Færsluflokkur: Dægurmál

Pólitískir svanasöngvar

Sjálfstæðismenn virðast eiga bágt með að þola frjálsa fjölmiðlun og opna, gagnrýna umræðu. Ekki ber á öðru en að gagnsæi og hreinskiptni séu eitur í þeirra beinum. DV hefur verið að skrifa um meint brask formannsins, Bjarna Benediktssonar, og hvernig hann skuldbatt og veðsetti fyrirtæki fjölskyldunnar fyrir milljarða...

Framhald hér...


Kreppukaldhæðni

Í dag rak ég augun í blað á eldhúsborðinu sem ég renni stundum yfir á netinu. Markaðurinn heitir það og er fylgiblað Fréttablaðsins - einu sinni í mánuði nú orðið, enda kannski ekki mikið að gerast á þeim vettvangi. Það sem vakti athygli mína voru tvær auglýsingar á forsíðunni. Önnur efst, hin neðst.

Framhald hér...


Sjálfstæðishetjur með saltfisk í hjartastað

Þetta var pínlegra en orð fá lýst. Ég trúði varla eigin augum og eyrum. Í fyrsta lagi var það meðferð borgaryfirvalda á okkar minnstu bræðrum og í öðru lagi vanþekking, vesaldómur og fullkominn skortur á hluttekningu formanns Velferðarráðs Reykjavíkurborgar, sjálfstæðiskonunnar Jórunnar Frímannsdóttur. Hún á fyrir jólamatnum og gjöfum til barnanna sinna - og þá varðar hana ekki um aðra. Reglurnar eru nefnilega svo gagnsæjar.

Framhald hér...


"Íslensk tunga á best við í íslenskum kaupstað, hvað allir athugi!"

Fyrir um það bil tveimur árum ætlaði ég að skrá öll málblómin og ambögurnar sem ég las og heyrði í fjölmiðlunum. Ég gafst fljótlega upp, þetta hefði verið full vinna. Þó var þetta löngu fyrir hrun og ekki hætt að prófarkalesa texta í jafnmiklum mæli og nú. Þegar peningar eru annars vegar og gróðinn minnkar er byrjað á að spara "ósýnilegu" störfin. Gallinn er bara sá að þá verða ambögurnar sýnilegri og skera augu og hlustir svo hvín í.

Ég hef marga hildi háð við íslenskuna á 22ja ára ferli við þýðingar, einkum skjátextagerð. Þó finnst mér ég ekki hafa náð nema þokkalegum árangri og öðlast sæmilegan orðaforða. Íslenskunám er ekki eitthvað sem maður afgreiðir þegar grunnskóla eða framhaldsnámi lýkur - það er lífstíðarglíma ef vel á að vera og bóklestur er þar besta námið. Ef bókin er vel skrifuð eða vel þýdd.

Flestir muna eftir umræðunni þegar bankamenn vildu gera ensku að ráðandi máli í bönkunum og jafnvel fleiri fyrirtækjum á Íslandi og alþingismaður nokkur stakk upp á að enska yrði jafnrétthá íslensku í stjórnsýslunni á Íslandi. Skiptar skoðanir voru um þetta en mig minnir að langflestum hafi þótt þetta fáránlegar hugmyndir - sem betur fer.

Þegar ég fór að lesa blogg kom mér skemmtilega á óvart hve margir voru vel ritfærir. Maður las ljómandi góðan texta eftir bláókunnugt fólk sem hafði loksins öðlast vettvang til að tjá sig opinberlega í rituðu máli. Það var verulega ánægjulegt að sjá hve margir lögðu metnað í að koma skoðunum sínum frá sér á góðri íslensku. Að sama skapi er sorglegt að lesa eða hlusta á fólk sem kemur varla frá sér óbrenglaðri setningu og grípur jafnframt hvað eftir annað til enskunnar þegar því er orða vant á móðurmálinu. Þetta er hættuleg gryfja sem smitar út frá sér og sorglegast er að verða vitni að þessu daglega í fjölmiðlunum. Enginn fjölmiðill er þar undanskilinn, en enginn er heldur fullkominn og ekki ætlast til þess. Slangur og slettur geta átt fullan rétt á sér í skemmtilega skrifuðum eða fluttum texta en þegar maður heyrir hluti eins og um "fráskildan" mann og að fólk hittist "í persónu" í fréttatímum er eiginlega of langt gengið. Öll gerum við mistök í meðferð móðurmálsins, það er óhjákvæmilegt og ekkert til að skammast sín fyrir. En er þetta ekki orðið of mikið... eða er ég bara svona gamaldags?

Ég flutti svolítinn pistil um íslenskuna á Morgunvaktinni á föstudaginn, hljóðskrá fylgir neðst. Ég gerði meira að segja mistök í þessum málfarspistli sem einn ágætur hlustandi benti mér á í tölvupósti og ég var honum mjög þakklát.

Morgunvakt Rásar 2

Ágætu hlustendur,

Á tyllidögum er talað fjálglega um mikilvægi íslenskrar tungu og þátt hennar í menningu okkar, sjálfstæði og þjóðlegri reisn. Lögð er áhersla á nauðsyn þess að viðhalda tungunni og margar nefndir eru starfandi til að finna eða búa til ný íslensk orð yfir hvaðeina sem skýtur upp kollinum í tæknivæddu samfélagi nútímans. Sum nýyrðin verða töm á tungu og festa sig í sessi, en önnur hverfa og gleymast.

Semsagt - íslenskan er talin vera einn mikilvægasti þjóðarauður Íslendinga og eitt af því sem gerir okkur að þjóð. Gott og vel.

Ég efast ekki um að þjóðhöfðingjum og öðrum sem leggja áherslu á mikilvægi íslenskrar tungu í fortíð, nútíð og framtíð og lofa hana í hástert, sé alvara með orðum sínum. En gallinn er sá, að boðskapurinn nær sjaldnast lengra en í hástemmdar ræðurnar og honum er aðeins  hampað á eina degi ársins sem tileinkaður er íslenskunni, 16. nóvember, afmælisdegi Jónasar Hallgrímssonar, þjóðskálds. Meira að segja þeir sem hafa vald til að gera eitthvað sitja með hendur í skauti og hafast ekki að til varnar móðurmálinu. Sagt var frá því, daginn fyrir Dag íslenskrar tungu fyrr í vikunni, að íslenska sé ekki lengur hluti af skyldunámi kennaranema. Það er dæmigert fyrir það kæruleysi og dugleysi sem einkennir allt sem snýr að verndun og viðhaldi tungunnar.

Í hinum áhrifamiklu fjölmiðlum er okkur boðið upp á málvillur, ambögur, stafsetningarvillur og ýmiss konar fáránlegan framburð og framsögn með ankannalegum og óþægilegum áherslum. Enda er prófarkalestri og málfarsráðgjöf ekki gert hátt undir höfði í fjölmiðlunum og víða virðist slíkum meintum óþarfa hreinlega hafa verið úthýst með öllu. Metnaður fjölmiðla til að vanda mál og framsetningu virðist vera að hverfa - þrátt fyrir áðurnefnd tyllidagaerindi og þennan eina dag á ári sem helgaður er móðurmáli Íslendinga.

Áhyggjur af framtíð íslenskunnar eru ekki nýtilkomnar. Fyrir rúmum 160 árum, í febrúar árið 1848, lét bæjarfógetinn í Reykjavík festa upp auglýsingu í bænum þar sem á var ritað: "Íslensk tunga á best við í íslenskum kaupstað, hvað allir athugi". Til áhersluauka gengu menn um bæinn, börðu bumbur og hrópuðu þessi hvatningarorð. Um kvöldið voru gefnar út nýjar reglur þar sem sagði meðal annars: "Næturvörður skal hrópa á íslenskri tungu við hvert hús". Á þessum tíma var íbúafjöldi í Reykjavík um ellefu hundruð manns og ýmsir höfðu áhyggjur af áhrifum dönsku herratungunnar á íslenskuna.

Svona uppákomur til málhreinsunar þættu hjákátlegar nú á dögum, en engu að síður er bráðnauðsynlegt að gera miklu meiri kröfur til móðurmálskunnáttu þeirra, sem tjá sig á opinberum vettvangi og þá einkum í útbreiddum fjölmiðlum. Stjórnendur miðlanna verða að gera sér grein fyrir áhrifamætti þeirra og gera íslenskri tungu mun hærra undir höfði en nú er gert. Málfarslegur sóðaskapur dregur úr trúverðugleika alls boðskapar - ekki síst frétta.

Enginn biður um fullkomnun, hún er ógerleg. Og lifandi tungumál breytist í áranna rás, þróast og þroskast. Það er ofureðlilegt. En öllu má ofgera og þegar kynslóðir eru hættar að skilja hver aðra og orðaforði, málskilningur og máltilfinning unga fólksins að hverfa, þá er mál að staldra við og hugsa sinn íslenskugang.

Við eigum að hafa 365 daga á ári Daga íslenskrar tungu og vernda móðurmálið okkar.

***********************************************

Spaugstofan gantaðist með þetta á laugardaginn eins og sjá má og heyra.

Spaugstofan 21. nóvember 2009

 

Þetta var útfærsla Spaugstofunnar á þekktu lagi eftir Atla Heimi Sveinsson við texta Þórarins Eldjárn. Það var notað í auglýsingu Mjólkursamsölunnar sem hefur verið dugleg við að hampa íslenskunni. Hér er frumgerðin, söngkonan unga heitir Alexandra Gunnlaugsdóttir.

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hlekkir hugarfarsins

Morgunvakt Rásar 2

Ágætu hlustendur...

Eitt af því sem einkenndi íslensku þjóðina, a.m.k. undanfarna áratugi, var að yppta öxlum og segja: "Þetta er bara svona!" þegar valdhafar misbuðu henni - og gjarnan mjög gróflega. Annars vegar vissi fólk sem var, að ekki yrði hlustað á kvartanir eða því yrði jafnvel refsað á einhvern hátt fyrir þá ósvífni að andmæla yfirvaldinu. Hins vegar var búið að heilaþvo þjóðina og afmá samfélagshugsun og náungakærleik hennar. Hugarfarið hafði verið einkavætt og hver orðinn sjálfum sér næstur. Samvinna og samhjálp var strokað út úr huglægum orðasöfnum Íslendinga.

Þetta var skelfileg þróun sem margir vonuðu að myndi snúast við eftir hrun - en það er nú öðru nær! Líklega heyrum við einna best að þetta hugarfar er enn við hestaheilsu, þegar hlustað er á yfirgengilega heimtufrekju bæjarstjórans í Reykjanesbæ og nokkurra  meðreiðarsveina hans. Þeir krefjast þess að fá allt upp í hendurnar; að þéttbýlasta svæði landsins þurrausi orkuauðlindir sínar og leggi náttúruperlur í rúst til að skapa þeim nokkur störf í óarðbærum atvinnurekstri. Svo heimta þeir milljarðahöfn og þjóðin á að borga. Þarna er "ég um mig frá mér til mín" hugsjónin lifandi komin. Hvorki vilji né geta fyrir hendi til að horfa á heildarmyndina og taka tillit til náungans.

Samtök atvinnulífsins, sem eru hávær sérhagsmunasamtök, og Alþýðusamband Íslands, sem enginn veit fyrir hverja vinnur og hefur ekkert með alþýðu manna að gera lengur, taka undir í þessum frekjukór og reyna að valta yfir heilbrigða skynsemi. Talsmönnum þessara sérhagsmunahópa er fyrirmunað að skilja, að fyrirhyggju- og agaleysi er aðferðafræði fortíðar og ef við ætlum að lifa áfram í þessu landi og búa afkomendum okkar öruggt skjól, þá verðum við einfaldlega að stíga varlega til jarðar. Skipuleggja vandlega áður en við framkvæmum í stað þess að æða út í óvissuna í græðgisham með skammtímareddingar og treysta á guð og lukkuna.

Guðmundur Andri Thorsson skrifað magnaða minningargrein um Morgunblaðið á vefsíðu Tímarits Máls og menningar í vikunni. Hann sagði meðal annars þetta:

"Ég vil ekki Davíð Oddsson, Ólaf Ragnar Grímsson, Jón Ásgeir Jóhannesson, Jóhannes Jónsson, Björgólf Thor. Ég vil ekki Sigurð Einarsson, Baldur Guðlaugsson, Existabræður, Bakkabræður, Kögunarfeðga, N1-frændur... og hvað þeir heita allir, bankaskúmarnir og viðskiptaminkarnir.

Ég vil þá ekki. Þeir eru frá því í gær; þeir sköpuðu okkur gærdaginn og eru staðráðnir í að láta morgundaginn verða á forsendum gærdagsins. Enn sjá þeir ekki sína miklu sök, sína stóru skuld, vita ekki til þess að þeir hafi gert neitt rangt. Þeir mega ekki halda áfram eins og ekkert hafi í skorist, vegna þess að það hefur allt í skorist - allt hrundi, allt fór.

Ég vil ekki sjá að þeir komi nálægt því að skapa það þjóðfélag sem bíður barnanna minna og þeirra barna. Þeir standa fyrir hugmyndafræði sem má aldrei oftar trúa, aðferðir sem má aldrei oftar beita."

Þetta sagði Guðmundur Andri.

Ég skora á Íslendinga að brjótast úr hlekkjum hugarfarsins og byrja á að breyta sjálfum sér.

****************************************

Ef einhver skyldi velkjast í vafa um hvaða hlekkir hugarfarsins eru einna hættulegastir er hér lítið, glænýtt dæmi.

Flestir hafa trú á Davíð Oddssyni - RÚV - vefur - 28. október 2009


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Vísdómsorð sem vega þungt

Þessum vísdómsorðum ætla ég að beina til alþingismanna og ráðherra af báðum kynjum og þakka Sólveigu Ólafsdóttur kærlega fyrir þetta frábæra innlegg í athugasemd við þennan pistil

Í bókinni Stríð og söngur, eftir Matthías Viðar Sæmundsson, sem kom út hjá Forlaginu árið 1985 er viðtal við Guðrúnu Helgadóttur þar sem Vilmundur kemur við sögu. Guðrún hefur orðið:

"Stjórnmálalmenn eru haldnir þeirri villutrú, að tilfinningalíf og stjórnviska fari ekki saman. Flestu fólki hættir raunar til þess að skipta daglegu lífi sínu í hólf þar sem ekki er innangegnt á milli. Á daginn nota menn vitið, á nóttunni Guðrún Helgadóttir, rithöfundur og fyrrverandi alþingismaðurástina, og listina við sýningaropnun á laugardagseftirmiðdögum. En vit ástar og lista er engin viska, ekki heldur stjórnviska.

Þær konur sem ganga inn í heim þeirra stjórnmála, sem karlmenn hafa búið sér til, ættu að forðast þetta sundurhólfaða líf. Við eigum einmitt að opna á milli hólfanna. Það er engin ástæða til að vera eins og heil hreppsnefnd í framan þó að maður sé á þingi. Því síður er það fólk traustvekjandi sem misst hefur lífsneistann úr augunum.

En lífsneistinn er kulnaður, af því að allir eru að þykjast. Auðvitað eru allir að skrökva, að sjálfum sér og öðrum. Engri manneskju er þetta líf eðlilegt, en fæstir þora að opna á milli. Hvers vegna skyldi ekki geta verið gaman að sitja á Alþingi? Alþingi ætti að vera staður gleði og tilhlökkunar. Til hvers erum við þarna? Til þess að gera líf fólksins gott og fallegt. Eða hvað?

Nei. Aðallega eru þarna ábúðarmiklir karlar að lesa hver öðrum tölur úr Fjárhagstíðindum og skýrslum Þjóðhagsstofnunar, dauðir í augunum. Orð eins og börn, konur, list, ást hamingja, fá menn til að fara hjá sér, þau bera tilfinningasemi vott. Og tilfinningar eiga ekki heima á Alþingi. Innst inni finnst þeim konur ekki eiga að vera þar heldur. Þeir eru svo hræddir um að við gleymum vitinu heima á morgnana og komum með ástina með okkur í vinnuna.

Stundum sakna ég Vilmundar. Hann átti það til að taka vitlausa tösku."

Mér finnst við hæfi eftir þessi vísdómsorð Guðrúnar að setja inn lagið Elska þig af plötunni Von með Mannakornum sem flutt var í Kastljósi fyrir skemmstu.

 


Svívirða, sársauki, sorg og söknuður

Ég hef verið að velta ýmsu fyrir mér, rifja upp, pæla í þjóðarsálinni, merkingu orðanna, skilning okkar á þeim og samhengi hlutanna. Ég hef verið að hugsa um fólk og hvernig það upplifir kreppuna. Ég hitti lítinn hóp af góðu fólki eitt kvöldið í vikunni. Þar sagði ung kona: "Þetta er velmegunarkreppa". Það má til sanns vegar færa - a.m.k. hjá sumum. Önnur kona sagði reynslusögu. Hún var í apóteki og fyrir framan hana í röðinni var gömul kona að sækja lyfin sín. Þegar verið var að afgreiða gömlu konuna fór hún að skjálfa - hún grét. Þarna stóð hún með aleiguna í höndunum, 12.000 krónur. Lyfin kostuðu 9.000. Átti hún að borga lyfin og eiga bara 3.000 krónur til að lifa af út mánuðinn eða...? Þessi gamla kona var ekki að upplifa velmegunarkreppu.

Eflaust er þetta veruleiki margra þótt eldri borgarar séu kannski í meirihluta af því þeir hafa ekki tök á að auka tekjur sínar á neinn hátt. En þetta er gömul saga og ný. Það hefur alltaf verið til fátækt á Íslandi og alltaf hefur verið stéttskipting í okkar "stéttlausa", litla þjóðfélagi. Kannski er þetta meira áberandi nú en alla jafna, ég veit það ekki. Maður spyr sig hvers vegna í ósköpunum ekki er hægt að jafna lífsgæðin betur í örsamfélagi eins og okkar - af hverju þeir sem hafa yfrið nóg og gott betur geta ekki hunskast til að hjálpa sínum minnstu bræðrum og systrum. Af hverju nokkrum einstaklingum finnst bara sjálfsagt að velta sér upp úr peningum eins og Jóakim aðalönd á meðan aðrir eiga ekki til hnífs og skeiðar.

Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki slíkan þankagang - hef aldrei gert og mun aldrei gera. Mér finnst þetta svívirðilegt og óafsakanlegt.

Svo er það sársaukinn. Við vorkennum okkur alveg óskaplega. Okkur finnst illa með okkur farið af alþjóðasamfélaginu svokallaða. Fólk, sem fætt er með silfur- eða jafnvel gullskeiðar í munni og hefur ekki hugmynd um hvað það er að líða skort eða þurfa að neita sér um nokkurn hlut, lætur eins og heimurinn sé að farast af því það fær ekki sínum prívatvilja framgengt í öllum málum svo það geti hlaðið enn meira undir sig og sína.

Mér hefur æ oftar, í öllum ósköpunum sem hafa gengið á, orðið hugsað til forsíðumyndar á tímariti sem ég kom auga á fyrir margt löngu. Ég keypti tímaritið og geymdi forsíðumyndina. Ég gerði það til að minna sjálfa mig á hvað ég hef það helvíti gott - hvað sem á gengur og þrátt fyrir allt og allt. Til að minna sjálfa mig á hve kvartanir okkar Íslendinga yfir léttvægum, efnislegum lífsgæðum eru í raun fáránlegar þegar upp er staðið. Þetta var í ágúst árið 1992 og myndin var á forsíðu The Economist. Stríðið í Bosníu var í algleymingi og þar átti fólk um sárt að binda. Ég gróf þessa forsíðu upp og skannaði hana inn í tölvuna. Sjáið þið það sem ég sá þá og sé enn? Hvað erum við að kvarta?

The Economist - forsíða - ágúst 1992

Ég hef líka verið að hugsa um stjórnmálin og stjórnmálamennina og -konurnar. Reyni öðru hvoru að fylgjast með umræðunum á Alþingi en gefst alltaf upp. Þvílíkur farsi! Þvílíkar gervimanneskjur og gervimálstaður sem þar er á ferðinni! Hvaða fólk er þetta eiginlega sem kosið var til að leiða þjóðina á erfiðum tímum? Gjammandi gelgjur og útblásnar blaðurskjóður? Það er undantekning ef einhver kemur í ræðustól og talar af hugsjón, skynsemi og sannfæringu. Þá hugsa ég til Vilmundar Gylfasonar og hans stutta en minnisstæða ferils á þingi. Og ég sakna heiðarlegra hugsjónamanna og -kvenna sem hægt er að treysta.

Vilmundur lést langt fyrir aldur fram og hans var sárt saknað af ótalmörgum. Blöðin voru uppfull af minningargreinum um hann, en ein er mér minnisstæðust þeirra allra. Það var persónulegasta og stórkostlegasta minningargrein sem ég hafði lesið á þeim tíma, og hún var eftir Guðrúnu Helgadóttur sem þá sat á þingi fyrir Alþýðubandalagið.

Guðrún sagði m.a. í minningargrein sinni, sem bar hinn einfalda titil Til Vilmundar og birtist í Þjóðviljanum á útfarardegi Vilmundar 28. júní 1983: "Þú þoldir svo miklu meira en ætla mátti, vegna þess að þú varst svo heiðarlegur og sanntrúaður á málstað þinn, og svo ótrúlega lítið kænn. Fyrir þá eiginleika kveðja þig í dag þúsundir Íslendinga í einlægri sorg. Þeir vita að við eigum kappnóg af kænu fólki." Svo segir Guðrún seinna: "Sannleikann í þér tókst þér aldrei að dylja. Þess vegna þótti svo mörgum vænt um þig, og þess vegna var ýmsum ekkert hlýtt til þín. Sannleikurinn er ekki öllum fýsilegur fylgisveinn." (Af hverju tengi ég þessi orð við Bjarna Ben og Sigmund Davíð... og fleiri af þeirri sort?) Í grein sinni minnist Guðrún á ræðu ræðanna á Alþingi - ræðu sem enn þann dag í dag er talin sú besta sem þar hefur verið flutt. Takið eftir ummælum Vilmundar um nýja stjórnarskrá og varðhunda valdsins. Ég hengi ræðuna neðst í færsluna.

Það er þetta með stjórnmálamenn, heiðarleikann og sannleikann. Hve marga stjórnmálamenn sem nú sitja á þingi væri hægt að skrifa slík eftirmæli um?

Til Vilmundar - Guðrún Helgadóttir - Þjóðviljinn 28. júní 1983


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Á að reka eða raka?

Og Ketill orkubloggari sendi Birni þetta bréf.

Reka eða raka Egil - Halldór Baldursson - Morgunblaðið 22. október 2009


Réttur karla sem vilja ríða konum

Nú hljóma fréttir um mansal og glæpaklíkur því tengdu í öllum fjölmiðlum. Það fer um mann nístandi hrollur við tilhugsunina um að konur neyðist eða séu neyddar til að selja sig - hver sem ástæðan er og hver sem á því hagnast fjárhagslega. En þetta er gömul saga og ný og alltaf eru einhverjir sem mæla vændi bót eins og Una Sighvatsdóttir bendir á í stórfínum pistli í Mogganum í dag. Í honum bendir Una m.a. á hina göfugu frjálshyggjumenn og -konur í Frjálshyggjufélaginu sem standa vörð um réttindi karla sem vilja ríða konum. "Tilraunir til að stjórna lífi borgaranna..." er eitur í beinum frjálshyggjunnar eins og sást t.d. á afnámi regluverks í fjármálaheiminum, sem varð efnahag Íslands að fjörtjóni. Kannski er það misskilningur hjá mér, en mér virðast frjálshyggjumenn vera mestu anarkistarnir af öllum.

Gamlir ósiðir - Una Sighvatsdóttir - Mbl. 21. október 2009

Þessi sena úr kosningaþætti á RÚV 20 apríl sl. er ógleymanleg. Hér er það Ragnheiður Elín sjálfstæðiskona sem virðist bera óblandna virðingu fyrir því sem hún minnir á að sé "elsta atvinnugreinin". Flokkur Ragnheiðar Elínar hefur aldrei beitt sér af neinni alvöru gegn vændi eða reynt að sporna við því. Maður spyr sig af hverju... Ekki má skerða "frelsi" einstaklingsins til athafna, jafnvel þótt það frelsi leiði til helsis annarra. Það á miklu frekar að reka Egil Helgason fyrir að hampa sannleikanum og taka afstöðu með honum. Sannleikanum verður enda hver sárreiðastur.

 

Að lokum bendi ég á stórfurðulegt, mótsagnakennt viðtal við súlukóng Íslands sem ég birti hér.


Vor hreina, baneitraða orka

Næstur er pistill frá 9. september 2008 og enn er fjallað um hina "hreinu og endurnýjanlegu" orku í tilefni þess að fréttir bárust af gróðurskemmdum í kringum Hellisheiðarvirkjun. Gróður, sem hafði tekið 1000 ár að myndast, var skemmdur eða dauður eftir 2 ár í námunda við virkjunina. Hengi útvarpsfréttir um málið neðst í færsluna, svo og fréttir um sams konar gróðurskemmdir hjá Svartsengi. Viljum við fara svona með landið okkar?

****************************************************

Þessi stórfrétt birtist fyrst á mbl.is klukkan 13:49 í gær, mánudag. Hún kom í örmynd í fimmfréttum Ríkisútvarpsins en lengri umfjöllun var í kvöldfréttunum klukkan 18 (sjá neðst í færslu). Hvorug sjónvarpsstöðin var með fréttina í gærkvöldi.



Í tengslum við þessa frétt varð ég vör við, bæði á blogginu og í samtölum við fólk, að þetta kom á óvart. Þekking á jarðhita og jarðhitavirkjunum er ekki mjög almenn og því hefur orkufyrirtækjum, virkjanasinnum og stjórnvöldum reynst auðvelt að telja fólki trú um að jarðhitavirkjun sé hrein, endurnýjanleg og jafnvel sjálfbær - en ekki er minnst á hve mikið er virkjað, hve ágengt og hvernig. Þessi fullyrðing er alröng. Lítum á svolítinn fróðleik úr Veðurmolum Sigga storms sem ég klippti saman og birti hér á blogginu mínu í lok apríl sl.



Eins og þarna kemur fram skiptir máli hvort jarðhitinn er á lághita- eða háhitasvæði. Það sem ekki kemur fram er, að það skiptir líka máli í sambandi við efnamengunina hvort gufan er nýtt til að hita upp kalt vatn til húshitunar auk þess að framleiða rafmagn (Nesjavellir - jarðvarmavirkjun) eða hvort eingöngu er framleitt rafmagn í virkjuninni og efnamengaðri gufunni allri sleppt beint út í andrúmsloftið (Hellisheiðarvirkjun - jarðgufuvirkjun). Að auki er nýting jarðgufuvirkjana ekki nema um 12-13% og 87-88% orkunnar fer því til spillis. Það getur engan veginn talist forsvaranleg nýting á verðmætri orku. Ýmsum hugmyndum hefur verið hent á lofti til að nýta umframorkuna en engin orðið að veruleika ennþá.
 
En hvernig getur það gerst að gróðureyðing hjá jarðgufuvirkjun sé að koma upp núna? Var ekki framkvæmt mat á umhverfisáhrifum Hellisheiðarvirkjunar? Jú, vissulega, en eins og lög um mat á umhverfisáhrifum gera ráð fyrir er það framkvæmdaraðilinn sjálfur sem sér um matið og kostar það, og það er honum að sjálfsögðu mikið í mun að ekki komi neitt fram sem hindrað gæti framkvæmdina. Aðilar sem hann fær til liðs við sig gætu síðan fengið hluta af verkefnunum við framkvæmdirnar svo varla eru þeir hlutlausir heldur, eða hvað? Þetta er svo flókið ferli að það hálfa væri nóg. Svo er Skipulagsstofnun nú aðeins álitsgjafi, ekki úrskurðaraðili, svo þótt hún leggist gegn virkjun af umhverfisástæðum eins og raunin varð með Bitruvirkjun er sveitarfélagi/framkvæmdaraðila og öðrum sem að málinu koma í raun í sjálfsvald sett hvort virkjað er eða ekki.

Svo er það hraðinn - allt þarf að gerast svo hratt af því hitt eða þetta sveitarfélagið er búið að eyða svo miklum peningum Hellisheiðarvirkjun í undirbúning sinnar draumaálverksmiðju að það má engan tíma missa í aukaatriði eins og mat á umhverfisáhrifum og slíka endaleysu. Hvað þá að bíða eftir að fram fari heildarmat á téðum umhverfisáhrifum eins og fyrir norðan. Þar er einmitt áætlað að reisa fleiri en eina - kannski fleiri en tvær jarðgufuvirkjanir til viðbótar við Kröflu. Það gæti hindrað áform þeirra ef í ljós kemur við heildstætt mat á umhverfisáhrifum að samlegðaráhrif eitrunar af völdum brennisteinsvetnis gæti deytt gróður og ógnað heilsu stórs hluta Þingeyinga. Annaðhvort gera menn sér ekki grein fyrir þessu eða þeim er alveg sama. Það liggur lífið á að skapa störf þar sem ekkert er atvinnuleysið og innflutt vinnuafl vinnur verkin.
 
Draumur nýja meirihlutans í Reykjavík er að virkja meira, setja Bitruvirkjun aftur á dagskrá. Óskar Bergsson og Hanna Birna kysstust upp á það þrátt fyrir afar neikvætt álit Skipulagsstofnunar á virkjuninni sem varð til þess að hætt var við hana í maí sl. Einnig á að reisa Hverahlíðarvirkjun sunnan þjóðvegar nr. 1 á Hellisheiði. Þá verða saman komnar á mjög litlu svæði þrjár jarðgufuvirkjanir og ein jarðvarmavirkjun sem allar spúa eiturefninu brennisteinsvetni yfir íbúa á suðvesturhorni landsins sem teljast vera um 200.000.
 
Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, sem orðinn er einn helsti virkjana- og stóriðjusinni í ríkisstjórninni, ber sér á brjóst í bloggpistli og segir að í grein um jarðhita og umhverfisvernd sem muni birtast í Morgunblaðinu einhvern næstu daga komi fram að þeir hjá iðnaðarráðuneytinu séu alltaf á tánum... Þar er hann að tala um verkefni við rannsóknir á aðferðum til að ná brennisteini úr gufunni. Þessar aðferðir eru ennþá aðeins á tilraunastigi og kannski mörg herrans ár þar til þær verða að veruleika - ef nokkurn tíma. Á meðan er boruð hver holan á fætur annarri og Hengilssvæðið og Hellisheiðin orðin eins og gatasigti eða svissneskur ostur, gróður deyr sem hefur tekið 1000 ár að ná sér upp á ósléttu hrauni og heilsu 2/3 þjóðarinnar jafnvel stefnt í voða með sívaxandi efnamengun.
 
Þessi tafla birtist með grein í Fréttablaðinu 22. febrúar sl. Hér er mæling á brennisteinsvetni í andrúmsloftinu á einu mælingarstöðinni við Grensás um það leyti sem Hellisheiðarvirkjun var gangsett. Tekið skal fram að enginn mælir er annars staðar í borginni, enginn við virkjunina og enginn mælir í Hveragerði sem þó yrði aðeins í 4.600 metra fjarlægð frá suð-austustu borholu Bitruvirkjunar. Miklu nær en mælirinn á Grensás er Hellisheiðarvirkjun.

Brennisteinsvetni - Grensás - 2006
Í greininni  sem um er rætt segir: "Engin heilsuverndarmörk eru til fyrir almenning á Íslandi um brennisteinsvetnismengun og slík mengun er yfirleitt einungis metin á vinnustöðum. Mengunin í Reykjavík hefur þó margoft farið yfir erlend viðmið, til dæmis þau sem eru í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum, og einnig yfir heilsuverndarmörk Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar." Finnst íbúum á höfuðborgarsvæðinu og Hvergerðingum þetta viðunandi? En Þingeyingum? Er fólk almennt sátt við að láta eitra fyrir sér, börnunum sínum og barnabörnunum?
 
Þetta er grafalvarlegt mál sem ég er búin að skrifa talsvert um. Ég nefni í því sambandi pistla eins og þennan, þennan og þennan. Ég nefni líka Spegilsviðtöl í tónspilaranum ofarlega vinstra megin á síðunni, t.d. við Þorstein Jóhannsson, sérfræðing hjá Umhverfisstofnun, Sigurð Þór Sigurðarson, lækni og sérfræðing í öndunar- og atvinnusjúkdómum og ekki síst Stefán Arnórsson, prófessor í jarðefnafræði. Hlustið á þessi viðtöl.
 
Að lokum ætla ég að setja inn grein sem birtist í Morgunblaðinu 14. ágúst sl. og er eftir Pálma Stefánsson, efnaverkfræðing. Pálmi er hér að fjalla um áhrif loftmengunar á heilsuna. Hugsið málið og takið afstöðu áður en það verður of seint.

Pálmi Stefánsson, efnaverkfræðingur

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband