REI var stofnað í valdatíð fyrsta meirihluta þessa kjörtímabils en í þeim meirihluta sátu sjálfstæðismenn og framsóknarmenn. Fulltrúar þeirra leiddu samningaviðræður við GGE um sameiningu GGE og REI. Minnihlutinn átti engan fulltrúa í stjórn REI og kom því hvergi nærri því örlagaferli. Í stjórn
Svandís SvavarsdóttirREI voru til að mynda kaupréttasamningar samþykktir og þeim síðar breytt eftir harða gagnrýni minnihlutans eftir að minnihlutinn kom upp um samningana og að endingu voru þeir svo felldir niður í stjórn REI. Enginn fulltrúi minnihlutans greiddi því atkvæði með eða á móti þeim kaupréttarsamningum, því í stjórn REI átti minnihlutinn ekki fulltrúa.

Samruninn var vissulega samþykktur mótatkvæðalaust í stjórn OR 3. október 2007. Enda hafði veigamiklum þáttum verið haldið leyndum fyrir kjörnum fulltrúum og var talað um algjöran trúnaðarbrest í því sambandi. Meðal annars var eðli 20 ára einkaréttarsamnings ekki kynnt. Fulltrúar minnihlutans í stjórn OR óskuðu eftir frestun á málinu en frestunartillagan var felld af meirihlutanum. Meirihluta sjálfstæðismanna og framsóknarmanna.

Það var svo minnihlutinn sem náði að draga fram í dagsljósið meinbugina sem voru á þessum gjörningi. Það fór ekki fram hjá neinum að mikil ólga var innan borgafulltrúahóps Sjálfstæðisflokksins þegar kvarnast fór upp úr þeirri glansmynd sem dregin hafði verið upp af sameiningu REI og GGE. En sú óeineining birtist helst í nafnlausum lekum innan úr hópnum og því varla um mikla hetjudáðir að ræða.

Sjálfstæðismenn vildu afhenda FL-Group REI
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins héldu blaðamannafund í ráðhúsinu þann 8. október 2007 þar sem þeir kynntu niðurstöðu þriggja tíma sáttafundar sem þeir höfðu þá setið á með sjálfum sér. Niðurstaða þess fundar var að selja ætti REI að fullu út úr Orkuveitunni. Reyndar láðist þeim að ræða þessa niðurstöðu við samstarfsflokkinn, sem ekki gat unað henni og sleit samstarfinu þremur dögum síðar. Hefði Sjálfstæðisflokkurinn náð að hrinda vilja sínum í framkvæmd hefði GGE átt forkaupsrétt að fyrirtækinu og þar með 20 ára einkaréttasamningi á öllum erlendum verkefnum OR.

Hvernig nokkur maður getur látið sig dreyma um að hægt sé að falsa söguna þannig að sexmenningarnir svokölluðu hafi bjargað REI er óskiljanlegt.

Það var svo 100-daga meirihlutinn og vinna stýrihóps undir forystu Svandísar Svavarsdóttur sem fór yfir málið í heild sinni og rifti samrunanum.

Þá er komið að hinni myndrænu upprifjun. Ég klippti saman umfjöllun um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2 í október 2007 með tveimur klippum frá september sem mér fannst skipta máli. Því miður hef ég ekki aðgang að fréttum RÚV eða Kastljósi frá þessum tíma.

Fréttir Stöðvar 2 frá 5. - 10. október 2007

Hér sprakk meirihlutinn og fréttaumfjöllun næstu tveggja daga var nánast eingöngu um þann atburð. Þeir fréttatímar koma hér hvor í sínu lagi.

Fréttir Stöðvar 2 - 11. október 2007

Fréttir Stöðvar 2 - 12. október 2007

 

Og hér eru síðan fréttirnar frá 13. - 31. október 2007

Á þessum tíma var Ísland í dag alvöru fréttaskýringaþáttur og var með puttann á púlsinum. Hér er samanklippt umfjöllun Íslands í dag 4., 8., 9. og 10. október 2007. Af meiru er að taka en það verður að bíða betri tíma.

Ísland í dag

Að lokum er hér umfjöllun Kastljóss um skýrslu starfshóps um REI-málið frá 6. og 7. febrúar 2008

Dæmi nú hver fyrir sig um gjörninginn og tengslin milli "styrkja" og stjórnmála. Við vitum hvað útrásarvíkingunum gekk til, en hvað gekk stjórnmálamönnunum til? Hvernig stendur á því að sumir kjörnir fulltrúar þjóðarinnar voru - og eru reyndar enn - tilbúnir til að selja eigur og auðlindir þjóðarinnar til að þeir sjálfir, frændur þeirra og vinir, geti auðgast  og lifað í vellystingum praktuglega á kostnað almennings? Er þetta ekki einn anginn af spillingunni sem er lífsnauðsynlegt fyrir þjóðina að uppræta? Varla gerum við það með því að kjósa þessa sömu menn aftur.

Málefni Hitaveitu Suðurnesja hef ég ekki kynnt mér nægilega vel til að fjalla um þau, en bæði Hannes Friðriksson, sem barðist gegn einkavæðingu HS, og Agnar Kristján Þorsteinsson og eflaust fleiri hafa gert þeim skil.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Góð sambönd gulli betri

Þessi frásögn var í DV 25. febrúar 2006. Þarna eru saman komnir auðmenn, bankamenn, stjórnmálamenn og fjölmiðlamenn. Nú sverja stjórnmálamennirnir af sér öll tengsl við bankana og fyrirtæki auðmanna, hversu trúlegt sem það er. En þeir mega eiga það, banka- og auðmennirnir að þeir virðast hafa undirbyggt fyrirætlanir sínar vel og gætt þess að eiga inni greiða hér og hvar.

Íslenskir milljarðamæringar í Soho - DV 25.2.06


Okkur vantar Kompás aftur

Ég hef oft minnst á nauðsyn þess að efla fjölmiðlana og styðja betur við bakið á sjálfstætt þenkjandi fjölmiðlafólki sem þorir að taka á erfiðum málum og stunda rannsóknarblaðamennsku. Oft var þörf en nú er nauðsyn. Í þeim ósköpum sem dunið hafa yfir þjóðina þurfum við enn frekar en nokkru sinni á öflugum fjölmiðlum og góðu fjölmiðlafólki að halda. Þess í stað hefur verið skorið niður og - eins og ég nefndi t.d. hér - margt reynslumesta fólkið rekið og óreyndum, illa talandi og óskrifandi ungmennum haldið eftir. Á þessu eru þó heiðarlegar undantekningar.

Ég sakna Kompáss mjög. Þótt margt hafi örugglega mátt gagnrýna í efnistökum og umfjöllun þeirra Kompássmanna var ótalmargt líka framúrskarandi og þeir tóku á ýmsum málum af fagmennsku og festu. Upplýstu, fræddu og komu við kaun. Sú ákvörðun 365 miðla að hætta með þáttinn og reka þáttagerðarmenn rúmum 3 mánuðum eftir hrun er fullkomlega óskiljanleg. Nánast ósiðleg.

En eins og fram kom í Spjallinu með Sölva við Kompássmenn um daginn eru þeir enn að vinna að málum. Hafa bara ekki fundið þættinum stað ennþá. Ekki fundið kaupendur að honum enda ekki um auðugan garð að gresja í fjölmiðlaflórunni - aðeins tvær sjónvarpsstöðvar koma til greina eftir brottreksturinn af Stöð 2. Spurning um netið... en svona vinna kostar peninga og hver vill borga - eða getur það?

Ég ætlaði að vera löngu byrjuð að birta brot úr Spjallinu með Sölva á Skjá einum en hef lent í endalausum hremmingum með þáttinn. Fyrst í upptökuferlinu, síðan úrvinnslunni og nú síðast harðneitaði eitt forritið að vista skrána þegar búið var að klippa hana. Ég þurfti að gera allt upp á nýtt í öðru forriti. Endalausar hindranir en lærdómsríkar. Nú vona ég að þetta sé komið.

Annars finnst mér Spjallið alls ekki hafa hlotið þá athygli sem það verðskuldar. Auðvitað getur fólk sett út á hitt og þetta og sitt sýnist hverjum um val á viðmælendum. En á heildina litið er þetta mjög fínn þáttur og vel þess virði að horfa á hann. Svo eru allir svona þættir afskaplega góðar, sagnfræðilegar heimildir.


Páskahugvekja í Íslendingasagnastíl með goðafræðiívafi

Hún er hádramatísk, páskahugvekjan í ár. Klassísk minni sem prýða Biblíuna, Íslendingasögurnar, goðafræðina og spennusögur ýmislegar skjóta upp kollinum. Bakarar eru hengdir fyrir smiði, krossfestingar njóta vaxandi vinsælda (enda páskar), vegið er grimmt úr launsátri, öldungar tala í óráðnum gátum og vita lengra en nef þeirra nær, safnað er liði og fylkingar berjast að Sturlunga sið. Sjálfskipaðir Gissurar, Kolbeinar, Sturlur, Sighvatar og Eyjólfar ofsar eru stokknir á svið og nú bíður lesandinn/áhorfandinn þess hverjir liggja í valnum að bardaga loknum. Og hvernig unnið verður úr lyktum hans.

"Þau tíðkast hin breiðu spjótin," sagði Atli Ásmundsson þegar Þorbjörn öxnamegin rak hann í gegn með fjaðraspjótinu í Grettis sögu. Gera má ráð fyrir að nú sé spjótum af ýmsum breiddum veifað í Valhöll af miklum móð. Að einhverjir liggi að lokum í valnum eða hverfi alblóðugir af orrustuvellinum og mæli djarflega af munni fram: "Þær tíðkast hinar breiðu axlirnar". Á baki þeirra hangir skilti hvar stendur skýrum stöfum: "To be continued..."

Þannig var nefnilega til forna að Óðinn safnaði þeim sem dóu í bardaga til bústaðar síns, Valhallar. Þeir börðust síðan á Iðavelli á daginn en á kvöldin átu þeir kjöt af geltinum Sæhrímni og drukku mjöð úr spenum geitarinnar Heiðrúnar. Ef ég man rétt þótti þetta eftirsóknarvert hlutskipti í þá daga.

En nú um stundir er athæfi þetta kallað "að græða á daginn og grilla á kvöldin" og hefur verið afar vinsælt hjá vissum hópi þjóðarinnar. Ef heldur sem horfir snarfækkar í þeim hópi dag frá degi eftir því sem ljóstrað er upp um blekkingarnar, hverja á fætur annarri.

Þetta voru fyrstu kaflar páskahugvekjunnar 2009. Bætt verður við eftir því sem fram vindur sögunni. Miðað við efnistök hugvekjunnar má búast við að sumarsmellurinn í ár fjalli um styrki til einstakra frambjóðenda í öllum flokkum, jafnt í prófkjörum, alþingis- og sveitastjórnarkosningum undanfarinna ára. Við bíðum spennt.


Frábært viðtal við unga konu

Ég rakst á alveg stórfínt viðtal á kosningavef RÚV og hreifst mjög af málflutningi þessarar ungu konu. Hún var mér ekki alveg ókunn því ég man vel eftir uslanum sem hún olli þegar hún messaði yfir söfnuði sínum um Þörf eða græðgi. Þá tók ég ofan fyrir henni minn ímyndaða hatt, og var mjög ánægð með að heyra frá henni aftur. Þessi unga kona heitir Hildur Eir Bolladóttir og er prestur í Laugarneskirkju. Má ég fá meira að heyra frá Hildi Eir.

 Hildur Eir Bolladóttir 8. apríl 2009

Eftir að hlusta á Hildi Eir gróf ég upp þetta viðtal. Einhverra hluta vegna minnti hún mig á það.

Andri Snær Magnason í Silfrinu 9. nóvember 2008


Nýr og ferskur "BaugsFLokkur" afhjúpaður

Þar kom að því að Geir Haarde "axlaði ábyrgð" á einhverju. Ekki seinna vænna, maðurinn er hættur í pólitík og þykist geta tekið allar syndir FLokksins með sér. Nú má allt í einu persónugera vandann! Ég sé á umræðunni í kvöld að allir sjá í gegnum þetta aumkvunarverða plott nema sanntrúaðir. Sjálfsagt reyna FLokksbræður og -systur að klóra í bakkann í örvæntingarfullri tilraun til að bjarga því litla sem eftir er af orðstír FLokksins. En það er of seint, hið rétta andlit FLokksins hefur verið að birtast undanfarnar vikur og mánuði. Tugmilljóna mútuféð (styrkirnir?) frá FL Group og Landsbankanum voru bara enn ein sönnunin á innra eðli FLokksins. Endurgreiðslur (uppreiknaðar með vöxtum?) breyta nákvæmlega engu þar um. Orðstír FLokksins, trúverðugleiki og heiður er rústir einar, það hlýtur allt sæmilega skynsamt fólk að viðurkenna.

Maður er nefndur Guðsteinn Haukur Barkarson og er Moggabloggari. Guðsteinn Haukur er menntaður sem margmiðlunarfræðingur og er líka myndlistarmenntaður. Ljúfur, öfgalaus trúmaður sem ég heimsæki gjarnan því hann hefur svo góða "bloggnærveru"... ef einhver skilur hvað ég á við. Guðsteinn Haukur missti vinnuna hjá Kaupþingi við fall bankans og er því eitt af fórnarlömbum hrunsins, eins og reyndar við öll að einu eða öðru leyti.

Guðsteinn Haukur hefur nú hannað nýtt "lógó" fyrir nýja "BaugsFLokkinn" og slagorð sem fylgir. Ég er viss um að hann hefði ekkert á móti því að sem flestir létu nýja lógóið og slagorðið fara sem víðast.

SjáLfstæðis-FLokkurinn

 FLokkur allra Landsmanna

Að lokum legg ég til að fólk lesi Kvislingablogg Þorleifs Ágústssonar.


John Perkins og Michael Hudson í fjölmiðlunum

Ég kvartaði yfir þögn fjölmiðla um þá Michael Hudson og John Perkins á mánudaginn í þessari færslu. Nú hafa sumir fjölmiðlar bætt úr því og ég hef safnað saman efni um og viðtölum við þá. Ég hef örugglega misst af einhverju og þætti vænt um að fá ábendingar um það efni. En hvað sem gerist getum við ekki sagt að við höfum ekki verið vöruð við.

Áður birt á þessari síðu:

Fyrst er auðvitað að telja viðtölin við þá Hudson og Perkins í Silfri Egils sl. sunnudag.
Greinar Hudsons í Fréttablaðinu 1. og 4. apríl sl.
Fréttir RÚV á sunnudagskvöld.

How to destabilize countries legally - John Perkins.
The Secret History of American Empire - John Perkins.
Fréttablaðið 6. apríl - Skjaldborg um auðlindir.

 Viðbætur:

Fréttir Stöðvar 2 og RÚV 6. apríl - viðtöl við Hudson og Gylfa Magnússon.

 

Erindi og svör við fyrirspurnum - John Perkins á málþingi í HÍ 6. apríl.
Myndbönd í boði Borgarahreyfingarinnar. Meira hjá Alfreð.

 

 Lóa Pind Aldísardóttir - Viðtal við John Perkins - Ísland í dag 7. apríl.

 

Morgunblaðið 8. apríl - viðtal við John Perkins (smellið þar til læsileg stærð fæst).

John Perkins - Moggi 8.4.09

DV 8. apríl - viðtal við Michael Hudson og Gunnar Tómasson (smellið þar til læsileg stærð fæst).
Gunnar í Silfrinu 1. febrúar sl. hér.

Michael Hudson og Gunnar Tómasson - DV 8.4.09

 Síðast en ekki síst - Spegillinn á RÚV 7. apríl - John Perkins.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband