Færsluflokkur: Fjölmiðlar

Silfur dagsins

Ég fékk ósk mína ekki uppfyllta um að lengja þáttinn - en hann var góður samt og mjög margt áhugavert sem þarna kom fram enda var bara einn stjórnmálamaður í þættinum. Ég treysti miklu frekar Lilju Mósesdóttur en Vilhjálmi Egilssyni og það er athyglisvert að hlusta á Gunnar Smára. Hér er þátturinn - klipptur í tætlur að venju. Mæli með lestri á þessari grein.

Vinsamleg ábending RÚVara - það er ekki enn búið að laga síðasta þátt (9. nóv.) þannig að síðasti viðmælandinn er ennþá halaklipptur.

Vettvangur dagsins 1 - Pétur Gunnars, Sigríður Dögg, Kristín Helga, Ómar

 Vettvangur dagsins 2 - Ágúst Ólafur Ágústsson

 

Vettvangur dagsins 3 -  Benedikt, Sigrún Elsa, Hjálmar

  Lilja Mósesdóttir og  Vilhjálmur Egilsson

 

Gunnar Smári Egilsson

 

Hér er bréfið, sem Sigríður Dögg nefnir, þar sem Steingrímur Ari Arason segir sig úr einkavæðingarnefnd árið 2002.

Steingrímur Ari Arason 10. sept. 2002


Fundurinn á Austurvelli í dag

Fyrst lögreglan segir að 6.000 hafi mætt vitum við að þarna voru minnst 10.000 enda Austurvöllur troðfullur af fólki. Í þetta sinn eiga fjölmiðlar þakkir skildar fyrir umfjöllun og beinar útsendingar.

Mig langar að biðja þá Íslendinga sem búsettir eru erlendis að vekja athygli fjölmiðla í viðkomandi löndum á laugardagsfundunum hér á Íslandi til að koma því til skila til alheimsins að almenningur hér sé ævareiður, vilji að gerendur axli ábyrgð, að kosið verði sem fyrst og að spilltum stjórnmála- og embættismönnum verði vikið frá, svo eitthvað sé nefnt. Látið fylgja sögunni að enginn hlusti á okkur - ennþá. Hörður Torfa segir þetta ágætlega. Horfið og hlustið.

Svona fjölluðu fréttastofur sjónvarpsstöðvanna um fundinn í fréttatímum sínum í kvöld.

 
Og hér eru þrjú sýnishorn af mótmælendum sem forsætisráðherra kallar skríl.

Mótmæli á Austurvelli 15.11.08 - Ljósm. Mbl. Kristinn

Mótmæli á Austurvelli 15.11.08

Mótmæli á Austurvelli 15.11.08


Spurningar sem ekki fæst svarað

Fréttablaðið 12. nóv. 2008Fréttablaðið 12. nóv. 2008


Bjarni Harðar og bréfið til Valgerðar

Bjarni HarðarsonFáheyrður atburður átti sér stað í morgun. Þingmaður stjórnarandstöðuflokks sagði af sér þingmennsku af því hann gerði "innanflokksmistök". Hann ætlaði að láta senda bréf til varaformannsins - sem sent var öllum þingmönnum flokksins - nafnlaust til fjölmiðla. Líkur eru á að bréfið hefði borist fjölmiðlum eftir öðrum leiðum, það hefði ekki komið á óvart, hvort sem það hefði þótt fréttnæmt eða ekki.

Bjarni er í einum mesta spillingarflokki allra tíma á Íslandi, Framsóknarflokknum, sem ásamt Sjálfstæðisflokknum sat við stjórnvölinn á Alþingi í 12 ár og lagði grunninn að því ástandi sem nú hefur skapast á Íslandi. Bjarni bauð sig reyndar ekki fram fyrr en fyrir síðustu kosningar og naut þess því aldrei að sitja í meirihluta eða taka beinan þátt í afglöpum fyrri stjórna.

Mikið er fjallað um afsögn Bjarna í fjölmiðlum og á bloggsíðum í dag. Fólk er almennt sammála um að þetta hafi verið rétt ákvörðun hjá honum og ég tek undir það. Engu að síður minnir þessi atburður á olíusamráðsmálið þar sem eini maðurinn sem axlaði ábyrgð var Þórólfur Árnason, sem mögulega vissi eitthvað um samráðið mörgum árum áður, á meðan aðalsökudólgarnir sluppu án þess að fá einu sinni svartan blett á mannorðið. Það er eitthvað öfugsnúið við þetta.

Vikum saman hafa leikir sem lærðir krafist afsagnar bankastjóra og bankastjórnar Seðlabanka og forsvarsmanna Fjármálaeftirlits, ráðherra og annarra sem uppvísir hafa orðið að vítaverðum afglöpum undanfarna mánuði og jafnvel ár sem hafa komið allri þjóðinni áValgerður Sverrisdóttirkaldan klaka og rúmlega það. En ekkert gerist. Enginn segir af sér. Engum er sagt upp. Er Bjarni að gefa tóninn? Sér fólk Davíð Oddsson, Jónas Fr., Geir, Björgvin eða Árna Matt taka Bjarna sér til fyrirmyndar?

Afsögn Bjarna má heldur ekki yfirskyggja innihald bréfsins sem um ræðir. Ég ætla að birta það hér og dæmi hver fyrir sig hvort þeirra Bjarna eða Valgerðar er "sekari" og hvort þeirra ætti heldur að draga sig í hlé. Valgerður sjálf fer mikinn í fjölmiðlum í morgun og segir Bjarna ekki sætt á þingi eftir þetta. Hún nánast krefst þess að hann segi af sér. Hefur hún krafist afsagnar þeirra sem eru sekari um margfalt alvarlegri misgjörðir en Bjarni - og það gagnvart allri þjóðinni? Ekki minnist ég þess.

Og hafið í huga að þetta er konan sem sækist nokkuð örugglega eftir formannsembættinu í Framsóknarflokknum og ef henni hlotnast það yrði hún ráðherra ef örflokkur hennar kæmist í stjórn. Eflaust tilbúin til að fremja sömu óhæfuverkin aftur eins og í fyrri ráðherratíð sem var löng og skrautleg. Aldrei datt henni sjálfri í hug að segja af sér þá. Síðast á laugardaginn fullyrti Valgerður á borgarafundinum í Iðnó að eðlilega hefði verið staðið að einkavæðingu bankanna og uppskar hávært baul frá viðstöddum. Siðferðið er ekki betra en svo á þeim bænum og það er fáránlegt að horfa upp á Valgerði reyna að halda kolryðguðum geislabaugnum yfir höfði sér með þessa vafasömu fortíð á bakinu.

Hér er bréfið fræga. Það er skrifað af tveimur framsóknarmönnum í Varmahlíð í Skagafirði og stílað á Valgerði. Efni þess er mun alvarlegra en mistök Bjarna - ekki bara fyrir Framsóknarflokkinn heldur þjóðina alla. Ég lagaði tvær eða þrjár innsláttarvillur, myndin af undirskriftinni var í bréfinu, hinum bætti ég inn.

Heil og sæl Valgerður, 

Þú varst ögn önug út í okkur flokksbræður þína yfir því að við minntum á, í bréfi 9. okt. s.l.að í þinni ráðherratíð sem viðskiptaráðherra voru bankarnir einkavæddir.

Valgerður Sverrisdóttir - Ljósm.mbl. Kristinn
Myndatexti:Samningur um sölu á tæplega helmingshlut ríkisins í Landsbanka Íslands hf.
til Samsonar eignarhaldsfélags ehf. undirritaður á gamlársdag árið 2002.
mbl.is/Kristinn


Það verður þó varla fram hjá því litið að á því ferli öllu berð þú mikla ábyrgð ásamt því regluverki sem bönkunum var ætlað að starfa eftir. Og minnast má þess að lengi vel var það stefna Framsóknarflokksins að selja ekki bankana og als ekki Símann og margir framsóknarmenn munu enn vera á þeirri skoðun.

Nú er úti ævintýr og bankarnir komnir aftur í þjóðareign. Nauðsynlegt er að spyrja hvað hefur þjóðin haft upp úr sölu bankanna og hvað mun hún kosta hana? Fyrir einkavæðingu var þjóðin talin með ríkustu þjóðum í heimi. Þjóðartekjur á mann með því besta sem þekktist. Þegnarnir yfirleitt efnahagslega sjálfstæðir og lífskjör hvergi jafnari en hér á landi. Ofurlaun þekktust ekki.

FramsóknarflokkurinnHvernig er svo ástandið í dag, sem einkavæðingin skilur eftir? Allir bankarnir komnir í þrot. Af eljusemi og dugnaði höfðu þeir safnað erlendum skuldum er nema tólf til þrettánfaldri ársframleiðslu þjóðarinnar. Allt sparifé okkar, sem var í vörslu þeirra var í uppnámi. Setja varð neyðarlög að næturlagi til þess að tryggja spariféð og eðlileg bankaviðskipti í landinu.

Mörg hundruð miljarða skuldabaggi er lagður á íslenska þjóð. Okkur finnst því að þú mættir gjarnan hugleið hvaða áhrif þinn félagslegi og pólitíski framgangur hefur haft fyrir þjóðina og Framsóknarflokkinn. Og hvað um KEA og SÍS? Spyrja má hversu mikið landsbyggðin hefur liðið fyrir hrun Samvinnuhreyfingarinnar.

Síður en svo ætlum við þér alla ábyrgð á einkavæðingunni og afleiðingum hennar þótt þú kæmir þar verulega við sögu og margir bera ábyrgð á þróun samvinnumála hér á landi.

Framsóknarflokkurinn átti sinn góða þátt  í uppbyggingu þess samfélags, sem hér náði að þróast á öldinni sem leið. Það samfélag byggði á blönduðu hagkerfi, sem hafnaði öfgum kapítalisma, sem boðaði að markaðurinn ætti að ráða öllu í heimi hér, jafnt og alræðissósíalisma var hafnað.

Með formensku Halldórs Ásgrímssonar hefst raunasaga Flokksins, sem endaði með fylgishruni. Halldór klifaði látlaust á því að breyta þyrfti stefnu Flokksins. Hann skipaði framtíðarnefnd. Jón Sigurðsson var ,, kallaður”  til þess að hafa umsjón með þessHalldór Ásgrímssonari  stefnumótun, ásamt Sigurði Einarssyni og Bjarna Ármannssyni, sem afþakkaði reyndar þetta boð.

Í þessari nýju stefnu fólst m.a. þetta: 
1.  Í stað þess að standa vörð um sjálfstæði Íslands og fullveldi átti að gangast undir ESB- valdið í Brussel.
2.  Í stað hins blandaða hagkerfis skyldi innleiða ,,frjálst” markaðshagkerfi líkt og í Bandaríkjunum og ESB.
3.  Ísland átti að verða ,,alþjóðleg” fjármálamiðstöð og skattaparadís.
4.  Frjáls innflutningur á landbúnaðarvörum, átti að vera forsend þess að flokkurinn næði fylgi í þéttbýlinu.
 

Allt var þetta í algjöri andstöðu við þau lífsviðhorf og gildismat þess fólks sem Flokkurinn sótti fylgi sitt til. Enginn studdi Halldór formann og þessa nýju stefnu af meiri alúð en þú, að okkur finnst. Þótt annar hver kjósandi hafi yfirgefið Flokkinn heldur þú áfram á braut, sem leiddi hrun yfir Flokkinn og hörmung yfir þjóðina. Ástandið hefði þó verið sýnu verra ef vilji ykkar Halldórs og fyrirmæli um að leggja Íbúðarlánasjóð undir bankanna hefðu ekki verið hundsuð af ágætum flokksbræðrum okkar, Árna Magnússyni, Magnúsi Stefánssyni og Guðmundi Bjarnasyni. Enda nutu þeir, að við höldum, stuðnings annarra þingmanna Flokksins.

 

Þú innleiddir tilskipun ESB um raforkumál, sem kostar fólkið í landinu hundruð miljóna á ári hverju. Og þú orðaðir það svo fallega að þetta gæti verið fyrsta skrefið í einkavæðingu orkugeirans.

Og nú rekur þú áróður sem mest þú getur fyrir aðild að ESB og reynir að fiska málinu fylgi í gruggug vatni svo ekki sé meira sagt. Því til viðbótar hefur þú og sumir af þínum  fylgismönnum talað niður gjaldmiðil hagkerfisins, nokkuð sem er mjög alvarlegt mál.Þá viljum við lýsa undrun og óánægju okkar yfir framgöngu þinni gagnvart sitjandi formanni Framsóknarflokksins. Við munum ekki annað eins.

Með framsóknarkveðju.

Tíufréttir RÚV í gærkvöldi


Afsökunarfrétt, Einar Már og skrílslæti forsætisráðherra

Ég ætla að líta á þessa frétt sem afsökunarbeiðni RÚV fyrir fréttaflutninginn af mótmælunum á Austurvelli á laugardaginn og eru RÚVarar menn að meiri í mínum augum fyrir vikið.

Kastljós var stútfullt af áhugaverðu efni í kvöld. Nú veit ég ekki hvernig tengslum milli fréttastofu og Kastljóss er háttað en viðtalið við Einar Má var gott innlegg í mótmælaumræðuna. Ef einhver hefur misst af þrumugreinum hans eru þær allar í myndaalbúmi vinstra megin á síðunni merktu Einari Má.

En Geir H. Haarde er samur við sig og er næstum fullnuma í að tala niður til þjóðarinnar af hroka og sjálfumgleði. Davíð má vera stoltur af lærlingi sínum enda getur hann óhræddur gert hvaða mistök sem honum sýnist í Seðlabankanum án þess að hróflað sé við honum. Þá varðar engu þótt það bitni á allri þjóðinni og þjóðir heims vilji ekkert með okkur hafa á meðan þeir sitja sem fastast - þeir halda dauðahaldi í völdin og láta eigin hagsmuni ganga fyrir hagsmunum þjóðarinnar.

Og ekki vill Geir kosningar, hvað sem á dynur. Stjórnin sem nú situr er lömuð, vanhæf og trausti rúin jafnt innanlands sem utan. Þjóðin vill kjósa en Geir skellir skollaeyrum við vilja hennar. Það er svosem ekkert nýtt en nú er neyðarástand og það þarf að hefja undirbúning kosninga sem fyrst. Sama hvað Geir vill eða hvað Geir finnst. Það er lífsspursmál fyrir íslensku þjóðina að fá inn fólk sem getur leyst vandann og endurheimt trúverðugleika og traust, því augljóst er að núverandi stjórn ræður ekkert við ástandið.

Ég er ein þeirra sem kann forsætisráðherra litlar þakkir fyrir að kalla mig skríl og færi það hér með til bókar. En það var svosem viðbúið. Líkast til er hann dauðhræddur maður í vörn og þá er beitt ýmsum brögðum. Hræddur um að missa völd, við að Flokkurinn sé að klofna, hótanir Davíðs... hvað veit maður? En hér eru sýnishorn af skrílslátunum á Austurvelli. Tekið skal fram að enginn slasaðist og ekkert skemmdist.

Skrílslæti Sigrúnar á Austurvelli


Úr ýmsum áttum

Ég átta mig ekki á því hvort fréttastofa Stöðvar 2 var að reyna að bæta fyrir fréttaflutninginn í gærkvöldi með þessari frétt. Hér er pistillinn sem Guðmundur Gunnarsson skrifaði um málið. Annars hefur netið logað af óánægju síðan í gærkvöldi með umfjöllun fjölmiðlanna um fundinn í gær.

Mér finnst Mannamál vera vanmetinn þáttur og lítið í hann vitnað. Þetta er fínn þáttur sem veita ætti meiri athygli. Þar koma mjög oft áhugaverðir viðmælendur, þar er bókagagnrýni og nú einnig tónlistargagnrýni og svo pistlar þeirra Einars Kárasonar og Mikaels Torfasonar. Ég sakna Einars Más sem var pistlahöfundur ásamt Kárasyni í fyrra.

Í Mannamáli í kvöld ræddi Sigmundur Ernir við Gunnar Helga Kristinsson, stjórnmálafræðing um stöðu flokkanna. Þetta var stutt en fróðlegt spjall en ég varð ekki vör við að þeir nefndu Frjálslynda flokkinn. Er hann svona "gleymanlegur" eða lítilsgildur að það taki því ekki að nefna hann í svona umræðu?

Ég hef lýst efasemdum mínum um trúverðugleika þess að fela Birni Inga þáttargerð um markaðs- og peningamál. Hann hefur vafasama fortíð og enginn veit, nema innmúraðir Framsóknarmenn, hver kostaði yfirhalninguna á honum fyrir prófkjörið og alla kosningabaráttuna (fatnaður innifalinn). Ég hef heldur ekki orðið vör við að hann spyrji þá útrásarbaróna sem hann hefur talað við nægilega ágengra og krítískra spurninga. Hér er viðtal Björns Inga við Sigurð Einarsson í Kaupþingi frá í gærmorgun og því tengt bendi ég á þennan bloggpistil Jóhanns Haukssonar.

Að lokum pistill Einars Kárasonar úr Mannamáli í kvöld. Einar segir okkur sögur af lifnaðarháttum auðmanna og -kvenna á meðan allt lék í lyndi.


Silfur dagsins

Silfur dagsins var fínt. Það er eins og reglan sé að því færri stjórnmálamenn, því betra og málefnalegra Silfur. Reyndar voru þarna tveir - Mörður Árnason og Ragnheiður Ríkharðsdóttir - en þau voru ekki að rífast. Voru fín en fengu stuttan tíma eins og aðrir.  Verst var eiginlega hvað þátturinn er stuttur. Þegar talað er við svona marga og tíminn er naumur er andrúmsloftið svolítið stressað og Egill fer yfir tímann svo síðasti viðmælandinn er halaklipptur í netútsendingunni. Þeir laga þetta hjá RÚV á morgun.

Ég legg til að hálftíma verð bætt við Silfrið á meðan sýður svona á þjóðfélaginu og margt er um að fjalla. Ég klippti Silfrið í tætlur og hér er það allt í bútum.

Vettvangur dagsins 1 - Ragnheiður Gestsdóttir,  Jón Ólafsson, Benedikt Stefánsson og Sigurbjörg Árnadóttir

Vettvangur dagsins 2 -  Lúðvík Lúðvíksson og Jan Gerritssen, hollenskur blaðamaður

Vettvangur dagsins 3 - Mörður Árnason og Ragnheiður Ríkharðsdóttir

Andri Snær Magnason

 

Ársæll Valfells og Þórólfur Matthíasson

Vilhjálmur Árnason


Hvert er eiginlega hlutverk fjölmiðla?

Mótmæli 8.11.08 - Ljósm. Jóhann ÞrösturÉg verð sífellt meira undrandi á umfjöllun fjölmiðla um laugardagsmótmælin á Austurvelli. Eiginlega er ég furðu lostin núna. Þeir sem ekki voru á staðnum fá alranga mynd af fundinum í dag ef þeir hafa eingöngu fjölmiðlana til að fá fréttir af þeim. Trúverðugleiki fjölmiðla bíður mikla hnekki hvað eftir annað með svona vinnubrögðum. Ég hefði haldið að hlutverk þeirra væri að veita sem gleggsta og réttasta mynd af atburðum en það hafa þeir alls ekki gert þegar mótmælafundirnir eru annars vegar. Hér er talað um umfjöllun fjölmiðla eftir fundinn 18. október og hér eftir fundinn 1. nóvember. Fréttamennirnir eru á staðnum, þeir finna andrúmsloftið, sjá fjöldann, heyra ræðurnar. Allt er tekið upp, ljósmyndarar og kvikmyndatökumenn úti um allt. Og fjölmiðlafólkið veit að lögreglan kann ekki að telja.

Fundurinn í dag var mjög fjölmennur. Helmingi fjölmennari en síðast og það gladdi mitt litla hjarta að sjá Egil Helgason loks mættan á mótmælafund. Ég heyrði töluna 5 þúsund þegar mest var í dag. Kannski að jafnaði um 4.500 ef frá er talið fólk sem kom og fór, þetta síbreytilega rennirí á fólki sem alltaf er. En svo sér maður þetta og þetta og þetta. Og hér sést í hnotskurn munurinn á talningu lögreglu og annarra. Í þremur fréttum telur lögreglan að fjöldinn sé um 2 þúsund. Svo er haft eftir Geir Jóni milli 3 og 4 þúsund og þá hallast ég að því að 5 þúsund sé stórlega vanmetin tala. Skoðið myndirnar hans Jóhanns Þrastar hér.

Mikið er gert úr því að einhver ungmenni (held ég) hafi dregið Bónusfána aðMótmæli 8.11.08 - Ljósm. Jóhann Þröstur húni á Alþingishúsinu og að annar hópur hafi, EFTIR að fundinum lauk, kastað eggjum í húsið. Hver syngur með sínu nefi en þessar uppákomur voru ekki á ábyrgð skipuleggjenda fundarins, heldur sjálfstætt framtak fólks sem vildi tjá sig á annan hátt. Ég er ekki ennþá búin að sjá eina einustu frétt í fjölmiðlum um fundinn sjálfan. Ekki ennþá búin að heyra minnst á þrumuræður Sigurbjargar Árnadóttur og Einars Más Guðmundssonar. Þarna var haldinn tæplega klukkutíma langur fundur sem á mættu mörg þúsund manns en það er hvergi fjallað um hann, sjálfan fundinn og um hvað ræðumenn voru að tala, undirtektir þeirra sem á hlýddu, andrúmsloftið og stemmninguna.

Nei, væntanlega er það ekki nógu spennandi. Miklu meira fútt í að fjalla um að "óeirðir hafi brotist út" - sem er reyndar fjarri sanni - og að Alþingishúsið hafi verið "saurgað með eggjum". Vá, spennó! Þetta segir hins vegar ekkert um tilefni mótmælanna, fundinn sjálfan, ræðurnar, fjöldann, andrúmsloftið og það, að líklega eru þetta fjölmennustu mótmæli á Íslandi síðan í göngu Ómars fyrir 2 árum og hún sló öll fjöldamet. Enginn fjölmiðill hefur grafið upp sögu mótmæla á Íslandi, tilefni þeirra og tilgang og fjallað um þau.

Borgarafundur 8.11.08 - Ljósm. Jóhann ÞrösturÉg fór líka á borgarafundinn í Iðnó. Húsnæðið er allt of lítið, þar var fullt út úr dyrum, anddyrið var troðfullt og margir stóðu úti þar sem voru hátalarar. Þetta framtak er frábært en sökum þrengsla er ekki mögulegt að nógu margir geti mætt og tekið þátt í fundinum. Borgarafundurinn fékk öllu skárri umfjöllun í sjónvarpi, enda engin spennandi uppþot í gangi þar. Vanvirðing stjórnmálamanna og ráðherra er hins vegar slík, að fáir þeirra mættu þrátt fyrir að vera boðið sérstaklega. Á vefsíðu aðstandenda borgarafundanna kemur fram, að fundinum í dag verður útvarpað þriðjudaginn 11. nóvember kl. 21 á Rás 1 í þættinum Í heyranda hljóði í umsjón Ævars Kjartanssonar. Ég sá að fundurinn var líka kvikmyndaður svo væntanlega verða a.m.k. framsöguræðurnar settar inn á vefsíðuna þegar búið verður að vinna þær. Fylgjumst með því hér og Jóhann Þröstur tók myndir.

En svona fjölluðu sjónvarpsstöðvarnar um fundinn á Austurvelli í kvöldfréttum sínum í kvöld. Báðar sjónvarpsstöðvarnar falla í sama, fúla pyttinn. Fréttamenn beggja sjónvarpsstöðva segja að mótmælin hafi "fljótlega leysts upp og færst að Alþingishúsinu". Þetta er fjarri sanni. Finnst þeim sem voru á fundinum þessi umfjöllun gefa rétta mynd af honum?

Og hér er umfjöllun sjónvarpsstöðvanna um borgarafundinn í Iðnó.

Hvað á svona kjaftæði eiginlega að þýða? "Á meðan hinir fullorðnu grýttu eggjum..."
Hverjum er verið að þjóna með svona nokkru?
Ég sem hélt að fréttamenn vildu reka af sér slyðruorðið.

Hér er grein eftir Einar Má sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Ræðan hans á fundinum í dag var byggð á greininni. Smellið til að fá læsilega stærð.

Einar Már Guðmundsson - Mbl. 9.11.08


Klassískur kommúnistaleiðtogi

Ég geymi allt mögulegt og á því ýmislegt í fórum mínum sem vert er að grafa upp ef þannig stendur á. Hér er grein sem ég klippti út í maí 2001, skannaði og sendi fólki í tölvupósti. Ekki kemur fram í hvaða blaði greinin birtist. Set þetta hér inn svona meira til gamans og dæmi hver fyrir sig um innihald greinarinnar. Varla þarf að kynna greinarhöfund, hvað þá viðfangsefni hans. Hefur eitthvað breyst á þessu 7 og hálfa ári?

Helgi Hjörvar - Klassískur kommúnistaleiðtogi - maí 2001


Mótmæli og niðurstaða skoðanakönnunar

Laugardagsmótmælin verða æ fjölmennari, hvað sem talningu lögreglunnar líður, og búast má við að eftir því sem afleiðingar efnahagskreppunnar skella með meiri þunga á fólki fjölgi enn í hópi mótmælenda. Þau fara vonandi bráðum að endurspegla niðurstöður skoðanakönnunarinnar hér að neðan. Baldur McQueen sagði m.a. í athugasemd við síðustu færslu að hver einasta mannvera sem lét sjá sig þarna væri tífalt meira virði fyrir framtíð Íslands en þeir sem heima sátu. Þetta held ég að sé alveg rétt hjá Baldri.

Þeir sem mæta eru þeir, sem eru tilbúnir til að leggja eitthvað á sig til að sjá breytingar. Tilbúnir til að láta hæðast að sér fyrir að mæta, láta kalla sig ónefnum eins og tíðkast hefur að gera á Íslandi af hinum betur megandi - valdaklíkunni sem hugnast ekki að láta hrófla við auði sínum, valdi og yfirstéttarvelmegun. Tilbúnir til að leggja eitthvað af mörkum til samfélagsins. Þeir sem mæta eru þeir, sem gera sér grein fyrir því að alvarlegt mein hefur um árabil, jafnvel áratugaskeið, étið stjórnkerfið innan frá og feysknir innviðir þess eru nú búnir að koma þjóðinni á vonarvöl. Þeir sem mæta á laugardagsfundina er það fólk sem hefur fengið nóg af fáræði, spillingu og skoðanakúgun. Þeir sem mæta eru þeir Íslendingar, sem eru búnir að fá yfir sig nóg af stjórnvöldum og spilltu stjórnkerfi sem svífst einskis, gefur þeim fingurinn og hunsar vilja þeirra ítrekað og blygðunarlaust. Réttlætiskennd þeirra er misboðið. Þeir sem mæta á mótmælafundina ástunda gagnrýna hugsun, vilja ekki láta kúga sig lengur og þeir eru tífalt meira virði fyrir framtíð Íslands en þeir sem heima sitja.

Í Mogganum í dag eru birt úrslit skoðanakönnunar sem Capacent Gallup gerði fyrir blaðið dagana 27. - 29. október. 1.200 manns á aldrinum 18-75 ára voru í úrtakinu, handahófsvaldir úr viðhorfshópi Capacent Gallup og var endanlegt úrtak 1.117 manns. Svarhlutfall var 58,7% eða 656 manns. Hér eru niðurstöðurnar, sumar úrklippurnar þarf að smella á til að fá læsilega stærð:

Spurning:  Hvað af eftirtöldu lýsir best líðan þinni eftir að efnahagskreppan skall á?

Morgunblaðið 2. nóvember 2008


Spurning:
  Hvað af eftirtöldum fullyrðingum á best við um atvinnuhorfur þínar á næstunni?

Morgunblaðið 2. nóvember 2008


Spurning:
  Ert þú hlynnt(ur) eða andvíg(ur) því að taka evru upp sem gjaldmiðil á Íslandi í stað íslensku krónunnar?

Morgunblaðið 2. nóvember 2008


Spurning:
  Vilt þú að næstu alþingiskosningar fari fram samkvæmt áætlun árið 2011 eða vilt þú að boðað verði til kosninga fyrir þann tíma?

Morgunblaðið 2. nóvember 2008


Spurning:
  Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk myndir þú kjósa? - En hvaða flokkur yrði líklegast fyrir valinu? - Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna?

Morgunblaðið 2. nóvember 2008

 

Hér má sjá aldursskiptinguna.

Morgunblaðið 2. nóvember 2008

 

Hvert fer fylgi flokkanna frá síðustu kosningum?

Morgunblaðið 2. nóvember 2008

 

Hér er samanburður á síðustu kosningum, Þjóðarpúlsi Gallup sem nær yfir allan október og þessari könnun Morgunblaðsins sem, eins og áður segir, fór fram dagana 27. - 29. október.

Morgunblaðið 2. nóvember 2008

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband