Færsluflokkur: Dægurmál
Kompás á þriðjudagskvöldið var vægast sagt fróðlegur þáttur. Í honum var fjallað um ýmsar hliðar olíuhreinsistöðvar á Vestfjörðum og margt stendur upp úr eftir umfjöllunina. Þetta var ein allsherjar hrollvekja.
Gróflega skipti ég málinu í þrjá hluta miðað við umfjöllun Kompáss. Í fyrsta lagi það sem snýr að náttúrunni og afleiðingum framkvæmdarinnar á hana og þá væntanlega ferðaþjónustu í fjórðungnum og fleira sem þar er fyrir. Í öðru lagi það sem snýr að framkvæmdaraðilum, fjármögnun, tilgangi og slíku. Í þriðja lagi íslenskum sveitarstjórnarmönnum, alþingismönnum og ráðherrum.
Í Íslandi í dag á Stöð tvö í gærkvöldi kom greinilega fram að ráðherrar vita mest lítið um málið og ekkert um hverjir standa á bak við það. Í Kompásþættinum kom fram að sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum vita heldur ekki neitt. Hversu bláeygir geta menn verið? Á að fórna náttúru Íslands, fiskimiðunum, fuglabjörgum og ímynd landsins fyrir rússneska olíurisa sem þurfa að flikka upp á eigin ímynd á Vesturlöndum? Mér finnst þetta óhugnanlegt. Gríðarlega mikið er í húfi og stjórnvöld vita ekkert um málið!
En ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta í þessum pistli, nóg sagði ég í þeim síðasta og athugasemdakerfinu þar. Þetta er meira sett hér inn sem heimild þótt ég hafi engan veginn lokið máli mínu. Horfið, hlustið og takið afstöðu í þessu mikilvæga máli.
Ég ætla að vitna í orð Aðalbjargar Þorsteinsdóttur frá fyrirtækinu Villimey á Tálknafirði. Hún hefur haslað sér völl sem framleiðandi ýmissa jurtasmyrsla sem eru smám saman að komast á markað. Orð þessi lét hún falla á málþingi um nýsköpun og fleira sem fram fór í Hafnarfirði 28. apríl 2007. Aðalbjörg kvaðst ekki geta stillt sig um að benda fundinum á, að olíuhreinsistöð á Vestfjörðum myndi ekki laða Vestfirðinga til starfa, heldur byggja á farandverkamönnum. Það væri síðan deginum ljósara að fyrirtæki á borð við sitt myndi leggjast af.
Mig langar líka að biðja fólk að hugsa til þeirra hjóna, Maríu Bjarnadóttur og Víðis Hólm Guðbjartssonar, sem búa í Bakkadal, næsta dal í byggð fyrir utan Hvestu í Arnarfirði þar sem olíuhreinsunarstöðin yrði mögulega reist. Fyrir neðan myndböndin set ég inn viðtal við Víði sem birtist í Morgunblaðinu 2. febrúar sl. Reynið að ímynda ykkur hvernig þeim hjónum líður við að fá þennan óskapnað nánast í túnfótinn hjá sér. Ég vitnaði í Maríu í athugasemd við síðasta pistil. Orð sem hún skrifaði mér í tölvupósti og ég fékk gæsahúð þegar ég las. Þessi ungu hjón myndu hrekjast á brott, dalurinn þeirra fara í eyði og hvað kæmi í staðinn? Erlendir farandverkamenn sem staldra við í tvö eða þrjú ár?
Viðbót: Lesið þessa frétt á Eyjunni, þar kemur sitthvað fróðlegt fram.
Kompás, þriðjudaginn 15. apríl 2008

Dægurmál | Breytt 20.4.2008 kl. 02:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
Ég fjallaði um þá arfavitlausu hugmynd að reisa olíuhreinsistöð á Vestfjörðum í þremur pistlum í febrúar. Eitt af því sem vakið hefur mikla athygli er sú illskiljanlega leynd sem hvílir yfir því, hvaða aðilar standi á bak við framkvæmdina. Hilmar Foss og Ólafur Egilsson, hinir íslensku olíufurstar, hafa neitað að tjá sig um þann þátt málsins og hafa auk þess túlkað niðurstöður skoðanakannana um stuðning við olíuhreinsistöð afskaplega frjálslega, svo ekki sé meira sagt.
Fyrri pistla mína um olíuhreinsistöðina má sjá hér: Fyrsti, annar og þriðji.
Í kvöld ætlar Kompás að gera tilraun til að upplýsa málið, eða að minnsta kosti leiða getum að því hvaða aðilar standi á bak við framkvæmdina. Frétt um þáttinn á Vísi er svohljóðandi:
Kompás í kvöld: Rússar fara frjálslega með staðreyndir.Katamak, samstarfsaðilar Íslensks hátækniiðnaðar í undirbúningi olíuhreinsistöðvar á Vestfjörðum, fara frjálslega með niðurstöður skoðannakönnunar sem gerð var um áhuga Vestfirðinga og annarra á olíuhreinsistöð.
Á heimasíðu samstarfsaðila Íslensks hátækniiðnaðar (katamak.ru) er fullyrt að 80 prósent Vestfiðinga séu hlynnt olíuhreinsistöðinni og er vitnað til Gallup-könnunar. Þar er býsna frjálslega farið með því samkvæmt upplýsingum frá Capacent-Gallup eru 53 prósent íbúa í Norð-vesturkjördæmi hlynnt hugmyndinni. Afgangurinn tekur ekki afstöðu eða er andvígur. Og sveitarstjórnarmenn vestra finnast í þeim hópi.
Kompás sýnir þátt í kvöld þar sem leitt er getum að því hvaða aðilar standi að baki þessum áformum. Þessi þáttur er afrakstur margra mánaða rannsóknarvinnu m.a. í Moskvu, Washington, Houston og Dublin.
Á vef Kompáss kemur þetta fram um þáttinn:
Umdeild olíuhreinsistöð
Það er leyndarmál hver á að reisa olíuhreinsistöðina á Vestfjörðum. Böndin berast að rússnesku risaolíufyrirtæki í innsta hring Kremlar.
Vestfirðingar eru orðnir langþreyttir á atvinnuástandinu og kalla eftir úrbótum. Olíuhreinsunarstöð er talin geta skapað 500 ný störf. Þessi 300 milljarða risaframkvæmd er þó umdeild.
Tilhugsunin um nær daglegar siglingar risaolíuskipa vekur ugg en talið er að allt að 300 olíuflutningaskip muni eiga leið um vestfirska firði árlega.
Og svona hljómar stiklan um Kompásþáttinn í kvöld:
Ég hvet alla sem mögulega geta til að horfa á Kompás í kvöld klukkan 21:50 og mynda sér skoðun um málið.
Hér er viðtal við Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðing, um olíuhreinsistöð sem birtist í fréttum RÚV 22. febrúar sl.
Að lokum brot úr fréttum Stöðvar 2 frá 24. febrúar sl. þar sem Ólafur Egilsson lætur út úr sér gullkorn sem verða lengi í minnum höfð.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (41)
14.4.2008
Ómar Ragnarsson og Andræði Sigfúsar
Ekki er nóg með að ég sé stundum lengi að hugsa, heldur er ég langt á eftir í fréttahlustun og -áhorfi þessa dagana. Ég var núna fyrst að horfa á rúmlega vikugamalt Kastljós þar sem Ómar Ragnarsson sat á spjalli með Bolla Kristinssyni. Það er reyndar rangt að kalla þetta spjall. Þeir höfðu svo stuttan tíma að varla gafst tækifæri til að klára setningar, hvað þá að kafa af einhverju viti í málin.
Það sem fyrst vakti athygli mína voru orð Ómars sem voru í fullkomnum stíl við sitthvað sem ég skrifaði í færslunni hér á undan og í athugasemdakerfinu. Ómar sagði meðal annars:
"Mér finnst mjög algengt að þingmenn láti eins og lög sem eru í gildi hafi dottið af himnum ofan frá Guði sjálfum. En það voru nú bara þeir sjálfir sem sömdu þessi lög og þeir sjálfir eru þarna í vinnu til þess að breyta þessum lögum. Það er að verða þingvetur liðinn og það hefur ekkert verið gert til að breyta þeim lögum sem var lofað að breyta. Breyta þeim lögum sem gera einstöku sveitarfélögum og hreppum kleift að fara með heimsverðmæti eins og ekkert sé."
Þarna er Ómar að vísa í lög sem meðal annars gera sveitarfélögum kleift að ráðskast með náttúruauðlindir ef þær eru innan landamerkja viðkomandi sveitarfélags (sjá athugasemd 18 við síðustu færslu mína). Sem dæmi má nefna er Sveitarfélagið Ölfus nú búið að auglýsa breytingu á aðalskipulagi þar sem til stendur að breyta Bitru/Ölkelduhálsi á Hengilssvæðinu - sem er á náttúruminjaskrá og einnig skilgreint sem grannsvæði vatnsverndar - í iðnaðarhverfi. Þetta er undurfagurt svæði þar sem sjá má sýnishorn af flestu því sem prýðir íslenska náttúru. Svæðið er vinsælt meðal ferðamanna og til dæmis segir Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor við Líffræðistofnun Háskóla Íslands, að Hengilssvæðið sé næstverðmætasta útivistarsvæðið á suðvesturhorni Íslands - næst á eftir Þingvöllum. Lesa má viðtal við Þóru Ellen um málið hér. Þetta svæði ætlar 2.000 manna sveitarfélag að eyðileggja fyrir 200.000 íbúum suðvesturhornsins með tilheyrandi brennisteinsvetnismengun - og framkvæmdaraðilinn borgar sveitarstjórninni fyrir greiðann. Nánar um það mál á baráttusíðu Hengilssvæðisins hér, kynnið ykkur endilega málið.
Bolli "athafnamaður" var aldeilis ekki á sama máli og Ómar, vill endilega láta reisa álver, en segir samt að það eigi að fara eftir Ómari Ragnarssyni og öllu því góða fólki sem vinnur með honum! Bolli sagði jafnframt: "En ég náttúrulega er alveg sammála Ómari af því það veit náttúrulega enginn meira en hann um okkar fallegu náttúru - að passa hana eins og hægt er..." Í málflutningi Bolla kemur svo greinilega fram þetta undarlega skilningsleysi þeirra sem reisa vilja stóriðju út um víðan völl - þeir sjá ekki hlutina í samhengi. Þeir fást ekki til að skilja, að álver þarf rafmagn, mjög mikið rafmagn, og til þess að framleiða orkuna þarf að leggja óspillta náttúru í rúst - í þessu tilfelli dásamlega perlu á náttúruminjaskrá í hlaðvarpa meirihluta íslensku þjóðarinnar. Við þurfum greinilega að bjóða Bolla og fleirum í skemmtilega gönguferð í sumar til að reyna að opna augu þeirra.
En hitt er auðvitað rétt hjá Bolla - vitanlega á að hlusta á Ómar Ragnarsson og fara að ráðum hans hvað varðar náttúruna. Ég efast ekkert um að hann sé sá Íslendingur sem þekkir landið einna best, bæði af láði og úr lofti. Hann hefur líklega séð og farið um hvern fermetra þess sem fær er - og jafnvel þá sem ófærir eru, það væri honum líkt. Og umfram allt þykir honum undurvænt um landið sitt og kann manna best að meta það og óviðjafnanlega náttúru þess.
Mig langar að tileinka stóriðjusinnum ljóð úr ljóðabókinni Andræði eftir Sigfús Bjartmarsson sem ég fjallaði um hér.
Virkjun
er verðugum
vinna og minnis-
varði.
Og
virkjun
er veisla
með vinum
og varla nema
von að margur
góðglaður við
veitingum
gapi.
Og
vatnsafls-
virkjun gefur
vistvænan gróða
og stórvirkjun gefur
þá stórvistvænan með
stórvistvænu tjóni
og tapi.
Jú
margur
verður af álverum
api.
Þetta ljóð úr sömu bók tileinka ég alþingismönnum okkar og ráðherrum með þeim varnaðarorðum að treysta ekki framar á gullfiskaminni kjósenda:
Með
lögum
skulu landsfeður
ólögum sínum
eyða.
Jú
alltaf
skal hætta
hverjum leik
þá hallar
undan
fæti.
Og
ranga
reglu má
rétta úr sínu
ráðherra-
sæti.
Jú
aldrei
er lýðurinn
lengi með
læti.
Dægurmál | Breytt 15.4.2008 kl. 12:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
12.4.2008
Sorgarferli - "Fagra Ísland" kvatt
Við göngum öll í gegnum visst sorgarferli við ýmsar aðstæður. Til dæmis við andlát ástvina, hjónaskilnað og ýmsa atburði þar sem við segjum skilið við eitthvað sem er okkur kært en er að hverfa sjónum. Ég hef upplifað þetta sorgarferli nokkrum sinnum við ýmsar aðstæður og það er sama hverjar aðstæðurnar eru - það er sárt. Alveg hræðilega sárt.
Enn sárara er þegar hægt er að koma í veg fyrir missinn sem veldur þessu sorgarferli en þeir sem eru í aðstöðu til að hindra hann gera það ekki. Fyrir mig, sem náttúruunnanda frá barnæsku, eins og lesa má um hér og hér, og leiðsögumanns erlendra ferðamanna - sem hefur kennt mér enn betur að meta íslenska náttúru - eru þau skilaboð stjórnvalda að náttúra Íslands skipti minna máli en gróði erlendrar stóriðju alveg skelfileg.
Ég hef ótalmarga galla, en líka nokkra kosti - sem betur fer. Einn af þeim kostum - eða hæfileikum - er að geta séð hlutina í samhengi. Geta horft yfir sviðið og séð hvernig ólíkir hlutir vinna saman og mynda eina heild. Þess vegna skil ég fullkomlega afleiðingar þess ef álver verður reist í Helguvík. Þær afleiðingar eru afdrifaríkar fyrir alla íbúa suðvesturhorns Íslands, sem munu vera um 60 eða 70 prósent þjóðarinnar. Þær afleiðingar hafa í för með sér gríðarleg náttúruspjöll, brennisteinsvetnismengun, sjónmengun, hljóðmengun, lyktarmengun, þenslu, vaxtahækkanir, verðbólgu og guð má vita hvað. Það sem mér þykir einna verst er, að þessar framkvæmdir eru svo fullkomlega óþarfar. Það er ekkert atvinnuleysi á Suðurnesjum - síður en svo - þar er uppgangur einna mestur á öllu landinu og úr nógu að moða. Það er nákvæmlega engin þörf á stóriðju á Suðurnesjum - langt í frá.
Við höfum kosningar til Alþingis á fjögurra ára fresti. Hlustum á frambjóðendur í andakt og af því mannskepnan þrífst mikið til á því sem kallað er von tökum við mark á þeim. Trúum því sem þeir segja og lofa. Við kjósum þann flokk sem boðar þá framtíðarsýn sem kemst næst okkar lífsgildum og bíðum átekta. Síðan kemur að efndum - eða svikum. Við verðum ýmist kát eða leið eða reið.
Ég er leið og reið. Mjög sorgmædd og ævareið. Er að ganga í gegnum sorgarferlið áðurnefnda. Gjörsamlega miður mín og hyggst grípa til þess eina ráðs sem mér er fært í stöðunni eins og hún blasir við nú. Meira um það seinna... kannski.
Ég hef verið að berjast við veikindi undanfarið og ekki verið í ástandi eða aðstöðu til að bregðast við atburðum líðandi stundar umsvifalaust. En ég hef þó haft rænu á að safna upplýsingum og nú er mikið starf fram undan við að vinna úr þeim.
En hér læt ég öðrum um að dæma fyrir sig, ég hef þegar dæmt fyrir mig:
Hvað á maður að halda? Þetta heldur Sigmund og vitnar í Berg í Landvernd:
Svo kom þetta í Silfrinu:
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (58)
Það er ekki ofsögum sagt að skipulagsmálin í Reykjavík séu mikið rædd þessa dagana og enn bætist við ítarefnið sem nauðsynlegt er að kynna sér. Eins og sjá má af athugasemdum við fyrri færslu mína eru ýmsar skoðanir á lofti og fólk ekki par ánægt með hvernig þróunin hefur verið undanfarin ár, einkum í miðborg Reykjavíkur. Einnig er stórmál komið upp á Akureyri sem lesa má um hér og djúpstæður ágreiningur er milli íbúa á Selfossi og bæjaryfirvalda þar - svo ekki sé minnst á ósköpin sem hafa gengið á í Kópavogi og Hafnarfirði. Þessi mál eru síst bundin við Reykjavík eingöngu þótt þessa dagana sé miðborg hennar í brennidepli.
Hagsmunatengsl eru fólki augljóslega ofarlega í huga og af fréttum og viðbrögðum manna má merkja að spilling er greinilega mjög algeng þegar um lóðabrask, húsabrask og aðra fjárplógsstarfssemi á því sviði er að ræða. Því hvað er það annað en spilling þegar verktaki borgar í kosningasjóð og fær að launum verðmætar lóðir sem hann getur skipulagt að eigin geðþótta og grætt tugmilljónir á? Hvað er það annað en spilling að formaður skipulagsnefndar bæjarfélags starfi fyrir einn verktakann í bænum eins og kemur fram í einni athugasemdinni við fyrri færslu? En hér á landi eru engin lög - hvað þá viðurlög - við spillingu. Hún er umborin eins og hvert annað hundsbit. Fólk tautar og skammast hvert í sínu horni eða á sinni kaffistofu en yfirvöld eru aldrei krafin skýringa og aldrei reyna fjölmiðlar að fletta ofan af slíkri spillingu og neyða ráðamenn til að afhjúpa siðleysið.
Ef brotið er á rétti almennings, yfir hann vaðið og lífsgæði hans skert, eru fáar leiðir færar og glíman við kerfið, embættismenn og peningavaldið virðist oftar en ekki fyrirfram töpuð. Þegar svo úrskurður berst frá æðstavaldinu er eina leið fólks að ráða sér rándýran lögfræðing og fara í einkamál við verktakann - eða hvern þann sem braut á því - og renna blint í sjóinn með útkomu málsins. Það er á fárra færi. Svona mál eru orku- og tímafrek og reikningar lögfræðinga stjarnfræðilega háir.
Einn er sá útvarpsmaður sem hefur um langa hríð fjallað mjög vel og skilmerkilega um skipulagsmál á Rás 1. Það er Hjálmar Sveinsson í þætti sínum, Krossgötum, sem nú er sendur út klukkan 13 á laugardögum. Í fyrravetur helgaði Hjálmar þáttinn skipulagsmálum mánuðum saman og mér telst til að ég eigi í það minnsta 14 þætti sem ég tók upp. Þessir Krossgötuþættir eru fjársjóður fyrir áhugafólk, því Hjálmar tók afar faglega og ítarlega á málinu og ræddi við fagfólk á ýmsum sviðum skipulags- og byggingamála, sem og við almenning. Í þáttunum kom ótalmargt fram sem á brýnt erindi við borgar- og skipulagsyfirvöld hvar sem er á landinu, ekki síður en málflutningur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem minnst var á í pistlinum hér á undan.
Í rúmlega ársgömlum tölvupósti til nágranna minna vegna mála í nánasta umhverfi okkar sagði ég: "Mikið hefur verið rætt um umhverfismál á landsvísu, mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, sagt að umhverfismálin verði mál málanna í komandi alþingiskosningum, jafnvel að nýr flokkur verði stofnaður utan um þau mál. Ég fagna þessari umræðu, ekki veitir af.
Þetta mál og fleiri af sama toga eru líka umhverfismál - á borgarvísu - og verðskulda einnig athygli og umfjöllun auk þess sem þau snerta lífsgæði tugþúsunda íbúa gamla Vesturbæjarins og nágrennis.
Talað er um stóriðjuæði og virkjanafíkn á landsvísu, en á borgarvísu mætti tala um byggingaræði og þéttingarfíkn. Auk þess er æðibunugangurinn slíkur að hroðvirkni hefur valdið miklu tjóni og enginn ber ábyrgð eins og fram kom hjá fréttastofu RÚV í umfjöllun um þau mál í janúar sl."
Í þessari umræðu er enginn stjórnmálaflokkur undanskilinn, a.m.k. ekki í Reykjavík. Þéttingaræðið hófst á valdatíma R-listans og ekki virðist ennþá hafa tekist að stöðva það - eða að minnsta kosti að hægja á ferðinni svo hægt sé að horfa heildstætt og skynsamlega á málin. Kannski er umræðan nú vísir að hemlun, eða það vona ég altént.
Á flakki mínu um blogg Egils Helgasonar sá ég athugasemd við eina færsluna hans frá 25. mars sl. sem mér finnst rétt að benda á sem dæmi um vinnubrögðin í skipulags- og byggingamálunum:
"Flestar íslenskar byggingar eru byggðar undir stjórn verktaka sem vilja umfram allt halda kostnaði niðri. Það er fegurðarskyn verkfræðinganna sem hefur ráðið mestu um byggingastíl á Íslandi.Það var tvennt sem kom eiginkonu minni, arkitektinum mest á óvart þegar hún fór að vinna á Íslandi. Fyrst áhrifa- og valdaleysi arkitekta yfir flestum verkefnum sem þeir vinna að. Þau eru kommisjónuð af verktökum sem hafna öllu sem mögulega gæti aukið kostnað. í öðru lagi sú súrrealíska staða sem hún lenti stundum í, að fara á byggingarstað og teikna það sem verktakinn hafði þegar byggt til að skila inn teikningum og fá þær samþykktar af yfirvöldum."
Finnst einhverjum þetta viðunandi vinnubrögð? Ég veit af fenginni reynslu að þetta er kallað "breytingar á byggingartíma" hjá skipulags- og byggingaryfirvöldum og er samþykkt, því það væri svo dýrt fyrir verktakann að breyta því sem búið er að gera. Ekki kemur til álita að meta tjónið sem t.d. nágranninn verður fyrir og enginn er ábyrgur.
Í dag, sunnudag, voru tveir þættir í sjónvarpinu sem komu inn á skipulagsmál, Silfur Egils og Sunnudagskvöld með Evu Maríu. Hjá Agli var Þórður Magnússon, einn stjórnarmanna endurreistra Torfusamtaka, og hjá Evu Maríu var Björn Ólafsson, arkitekt, búsettur í París.
Ég set bæði viðtölin inn hér að neðan. Viðtalið við Þórð er endasleppt, Egill fór mínútu eða svo yfir tímann og þá er klippt á útsendinguna á Netinu. Það verður væntanlega lagað og þá endurvinn ég upptökuna og set úrklippuna inn á ný.
Uppfærsla: Nýtt myndband komið inn með endinum.
Björn fór um víðan völl í löngum þætti og sagði mjög margt áhugavert, en ég klippti út það sem hann sagði um skipulagsmálin í Reykjavík sem hér eru til umræðu og þau skelfilegu mistök að láta gróðabrask ráða ferðinni.
Þórður Magnússon í Silfri Egils - 30. mars 2008
Björn Ólafsson í Sunnudagskvöldi með Evu Maríu - 30. mars 2008
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
Þessa dagana fer fram öflug umræða um skipulagsmál - og ekki seinna vænna. Ýmis öfl í samfélaginu hafa unnið að því hörðum höndum undanfarin ár að eyðileggja miðborg Reykjavíkur og nágrenni hennar, elstu hluta borgarinnar, í þeim tilgangi einum að græða fé - og það mikið. Þeir hafa náð nokkrum árangri, en ef sú von mín rætist að nú sé að eiga sér stað hugarfarsbreyting bæði hjá almenningi og borgaryfirvöldum er þeim niðurlægingarkafla í sögu Reykjavíkur að ljúka.
Það hefur staðið til hjá mér um tíma að skrifa um þessi mál þar sem mér eru þau afskaplega hugleikin og ég hef staðið í baráttu, ásamt nágrönnum mínum, við skipulagsyfirvöld í Reykjavík og nokkra misvitra stjórnmálamenn sem mér er fyrirmunað að skilja.
En áður en lengra er haldið langar mig að biðja fólk sem hefur áhuga á þessum málum að hlusta á sterkan málflutning Kára Halldórs Þórssonar í Vikulokunum á Rás 1 á laugardagsmorgun. Margir hafa séð Kára Halldór í fréttum undanfarna daga þar sem hann hefur talað fyrir hönd íbúa við Bergstaðastræti og nágrenni um skipulagsklúðrið þar, búsetu útigangsfólks í gámi og yfirgang vertaka. Þátturinn er hér og það er um miðbik hans sem umræður hefjast um skipulagsmál. Ég bendi sérstaklega á umræðuna um verktaka, meint tengsl þeirra við stjórnmálamenn og greiðslur í kosningasjóði. Ef satt er myndi svona nokkuð kallast forkastanleg spilling í öllum siðuðum lýðræðisríkjum og viðkomandi stjórnmálamönnum væri ekki sætt í sínum mjúku stólum. Þættinum lýkur síðan með umræðu um málið sem ég skrifaði um í síðustu færslu.
Einnig er hér fyrir neðan kafli úr Silfri Egils frá 13. janúar sl. þar sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, skipulagshagfræðingur, greinir frá rannsóknum sínum og niðurstöðum á vel og illa heppnuðu skipulagi borga. Ég veit um fólk sem skipti algjörlega um skoðun á málunum eftir að hafa horft og hlýtt á áhrifaríkan málflutning Sigmundar Davíðs.
Ég heyrði fyrst í Sigmundi Davíð á fundi í Ráðhúsi Reykjavíkur í fyrra þar sem hann var með fyrirlestur og sýndi myndir máli sínu til stuðnings. Hann hefur einnig haldið fyrirlestra um skipulagsmál á Ísafirði, Akureyri og sjálfsagt víðar, því það sem hann hefur fram að færa kemur öllum við - jafnt smáum sem stórum samfélögum. Fagleg umfjöllun hans, dæmin sem hann tekur, myndirnar sem hann sýnir, rökin sem hann færir fyrir máli sínu... allt er þetta afskaplega vel fram sett og gríðarlega sannfærandi.
Við viljum öll að okkur líði vel og að umhverfi okkar sé notalegt og aðlaðandi. Sigmundur Davíð er með niðurstöður, hugmyndir og lausnir sem svo sannarlega er vert að taka mark á.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 04:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Allir vita hvað gengið hefur á með umdeilda stöðuveitingu á vegum Árna Mathiesen, sem var settur dómsmálaráðherra gagngert til að veita stöðuna "réttum" manni. Nýjasta útspil Árna er að sýna Umboðsmanni Alþingis yfirgengilegan hroka og draga fagmennsku hans í efa til að kasta rýrð á væntanlegt álit Umboðsmanns, sem Árni veit mætavel að verður sér í óhag.
Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, var í löngu og fróðlegu viðtali í Speglinum í gær um málið. Gunnar Helgi sagði meðal annars: "Það er náttúrulega hlutverk Umboðsmanns Alþingis að lenda í árekstrum við framkvæmdavaldið... og hann á að gera það. Og hann verður auðvitað að fá skilyrði til að sinna því starfi almennilega. Þannig að vandinn kemur kannski aðallega upp - eftir að Umboðsmaður hefur látið í ljós skoðun á einhverju - ef framkvæmdavaldið er ekki tilbúið til að hlíta því á einhvern hátt. Þá kemur upp sú staða að Umboðsmaður er auðvitað ekki dómari. Umboðsmaður er álitsgjafi og það eru á endanum engir aðrir en dómstólar sem geta kveðið upp dóma sem framkvæmdavaldinu ber að hlíta. Sú staða sem kemur upp ef framkvæmdavaldið hafnar túlkun Umboðsmanns... það er þá fyrst og fremst það, þá þarf kannski að reyna á þetta fyrir dómstólum ef það er mögulegt. En það er auðvitað ekki alltaf mögulegt. Til dæmis eru ráherrar í þannig stöðu að um lögsókn gegn þeim gilda alveg sérstakar reglur... um lögsókn gegn þeim samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð, það er að segja. Þá þarf þingið að kæra, meirihluti þingsins þarf að kæra. Þá er kallaður saman sérdómstóll, landsdómur, sem er skipaður á alveg sérstakan hátt. Það segir kannski vissa sögu um hversu effektíft það fyrirkomulag er, að landsdómur hefur aldrei verið kallaður saman á Íslandi."
Fréttamaður: "En það sem er kannski sérstakt við þetta mál, sem við erum að ræða er það, að áreksturinn kemur upp áður en Umboðsmaður kveður upp úrskurð."
Gunnar Helgi: "Já, þetta er mjög óvenjulegt að eitthvað af þessu tagi komi upp."
Fréttamaður: "Er það ekki bara fordæmislaust?"
Gunnar Helgi: "Ég held að þetta sé fordæmislaust, ég veit ekki betur. Hér gerist það að ráðherrann ýjar að því í innganginum að bréfi sínu að Umboðsmaður sé í raun og veru búinn að gera upp skoðun sína og að eiginlega hafi það þá engan tilgang að svara spurningum hans. Þetta er hins vegar ekki í sjálfu sér rökstutt neitt sérstaklega í bréfinu. Það er vísað svona til þess að það sé ákveðinn tónn í spurningunum og þess háttar. Þá leiðist maður til að halda að þetta sé pólitískt útspil hjá ráðherranum. Að hann sé í raun og veru búinn að reikna stöðuna þannig að það séu líkur á því að Umboðsmaðurinn muni gagnrýna hann í sínu áliti og er þá að undirbúa jarðveginn fyrir það, að í raun og veru hafi ekki verið hlustað á röksemdir ráðuneytisins eða ráðherrans"
Gunnar Helgi segir jafnframt: "Ráðherrann auðvitað, hann er að búa sig undir það, geri ég ráð fyrir, að fá hugsanlega gagnrýni frá Umboðsmanni. Auðvitað er það slæmt í jafnmiklu deilumáli og þetta mál er, auðvitað er það slæmt að fá á sig gagnrýni frá Umboðsmanni og það eru vissir hnekkir fyrir ráðherra. Hvernig hann spilar úr því er auðvitað eitthvað sem hann verður að sjá fram úr en virðist svona vera að undirbúa þá vörn einhvern veginn með þessum ummælum - eða ég get ekki séð annað."
Fréttamaður: "Umboðsmaður ber ábyrgð gagnvart Alþingi. Ætti svona mál einhvern veginn að koma til kasta Alþingis eða forsætisnefndar Alþingis. Er þetta eitthvað sem það eða hún ætti að fjalla um eða taka á?"
Gunnar Helgi: "Ja... í raun og veru hefur Umboðsmaður ekkert sérstakt vald til að knýja fram aðgerðir Alþingis. Alþingi er ekki bakhjarl hans í þeim skilningi. Það eru í raun og veru flokkarnir, og þá meirihlutaflokkarnir á hverjum tíma, sem ráða Alþingi. Ráðherra situr náttúrulega í skjóli þeirra. Þannig að... álit Umboðsmanns er miklu mikilvægara sem hluti af mótun almenningsálitsins heldur en að móta einhverjar stjórnvaldsaðgerðir áður en auðvitað dómstólar hafa kveðið upp sinn úrskurð."
Ég fæ ekki betur skilið af orðum Gunnars Helga en að ráðherrar séu ósnertanlegir. Til að koma lögum yfir þá og láta þá axla ábyrgð á gjörðum sínum í ráðherrastól þarf meirihluti Alþingis að kæra - meirihluti sem samanstendur meðal annars af flokksfélögum ráðherra sem veittu honum embættið. Getur einhver séð fyrir sér að slíkt gerist hér á landi? Ráðherrar geta því sýnt valdhroka og misnotað vald sitt að eigin geðþótta án þess að neinn fái rönd við reist. Stjórnmálamenn treysta því að almenningur verði búinn að steingleyma misgjörðum þeirra og valdníðslu fyrir næstu kosningar og auðvelt verði að sveigja og beygja atkvæðin og beina athygli þeirra annað.
Verður raunin sú eða mun hin opna umræða á blogginu breyta einhverju?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (33)
Oft er talað um að fjölmiðlar séu fjórða valdið í þjóðfélaginu. Hinar þrjár valdastofnanirnar eru löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald. Af þessum fjórum eru fjölmiðlarnir einna mest áberandi, enda inni á gafli á hverju heimili í einni eða annarri mynd á hverjum einasta degi. Ábyrgð þeirra er mikil... mjög mikil.
Að sumu leyti er hlutverk fjölmiðla mikilvægara en hlutverk stjórnarandstöðunnar því fjölmiðlar ná betur til fjöldans og hafa svo gríðarleg áhrif ef þeir vilja beita sér. Fjölmiðlar eiga alltaf að vera í eins konar stjórnarandstöðu - veita stjórnvöldum aðhald, meðal annars með því að upplýsa misnotkun valds og vinna í þágu almennings án nokkurrar íhlutunar stjórnmála eða flokkapólitíkur. Þeir eiga að fylgjast með umræðunni í þjóðfélaginu, þjóðarsálinni, og fylgja þeim málum eftir sem brenna á alþýðu manna.
Margt er athugavert við fréttaflutning og eftirfylgni mála í fjölmiðlum, hverju svo sem um er að kenna. Gæti verið tímaskortur, mannfæð, tíð mannaskipti vegna álags, of margir of ungir og reynslulausir fréttamenn sem skortir þekkingu og yfirsýn... ég veit það ekki, ég þekki ekki til og verð því að giska. En við eigum marga góða, vandaða og klára blaða- og fréttamenn sem geta gert - og gera góða hluti, en innanum er fólk sem ætti að gera eitthvað allt annað og láta fagmenn um fréttamennsku.
En hlutverk blaða- og fréttamanna er heldur ekki alltaf öfundsvert, til dæmis þegar komið er fram við þá eins og sést í fréttabrotinu hér að neðan. Á þriðjudaginn í síðustu viku boðaði forsætisráherra til blaðamannafundar þar sem hann sat fyrir svörum um hrun krónunnar og fleira varðandi efnahag landsins. Eða hvað...? Svaraði Geir því sem hann var spurður að?
Þrátt fyrir alla pólitík hafði ég alltaf nokkuð álit á Geir Haarde. Taldi hann kurteisan séntilmann sem talaði gjarnan af þekkingu og yfirvegun. Þetta var á meðan hann var fjármálaráðherra. Mér finnst hann hafa breyst og vera farinn að draga dám af ónefndum forvera sínum.
Hér er Geir spurður afskaplega eðlilegrar spurningar - hvort honum finnist að Seðlabankinn eigi að bregðast við ástandinu sem skapast hafði í efnahagsmálum landsins. Sem Seðlabankinn gerði jú í morgun með hækkun stýrivaxta. Svona svaraði forsætisráðherra fréttamanni Stöðvar 2, þriðjudaginn 18. mars 2008:
Hvernig geta fjölmiðlar sinnt skyldu sinni gagnvart almenningi þegar þeim er svarað á þennan hátt? Mér finnst þetta vanvirðing - ekki bara við fréttamanninn heldur allan almenning sem sat skjálfandi og áhyggjufullur heima í stofu og beið eftir svörum stjórnvalda. Forsætisráherra sýnir þjóð sinni fyrirlitningu með þessari framkomu. Ráðamenn mega ekki komast upp með slíkt. Þeir stjórna í okkar umboði, sleikja á okkur tærnar fyrir kosningar en skella á okkur þess á milli. Þetta augnablik er eitt af þeim sem ég ætla ekki að vera búin að gleyma í næstu kosningum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 03:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
24.3.2008
Treystum við svona fólki?
Ég ætla ekki að hafa mörg orð um fréttina sem fylgir hér að neðan. Ég verð að viðurkenna að mér krossbrá. Samt kom fréttin mér ekki á óvart, ég var full tortryggni fyrir. Mútur, umhverfisspjöll og rausnarlegar þóknanir. Ekki fylgdi sögunni hverjar heimildir fréttastofunnar eru en gera verður ráð fyrir að þær séu traustar. Fréttin birtist á Stöð 2 laugardagskvöldið 22. mars 2008.
Þetta er fyrirtækið sem rekur álverið á Reyðarfirði og vill reisa álver á Bakka við Húsavík. Annað alþjóðlegt fyrirtæki vill reisa álver í Helguvík og aðstandendur hugmyndarinnar um olíuhreinsistöð á Vestfjörðum segja rússneska og bandaríska aðila á bak við sig en neita að gefa upp hverjir þeir eru.
Eru Íslendingar tilbúnir til að treysta svona fólki og þeim sem makka með því fyrir landinu sínu, framtíð sinni, barnanna sinna og barnabarna - og ómetanlegri náttúru Íslands?
Ekki ég!
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
21.3.2008
Bankar, vandræði, vextir og önnur óáran
Þann 24. febrúar sl. kom gestur í Silfur Egils sem vakti gríðarlega athygli og margt var rætt og ritað um málflutning hans, meðal annars mikið hér á Moggablogginu. Maður þessi heitir Andrés Magnússon og Egill kynnti hann sem lækni. Andrés hefur skrifað greinar í blöð um íslensku bankana, okurvexti þeirra og fleira því tengt - og það á mannamáli.
Ég hafði samband við Egil um daginn og hann veitti mér leyfi til að birta efni úr þáttunum sínum. Hafi hann þökk fyrir það. Upphaflega hafði ég ætlað að skrifa viðtalið niður, en það reyndist allt of viðamikið og tímafrekt verk, svo ég tek á það ráð að birta það hér sem myndband. Ég held að ekki veiti af að rifja svona viðtöl upp reglulega til að halda okkur öllum við efnið - einkum í því árferði sem nú ríkir en var ekki skollið á af þunga þegar Andrés var í Silfrinu.
Ýmsar spurningar vakna nú þegar allir keppast við að mála skrattann á vegginn og heimsendaspár birtast úti um víðan völl. Ég viðurkenni fúslega að ég get engan veginn hent reiður á því hvað er rétt og hvað rangt í umræðunni um efnahagsmálin núna - einn segir þetta, annar hitt og allir þykjast hafa rétt fyrir sér. Skilaboðin eru svo misvísandi að ég veit ekki mitt rjúkandi ráð. Mig grunar að ég sé ekki ein um það. Ég lýsi hér með eftir einhverjum sem veit hvað hann er að tala um eins og Andrés virðist gera í þessum þætti og getur útskýrt fyrir mér orsakir og afleiðingar - á mannamáli. Sá aðili verður að vera algjörlega óháður bönkum og öðrum lánastofnunum, stóriðju og gróðafyrirtækjum. Ég tek ekkert mark á slíkum hagsmunaaðilum sem hugsa ekki um annað en að bera af sjálfum sér sakir og haga seglum eftir sínum græðgisvindi.
En eitt veit ég: Staða bankanna nú er ekki almenningi á Íslandi að kenna. Hann hefur goldið keisaranum það sem keisarans er - og gott betur. Ekki líður á löngu þar til bankarnir geta endurskoðað lágu húsnæðisvextina sem buðust í upphafi húsnæðislánabólunnar og þá verða ennþá fleiri í enn verri málum en nú. Ríkisstjórnin, stjórnvaldið sem almenningur á að geta treyst, þegir þunnu hljóði og neitar að gera nokkurn skapaðan hlut. Hvað er þá til ráða?
Viðbót: Ég má til með að benda á þessa grein sem ég rakst á í gærkvöldi.
Dægurmál | Breytt 22.3.2008 kl. 16:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)