Ísland getur ekki borgað

"Þjóðir spyrja ekki bara hvort greiða eigi skuldir, heldur líka - eins og á Íslandi - hvort hægt sé að greiða þær. Ef það er ekki hægt, þá leiðir tilraun til að greiða þær einungis til frekari efnahagssamdráttar og hindrar lífvænlega þróun hagkerfisins." Þetta segir Michael Hudson meðal annars í grein sem birtist í Financial Times og Global Research í dag og mikið hefur verið fjallað um í íslenskum fjölmiðlum. Eins og allir vita er enn ekki ljóst hvernig Bretar og Hollendingar taka fyrirvörum við Icesave-samninginn.

Ísland og Lettland geta ekki borgað, og borga því ekki
eftir Michael Hudson í þýðingu Gunnars Tómassonar

Geta Ísland og Lettland greitt erlendar skuldir fámenns hóps einkavina valdhafa?

Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa sagt þeim að umbreyta einkaskuldum í opinberar skuldbindingar og endurgreiða þær með hækkun skatta, niðurskurði ríkisútgjalda og eyðingu sparifjár almennings. 

Reiði fer vaxandi ekki einungis í garð þeirra sem söfnuðu skuldunum - Kaupþing og Landsbanki í gegnum Icesave og einkaaðilar í löndunum við Eystrasalt og í mið-Evrópu sem veðsettu fasteignir og einkavæddar ríkiseignir langt úr hófi fram - heldur líka gagnvart erlendum lánardrottnum sem þrýstu á stjórnvöld að selja banka og aðra helztu innviði hagkerfa til innherja.

Stuðningur viðMichael Hudson - Ljósm.: Ragnar Tómasson aðildarumsókn Íslands að ESB hefur minnkað í um þriðjung þjóðarinnar og Harmony Center flokkurinn, sem studdur er af stórum hluta rússnesku-mælandi Letta, hefur náð meirihluta í Riga og stefnir í að verða vinsælasti flokkurinn á landsvísu. Í báðum tilfellum hafa mótmæli almennings skapað vaxandi þrýsting á stjórnmálamenn að takmarka skuldabyrði við eðlilega greiðslugetu landanna.

Um helgina skipti þessi þrýstingur sköpum á Alþingi Íslendinga. Þar varð samkomulag, sem kann að verða frágengið í dag, um skilyrði fyrir verulegum endurgreiðslum til Bretlands og Hollands vegna útborgana þeirra á innistæðum þarlendra eigenda Icesave reikninga.

Mér vitanlega er þetta fyrsta samkomulagið frá þriðja áratug síðustu aldar sem takmarkar afborganir af skuldum við greiðslugetu viðkomandi lands. Greiðslur Íslands takmarkast við 6% af vexti vergrar landsframleiðslu miðað við 2008.  Ef aðgerðir lánardrottna keyra íslenzka hagkerfið niður með óvægnum niðurskurði ríkisútgjalda og skuldaviðjar kynda undir frekari fólksflutninga úr landi, þá verður hagvöxtur enginn og lánardrottnar fá ekkert greitt.

Svipað vandamál kom til umræðu fyrir liðlega 80 árum vegna skaðabótagreiðslna Þýzkalands vegna fyrri heimsstyrjaldar. En margir stjórnmálamenn átta sig enn ekki á því að eitt er að merja út afgang á fjárlögum og annað að geta greitt erlendar skuldir. Hver sem skattheimta stjórnvalda kann að vera þá er vandinn sá að breyta skatttekjum í erlendan gjaldeyri. Eins og John Maynard Keynes útskýrði, ef skuldsett lönd geta ekki aukið útflutning sinn verða greiðslur þeirra að byggjast á lántökum eða eignasölu.  Ísland hefur núna hafnað slíkum eyðileggjandi valkostum.

Greiðslugetu hagkerfis í gjaldeyri er takmörk sett. Hærri skattar þýða ekki að stjórnvöld geti umbreytt auknum skatttekjum í erlendan gjaldeyri. Þessi staðreynd endurspeglast í afstöðu Íslands gagnvart Icesave skuldum, sem áætlað er að nemi helmingi af vergri landsframleiðslu þess. Með þessari afstöðu sinni mun Ísland væntanlega leiða önnur hagkerfi í pendúlssveiflu frá þeirri hugmyndafræði sem telur endurgreiðslu allra skulda vera helga skyldu. 

Fyrir hagkerfi landa sem losnuðu undan stjórn Sovétríkjanna felst vandinn í því að vonir brugðust um að sjálfstæði 1991 hefði í för með sér vestræn lífsgæði.  Þessi lönd jafnt sem Ísland eru enn háð innflutningi. Hnattræna eignabólan fjármagnaði hallann á viðskiptajöfnuði - lántökur í erlendri mynt gegn veði í eignum sem voru skuldlausar þegar löndin urðu sjálfstæð. Nú er bólan sprungin og komið að skuldadögum. Lán streyma ekki lengur til Eystrasaltslanda frá sænskum bönkum, til Ungverjalands frá austurrískum bönkum, eða til Íslands frá Bretlandi og Hollandi. Atvinnuleysi eykst og stjórnvöld skera niður útgjöld til heilbrigðis- og menntamála. Í kjölfarið fer efnahagslegur samdráttur og meðfylgjandi neikvæð eignastaða fjölda fyrirtækja og heimila.

Óvægnar niðurskurðaráætlanir voru algengar í löndum þriðja heims frá 8. til 10. áratugar síðustu aldar, en evrópsk lýðræðisríki hafa takmarkað þolgæðiMichael Hudson, hagfræðingur gagnvart slíku verklagi. Eins og málum er nú háttað eru fjölskyldur að missa húsnæði sitt og fólksflutningar úr landi eru vaxandi. Þetta voru ekki fyrirheit nýfrjálshyggjunnar.

Þjóðir spyrja ekki bara hvort greiða eigi skuldir, heldur líka - eins og á Íslandi - hvort hægt sé að greiða þær. Ef það er ekki hægt, þá leiðir tilraun til að greiða þær einungis til frekari efnahagssamdráttar og hindrar lífvænlega þróun hagkerfisins.

Munu Bretland og Holland samþykkja skilyrði Íslands? Keynes varaði við því að tilraun til að knýja fram erlenda skuldagreiðslu umfram greiðslugetu krefðist stjórnarfars á sviði fjárlaga og fjármála sem er þjakandi og óvægið og gæti hvatt til þjóðernissinnaðra viðbragða til að losna undan skuldakröfum erlendra þjóða.  Þetta gerðist á þriðja áratug 20. aldar þegar þýzka hagkerfið var kollkeyrt af harðri hugmyndafræði um ósnertanleika skulda.

Málið varðar praktíska meginreglu: skuld sem er ekki hægt að greiða verður ekki greidd. Spurningin er einungis hvernig slíkar skuldir verða ekki greiddar. Verða þær afskrifaðar að miklu leyti? Eða verður Íslandi, Lettlandi og öðrum skuldsettum löndum steypt í örbirgð til að merja út afgang í tilraun til að komast hjá vanskilum?

Síðarnefndi valkosturinn getur knúið skuldsett lönd til stefnubreytingar. Eva Joly, franski saksóknarinn sem aðstoðar við rannsókn á íslenzka bankahruninu, hefur varað við því að svo gæti farið að Ísland stæði uppi með náttúruauðlindir og mikilvæga staðsetningu sína: „Rússlandi gæti til dæmis fundist það áhugavert." Kjósendur í löndum sem losnuðu undan stjórn Sovétríkjanna gerast æ meira afhuga Evrópu vegna eyðileggjandi hagstjórnarstefnu sem nýtur stuðnings ESB.

Eitthvað verður undan að láta. Mun ósveigjanleg hugmyndafræði víkja fyrir efnahagslegum staðreyndum, eða fer það á hinn veginn?

Höfundur er hagfræðiprófessor við University of Missouri

****************************************

Rifjum upp viðtal Egils Helgasonar við Michael Hudson í Silfrinu 4. apríl 2009

 

Hudson svaraði spurningum í beinni hér á síðunni í vor. Samantekt má sjá hér og spurningar og svör í íslenskri þýðingu hér.

Fréttir RÚV í kvöld, 17. ágúst 2009

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

,,Eins og allir vita er enn ekki ljóst hvernig Bretar og Hollendingar taka fyrirvörum við Icesave-samninginn."

Stendur þeim eitthvað annað til boða ?

Ég vil að umræðan fari að komast yfir á hvenær ætlum við að láta ICESAVE liðið borga það sem þeim beri ?

Ef stjórnvöld ætla bara að nota lagalega fyrirvara sem afsökun við að ná í þetta ICESAVE lið, er þá ekki komið að okkur að sækja þetta fólk og láta það borga sitt ?

ICESAVE liðið setti bara hunduð milljarða í skuld hjá okkur!

Ég vil að þetta ICESAVE lið verði sótt og látið borga, áður en alþingi tekur afstöðu til ríkisábyrgðar !

Þetta er fólkið sem á að borga þetta, þetta er ICESAVE liðið  :  Kjartan Gunnarsson, Svava Gröndfeldt, Þorgeir Baldursson, Þór Krisjánsson, Halldór Kristjánsson, Sigurjón Árnason, Björgúlfur Thor og Björgúlfur Guðmundsson.

JR (IP-tala skráð) 17.8.2009 kl. 20:33

2 identicon

Langar að benda áhugasömum á að mun lengri og fróðlegri útgáfa af þessari grein Michaels  birtist í dag á Global Research  http://www.globalresearch.ca/index.php?context=va&aid=14800

Kristinn Hrafnsson (IP-tala skráð) 17.8.2009 kl. 21:51

3 identicon

Auðvitað eiga þeir einstaklingar sem stofnuðu til skuldbindinganna að greiða til baka það innlánsfé sem saklaust fólk lét í hendurnar á þessu fólki til ávöxtunar.  JR nefnir nokkra aðila. Sama gildir um þau innlán sem Kaupþing tók við hér á landi og í Bretlandi.

Hagfræðingurinn Geir H. Haarde sagði að við ættum ekki að persónugera hlutina.

Uppgjörið byggir einmitt á því að persónugera hrunið.

Ekki hefur vantað uppá að óreiðumennirnir "persónugerðu" efnahagsfallið með því að senda reikning á hverja fjöldskyldu - hverja kennitölu hér - hér upp á margar milljónir. Prívat og persónulega eyrnamerkt - inn um bréfalúguna daglega.

Fyrirvinnur eru að greiða á hverjum degi nokkur þúsund krónur í gegnum beina og óbeina skatta og ýmsum auknum kostnaði vegna gjörða þessara einstaklinga.

Leitt hve fáir þora að tjá sig um þetta.

Aðeins nokkrir af þúsundum sem líta hér inn skrifa inn.  Margir koma fram undir dulnefni. Hvað segir það okkur ? Hví er fólk hrætt ? Hverja er að óttast ?

Í tilefni þessa innleggs kem ég að þessu sinni undir dulnefni

"Ábyrgðarmaðurinn" (IP-tala skráð) 17.8.2009 kl. 22:19

4 identicon

Ég var að renna yfir greinina hans Hudson í fullri lengd. Hún ætti að vera skyldulesning fyrir ráðamenn þjóðarinnar. Svo virðist sem endalausar lánalínur séu framtíð íslenska ríkisins ef við festumst í skuldagildru IceSave og AGS. Það verður að skipta út gjaldmiðlinum sem fyrst. Annað er gálgafrestur.

TH (IP-tala skráð) 17.8.2009 kl. 23:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband