Færsluflokkur: Spilling og siðferði

Stórhættuleg þöggun

Ég las þetta á Fésinu seint á föstudagskvöldið og fékk hroll. Hin veika von um að réttlætinu verði einhvern tíma fullnægt - þótt ekki sé nema að einhverju leyti - dofnaði til muna. Forgangsröðin og málatilbúnaðurinn í þessu máli er með slíkum ólíkindum. Ég sá áðan að Egill Helgason hafði birt þessa frásögn og ætla að taka mér sama bessaleyfi. "For the record", eins og sagt er. Um er að ræða kærurnar á hendur fjórum fjölmiðlamönnum og Eyjunni - fyrir að segja okkur sannleikann.

Flestir ættu að muna eftir þessum atburði sem fjallað var um í byrjun apríl. Ef ekki skulum við rifja upp nokkur atriði. Hér er grein Agnesar sem kærð var. Hér er pistill Egils sem hann og Eyjan voru kærð fyrir. Takið sérstaklega eftir öllum dagsetningum í ljósi þess sem síðar upplýsist.

Kristinn Hrafnsson var kærður fyrir þessi orð í Kastljósi 27. janúar 2009

 

Fréttir Stöðvar 2 - 2. apríl 2009

 

Agnes Bragadóttir og Kristinn Hrafnsson í Silfrinu  5. apríl 2009

 

Á föstudagskvöldið birti svo Kristinn Hrafnsson þennan pistil á Fésinu:

"Nú hef ég fengið staðfest að fyrsta sakamálið sem kom til lögreglurannsóknar hjá Ólafi Haukssyni, sérstökum saksóknara, var meint brot mitt á lögum um bankaleynd. Einnig hef ég fengið staðfest að sama mál er það fyrsta sem kemur til afgreiðslu hjá Birni L. Bergssyni, settum sérstökum ríkissaksóknara. Ég vona að það gefi ekki tóninn um starf þessara embætta sem stofnuð voru til þess að rannsaka og ákæra í málum sem tengjast bankahruninu. Ekki held ég að þeim hinum ,,sérstöku", Ólafi og Birni, hafi þótt neitt sérstaklega skemmtilegt að byrja hreinsunarstarfið á því að eltast við mig auman.

Til upprifjunar skal þess getið að meint brot fólst í því að upplýsa í viðtali í Kastljósi undir lok janúar um stórfelldar lánveitingar Kaupþings til Róberts Tchenguiz sem var hluthafi og stjórnarmaður í Existu - sem aftur var stærsti einstaki eigandi Kaupþings. Til skemmtunar skal þess getið að Róbert þessi er sonur Íraka sem tók sér nafnið Tchenguiz en það ku vera persneska útgáfan af fornafni Gengis Kan. Upplýsingarnar um Róbert Tchenguiz áttu að birtast í Kompásþætti í lok janúar en ég og félagar mínir vorum reknir og þátturinn sleginn af fjórum dögum fyrir sýningardag.

Í vor nánar tiltekið 2. apríl fæ ég boðsent bréf frá FME þar sem því er lýst Kristinn Hrafnsson tekur við bréfi FME 2. apríl 2009 - Ljósm.: Helgi Seljanyfir að ég hafi brotið bankaleyndarákvæði laga um fjármálafyrirtæki. Ég fékk svigrúm til andmæla og lögmaður minn sendi svarbréf þar sem m.a. var bent á þá augljósu staðreynd að ég ynni ekki fyrir fjármálafyrirtæki. Mér kæmi bankaleynd því ekki við.

Í gær fékk ég svo staðfest að Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari var þá, löngu áður, búinn að afgreiða mitt mál. Hann tilkynnti FME þá ákvörðun sína að aðhafast ekkert frekar í mínu máli með bréfi sem sent var stofnuninni 18. febrúar. Jafnframt benti Ólafur FME á að stofnunin gæti kært þessa ákvörðun hans til ríkissaksóknara innan mánaðar ef hún vildi ekki una henni. FME lét þann frest líða án þess að kæra.

Þrátt fyrir þetta heldur FME áfram að narta í hælana á mér og fjórum öðrum blaðamönnum sem fjallað hafa um upplýsingar úr bankakerfinu. Samkvæmt lögum á FME að ljúka málum annað hvort með stjórnvaldssekt eða með því að vísa alvarlegum brotum til lögreglu. Í mínu tilfelli var FME búin að velja seinni kostinn og lögreglan neitaði að aðhafast í málinu. Ef til vill þótti lögregluvaldinu, Ólafi sérstaka - eins og mér - að brýnni verkefni biðu.

FME vildi ekki gefast upp í þessari baráttu við blaðamennina. Í júní fékk stofnunin Eirík Tómasson, lögmann til þess að semja álitsgerð um það hvað ætti að gera við þessa ,,brotamenn" - blaðamennina fimm. Á grundvelli þessarar álitsgerðar (sem ekki fæst opinberuð) tók FME það til bragðs, í byrjun ágúst, að senda mál okkar til Valtýs Sigurðssonar, ríkissaksóknara.

Valtýr var ekki lengi að henda þessari heitu kartöflu frá sér og skilaði því snemmendis til Björns L. Bergssonar, sérstaks setts ríkissaksóknara. Þetta er sum sé fyrsta úrlausnarmál Björns. Hann hefur annars það hlutverk að ákæra í málum sem eru rannsökuð hjá Ólafi Þór Haukssyni, sérstökum saksóknara.

Hvað á Björn svo að gera við málið mitt? Ólafur Þór, lögregluarmur Björns, ákvað fyrir sex mánuðum að aðhafast ekkert frekar í mínu máli. Fresturinn til að kæra þá ákvörðun rann út fyrir fimm mánuðum. En FME gefst ekki upp.

Maður ætti auðvitað ekki að gera annað en hlægja að þessum skrípaleik. Ég hef ekki í annan tíma séð jafn einbeittan brotavilja hjá stjórnvaldi gagnvart málsmeðferðarreglum og heilbrigðri skynsemi. Það sem vekur reiði hjá mér er að þessi mál eru sett í forgang þegar samfélagið allt er enn lamað eftir verstu hörmungar sem hafa dunið yfir í hagsögu lýðveldisins. Maður hallast að því að þessum mönnum sé ekki viðbjargandi.

Ég hef þurft að eyða tíma í þessa helvítis vitleysu á meðan ég ætti að vera að sinna öðrum og brýnni verkefnum. Hver ætlar að borga mér fyrir þá vinnu? Hver ætlar að axla ábyrgð á þeim lögmannskostnaði sem fylgt hefur þessu stússi? Þess utan: Hver ber ábyrgð á því að þessi skrípaleikur hefur skaðað tiltrú á Fjármálaeftirlitinu og mögulega einnig embættum sérstaks saksóknara og sérstaks ríkissaksóknara?

Ég set þessa nótu hérna inn til að halda þessu til haga en þessi brandari er fyrir löngu hættur að vera fyndinn."

*******************************************

Já, þessi brandari er vissulega löngu hættur að vera fyndinn - sem og aðrir "brandarar" sem lúta að þöggun fjölmiðla. Svo virðist sem margir aðilar sameinist um að kæfa sannleikann í fæðingu, líklega vegna þess hve hroðalega ljótur hann er og hvað hann getur komið mörgum illa. Skemmst er að minnast þegar 365-miðlar ákváðu að krefja stjórnendur fréttastofa og ritstjórna um bætur sem dæmdar eru í málsóknum gegn fjölmiðlunum. Það á að gera boðbera sannleikans ábyrga fyrir brotinu sem þeir segja frá - þannig horfir þetta við mér.

Björgólfsfeðgar, ábyrgðarmenn Icesafe og fleiri hörmunga, voga sér að stefna fyrir fréttir af meintum brotum þeirra gegn íslensku þjóðinni og Wernersbræður, sem rústuðu meðal annars Sjóvá og höguðu sér eins og hér er lýst, dirfast að gera slíkt hið sama. Ef horft er til dóma í t.d. meiðyrðamálum klámkóngsins Geira á Goldfinger sem hefur nú ekki mikinn orðstír að verja, gegn fjölmiðlafólki þar sem honum hafa verið dæmdar ótrúlega háar bætur miðað við t.d. bætur sem fórnarlömbum nauðgana og misþyrminga eru dæmdar - ja... þá er ekki von á góðu frá íslensku dómskerfi. Höfum í huga í því sambandi hvernig skipað hefur verið í dómaraembætti undanfarna áratugi.

Hvernig getum við varið málfrelsið, tjáningarfrelsið - og sannleikann? Hvernig er komið fyrir samfélagi sem hindrar fjölmiðla í að gera skyldu sína: Segja sannleikann? Enn og aftur minni ég á orð Aidans White, framkvæmdastjóra alþjóðasamtaka blaðamanna, um þátt fjölmiðla í aðdraganda efnahagshrunsins, ábyrgð þeirra og hlutverk í uppbyggingunni: "Ein aðallexían sem á að koma út úr öllu þessu hræðilega ferli er sú, að fjölmiðlar eiga að tala máli þjóðfélagsins í heild. Þeir eiga að gegna þjóðfélagslegu hlutverki, vernda hagsmuni fólksins." Hvernig geta þeir það ef þeir eru beittir þöggun eins og lýst er hér að ofan - bæði af stjórnkerfinu og dómstólunum?

 Aidan White í Kastljósi 28. maí 2009

 

 Aidan White í fréttum Stöðvar 2 - 28. maí 2009

 


Að vera eða ekki vera... á Gíslandi

Systursonur minn sendi mér slóð að bréfi sem birtist í Lúgunni á Eyjunni í fyrradag. Bréfritarinn, Brynleifur Siglaugsson, stendur frammi fyrir erfiðri ákvörðun og skrifar þetta einlæga og blátt áfram bréf, sem stærstur hluti þjóðarinnar getur eflaust tekið undir. Sársaukinn nísti og mig verkjaði í hjartað.

Ég hugsaði með mér hvort þingmenn og ráðherrar læsu það og rynni blóðið til skyldunnar. Hvort útrásardólgar, bankastjórnendur, skilanefndarmenn, auðlindasalar, spilltir stjórnmálamenn og aðrir sem bera ábyrgð á örvæntingu þjóðarinnar, læsu það og skömmuðust sín. Ég spurði sjálfa mig hvort íslenska prestastéttin, sem á að heita sálgæslustéttin okkar en hefur þagað þunnu hljóði að mestu eftir hrunið, læsi það. Hvort forseti Íslands, sem hefði átt að stappa stálinu í þjóðina og sameina hana, læsi það.

Ekkert bólar á stuðningi við almenning sem hefur þurft að sæta eignaupptöku, er að kikna nú þegar undan aukinni skuldabyrði, skattahækkunum, almennum kostnaðarhækkunum og blöskrar svívirðilegt óréttlætið. Á meðan eru skuldir auðmanna afskrifaðar, kvótakóngar sleppa undan skuldum, skipta jafnvel bara um kennitölu og halda kvótanum. Við horfum upp á siðspillta braskara selja frá okkur hænuna góðu sem verpir auðlindagulleggjunum. Þetta er veruleiki almennings á Íslandi í dag. Það er verið að gera okkur að öreigum á meðan auðjöfrarnir sleppa, halda öllu sínu og fá restina á brunaútsölu.

Ég ákvað að gera mitt til að láta rödd Brynleifs hljóma, fletti honum upp í skránni og hringdi í hann með kökk í hálsi. Hann veitti mér góðfúslegt leyfi til að gera það sem ég vildi með bréfið. Ég bið alla sem vettlingi geta valdið að dreifa þessu bréfi - helst að tryggja að það komi fyrir sjónir allra Íslendinga. Rödd Brynleifs verður að hljóma hátt, snjallt og víða því hann talar fyrir munn svo ótalmargra Íslendinga með brostnar vonir og blæðandi hjarta. Almennings sem hrópar á réttlæti.

Ég las bréfið hans Brynleifs í pistlinum mínum á Morgunvaktinni í morgun. Hljóðskrá viðfest neðst að venju.

Morgunvakt Rásar 2

Ágætu hlustendur...

Ég las bréf á netmiðlinum Eyjunni í fyrradag. Eftir lesturinn sat ég sem lömuð og tárin trilluðu niður kinnarnar. Bréfritarinn heitir Brynleifur Siglaugsson og hann gaf mér leyfi til að lesa bréfið fyrir ykkur. Yfirskriftin er:

Að vera eða ekki vera... á Gíslandi

dag tek ég ákvörðun sem ég hef mikið og lengi hugsað um, ætla ég að vera eða ekki vera. Ég asnaðist á sínum tíma til að læra og ná mér í öll réttindi í þeirri atvinnugrein sem ég hafði mest gaman af. Vinnu sem ég naut og skapaði í eitthvað sem ég gæti verið stoltur af á efri árum. Ég hef unnið við þetta fag síðan ég var 16 ára, alls í 23 ár. Aldrei skort verkefni og aldrei verið í þeirri stöðu sem ég er í núna. Ég kann ekki á kerfið og vil ekki læra hvernig ég get haft það "gott" á bótum.

Í dag þarf ég að ákveða hvort ég sé syni mína, sem eru mér kærari en allt annað í lífinu, eingöngu í gegnum tölvuskjá næstu mánuðina og árin. Hvort ég get ekki boðið þeim góða nótt með kossi og fylgst með lífi þeirra og leik nema í gegnum símtöl við þá og móður þeirra. Þeir munu ekki getað leitað til mín með sínar spurningar eða fengið að hitta mig nema á margra vikna fresti. Það á eftir að vera erfitt, bæði fyrir þá og mig. En ef ég vil skapa þeim bjartari framtíð en við sjáum fram á hér, verð ég að fara. Fara burt frá fólkinu, landinu og lífinu sem ég á hér.

Það eru svo sem engin endalok, en það er samt ekki það sem við eigum að þurfa að gera. Að geta ekki séð fram á að hafa vinnu, geta séð fyrir sér og börnunum. Að horfa fram á að lífskjörin fari sífellt niður á við, aukning á drykkju og fíkniefnaneyslu, horfa uppá eldra fólk og öryrkja snupraða með endalausum niðurskurði til þeirra sem byggðu upp þetta land okkar.  Brynleifur og strákarnir hans sumarið 2009Menntun skorin niður og heilbrigðiskerfið skemmt og niðurlægt. Það er bara ekki það sem ég hef áhuga á. Ég gæti líka farið út á land og fengið mér vinnu þar í fiski eða öðru, það er ekkert að því, en þá get ég ekki gert það sem mér er mikilvægast - að byggja upp og skapa. Launin myndu örugglega vera þokkaleg með mikilli vinnu, en með sífellt hækkandi sköttum og meiri dýrtíð yrði það ekki það líf sem ég kýs. 

Ég hef engan áhuga á, að láta misvitra og misdrukkna menn og konur á þingi taka ákvörðun um framtíð barnanna minna. Ég hef engan áhuga á, að láta þetta sama fólk skerða öll lífskjör í landinu til þess eins að halda áliti erlendra kröfuhafa og stjórnvalda, þar sem peningar eru mælikvarði á allt. Horfa uppá landið selt burt, horfa uppá sömu glæpamennina sitja áfram við kjötkatlana í bönkunum og pota bitlingum til vina og vandamanna. Álit umheimsins á Íslandi er einfalt: Við fórum fram úr okkur, létum gráðuga glæpamenn vaða uppi og skuldsetja skerið svo svakalega að við munum aldrei geta greitt skuldir þeirra - og við eigum ekki einu sinni að reyna það. Allt traust er farið á peningastjórnun hér. Það kemur ekki til baka þó að skrifað sé uppá lán sem við erum ekki og verðum aldrei borgunarmenn fyrir. Frekar á það eftir að halda áfram að versna í hvert sinn sem það verður fréttnæmt að Íslendingar standi ekki við samninginn.

Það hefur löngum verið landlægt hér að fresta skuldunum, lengja í þeim og ýta öllu aftur fyrir. Er ekki komið nóg af því? Ég er viss um að álit umheimsins á okkur myndi stóraukast ef við bara viðurkenndum staðreyndir og horfðum á  hlutina eins og þeir eru og viðurkennum vanmátt okkar. Tökum skellinn núna og notum næstu ár í að byggja upp trúverðugleika sem byggir á staðreyndum en ekki enn einni bólunni. Það verður erfitt en við getum þá allavega byrjað með hreint borð en ekki langan ósigrandi hala á eftir okkur.

Hreinsum til í yfirbyggingunni sem er að sliga stjórnkerfið, opnum það og höfum það gagnsætt. Losum okkur við sníkjudýrin sem eru búin að hreiðra um sig í kerfinu. Þetta er lítið land, byggt af mjög duglegu fólki en ekkert fyrirtæki getur gengið með þvílíku magni af smábossum og afætum sem skapa ekkert nema heimatilbúin vandamál. Ég ætla ekki að bjóða mínum börnum uppá að gerast þrælar fyrir erlenda fjármagnseigendur, það er ekki í boði. Og ég veit að það sama á við um mjög marga aðra. Frekar fer ég burt og byggi mína og þeirra framtíð þar sem yfirvöld þekkja sín takmörk, þar sem fólk er metið, ekki eftir greiðslugetu heldur líka sem lifandi verur."

Brynleifur tók ákvörðun - hann er að flytja úr landi.

*********************************************

Ég óska Brynleifi alls hins besta og vona að ástandið batni fljótt svo hann geti komið sem fyrst aftur til strákanna sinna. En ég er ekki mjög vongóð miðað við hvernig verið er að fara með landið okkar.

Sorglegt, en satt - Halldór Baldursson í Mogganum 1. september 2009

Túristar - Halldór Baldursson - Moggi 1.9.09


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fáránlegur farsi

Sala Orkuveitu Reykjavíkur á hlut sínum í HS Orku til Magma Energy verður æ farsakenndari eftir því sem fleiri tjá sig um hana og reyna að verja hana. Mér finnst skelfilegt að horfa upp á þennan fáránleika. Það er deginum ljósara að þjóðin vill alls ekki einkavæða orkuframleiðsluna, sem er ein af grunnstoðum þjóðfélagsins. Að minnsta kosti ef marka má hljóðið í þeim sem tjá sig um málið. Þeir eru æfir.

Nú reynir á borgarstjórn Reykjavíkur. Þar ræður Sjálfstæðisflokkurinn ríkjum í hrossakaupasamstarfi við Framsóknarflokkinn. Sá örflokkur var næstum dottinn út úr borgarstjórn í síðustu kosningum en slefaði einum manni inn út á 4.056 atkvFólksfjölgun 1950-2050 - Smellið til að stækkaæði (af 64.895), eða rétt rúm 6%. Upphaflega var Óskar Bergsson aðeins í 3. sæti listans, en vegna óánægju eins og spillingar annars lenti hann í efsta sætinu og var til í að verða viðhald Sjálfstæðisflokksins - gegn gjaldi, vitaskuld. Meðal gullmolanna í  herfangi Framsóknarmanna var að endurheimta Orkuveitu Reykjavíkur sem er, að því er virðist, akfeitur  pólitískur bitlingur. Óskar skipaði vin sinn og flokksfélaga, sem var í 14. sæti á lista flokksins í Reykjavík, stjórnarformann OR og sá er nú að ráðskast með verðmætar eigur borgarbúa að eigin vild og flokksins. Við getum rétt ímyndað okkur hvað maður í 14. sæti hjá flokki með 6% atkvæða í kosningum hefur sterkt umboð frá kjósendum. En flokksbræður hans græða á orku og virkjunum - þeir eru margir í þeim bransa - og þá er ekkert spurt hvað sé almenningi fyrir bestu, eða hvað?

Ég sá frétt á Sky sjónvarpsstöðinni í gær þar sem rætt var við skuggaráðherra orkumála í Bretlandi. Hann var ómyrkur í máli og sagði að orkuskortur gæti Eftirspurn eftir orku 1980-2030 - Smellið til að stækkafarið að hrjá Breta innan 8 ára. Verið er að loka kolaorkuverum þar í landi vegna gróðurhúsaáhrifa og deilt er um hvað eigi að koma í staðinn. Ég horfði líka á viðtal á netinu, sem lesandi síðunnar benti mér á, við mann að nafni John Beddington, sem er vísindalegur ráðgjafi stjórnarinnar í Bretlandi og las svo líka viðtal við hann. Framtíðarsýn hans er ófögur og hann tengir saman fólksfjölgun í heiminum, fæðu- og vatnsskort, hnattræna hlýnun og - en ekki hvað - orkuskort.

John Beddington segir að eftirspurn eftir ferskvatni muni aukast um 30% og orku um 50% á næstu 20 árum. Getið þið ímyndað ykkur hvað verðið á eftir að hækka mikið á vatninu okkar og orkunni ef eftirspurnin eykst svona mikið og svona hratt? Svo eru nokkrir stjórnmála- og embættismenn að selja bæði vatnið og orkuna á tombóluverði - og lána meira að segja fyrir því líka! Við verðum að stöðva þetta fólk með öllum ráðum. Hér eru fréttir gærkvöldsins á RÚV. Þarna geislar fólk bókstaflega af útblásnum valdhroka. Þetta fólk hefur ekkert lært.

Eins og áður sagði reiknar John Beddington með því að eftirspurn eftir ferskvatni og orku aukist gríðarlega næstu áratugina. Hér er stuttur viðtalsbútur við hann sem fylgdi með netfréttinni. Hlustið á manninn!

BBC News - 24. ágúst 2009

Það er augljóst að auðlindir Íslendinga eiga eftir að verða verðmætari með hverju árinu sem líður, hvað þá hverjum áratugnum. En óhæfir og gjörspilltir flokksgæðingar enn spilltari stjórnmálaflokka ætla að svipta þjóðina arðinum af þessum auðlindum um ókomna framtíð með fáránlegum samningum við gráðuga menn. Nú þegar er búið að semja við álrisa um orkukaup á útsölu og alls kyns forréttindum. Og hverjir ætli borgi svo brúsann þegar upp er staðið nema almenningur þessa lands. Hvað þarf mikið til að fólki ofbjóði sukkið?

Hér er annað viðtal við John Beddington frá 13. ágúst í þættinum HardTalk á BBC. Sama þætti og Geir var í, munið þið? Þetta viðtal er mun lengra og ítarlega en hitt og hér fer Beddington nánar í svipaða hluti.

HardTalk á BBC - 13. ágúst 2009

Í Kastljósi í gærkvöldi var okkur sýndur farsakenndur fáránleiki málsins þar sem Guðlaugur stjórnarformaður OR og Dagur B. létu ljós sitt skína. Satt að segja var ég nákvæmlega engu nær eftir þennan farsa. Dagur var óundirbúinn og greinilega illa að sér í málinu. Ég hefði miklu heldur viljað sjá þarna Sigrúnu Elsu eða Þorleif, sem bæði sitja í stjórn OR, og hafa meiri þekkingu á þessu máli en Dagur virtist hafa. Og ég get ekki með nokkru móti sætt mig við að Guðlaugur sitji í þessu embætti og fremji slíka gjörninga umboðslaus með öllu.

Kastljós 1. september 2009

 

Í athugasemd sem Birgir Gíslason gerði við þennan pistil kom m.a. fram: " Miðað við það sem fram hefur komið í fjölmiðlum varðandi efni sölusamnings OR til Magma má draga saman þessa niðurstöðu um áhrif hans á rekstur OR.  Það skal tekið fram að ég er ekki endurskoðandi, en það væri fróðlegt að fá álit endurskoðanda með þekkingu á uppgjörsreglum orkufyrirtækja.

Beint sölutap OR af þessum samningi er lauslega áætlað 4,211 milljarðar.  Inn í þeirri upphæð er sölutap upp á 743 milljónir vegna kaupa OR og framsals á hlutum Hafnarfjarðarbæjar (95% hlutur þeirra í HS Orku).

Vaxtaberandi skuldir OR bera allt að 9.325% vexti á ári (sjá árshlutauppjör þeirra 30.06.2009). Miðað við þá vaxtabirgði félagsins má áætla að nettó
vaxtakostnaður OR á hverju ári vegna láns á 70% kaupverðsins sé 657 milljónir á ári, eða 4,601 milljarður næstu 7 árin. OR er mjög skuldsett félag og þar sem kaupverðið er að meirihluta lánað þá getur OR ekki greitt niður aðrar skuldir sínar á móti, eru í raun að taka lán til að lána Magma,
ergo: Nettó vaxtakostnaður OR næstu Orkuveita Reykjavíkur7 árin 4,601 milljarður.

Heildartap OR á sölu hlut sínum í HS Orku er því varlega áætlað 8,813 milljarðar króna eða 54% af heildarverðmæti hlutanna beggja (bókfært verð hlutanna beggja er 16,211 milljarðar en söluverðið er sagt vera 12 milljarðar).

Gengisáhætta OR af 8,4 milljarða (ca. 66.9 milljónir USD) láni til Magma er eftirfarandi: Ef gengi íslensku krónunnar styrkist um 10% gegn US dollar, þá þýðir það tap upp á 840 milljónir. Ef krónan styrkist um 20% er upphæðin 1,680 milljarðar. Það skal tekið fram að mjög miklar líkur eru á því að gengi krónunnar styrkist næstu 7 árin, út á það miðar efnahagsáætlun ríkisins og IMF.

Ég óska eftir því að stjórn OR og/eða fulltrúar eigenda félagsins (borgarfulltrúar) leiðrétti mína útreikninga ef þeir eru rangir, en svona lítur málið út miðað við þær fréttir sem stjórn OR hefur gefið út vegna þessarar sölu.

Ég spyr, ef útreikningar mínir eru réttir, eru hagsmunir eigenda OR borgið með sölu hlutabréfanna til Magma Energy núna, heildartap upp á 8,813 milljarð króna auk hugsanlegs gengistap ef krónan styrkist?

Að lokum vil ég benda á að óbeint eignarhald OR í HS Orku vegna veðs í hlutabréfunum er 22%. Samræmist það kröfu Samkeppnisstofnunar um að OR megi ekki eiga meira en 10% í félaginu? Er samningurinn því ekki brot á úrskurði Samkeppnisstofnunar og þar með ólögmætur? Hvernig hyggst stjórn OR tryggja að veðið rýrni ekki í virði?"

Ef við gefum okkur að Birgir hafi rétt fyrir sér er þetta með ólíkindum. Gengið þarf ekki að styrkjast nema um 10% til að OR tapi 840 milljónum! Talað hefur verið um stöðutöku gegn krónunni. Getur þetta ekki fallið undir það - og verið stöðutaka gegn OR, verðmætasta fyrirtæki Reykvíkinga, um leið?

Fjallað var um samninginn á borgarstjórnarfundi í dag. Baráttukonan Heiða B. Heiðars fór á pallana og sagan sem hún segir á blogginu sínu er mjög athyglisverð. Lýsir algjöru áhugaleysi sumra kjörinna fulltrúa borgarbúa á stórmálum eins og þessu. Heiða gat ekki orða bundist og lagði orð í belg á fundinum. Ég hengi hljóðskrá með athugasemd Heiðu af pöllunum neðst í færsluna. Það verða sveitarstjórnarkosningar næsta vor. Ef þessi samningur verður samþykktur í borgarstjórn verð ég fyrst til að minna á hann þegar kosningabaráttan hefst. Ég læt ekki stela af mér, samborgurum mínum og afkomendum okkar þegjandi og hljóðalaust. Mig grunar að ég verði ekki ein um það.

Viðbót: Þessi pistill Stefáns Snævarr er nauðsynleg og umfram allt holl lesning.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Rifjum aðeins upp...

Þóra Arnórsdóttir um Enron : The Smartest Guys in the Room
Silfur Egils 1. mars 2009

 

Enron : The Smartest Guys in the Room

1. hluti

 

2. hluti

 

3. hluti

 


Landráð af vítaverðu gáleysi?

Magma Energy Corp.Í dag rennur út frestur sá er Magma Energy veitti ríkinu til að íhuga sölu á hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku. Mér er fyrirmunað að skilja af hverju nokkrir Reykvíkingar, Hafnfirðingar og Reyknesingar geta ekki sest niður og samið um málið sín á milli í stað þess að ganga að fráleitu kauptilboði Magma. Hafa samráð við Samkeppnisstofnun og leysa málið. Þetta eru jú allt Íslendingar fyrst og fremst og þeim ber skylda til að halda auðlindinni í þjóðareigu. Ég hef skrifað mikið um þetta mál í sumar og síminn hefur ekki stoppað hjá mér og tölvupósti rignt yfir mig. Fólk er að vakna til vitundar um hvað er að gerast þarna - og það eru skelfilegir hlutir.

Skoðanir fólks á málinu má til dæmis sjá í fréttum Eyjunnar sem hefur verið duglegt að fjalla um auðlindasöluna undanfarið. Ég bendi t.d. á þessa frétt, þessa, þessa og þessa. Og ég hvet alla til að lesa athugasemdirnar við allar þessar fréttir. Í þeim kemur ótalmargt fróðlegt fram. Flokksráð VG ályktaði um að HS Orka ætti að vera í samfélagslegri eigu, en Samfylkingin virðist ekkert skipta sér af málinu eða veita ráðherrum sínum nokkurt aðhald. Einstaklingar innan flokksins hafa tjáð sig um það, t.d. Ólína og Dofri. Að öðru leyti virðist Sigrún Elsa, fulltrúi Samfylkingarinnar í stjórn OR, fá lítinn stuðning við sinn málflutning, a.m.k. opinberlega. 

Tveir af yngri kynslóð Samfylkingar skrifuðu hvor sína greinina um Samfylkinginmálið fyrir helgi. Magnús Orri telur að þrátt fyrir samning á ystu nöf ef ekki beinlínis ólöglegan milli Reykjanesbæjar og HS Orku, eigi ríkið ekki að stíga inn í kaup Magma og hindra söluna. Skúli Helgason skrifar bloggpistil í sama dúr og athyglisvert er að lesa athugasemdirnar við hann. Þar endurspeglast skoðun fólks á þessum gjörningi prýðilega. Skúli ber því m.a. við að ríkið eigi ekki þessa 12 milljarða sem um ræðir. Bíðum við... Hér kemur fram að það kosti 13-14 milljarða að ljúka við tónlistarhúsið. En það eru ekki til 12 milljarðar til að halda afnotum af einni gjöfulustu orkuauðlind Íslendinga í meirihlutaeigu almennings. Er ekki eitthvað öfugsnúið við þennan forgang? Má ég þá heldur biðja um að tónlistarhúsinu verði frestað og haldið verði í auðlindir okkar, þótt ekki sé nema vegna komandi kynslóða. Við höfum ekkert leyfi til að einkavæða eða selja þær frá afkomendum okkar. Samfylkingin vill selja.

Svo er mérGeysir Green Energy hugleikin sú spurning hver á Geysir Green Energy, hinn eiganda HS Orku sem mun líklega sameinast Magma ef af kaupunum verður. Hér fór ég yfir eignarhald GGE og fæ ekki betur séð en þetta sé skel utan um gjaldþrota menn og fyrirtæki, væntanlega í umsjá skilanefnda bankanna. Við vitum að margt er undarlegt við skilanefndirnar og þær virðast frekar hafa hagsmuni vina, vandamanna, klíkubræðra og samflokksmanna að leiðarljósi en hagsmuni þjóðarinnar. Hvernig í ósköpunum stendur á því að skilanefndirnar eru ekki búnar að ganga að veðum eigenda Geysis Green Energy og yfirtaka reksturinn? Hvernig í ósköpunum stendur á því að gjaldþrota auðmönnum er leyft að ráðskast með auðlindirnar okkar og selja þær til að redda sjálfum sér fyrir horn og halda í sveitasetrin, snekkjurnar og ljúfa lífið? Getur einhver svarað því? Vill einhver rannsóknaraðili svo gjöra svo vel að fara ofan í saumana á fjármálum vissra stjórnmálamanna, bæjarstjóra, forstjóra og fleira fólks sem að auðlindasölunni standa? Athuga bankareikninga þeirra hérlendis og erlendis, möguleg skúffufyrirtæki í þeirra eigu og fleira í þeim dúr? Takk fyrir.

Forstjóri Magma Energy, Ross Beaty, var í Kastljósviðtali í síðustu viku. Hann skrúfaði frá kanadíska sjarmanum, elskaði land og þjóð og vildi endilega hafa hagsmuni okkar að leiðarljósi þegar hann, og skúffufyrirtækið sem hann notar til að komast bakdyramegin inn, fengi kúlulánið hjá OR til að kaupa HS Orku. Ég var búin að lesa mér svo mikið til um manninn og málefnið að mér varð beinlínis óglatt við að hlusta á hjalið í honum. Og ég hefði viljað fá miklu gagnrýnni spurningar. Ef ég hef einhvern tíma séð úlf í sauðargæru var það þegar ég horfði og hlustaði á þetta viðtal.

Kastljós 26. ágúst 2009

 

Ég skrifaði Bréf til Beaty og flutti það á Morgunvakt Rásar 2 á föstudaginn. Vonandi hefur einhver þýtt það fyrir hann en ef það hefur farið fram hjá hinum íslensku aðstoðarmönnum hans þá bæti ég úr því hér. Ross Beaty segist nefnilega vilja kaupa auðlindirnar í sátt við íslensku þjóðina. Ekki vera í stríði við neinn. Ef aðstoðarmenn hans eru starfi sínu vaxnir þýða þeir allar athugasemdir við fréttirnar sem ég benti á hér að ofan, sem og annað sem skrifað hefur verið um málið. Hljóðskrá er viðfest neðst að venju.

Morgunvakt Rásar 2

Ágætu hlustendur...

Ef ykkur er sama ætla ég ekki að tala til ykkar í dag. Ég ætla að ávarpa Ross Beaty, forstjóra Magma Energy, sem vill ólmur krækja í orkuauðlindirnar okkar. Hann var í viðtali í Kastljósinu í fyrrakvöld og ég fékk ofbirtu í augun frá geislabaugnum sem hann hafði fest yfir höfði sér fyrir viðtalið. En hér er bréf til Beaty.

Sæll vertu, Ross,

Þú varst flottur í Kastljósinu, maður. Tungulipur, ísmeygilegur og útsmoginn. Örugglega hafa einhverjir látið glepjast af sjarmerandi yfirborðinu og fagurgalanum. En ekki náðirðu að hrífa mig. Ég sá bara úlf í sauðargæru. Einhver virðist hafa sagt þér frá andstöðunni gegn áætlunum þínum í íslensku samfélagi. Ummæli þín um að þú hafir heillast af Íslandi frá fyrstu sýn voru afar ósannfærandi. Haft er eftir þér í viðtölum erlendis að þú njótir þess að skapa auð fyrir þig og hluthafana þína. Að þú farir fram úr á morgnana til að græða. Vertu bara ærlegur og segðu eins og er: að þú hafir heillast af gróðamöguleikum auðlindanna á Íslandi. Það væri bæði heiðarlegra og sannara.

Yfirlýsingar þínar um jarðhitaorku í ýmsum viðtölum eru alveg ótrúlegar. Sem jarðfræðingur áttu til dæmis að vita, að jarðvarmi er ekki endalaus og eilífur eins og þú segir í einu viðtalinu og nú hef ég eftir þér í lauslegri þýðingu: "...Ég held að jarðvarmi sé eitt besta svarið við orkuskortinum. Hann er hreinasta form orku, ódýrasta, hann er stöðugur og forðinn er ókeypis... Þetta er bara ofboðslega frábær bissness. Jarðvarminn er eilífur og tiltækur víða í heiminum." Ross þó! Maður með jarðfræðimenntun á að vita að endurnýjanleikinn er háður jarðfræðilegri óvissu og endingin fer eftir því hve mikið og hratt auðlindin er nýtt. Og af því þú lifir fyrir að gera sjálfan þig og vini þína ríka, áttu líka að vita að enginn verður ríkur á að nýta orkuna eins og á að gera - skynsamlega.

Einn af okkar fremstu jarðvísindamönnum, Stefán Arnórsson, sagði í útvarpsviðtali fyrir nokkru að tvö sjónarmið væru ríkjandi um nýtingu jarðvarma. Annað er að nýta hann með hámarkságóða í huga yfir ákveðið tímabil og þá er gjarnan miðað við afskriftatíma mannvirkja sem nýta orkuna. Hitt er að nýta hann með sem næst sjálfbærum hætti þótt full sjálfbærni náist aldrei. Það er hins vegar hægt að hafa það að leiðarljósi, að auðlindirnar nýtist sem lengst - ekki aðeins núlifandi kynslóðum heldur komandi kynslóðum einnig. Þegar upp er staðið er það siðferðileg spurning hvort sjónarmiðið er haft að leiðarljósi. Þetta sagði Stefán. Kjarni málsins er siðferði, Ross, og við vitum að græðgina skortir allt siðferði.

Þú ert ekki kominn til Íslands til að vera eins og þú sagðir í Kastljósi. Þú vinnur ekki þannig. Þú ert hingað kominn til að gera viðskiptasamning sem tryggir þér afnot af verðmætri auðlind til 130 ára. Þú ætlar að búa til söluvarning - eftirsóknarvert viðskiptamódel - selja svo hæstbjóðanda og græða feitt. Kannski selurðu Kínverjunum sem keyptu námurnar þínar, hver veit? Mér þætti líka fróðlegt að vita hvort það er tilviljun að þú hefur verið með námur í ýmsum löndum þar sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur verið að væflast.

Nei, ég hreifst ekki af hjali þínu í Kastljósi og bið þig lengst allra orða að hverfa af landi brott tómhentur sem allra fyrst. Hér mun aldrei ríkja friður um auðlindakaup þín. Við Íslendingar höfum fengið meira en nóg af spákaupmönnum og gróðapungum og græðgi þeirra.

Vertu blessaður.

**********************
Nokkrir pistlar um málið:
Hugleiðingar um einkavæðingu - áríðandi skilaboð
Eru auðlindirnar okkar ekki sexí?
VARÚÐ - Nýtt REI-mál í uppsiglingu
Svikamyllan á Suðurnesjum

Hin fallna þjóð og afsal auðlinda
Fjöregginu fórnað
Auðlindir á tombólu
"Þetta snýst allt um auðlindir"
Salan á auðlindum Íslendinga er hafin
Hafa ráðamenn ekkert lært?
Stórslys í uppsiglingu á Suðurnesjum

Agnar Kristján:
Einka(vina?)væðing HS
Skuggaverk á Suðurnesjum I
Skuggaverk á Suðurnesjum II
Spurningar varðandi tilboð Magma og ársreikning HS

Alda Sigmundsdóttir:
While we're looking the other way...
More on that ludicrous Magma HS Orka deal
Magma Energy and the second coming

Ótal pistlar hjá Hannesi Friðrikssyni

Ég stóðst ekki mátið að hafa orðið landráð í fyrirsögn þessa pistils, þótt það sé mér ekki tamt í munni, vegna þessarar bloggfærslu Egils Helga og athugasemdanna þar. Mér finnst enda kominn tími til að skilgreina þetta orð og hvað það raunverulega merkir.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Með kveðju frá Bakkabræðrum

Hvað ætli slíkt hið sama eigi við um marga útrásardólga? Hvað kallar maður svona framkomu?

Kæru skattgreiðendur...


Hetjudýrkun dauðans

Allir vita hver hann er. Ferill hans er skrautlegur og afar umdeildur. Hann hefur verið hæddur, spottaður og fyrirlitinn af stórum hluta þjóðarinnar áratugum saman. Ekki varð Laxnessmálið honum heldur til álitsauka. Margir hafa samt haft gaman af honum svipað og trúðum eða hirðfíflum í aldanna rás. Ég hafði t.d. fregnir af því fyrir löngu að það ætti við um samkennara hans í Háskóla Íslands. Sjálf skrifaði ég þennan pistil fyrir 19 mánuðum - í janúar 2008 - og sagði þar: "Ég verð að viðurkenna, þótt Hannes Hólmsteinn og hetjan hans - Grapevine 13/2009það sé mér þvert um geð, að ég hef lúmskt gaman af þeim báðum [honum og Gunnari í Krossinum] en verð engu að síður óskaplega pirruð þegar ég hlusta á þá. En á eftir finnst mér ég vera alveg einstaklega heilbrigð, víðsýn, fordómalaus og skynsöm. Að því leytinu láta þeir mér líða vel."

Hann hefur fengið að hafa skoðanir sínar í friði og prédika trúarbrögð frjálshyggjunnar óáreittur í háskólasamfélaginu í á þriðja áratug. Á launum hjá þjóðinni. Hann hefur alla tíð lifað góðu lífi á skattpeningum okkar hjá Háskóla Íslands og fengið ýmsa launaða bitlinga að auki á vegum FLokksins til að drýgja tekjurnar. Einnig á kostnað skattgreiðenda. Engu að síður prédikar hann einkavæðingu alls sem hönd á festir svo ætla mætti að hann vildi helst leggja ríkið niður. Samkvæmt þessu er hann með námskeið um Sjálfstæðisflokkinn í Háskólanum. Ég get ekki séð að aðrir stjórnmálaflokkar fái um sig sérstök námskeið. Eða finnur einhver t.d. Framsóknarflokkinn á listanum - eða gamla Alþýðuflokkinn sem á sér nú mikla sögu á Íslandi. En kannski er þetta ekki námskeiðalisti, hvað veit ég?

Í vor fékk hann milljón króna styrk til að rannsaka íslenska kommúnista þótt líklega séu fáir verr til þess fallnir af augljósum ástæðum. En það var flokksbróðir hans sem veitti styrkinn, svo þá var ekki að sökum að spyrja. Enda búið að koma FLokknum hans frá völdum, sparka honum sjálfum úr stjórn Seðlabankans og hann vantaði aukatekjur. Illugi heldur að niðurstaða rannsóknar hans verði sú að kommúnistar hafi verið þjóðhættulegir menn. Ég tek undir þá skoðun Illuga.

berast þær fregnir að hann muni kenna og leiðbeina í málstofu um heimskreppuna og framtíð kapítalismans á haustmisseri Háskóla Íslands. Heimskreppuna og framtíð kapítalismans. Vill einhver giska á hvernig kennslan verður? Hverjar áherslurnar verða, hverjum kennt verður um kreppuna? Getur einhver ímyndað sér hver framtíð kapítalismans er í meðförum hans? Örugglega.

Í tæpt ár, frá hruninu, hafa verið uppi háværar kröfur um að tekið verði rækilega til í kerfinu. Skipt út óhæfum banka-, embættis- og stjórnmálamönnum því nóg framboð hefur verið af þeim. En hvað með háskóla- og fræðasamfélagið? Er ekki rétt að gera kröfur um tiltekt á þeim vettvangi líka? Erum við sátt við að skattpeningunum okkar sé sóað í að menga huga unga fólksins okkar? Er ekki rétt að gera meiri kröfur til Háskóla Íslands? Þetta er niðurlæging fyrir menntakerfið. Ég bendi enn á pistla Illuga sem ég er svo innilega sammála - þennan og þennan.

Svo sá ég þetta á DV.is - Hrunið varð af því Davíð fór frá - forsíðuviðtal við hann í Reykjavík Grapevine. Hetjudýrkunin á sér engin takmörk og þetta viðtal svarar því á hvaða nótum málstofan í Háskólanum verður; hvernig söguskoðunin hljómar í meðförum hans. Ég stóðst ekki mátið - klippti viðtalið út og hvet alla til að lesa það. En ég vara fólk við - mér varð bumbult við lesturinn og neita að axla ábyrgð á mögulegri líðan annarra. Lesist á eigin ábyrgð og smellið þar til læsileg stærð fæst. Góða skemmtun.

Hannes Hólmsteinn - Grapevine 13/2009 - Forsíða

Hannes Hólmsteinn - Grapevine 13/2009 - Viðtal - 1

Hannes Hólmsteinn - Grapevine 13/2009 - Viðtal - 2


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Heilræði herramanna

Tveir eldri herramenn vöktu athygli mína og ég lagði við hlustir. Annar var í Kastljósinu í kvöld og hinum var sagt frá í Speglinum á þriðjudagskvöld. Báðir eru hoknir af reynslu og eins og segir í máltæki úr Bandamannsögu: Hafa skal heil ráð, hvaðan sem koma. Það er ástæða til að hvetja ráðamenn og aðra sem koma að íslenskri endurreisn til að hlusta vandlega á svona menn.

Í Kastljósinu var rætt við Tormod Hermansen, norskan hagfræðing, sem tók þátt í uppbyggingu bankakerfisins í Noregi fyrir um 20 árum. Bankakreppan þar í landi hafði skapast við umskipti úr ströngu eftirliti með bankakerfinu yfir í frjálsara markaðsfyrirkomulag. Frelsið vefst víðar fyrir bankamönnum en á Íslandi og í raun stórmerkilegt að þessi dæmi, sem menn höfðu fyrir augunum - reynsla Norðmanna, Finna og Svía - hafi ekki verið íslenskum banka- og ráðamönnum víti til varnaðar. Svona er nú græðgin öflug.

Ýmsir hafa verið fengnir til skrafs og ráðagerða eftir hrun. En það er vitagagnslaust að leita ráða hjá reynsluboltum ef svo er ekki hlustað eða farið að ráðum þeirra. Ómar Ragnarsson er með snögga yfirferð yfir viðtalið við Tormod Hermansen í pistli sem hann kallar "Íslenska efnahagsundrið" tætt í sundur í Kastljósi". Lesið pistil Ómars og hlustið á Hermansen.

Tormod Hermansen í Kastljósi 27. ágúst 2009

 

Horst-Eberhard RichterHinn herramaðurinn er þýskur sálfræðingur sem sagt var frá í Speglinum á þriðjudaginn, Horst-Eberhard Richter. Formáli Spegilsins hljóðar svona: "Einn af þekktustu núlifandi fræðimönnum Þjóðverja, sálfræðingurinn Horst-Eberhard Richter, heldur því fram að það sé til marks um siðferðilega hnignun vestræns samfélags, að ekki sé hægt að draga stjórnendur banka og annarra fjármálastofnana, sem hafi komið heilum samfélögum á vonarvöl, fyrir lög og dóm. Richter segir að markaðshyggja nútímans hafi snúist upp í "rándýrskapítalisma" sem einkennist af græðgi og félagslegu skeytingarleysi." Mér fannst þetta hljóma ansi kunnuglega eftir reynslu undanfarinna áratuga á Íslandi. Margt fleira er haft eftir Richter, meðal annars ummæli um konur sem heyrðust oft fyrst eftir hrun. Hlustið á Richter - hljóðskrá er viðfest hér fyrir neðan.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Stórslys í uppsiglingu á Suðurnesjum

Grein eftir Öldu Sigmundsdóttur í Fréttablaðinu í dag. Ég hvet alla til að lesa bloggpistlana hennar - og ekki síður athugasemdirnar sem eru margar hverjar afar fróðlegar og sumar sláandi eins og hún nefnir dæmi um hér. (Smellið þar til læsileg stærð fæst.)

Stórslys í uppsiglingu á Suðurnesjum - Alda Sigmundsdóttir - Fréttablaðið 27.8.09


Mig setti hljóða...

...þegar ég hlustaði á þetta viðtal í Kastljósi í gærkvöldi. Ég spurði sjálfa mig hvenær röðin kæmi að manni sjálfum. Þvílík meðferð og niðurlæging. Hver hefur hag af að koma svona fram við fólk? Á meðan er ekki snert við stærstu skuldurunum, sjálfum auðmönnunum sem bera ábyrgðina - hvað þá stjórnmálamönnunum.

Guðbjörg Þórðardóttir í Kastljósi 25. ágúst 2009

 

Mogginn 25. ágúst 2009

Á vanskilaskrá í greiðsluaðlögun - Moggi 25.8.09

Lilja Mósesdóttir í Kastljósi 25. ágúst 2009

 

Ekki voru allir með há eða óyfirstíganleg bílalán og mánaðargreiðslur voru líklega vel viðráðanlegar hjá flestum. Nú hafa eftirstöðvar lánanna hækkað langt umfram verðmæti bílanna og afborganir óyfirstíganlegar - líka á lágu lánunum. Hvað er nefndin sem á að leysa málið að gera?

Fréttir Stöðvar 2 - 26. ágúst 2009

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband