Spilling og öðruvísi umræða

Ég þreytist seint á að tala og skrifa um spillinguna á Íslandi. Spillingu, sem er svo djúpstæð og inngróin í samfélagið að fjandanum erfiðara verður að uppræta hana - ef það tekst þá nokkurn tíma. Við höfum nefnilega vanist henni svo rækilega, alist upp með henni og litið á hana sem óumflýjanlegan hluta af tilverunni. Eða hvað?

Umræðan í þjóðfélaginu hefur breyst og opnast mjög með netmiðlum og bloggi, það held ég að allir geti verið sammála um. Gallinn er sá að umræðan sem þar fer fram nær ekki til nema hluta þjóðarinnar. Allt of margir líta ennþá niður á blogg og halda að þar komi ekkert fram sem vert er að íhuga. Sumir segjast ekki hafa tíma til að lesa blogg en lesa þó prentblöðin upp til agna á hverjum degi og hlusta/horfa á alla fréttatíma ljósvakamiðlanna. Fjöldi fólks lítur þannig á þjóðfélagsumræðuna að ekkert sé raunverulegt eða satt nema það birtist á síðum Morgunblaðsins eða í fréttatíma RÚV. Þetta er vitaskuld mikill misskilningur.

Einhverjum stjórnmálamönnum er í nöp við netið og þá opnu umræðu sem þar fer fram. Hún gerir þeim erfiðara fyrir að fela hlutina, fara sínu fram í skjóli upplýsingaskorts og þöggunar. Egill Helga hefur eftir 'glöggum stjórnmálaskýranda' í nýjustu bloggfærslu sinni að... "Samfylkingarmaður sem ég talaði við hélt því er virtist fram í fullri alvöru að umræðan á netinu væri einn aðalsökudólgurinn í því hve illa gengur að koma á úrbótum og lausnum. Allur tími ráðamanna færi í það að verjast þessu leiðindafyrirbæri sem netið er..." Ef þetta er almennt sýnishorn af áliti stjórnmálamanna á skoðunum almennings er ansi langt í að við fáum þá opnu og heiðarlegu stjórnsýslu sem kallað var eftir í vetur - og það hátt og snjallt.

Þetta er langur formáli að litlum pistli - Morgunvaktarpistlinum fá 14. ágúst. Hljóðskrá fylgir neðst í færlsunni.

Morgunvaktin á Rás 2
Ágætu hlustendur...

Um árabil var okkur talin trú um að á Íslandi væri engin spilling. Því til sönnunar birtust reglulega niðurstöður Transparency International, sem gæti útlagst á íslensku Alþjóða gagnsæisstofnunin. Þar var Ísland ofarlega, jafnvel á toppnum, yfir MINNST spilltu þjóðir heims. Ég minnist þess ekki að fjölmiðlar, sem birtu niðurstöðurnar, hafi nokkurn tíma skoðað þær eða forsendur þeirra nánar. Stjórnmálamenn vitnuðu gjarnan í þessar kannanir til að bera af sér áburð um spillingu og réttlæta jafnvel spilltustu athafnir sínar.

Þjóðin glotti alltaf þegar þetta hreinleika- og gagnsæisvottorð birtist því hún vissi betur. Við vissum öll að á Íslandi var gjörspillt stjórnkerfi þar sem frændsemi, klíkuskapur og eiginhagsmunir réðu ríkjum. Það mátti bara ekki segja það upphátt og alls ekki minnast á mútur. Slíkur ósómi tíðkaðist bara í útlöndum. Á Íslandi var þannig greiðasemi kölluð 'fyrirgreiðsla' eða eitthvað ámóta huggulegt. Í versta falli 'samtrygging'. Alls ekki spilling og mútur. Það var eitthvað svo... óíslenskt.

Að blogga eða blogga ekki - Að lesa blogg eða lesa ekki bloggEftir efnahagshrunið í haust hafa ótrúlegustu hlutir komið upp á yfirborðið og upplýsingar um alls konar spillingu gefið okkur utan undir hvað eftir annað af svo miklu afli að undan hefur sviðið. Og enn hellast spillingarmálin yfir okkur, nú síðast í fréttum af skilanefndum gömlu bankanna. Þar blandast líka inn í einn angi spillingarinnar - hagsmunaárekstrar og vanhæfi. Ótrúlega mikið þarf til að menn viðurkenni hagsmunaárekstra eða eigið vanhæfi, jafnvel þó að það blasi við öllum öðrum. Og það undarlega er, að menn eru látnir í friði með að ákveða sjálfir hvort þeir eru vanhæfir eða ekki.

Umræðan um spillinguna og fjölmiðlun á Íslandi hefur breyst mjög eftir að netið og bloggið komu til sögunnar. Nú þarf ekki lengur að bíða kvöldfrétta eða prentblaðanna að morgni til að fá upplýsingar. Þær birtast oftast fyrst á netinu - í netmiðlum eða á bloggi. Netið er upplýsingaveita nútímans og framtíðarinnar. Það er annars eðlis en hefðbundnir fjölmiðlar og getur leyft sér meira - eða gerir það að minnsta kosti.

Þótt hefðbundnir fjölmiðlar séu bráðnauðsynlegir og ágætir fyrir sinn hatt finnst mér alltaf skrýtið að hitta fólk sem snýr upp á sig þegar blogg ber á góma og segir snúðugt með misskildum menningarhroka: "Nei, ég les ALDREI blogg." Í tóninum felst að því þyki afskaplega ófínt að blogga og enn ófínna að lesa blogg. Þetta fólk er á villigötum ef það heldur að ekkert sé satt nema það birtist í kvöldfréttum ljósvakans eða á síðum prentmiðlanna. Það hefur ekki nema örlitla nasasjón af sannleikanum því upplýsingaflæðið er margfalt meira, ferskara og frjórra í netmiðlum og á bloggi. Þar er líka hægt að fletta upp öllu mögulegu langt aftur í tímann til að hressa upp á minnið og setja atburði í samhengi.

Jafnvel blaðamenn hafa viðurkennt að lesa aldrei blogg eins og Víkverji dagsins á Mogganum sem skrifaði meðal annars þetta fyrir rúmu ári: "Víkverji sér ansi oft vitnað í blogg í fjölmiðlum. Hann getur ekki séð að menn hafi þar ýkja mikið fram að færa. Það er eitthvað sérlega dapurlegt við það að fólk sé farið að eyða mörgum tímum á dag í að kynna sér þessi ómerkilegu skrif." Víkverji þessi sagði fleira niðrandi um bloggið í pistli sínum, en honum hefur vonandi snúist hugur því annars veit hann ekki allan sannleikann frekar en aðrir sem ekki lesa blogg og netmiðla.

Sannleikurinn leynist nefnilega víðar en í Mogganum og Ríkisútvarpinu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svanur Gísli Þorkelsson

Einn skólafélagi minn sem er mjög vel þekktur tónlistarmaður, söngvari, leikari og ljóðskáld, fullyrti við mig á dögunum að öll bloggskrif og facebook síður, og yfirleitt allt þetta netstand væri tóm athyglissýki. Fólk væri bara á höttunum eftir athygli til að "bústa egóið". Ég varð mjög undrandi þegar ég sá þennan sama skólafélaga ávarpa lýðinn á mótmælafundinum gegn Icesave s.l. fimmtudag. Hann er greinilega orðinn stjórnmálamaður og hagspekingur líka í viðbót við alla hina eiginleikana og ætti því að vita hvað hann er að tala um.

Svanur Gísli Þorkelsson, 17.8.2009 kl. 12:30

2 identicon

Sæl

Langar að heyra í þér varðandi sölu HS og OR á hlutum sínum til Magma energy... finnst ótrúlega lítil umræða um þessa einkavæðingu.  

Sólveig (IP-tala skráð) 17.8.2009 kl. 12:56

3 identicon

Ég segi bara: Hvar værum við í dag, eftir hrunið, með alla spillinguna og ónýta fjölmiðla ef ekki hefðum við haft Bloggið og sérstaklega bloggara eins og þig.

Eitt af því sem okkar ónýtu fjölmiðlar t.d. ekki kláruðu. Var heitasta kosninga/spillingar málið. Hver styrkti hvaða flokk hvenær og hvað mikið. Þetta hefur gleymst aftur í ESB og Iceslave fárviðrinu.

Þess vegna hefði ég viljað sjá sérstaka rannsókn á flokkaspillingunni allavega 10-15ár aftur í tímann. Af einhverjum óháðum sérfræðingum að utan sem eru engum skildir hér. Og hlut pólitíkusa í spillingunni og hruninu, óhád flokkum. Ef einhver flokkur setur sig á móti því hlítur hann að hafa eitthvað að fela. Ekki satt? Hér þyrfti að setja lög strax sem opnar bókhald allra flokka þetta langt aftur. Og til að fjármagna þetta, væri upplagt að allar óeðlilegar greiðslur til flokks eða í einstök framboð, rynnu óskert til ransóknarinnar í stað þess að endurgreiðast til gefanda.

Síðan í kjölfærið þyrfti að semja lög um,  hvað eðlileg framlög og samskifti við viðskiftalífið er. Og að sjálfsögðu opið bókhald allra flokka í framtíðinni. MBK.

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 17.8.2009 kl. 13:59

4 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Samkvæmt þessum vitleysingum hjá TI voru eitthvað 4-5 lönd í heiminum á sama topplevel og við í spillingarleysi árið 2007. Skýrslan fyrir 2008 hefur ekki enn komið út, kannski sé verið að leggja þessa mafíuhlífistofnun niður. En örgustu skækjur í pólitíkinni hérna þrástöðugust lengi á mælingum þessarrar dularfullu stofnunar enda borguðu téðar skækjur að sjálfsögðu niðurstöðurnar úr ríkissjóði. Allt kostar jú í heimi hér og mafían er ekki með neina ókeypis góðgerðarstarfsemi. 

The 2007 Annual Report can be downloaded as a PDF file in:

Baldur Fjölnisson, 17.8.2009 kl. 14:50

5 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Nýr veruleiki hefur birst stjórnmálamönnum, hvort sem þeim líkar betur eða verr.  Hef gerst svo kræf að kalla netheima "the sixth power".  Nú geta þeir ekki lengur sagt:  "ég skynja mjög mikinn meðbyr" án þess að slíkt sé sannreynt í netheimum.

Berum höfuðið hátt og þreytumst aldrei að fjalla um hina raunverulegu spillingu, sem setti allt á hliðina.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 17.8.2009 kl. 14:59

6 Smámynd: Kolbrún Heiða Valbergsdóttir

Kærar þakkir fyrir að setja þjóð þína í fyrsta sæti, Lára Hanna. Ég get ekki ímyndað mér annað en að það hafi verið strembið að standa svona í eldlínunni frá hruninu. Það hafa margir sagt það en gott er aldrei ofsagt. Þú ert hetja!

Kolbrún Heiða Valbergsdóttir, 17.8.2009 kl. 19:36

7 Smámynd: Helga Þórðardóttir

Ég er nokkuð viss um það að Icesavmálið hefði farið óbreytt í gegnum þingið ef ekki hefði komið til gagnrýni almennigs á netheimum og amennum mótmælum. Það  sýnir okkur hvað fólk eins og þú og fleiri sem þora að standa upp og verja málstað almennings á Íslandi er mikilvægur. Ég bendi á einn slíkan í síðustu bloggfærslu minni. Höldum áfram að veita stjórnvöldum aöhald.

Helga Þórðardóttir, 17.8.2009 kl. 22:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband