Orkuútrásin og sjálfsblekkingin

Páskar eru tími málshátta - en af þeim eigum við nóg - þökk sé páskaeggjunum. Mér duttu nokkrir í hug í tilefni upprifjunar á REI-málinu, t.d. "Dramb er falli næst", "Margur verður af aurum api" og "Hroki vex þá hækkar í pyngju". Þessi viskuorð hafa átt við ótalmarga undanfarin ár og eiga jafnvel enn.

Þá sem nenntu að renna í gegnum myndböndin í færslunni hér næst á undan rekur kannski minni til orða Franz Árnasonar, forstjóra Norðurorku, úr fréttum Stöðvar 2, 23. október 2007. Franz sagði meðal annars: "Það er sérþekking til staðar en það er líka sjálfsblekking til staðar". Þar var hann að vísa í hrokafull ummæli þeirra sem stóðu að hinni svokölluðu "orkuútrás" um alla séríslensku þekkinguna sem átti að nýta í útrásinni. "Við erum ekkert óskaplega stórir á jarðhitamarkaðnum," hélt Franz áfram.

Þessi ummæli hans og önnur slík eru í takt við það, sem Stefán Arnórsson, prófessor í jarðeðlisfræði, hefur margreynt að fá Íslendinga til að skilja en erfitt hefur reynst að fá þá til að hlusta á. Dramb græðgivæðingarinnar var slíkt að menn létu varnaðarorð vísindamanna sem vind um eyrun þjóta og  æddu áfram í villtri ásókn í peninga - sjálfum sér til handa, ekki þjóðinni. Auðlindum hennar og komandi kynslóða skyldi fórna á altari Mammons fyrir stundargróða og sértækt sællífi. Enn eru nokkrir valdamiklir einstaklingar þannig þenkjandi sem sést best á niðurlægjandi Helguvíkurfrumvarpi iðnaðarráðherra. Hann dreymir um að keyra það í gegnum þingið, fórna náttúru og auðlindum þjóðarinnar og bæta á hana byrðum sem hún getur ekki með nokkru móti staðið undir.

Ég fann viðtal við Guðmund Þóroddsson, fyrrverandi forstjóra OR og síðan REI, frá 4. október 2007. Daginn eftir að sameining REI og GGE var samþykkt. Þegar viðtalið er tekið eru Hannes Smárason og Bjarni Ármannsson líklega nýlentir í London með glærusýninguna frægu sem ég hengdi neðst í þessa færslu. Hér fyrir neðan hengi ég þrjú viðtöl við Stefán Arnórsson sem ég hvet fólk eindregið til að hlusta á og fræðast um sannleikann og staðreyndir málsins hjá einum reyndasta og fremsta jarðorkusérfræðingi sem við eigum.

Hádegisviðtalið á Stöð 2 - 4. október 2007

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég fæ alltaf hálfgerðann hroll þegar ég heyri þessa menn tala um "hina miklu íslensku sérþekkingu á nýtingu jarðvarma". Vegna þess að fyrsta jarvarmavirkjunin leit dagsins ljós á Ítalíu fyrir meira en hundrað árum. Þar eru líka eldfjöll og jarðhiti. Japanir, bandaríkjmenn og nýsjálendingar voru búnir að byggja svona virkjanir löngu áður en íslendingar vissu hvað það var. Túrbínurnar koma frá Mitsubishi, rafalarnir frá Toshiba, ýmis rafbúnaður, svosem stýrikerfi kemur frá Siemens og Mitsubishi. Bortæknin er upprunnin í olíuiðnaðinum. Þar fást menn við miklu flóknari og erfiðari verk en hérlendis þekkist. Semsagt þetta er að lang mestu leyti innflutt. Ætli þetta sé ekki eins og í stóriðjumálunum? Hafa tvær hliðar á þessu öllu. Eina til að sýna íslenskum almenningi og aðra til að sýna útlendum stórfyrirtækjum. Mér dettur alltaf í hug gosdrykkjaauglýsing þegar ég heiri þessa útrásarfrömuði tala í fjölmiðlum.

Um 1990 var það í fréttum hér að íslendingar ætluðu sér stóra hluti í Ungverjalandi. Samkvæmt þeirri frétt átti að vera margfallt meiri jarðhiti þar en á Íslandi. Hvað varð um það verkefni???

Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 15.4.2009 kl. 11:43

2 identicon

Ég fékk nú smá hroll þegar ég fór í Bláfjöll síðustu helgi.  Á afleggjaranum frá þjóðveginum  að skíðasvæðinu er ekið ca. 10 km. veg sem er lagður yfir hraun og mikla mosabreiðu.  Þar sá ég í fyrsta sinn miklar skemmdir á mosanum,  heilu götin og rifurnar í mosanum og hægt að sjá þetta vel sitjandi í bíl farþegamegin. 

Ég er nú enginn sérfræðingur í grösum en ég er hrædd um að þetta sé vegna gufunnar frá virkjununum á Hellisheiði.  Ef svo er,  þá erum við í mjög vondum málum,  ef landið okkar er að tærast upp á yfirborðinu.  

Andrea (IP-tala skráð) 15.4.2009 kl. 12:03

3 identicon

Er hræddur um að ekki hafi verið hugað að umhverfissjónarmiðum þegar Hellisheiðarvirkjun var reist. Þar er brennisteinsvetni dælt út í loftið í miklu magni. Einnig er því haldið fram að því sé einnig dælt í Þingvallavatn. Það þarf ekki mikla efnafræðikunnáttu til að vita að þegar brennisteinsvetni gengu í samband við súrefni, t.d. í loftinu, þá myndast brennisteinssýra. Hún er stórhættuleg bæði, mönnum, dýrum og plöntum. Því þarf enginn að verða hissa þegar mosi og plöntur í umhverfi virkjunarinnar brenna hreinlega í sýrunni og hverfa. Verði mengun í Þingvallavatni ekki stöðvuð fer eins fyrir lífríki vatnsins. Hvort þetta á einnig við um aðrar gufuvirkjanir hlýtur að fara eftir magni brennisteinsvetnis í gufunni. Það þarf að mæla bæði hjá Hitaveitu Suðurnesja og Kröflu. Við hljótum að spyrja: Var kostnaður við umhverfisvernd reiknaður inn í raforkuverð til stóriðju? Eða eiga íslenskir skattgreiðendur að standa undir því?

HF (IP-tala skráð) 15.4.2009 kl. 14:05

4 Smámynd: Björgvin R. Leifsson

Orkuútrásin og raunar útrásin öll er ekkert annað en nýjar hliðar á heimsvaldastefnunni.

Björgvin R. Leifsson, 15.4.2009 kl. 15:44

5 identicon

Smá athugasemd: Mér skilst að Stefán Arnórsson sé sérhæfður í jarðefnafræði en ekki jarðeðlisfræði. Áreiðanlega ekki verri fyrir það! Við eigum greinilega fullt af frábæru fólki svo hvernig í óskupunum fór sem fór???

Þakkir fyrir færsluna og tengilinn á Spegilinn. Mér fannst ég vera að skrópa í tíma (!) því ég var ekki búin að lesa færslurnar um REI málið en ég þurfti eifaldlega frí frá bloggunum. Fyrir bragðið datt ég samt niður á ekki óskylt efni eða viðtöl Spegilsins þ.14.4 við Stefán Einar,viðskiptasiðfræðing, og Svan Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði við H.Í. og nú er ég lömuð af skelfingu.Ég sé nefnilega ekki betur  en greining Svans á samtvinnun stjórnmála og fjármálageiranna  sé hugsanlega rétt í meginatriðum og líka ályktun hans um að dómskerfi og lögregluyfirvöld Íslands ráði ekki við sitt hlutverk og við þurfum þessvegna erlenda sérfræðinga ( og þá m.s. sérhæft fólk í Mafíuaðferðum) til að greina vandann.Og það yrði bara byrjunin svo myndum við trúlega þurfa að ráða til okkar  fleiri rándýra útlenska sérfræðinga til að benda á leiðina úr vandanum.

Agla (IP-tala skráð) 15.4.2009 kl. 15:48

6 identicon

Franz okkar norðanmanna skýrmæltur að venju. Takk takk fyrir glæsilegar færslur.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 15.4.2009 kl. 18:08

7 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Hér er þó stærsta jarðvarmahitaveita í heimi.  Og heita vatnið úr krananum er skemmtilega til komið.

Pétur Þorleifsson , 15.4.2009 kl. 21:14

8 Smámynd: Sigurveig Eysteins

Kreppuhnífurinn sker ekki þá ríku ( ég bjó nú bara þennan til )

Það sem ég furða mig á er af hverju vita svona fáir að við hitum húsin okkar upp með jarðhita (erlendis) ????  Dæmi : Ég var í námi sumarið 2007 í Bretlandi, í þessari ferð kynntist ég mikið af Bretum, eitt sinn var mér boðið í mat og gistingu til hjóna, konan var listamaður en maðurinn var umhverfis-arkitekt, þá á ég ekki við garða-arkitekt hann kemur frá Ástralíu, ég hafði gefið þeim bók (landslags myndabók um Ísland)  Eftir matinn fórum við að skoða bókina, fóru þá af stað umræður um jarðhita og virkjanir og að við hitum húsin okkar upp með heitu vatni, eftir þessa umræðu var ég samfærð um að maðurinn héldi að ég væri mikil lygari.  Við fórum mjög fljótlega út í aðrar umræður. Hvort maðurinn var svona ylla upplýstur skal ósagt. Og svona að lokum skiptir það einhverju máli hverjir voru fyrstir, er ekki aðal málið að nota það sem við höfum, ef einhver vill kaupa (þekkinguna) ??? !!!

Sigurveig Eysteins, 16.4.2009 kl. 00:15

9 identicon

Það væri óskandi að Frans Árnason hefði farið eftir þessum heilræðum. Hann er búin að koma Norðurorku á kaldann klaka.

Þar hefur verið staðið fyrir mikilli ævintýramennsku með fjármuni veitufyrirtækis akureyringa. Þar má einkum nefna Þeistareyki og virkjanir í Djúpadalsá. Þar varð gríðarlegt tjón við stíflurof, með tilheyrandi flóðbylgju.

Það hefur farið ótrúlega hljótt um þessi mál í fjölmiðlum.

HVG (IP-tala skráð) 16.4.2009 kl. 00:22

10 Smámynd: Helga Magnúsdóttir

Góð og tímabær umræða. Takk fyrir mig.

Helga Magnúsdóttir, 16.4.2009 kl. 15:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband