Færsluflokkur: Fjölmiðlar
1.11.2008
Fjölmenn mótmæli
Enn taldi lögreglan vitlaust og enn höfðu fjölmiðlar það eftir. Í þessari frétt á mbl.is gerði viðkomandi blaðamaður sig að fífli. Fréttin er sett á vefinn kl. 14.28, en þá var gangan sem fór niður Laugaveginn ekki komin á Austurvöll. Þeir fyrstu voru að ganga inn á Austurvöll um kl. 14.35. Þar biðu heilmargir eftir göngunni og hóparnir sameinuðust. Engu að síður segir í fréttinni að mótmælendur séu "líklega í kringum eitt þúsund" og að fundurinn á Austurvelli standi yfir. Klukkan 14.28 var ennþá rúmur klukkutími þar til Sturla tók til máls þótt blaðamaður segi hann vera byrjaðan.
Svona sögðu sjónvarpsstöðvarnar tvær frá göngunni og fundinum. Þetta var önnur frétt hjá Stöð 2 og fyrsta frétt hjá RÚV.
Hér eru nokkrar myndir teknar af Berglindi Steinsdóttur og Jóhanni Þresti Pálmasyni. Á þeim sést mjög greinilega að þarna er miklu fleira fólk en fjölmiðlar nefndu og höfðu eftir lögreglunni - enn og aftur. Ég kalla eftir sjálfstæðu mati fjölmiðlamanna á fjölda. Þeir kunna örugglega betur að telja en lögreglan.
![]() |
Samfylking með langmest fylgi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 22:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
Ég efast ekkert um að fjölmargir kannist við lýsinguna í fyrirsögninni, kinki kolli og samsinni því að svona sé stjórnarfarið einmitt hér á landi - og hafi verið mjög lengi. Ekki satt? Einn flokkur hefur ráðið flestu sem hægt er að ráða, fámenn klíka innan hans stjórnar og þar af deilir og drottnar einn maður úr hásæti sínu. Fáræði, valdkúgun og fámenn klíka með tögl og hagldir.
En þessi orð eru tekin úr fyrirsögn greinar í Morgunblaðinu í dag sem fjallar um stjórnarfar í landi sem við, fólkið í "lýðræðisríkinu" Íslandi höfum gagnrýnt mikið og lengi, nefnilega Rússlandi. Þetta er einstaklega kaldhæðnislegt. Smellið til að stækka í læsilega stærð.
Mikið hefur verið rætt og ritað um viðtal Morgunblaðsins við einn af eigendum sínum, Björgólf eldri, sem birtist í gær og var skrifað af einum alharðasta stuðningsmanni áðurnefndar valdaklíku. Blaðið hefur verið gagnrýnt harðlega og því miður heyrist mér að allir blaðamenn hafi verið settir undir sama hatt sem mér finnst ósanngjarnt gagnvart þeim mörgu, ágætu blaðamönnum sem á Morgunblaðinu starfa. Einkum hefur ritstjórinn verið skammaður fyrir að birta viðtalið.
En hver sem skrifaði leiðara dagsins í Mogganum er ekki sammála eigandanum eins og sjá má hér:
Þessi tilvitnun leiðarans í viðtalið fannst mér sérlega skondin:
Ef ég hefði nú tekið húsnæðislán í Landsbankanum sé ég mig alveg í anda setjast niður með þjónustufulltrúanum mínum og rekja úr honum garnirnar um það hvaðan peningarnir sem bankinn ætlaði að lána mér kæmu og hvort það væri ekki rétt að lækka lánið eða hafa það með hærri vöxtum - eða eitthvað - af því gengið væri svo vitlaust skráð. Þegar þjónustufulltrúinn segir mér, ef hann veit það þá, að peningarnir komi frá breskum almenningi sem í góðri trú lagði allt sparifé sitt inn í útibú Landsbankans í Bretlandi, Icesave (sem ég vissi reyndar ekki að væri til fyrr en fyrir 3 vikum) í trausti þess að fá góða vexti þá ofbýður mér - hvað mér á að ofbjóða nákvæmlega veit ég ekki. Kannski að ég sé að fá lánaða peninga hjá breskum almenningi sem fær hærri vexti en ég þarf að borga af láninu? En ég geng auðvitað út, hætti við að kaupa íbúðina eða fer í næsta banka til að athuga hvort kaupin gerist eitthvað öðruvísi á þeirri eyri. Þetta finnst mér mjög sennileg atburðarás. Gerðum við þetta ekki öll þegar við fengum húsnæðislánin okkar?
20.10.2008
Hver kann ekki að telja?
Mótmælafundurinn á Austurvelli á laugardag var mjög fjölmennur miðað við mótmælafundi almennt á Íslandi. Ég var þarna og sá með eigin augum. Í ljósi tregðu Íslendinga við að taka þátt í mótmælum sem ég skrifaði um hér var mætingin undraverð. Í sama pistli talaði ég um þann stimpil sem fólk hefur fengið á sig í gegnum tíðina taki það þátt í fjöldamótmælum. Í ljósi þeirra ummæla hefur verið fróðlegt að lesa skrif og athugasemdir á ýmsum bloggum og bloggsetrum. Ég fékk grun minn rækilega staðfestan auk þess sem ég furða mig á hvernig fólk snýr útúr hlutunum og skortir getu til að skoða þá í samhengi og tengja.
En mesta furðu mína vekja íslenskir fjölmiðlar. Þeir löptu upp tölu lögreglunnar um að 500 manns hefðu verið á fundinum. Það er fjarri lagi og þar sem fulltrúar margra fjölmiðla voru á staðnum hefðu þeir átt að vita betur. Vísir sagði "nokkur hundruð manns"; í pínulítilli frétt í Fréttablaðinu á sunnudag er talað um "fjölda fólks". Í vefútgáfu Moggans á laugardag var haft eftir lögreglunni að "á fimmta hundrað manns" væri á Austurvelli en það er sama hvað ég leita - ég finn ekki orð um mótmælin í Sunnudagsmogganum. Þar er ekki minnst einu orði á þessi fjölmennu mótmæli, en aftur á móti er þar frétt um mótmæli gegn Vísindakirkjunni einhvers staðar í Ameríku.
Það er alkunn staðreynd að þegar um einhvers konar mótmæli er að ræða sem yfirvöldum eru ekki þóknanleg dregur lögreglan verulega úr þeim fjölda sem tekur þátt í þeim. Að sama skapi er bætt við ef viðkomandi samkunda er yfirvöldum þóknanleg, s.s. 17. júní og Menningarnótt.
Björn Bjarnason er æðsti yfirmaður lögreglunnar, einn af dyggustu bandamönnum Davíðs Oddssonar. Allir vita á hvaða forsendum ríkislögreglustjóri fékk sitt embætti og það mun vera altalað að lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins sé hlynntur Flokknum þótt ég hafi ekki vitað það fyrr en ég fór að leita upplýsinga. Mér var líka sagt frá flokkshollustu ýmissa annarra hátt settra í lögreglunni sem ég nefni ekki hér.
Hvernig dettur fjölmiðlafólki í hug að tölur lögreglunnar séu réttar? Af hverju nota fréttamenn ekki eigin heilbrigða skynsemi til að áætla tölurnar sjálfir. Það mátti öllum vera ljóst sem voru á staðnum eða sáu myndir af mannfjöldanum að þetta voru margfalt fleiri en tölur lögreglunnar gáfu til kynna. Er verið að stýra umræðunni? Hæðast að almenningi - þeim sem mættu - og ljúga að þeim sem ekki mættu? Ef svo er þykir mér það ótrúlega bíræfið í ljósi ástandsins í þjóðfélaginu.
Í janúar skrifaði ég pistil um mótmælin í ráðhúsinu og vitnaði þar í ummæli Einars Mar Þórðarsonar, stjórnmálafræðings, í þættinum Vikulokunum á Rás 1. Þáttarstjórnandi spurði Einar: "Var þetta vanvirða við lýðræðið?" og Einar Mar svaraði á þessa leið: "Nei, veistu ég held ekki. Ég er nú svolítið hrifinn af svona mótmælum og þegar almenningur lætur til sín taka. Við köllum þetta "óhefðbundna stjórnmálaþátttöku"... (innsk.: borgaralega óhlýðni) ...eða "borgaralega óhlýðni" í stjórnmálafræðinni. Íslendingar eru alveg rosalega latir að láta til sín taka og alveg ómögulegir í þessari borgaralegu óhlýðni. Þannig að ég eiginlega bara dáist að fólki þegar það mætir svona og lætur í sér heyra. Mér finnst það bara hið besta mál." Ég er innilega sammála.
Ég bendi á myndir hjá Helga Jóhanni og Jóhanni Þresti sem báðir voru á staðnum og ljósmynduðu. Fyrr í kvöld heimsótti ég bloggið hennar Kristjönu, bloggvinkonu minnar, og sá að hún hafði sett inn slóð að Reuters-frétt sem hafði farið fram hjá mér. Þar kom fram að á Austurvelli voru um 2.000 manns. Það er miklu nær þeirri tölu sem við Kristjana, og fleiri sem voru þarna, hefðum giskað á.
Ég klippti saman fréttir RÚV, Stöðvar 2 og Reuters til samanburðar. Meti svo hver sem vill hvor talan er réttari - 500 eða 2.000.
Ég set líka hér inn myndband sem ég klippti saman eftir RÚV fréttirnar í kvöld. Mér blöskraði svo að sjá viðbrögð Árna Mathiesen við spurningum fjölmiðla að ég gat ekki orða bundist. Þótt Árni sé dýralæknir að mennt á að heita að hann gegni starfi fjármálaráðherra þjóðarinnar. Hann fær í það minnsta borgað fyrir það. Um þessar mundir er þjóðin skelfingu lostin og ævareið. Hún er á barmi gjaldþrots eftir gríðarlegar hremmingar í efnahagsmálum og enginn veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Hvernig vogar maðurinn sér að koma svona fram, snúa baki við okkur, sérstaklega undir þessum kringumstæðum? Er hægt að lítilsvirða þjóðina öllu meira?
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 22:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (70)
16.10.2008
Orð að sönnu
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 12:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
Það getur verið grátbroslegt að líta um öxl og skoða ummæli manna fyrir ekki svo ýkja löngu síðan. Ég var að leita að grein frá í lok febrúar til að birta í næsta pistli og sá þá fyrir tilviljun athyglisverða umsögn um útrásarmennina og áhangendur þeirra. Þetta er það fyrsta sem ég sá og varð til þess að ég rifjaði málið upp nánar:
Hér er umrædd umfjöllun Andrésar Magnússonar, læknis, í Silfri Egils 24. febrúar 2008.
Það næsta sem gerist er að Eyjan birtir umfjöllun um Andrés 27. febrúar, greinar hans og orð í Silfrinu. Þar kemur meðal annars fram að grein Andrésar sem vitnað er í hafi beðið í meira en mánuð eftir birtingu í Morgunblaðinu. Ég leitaði í greinasafni Morgunblaðsins en fann ekki greinina, svo líklega hefur hún aldrei birst þar. Greinin er hengd við þessa færslu í .pdf skjali, sjá neðst í pistlinum.
Því næst skrifar Hallgrímur Thorsteinsson bloggfærslu sama dag þar sem hann vísar í umfjöllun Eyjunnar og fleira. Þar er löng athugasemd frá téðum Hafliða Helgasyni þar sem hann leggur sig í líma við að gera lítið úr Andrési, orðum hans og skrifum. Hafliði segir m.a. um Andrés: "Niðurstaðan er að bankaútrásin sé blekking og raunhagnaður bankanna tekinn úr vasa húsnæðiskaupenda. Þessi niðurstaða er svo víðáttuvitlaus að það er hneisa að fjölmiðlamenn skuli ekki kanna grunn hennar áður en þeir hleypa henni í loftið." Einmitt það. Nú hefur aldeilis sannast hvor þeirra hafði rétt fyrir sér, Andrés eða Hafliði.
Það næsta sem ég sé er önnur umfjöllun á Eyjunni 28. febrúar þar sem lagt er út frá athugasemd Hafliða og fyrirsögnin er: "Víðáttuvitleysa að bankaútrásin sé blekking". Nánast á sömu mínútu að því er virðist skrifar Egill Helgason bloggfærslu um sama mál. Hafliði gerir athugasemd og hæðist að Agli: "Þakka þér fyrir málefnalegt innlegg laust við ad hominem og önnur billegheit. Þá ber að þakka miðlun af djúpstæðri þekkingu þinni á viðskiptum og hagfræði. Það er huggun harmi gegn í allri vitleysunni að umræðum á RÚV sé stjórnað af djúpvitrum jafnaðargeðsmönnum sem kafa undir yfirborð hlutanna og beita rökum og málefnalegri gagnrýni." Orðabókarskýring á latneska orðatiltækinu "ad hominem" er: "Sem höfðar til fordóma eða hagsmuna frekar en skynsemi."
Fram kemur í færslu Egils að Hafliði var einn þeirra sem áttu að fá feita kaupréttarsamninga þegar selja átti útrásarmönnunum sameiginlegar orkuauðlindir þjóðarinnar. Ekki furða að Hafliði hafi verið sár út í mann og annan.
Ég hvet fólk til að skoða þetta ferli og alla umfjöllun. Orð og framganga Hafliða, þar sem hann leitast við að niðurlægja og hæðast að þeim sem gagnrýndu útrásina á einhvern hátt eða drógu í efa heilindi útrásarmanna, er dæmigerð fyrir viðbrögð við varnaðarorðum þeirra sem sáu í hvað stefndi. Áður en Hafliði fór til starfa hjá REI var hann ritstjóri Markaðarins hjá Fréttablaðinu og hampaði útrásinni þar gagnrýnislaust. Nú situr þar í ritstjórastóli Björn Ingi Hrafnsson, forkólfur í Framsóknarflokknum; flokknum sem ber gríðarlega ábyrgð á því hvernig komið er í efnahagsmálum landsins. Björn Ingi spilaði líka stórt hlutverk í REI-málinu eins og Hafliði, sællar minningar. Er líklegt að Björn Ingi sé trúðverðugur ritstjóri eða þáttarstjórnandi nú um stundir með þennan feril á bakinu?
Mér er mjög minnisstætt það sem sagt var við mig endur fyrir löngu þegar mætur fréttamaður starfaði sem frétta- eða varafréttastjóri Ríkisútvarpsins. Það var eitthvað á þá leið að ef hann birti opinberlega allt sem hann vissi um menn og málefni þáverandi ríkisstjórnar myndi stjórnin springa í loft upp með miklum hvelli. Honum var treyst, hann virti trúnað og gerir það enn þótt hann sé löngu horfinn til annarra starfa. Blaða- og fréttamenn af betri sortinni vita miklu, miklu meira en þeir láta nokkurn tíma frá sér fara. Þeir búa yfir upplýsingum sem þeir annaðhvort geta ekki birt vegna trúnaðar eða gætu birt en fá engan til að staðfesta þær opinberlega.
Þetta kemur upp í hugann nú þegar Egill Helgason er gagnrýndur harkalega fyrir að koma með "aðdróttanir og dylgjur" í viðtali við Jón Ásgeir Jóhannesson. Egill hefur verið í "bransanum" óralengi og haldið úti Silfri Egils í 9 ár. Það þarf enginn að segja mér annað en að hann viti, rétt eins og blaða- og fréttamenn, miklu, miklu meira en hann lætur nokkurn tíma uppi. Þess vegna læðist að mér sá grunur, að af hálfu Egils hafi ekki verið um aðdróttanir eða dylgjur að ræða, heldur hafi reiðin blossað upp í Agli vegna þess sem hann veit fyrir víst en gat ekki sagt án þess að rjúfa trúnað. Ég vil taka skýrt fram að ég þekki Egil nákvæmlega ekki neitt - ekkert umfram aðra sem hafa fylgst með honum í fjölmiðlum undanfarin ár og er því ekki að vísa í persónulega vitneskju frá fyrstu hendi. Aðeins að viðra tilfinningu... grun.
Annað sem vekur athygli mína er hlutverk netsins - netmiðla og bloggs í umfjöllun líðandi stundar og miðlun upplýsinga. Allt of margir Íslendingar halda því ennþá fram að allt sem skrifað er í blogg sé bull og þvaður sbr. orð Víkverja nokkurs hér. Ekkert sé að marka nokkurn hlut nema hann birtist í prent- eða ljósvakamiðlum. Það er nú aldeilis öðru nær, ekki síst nú þegar Morgunblaðið og Fréttablaðið hafa sameinast undir einn hatt. Nú verður bloggið enn mikilvægara og enn meiri þörf á vönduðum bloggurum og sjálfstæðum netmiðlum eins og Eyjunni en áður. Og pennum sem sjá ekki umheiminn með flokkspólitískum gleraugum. Umfjöllunin hér að ofan er gott dæmi um það. Best væri auðvitað ef allir þessir þættir fjölmiðlunar gætu spilað saman - og þeir gera það upp að vissu marki. Látum þessa vitneskju ganga til þeirra sem enn hafa ekki áttað sig á mikilvægi þessara staðreynda.
Að lokum tölvupóstur sem ég var að fá rétt í þessu frá vinkonu minni. Hún segir ekki vitað um uppruna hans en ég hef vissan Friðrik grunaðan þótt óstaðfest sé með öllu:
Engin kreppa á Eyrarbakka.
- Á Bakkanum gengur lífið sinn vanagang í kyrrð og ró.
- Ekki þurfum við að óttast bankahrun því hér er enginn banki. Bankinn fór héðan árið 2001 til þess að taka þátt í Matador í útlöndum og nú er spilið tapað eins og alþjóð veit.
- Við þurfum heldur ekki að óttast vöruskort í kaupfélaginu, því kaupfélagið fór í leiðangur árið 2002 og hefur ekki sést síðan.
- Ekki þurfum við að óttast atvinnuleysi í plássinu því hér hefur enga atvinnu verið að hafa síðan iðnaður og sjávarútvegur lagðist af árið 2006.
- Það voru engin rússnesk lán tekin til að bjarga hreppssjóðnum því hreppurinn hefur ekki verið til síðan árið 1998.
- Við erum þrátt fyrir þetta bjartsýn og horfum fram á veginn því héðan liggur leiðin bara upp.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 20:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
Ég held að ég hafi aldrei á ævinni upplifað þetta áður. Að bíða með öndina í hálsinum eftir sjónvarpsþætti. Veit að fleiri hafa gert það líka. Ekki vildi ég vera í sporum Egils með stóran hluta þjóðarinnar á herðunum. Allir vilja láta spyrja ákveðinna spurninga um það sem á þeim brennur og fá skýr svör við þeim. Miðað við aðstæður fannst mér Egill standa sig nokkuð vel undir þessari pressu þótt eflaust megi gagnrýna eitthvað líka. En hefði einhver annar gert betur? Hver?
Í Morgunblaðinu í gær var stórfínt viðtal við Pál Skúlason, heimspeking og fyrrverandi rektor Háskóla Íslands. Þar sagði Páll meðal annars: "Ég hef sterka tilhneigingu til að álíta að sú hugmyndafræði sem hefur drottnað yfir þjóðfélagi okkar og heiminum undanfarið sé háskaleg mannlegu siðferði. Ég kalla þessa hugmyndafræði "markaðshyggju", en hún snýst um að líta svo á að öll mannleg samskipti séu viðskipti og að heimurinn snúist ekki um annað en að kaupa, selja og græða. Þessi boðskapur hefur dunið á okkur í mörg ár og er ekki heppilegur. Honum fylgja því miður oft óheilindi sem ógna og stuðla að upplausn hins sameiginlega veruleika okkar." Er hægt að hafa réttara fyrir sér?
Páll sagði ennfremur: "Það segir sig sjálft að áður var ekki allt í himnalagi í samfélagi okkar. Alls konar vandamál voru dulin og falin í þeim heimi sem nú er að vissu marki að hrynja. Ég held að fjármálakreppan stafi að verulegu leyti af því að stjórnmálasviðið brást og það reglukerfi sem þarf til að halda utan um mannfélagið. Hér er ég ekki bara að tala um íslenska ríkið heldur ríki veraldarinnar."
Og ein tilvitnun enn: "Í heiminum er miklu meira af ranglæti en réttlæti. Við þurfum að vinna gegn ranglæti og reyna að tryggja sem allra mest réttlæti í heimi þar sem fólk er að tapa miklu og veit ekki hvernig það á að komast af. Þarna reynir á sameiginlegt siðferði þjóðarinnar og þar skipta réttlætiskenndin og sanngirnin miklu máli." Hvernig er annað hægt en að taka undir með Páli? Ég held að þó nokkuð margir þurfi nú að líta í eigin barm, endurmeta lífsgildi sín og hressa verulega upp á réttlætiskenndina.
En hér er Silfur dagsins í bútum.
Vettvangur dagsins - Dagur, Svandís, Sigmundur Davíð og Guðrún P.
Ragnar Önundarson - greinaflokkur hans er hér
Jóhanna Sigurðardóttir
Jón Ásgeir Jóhannesson
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 16:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
12.10.2008
Afleitar fréttir af frábærum bloggara
Einn af mörgum samfélagsrýnum og gæðabloggurum sem ég hef lesið lengi segist vera hættur að blogga og skýrir ástæður þess í síðasta pistli sínum. Þetta eru afleitar fréttir því ekki veitir af röddum eins og hans, ekki síst nú. Þegar búið er að leggja niður eitt dagblað og sameina hin tvö - eða setja undir sama hatt - verður netið mikilvægari miðill en nokkru sinni og nauðsynlegt að raddir eins og hans heyrist hátt og snjallt. Kveðjupistillinn hljóðar svona:
Bloggari fellur í valinn
11/10 2008 17:41
Ég hef nú haldið úti bloggi á íslensku í nokkur ár, fyrst á ókeypis lénum, en frá 2005 hér á baldurmcqueen.com. Tilgangurinn hefur verið tvíþættur. Annars vegar viðhald íslenskrar tungu; hins vegar sú von að mjóróma rödd mín gæti, í samsöng með öðrum, breytt einhverju.
Nú er svo komið að ég sætti mig við að seinna markmiðið hefur mistekist. Jafnvel í dag, þegar þjóðin glímir við alvarlegustu kreppu sem upp hefur komið í lífi flestra, sættir hún sig við að þeir leiði sem valdið hafa mestum skaða. Ekki einn einasti haus hefur fengið að fjúka á Íslandi og hafa þó tilefnin verið fleiri en flestar þjóðir myndu sætta sig við. Það sýnir betur en flest annað að árangur hefur ekki náðst.
Íslensk þjóð er nú stödd á stað sem mér líkar ekki. Hér á ég ekki við meint gjaldþrot, heldur viðbrögðin við því. Smátt og smátt hefur djúp samúð breyst í reiðiblandað vonleysi. Það sætti ég mig ekki við.
Sérstaklega þegar sú reiði hittir fyrir vini sem mér þykir vænt um og þann stóra hluta þjóðarinnar sem fátt vildi annað en lifa hófsömu lífi í fögru landi.
Læt ég nú bloggi þessu lokið; síður en svo í sjálfsvorkunn, heldur töluverðri tilhlökkun. Nú mun ég nota tímann í að lifa lífinu þar sem ég bý, með mínum ástvinum, laus undan bloggkvöð og lestri íslenskra fjölmiðla. Þessi vefur mun hugsanlega hverfa - hugsanlega rísa upp með allt öðrum efnistökum.
Íslensk þjóð mun aldrei vakna.
Ég hef gefist upp.
Kærar þakkir til þeirra sem lásu.
Ég vona menn skilji hví athugasemdum hefur verið lokað á öllum færslum.
Þrasinu er lokið.
_________________________________________________
Mér líst ekkert á að rödd Baldurs McQueen hljóðni en samt skil ég hann mjög vel. Sjálfri líður mér oft einmitt svona og skil ekkert í mér að eyða ómældum tíma og orku í að reyna að vekja, þótt ekki sé nema brot af þjóðinni, af því sinnuleysismóki sem hún hefur legið í allt of lengi. Um þetta fjallar meðal annars þetta og þetta og reyndar flest sem ég hef skrifað og birt á síðunni þetta tæpa ár sem ég hef bloggað.
Kannski fer ég sömu leið og Baldur, fell í vonleysisvalinn og gefst upp - kannski ekki. Þetta er alltaf spurning um í hvað maður vill verja tíma sínum og hversu lengi hægt er að leyfa sér að láta baráttuna bitna illilega á lifibrauðinu.
Ég held að minnsta kosti ennþá í þá von að margar mjóróma raddir geti breyst í öflugan kór og haft áhrif. Ég skora á Baldur að skipta um skoðun og halda áfram að láta rödd sína heyrast. Vonandi taka fleiri undir þá áskorun mína.
Moggi dagsins er stútfullur af alls konar athyglisverðu efni og byrjar strax á forsíðunni með mynd af einum fallegasta fossi á landinu, Aldeyjarfossi í Skjálfandafljóti. Kynnt er vikuyfirferð í máli og myndum yfir þau svæði sem talin eru helstu virkjanakostir landsins. Fyrsta umfjöllunin er í dag og það eru 3 heilsíður með fallegum myndum. Það eru þeir Önundur Páll Ragnarsson, blaðamaður, og Ragnar Axelsson, ljósmyndari, sem fjalla um málið. Ég hvet alla til að skoða þessa umfjöllun vandlega. Kannski ég megi birta þetta allt hér, það yrði kannski bara ágæt birtingarviðbót en ég veit ekki hvað Moggamenn segðu við því. Hver ætli ráði þessu?
Ég ætla að minnsta kosti að sýna forsíðuna með von um að hún kveiki áhuga fólks á að sjá það sem eftir er. Um leið vek ég athygli á vefsíðu sem komið var á fót fyrir nokkrum dögum þar sem hægt er að skrá sig á baráttulista fyrir verndun vatnasviðs Skjálfandafljóts. Nú, þegar þetta er skrifað, hafa 775 manns skráð sig á listann og væntanlega fjölgar nöfnum gríðarlega á næstu dögum og vikum. Yfirvöld, bæði ríkis og sveitastjórna, verða að átta sig á að þjóðin vill ekki fórna landinu til að reisa virkjanir og selja orkuna á útsöluverði til erlendrar stóriðju. Smellið tvisvar á greinina til að stækka hana í læsilega stærð.
Fyrir utan virkjanaumfjöllunina eru ótalmargar greinar í blaðinu að venju, bæði skiljanlegar og óskiljanlegar, dagsannar og minna sannar, aðsendar og heimatilbúnar, góðar og slæmar. Þessi fannst mér bera af.
Fjölmiðlar | Breytt s.d. kl. 15:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
7.9.2008
Ádeilan í skopinu
Í skopmyndum getur falist hárbeitt ádeila. Skopmyndateiknurum er sem betur fer ekkert heilagt og þeir skjóta á allt og alla eins og vera ber. Að öðrum ólöstuðum finnst mér Halldór Baldursson bera af. Honum tekst dag eftir dag að ná kjarna sérhvers máls sem hann fjallar um í myndum sínum og verst finnst mér að 24stundir, þar sem teikningar Halldór birtast, koma bara út fimm daga í viku.
Svona var mynd Halldórs í gær.
Dónald er líka í 24stundum og einmitt í gær birtist þessi teikning eftir hann um sama efni, hvort sem það er tilviljun eða ekki.