Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Bækur á óskalistann

Ég lærði að lesa í laumi þegar ég var fimm ára. Eldri systir mín var í sex ára bekk í Landakotsskóla og ég fékk að fylgjast með þegar hún æfði sig gegn því að ég væri þæg og þegði. Þess vegna vissi enginn fyrr en ég var allt í einu orðin læs. Síðan hef ég verið með nefið ofan í bókum - og það er óralangt síðan ég var fimm ára.

Þessa bók nefndi ég nýverið, þá nýbyrjuð að lesa hana. Hún veldur mér engum vonbrigðum og stendur fyllilega undir væntingum. Hér er umsögn um hana á Smugunni. Ég held að flestir dómar um bókina hafi verið í þessa veru.

Ofsi - Einar KárasonÉg vinn hjá sjálfri mér og auðvitað gaf vinnuveitandinn starfsmanninum afmælisgjöf um daginn. Það var Ofsinn hans Einars Kárasonar sem ég hlakka mikið til að lesa. Ég fékk fyrstu Sturlungabók Einars, Óvinafagnað, þegar hún kom út fyrir mörgum árum og það var geggjuð bók. Hér er Víðsjárviðtal við Einar frá 2. des. sl. (aftast í þættinum) þar sem Einar segir m.a. frá tilurð þriggja orða kaflans í Óvinafagnaði. Hann hélt að enginn hefði tekið eftir þessari snilld, en það er aldeilis ekki rétt! Ég spái því að þetta verði trílógía hjá Einari.

Þar kom að því að maður fengi áhuga á Sturlungu. Sami vinnuveitandi gaf sama starfsmanni síðan bráðskemmtilegt þriggja kvölda námskeið hjá Endurmenntun þar sem Einar fór á stökki yfir Sturlungu og leiðbeindi um hvernig þægilegast væri að lesa hana. Vonandi hef ég tíma til þess þegar og ef um hægist. Ofsi hefur fengið einróma lof og síðast í gær valdi starfsfólk bókaverslana bókina bestu skáldsögu ársins. Gerður Kristný var svo með bestu barnabókina. Kastljós sýndi frá afhendingu viðurkenninganna.

Í einni af gramsferðum mínum í bókabúðir fann ég litla bók sem vakti athygli mína. Hún var svo skemmtileg og svo ódýr að ég keypti fjórar. Gaf þrjár í afmælisgjafir en hélt eftir eintaki fyrir sjálfa mig. Þetta er bókin Jólasveinar - af fjöllum í fellihýsi - Magnea J. MatthíasdóttirJólasveinar - af fjöllum í fellihýsi eftir Magneu J. Matthíasdóttur með myndskreytingum eftir Ólaf Pétursson. Í bókinni er fjallað um nútímavæðingu jólasveinanna í bundnu máli, listilega gert. Það er ekki oft sem bækur henta öllum aldurshópum en það gerir hún þessi. Dæmi um minn gamla uppáhaldsjólasvein, Kertasníki, með leyfi höfundar:

Kertasníkir um kerti bað
er kom hann mannabyggðum að,
í hellinum vild'ann hafa bjart
og hrekja burt vetrarmyrkrið svart.

(Nú þjóðar velferð hann þættist styrkja
og þyti upp á heiðar að virkja.)

En ein er sú bók sem ég ágirnist einna mest og höfðar ótrúlega sterkt til sagnfræðinördsins í mér. Ég skil ekkert í mér að hafa ekki lært sagnfræði. Það er bók með því stóra nafni Saga mannsins - frá örófi fram á þennan dag, hvorki meira né minna. Ég er búin að fletta henni í bókabúð og sökk ofan í hana á staðnum. Bókin er byggð á erlendu verki sem komið hefur út í ýmsum löndum, en ritstjóri íslensku útgáfunnar er Illugi Jökulsson. Vanur maður á þessu sviði sem öðrum. Illugi ritstýrir líka hinu bráðskemmtilega tímariti Sagan öll sem ég hef verið áskrifandi að frá fyrsta tölublaði. Hér er smá sýnishorn af opnu úr bókinni.

Saga mannsins - opna

Illugi var í Mannamáli á sunnudaginn að ræða um bókina, en því miður náðu Kiljuspekúlantar ekki að fjalla um hana nema í mýflugumynd í síðustu Kilju fyrir jól í gærkvöldi. Þau verða eiginlega að taka hana eftir áramót, því svona bækur eru sígildar og eilífar. Miklu meira en bara jólabækur.

Ef jólasveinar eru til í alvörunni, eins og grunur leikur á, hlýt ég að fá þessa í skóinn.


Meiri skyldulesning

Ég tek undir með þeim sem segja að greinin í Tíund, blaði Ríkisskattstjóra, sé skyldulesning fyrir alla sem vilja reyna að skilja hvernig efnahagshrunið gerðist. Greinin er útlkippt hér og neðst í færslunni er viðfest .pdf skjal með öllu blaðinu. Þessi pistill Gunnars Axels er líka skyldulesning, sem og flestir bloggpistlar hans. Hengi líka við færsluna ræðuna hans á borgarafundinum í gærkvöldi.

Hér er umfjöllun Morgunblaðsins um greinina í Tíund. Smellið þar til læsileg stærð fæst. Verið viðbúin að fá hroll og klígju við allan þennan lestur.

Morgunblaðið 18.12.08

Morgunblaðið 18.12.08

Og hér er þrjúhundraðasta grein Þorvaldar Gylfasonar í Fréttablaðinu í dag. Þorvaldur Gylfason - Fréttablaðið 18.12.08


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Spilaborgin sem hrundi

Þetta er eftir Jón Gerald Sullenberger - held ég.

Þessu tengt - Brennpunkt eða Í brennidepli - sýnt í Norska ríkissjónvarpinu 25. nóvember sl.

Í brennidepli - útrásin - fyrri hluti

Í brennidepli - útrásin - seinni hluti

Og bókaútgáfa Spaugstofunnar kynnir...


Kastljós og spillingarsprengjurnar

Ég hef hrósað Kastljósi ítrekað undanfarið og held því áfram, og ekki að ástæðulausu. Þau eru að grafa upp og segja frá ýmiss konar spillingu, hagsmunatengslum og siðleysi í stjórnkerfinu. Í kvöld var það Tryggvi Jónsson, vera hans í Landsbankanum og hverjir skipaðir eru í skilanefndir gömlu bankanna. Margt vekur athygli hér og ég spyr bara: Er nokkur furða að fólk mótmæli svona yfirgengilegum, siðferðilegum sóðaskap? Mér er slétt sama þótt "ekki sé verið að brjóta nein lög"! Þetta er vítaverður dómgreindarskortur og óþolandi að hver vísi svo á annan með sakleysissvip. Höldum áfram að mótmæla svona vinnubrögðum!

Kastljós í kvöld, 17. desember 2008

 

Kastljós sl. fimmtudagskvöld, 11. desember 2008

 

Þessu nátengt - Fréttablaðið í dag, 17. desember 2008

 LÍÚ - Niðurfelling krafna - Fréttablaðið 17.12.08


Síðasti borgarafundurinn fyrir jól

Í kvöld kl. 20 verður síðasti borgarafundurinn fyrir jól að Borgartúni 3 þar sem samtökin hafa aðstöðu. Fundurinn á að fjalla um spillingu og hringamyndun í viðskiptalífinu - mjög aktúelt umræðuefni á Íslandi í dag. Gestir fundarins verða Óli Björn Kárason, ritstjóri, og Gunnar Axel Axelsson, viðskiptafræðingur og bloggari. Í sarpinum má finna þá báða í ýmsum sjónvarpsþáttum.

Spaugstofan lætur sér ekkert mannlegt óviðkomandi og hefur aldrei verið beittari en upp á síðkastið. Þeir félagar lögðu sitt af mörkum á fjölmennasta fundinum hingað til, þegar ráðherrar og þingmenn mættu í Háskólabíó. Muna ekki allir sem voru á fundinum eftir þessum spurningum... og svörum?

Spilling, hringamyndanir og viðskiptatengsl eru yfir og allt um kring og verið er að moka flórinn daglega. Og hann er mikill og daunillur. Þessi grein birtist í Fréttablaðinu í dag og fjallar um hvernig lykilpersónur bankahrunsins tengjast á einn eða annan hátt. Smellið þar til læsileg stærð fæst.

Fréttablaðið 17.12.08


Spillingartengsl, pólitísk ábyrgð, skattaskjól og DV

Þetta viðtal Þóru Kristínar við Bjarna Harðarson verða allir að sjá. Þarna staðfestir Bjarni almannaróm og það svo um munar og kallar það alvarlega spillingu. Játar sök á sinn flokk, hvað þá annað.

Það var ekki auðmýktinni fyrir að fara hjá Björgvin G. í viðtali í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. Gott að fá innslagið þegar Björgvin spurði snúðugt: "Hvaða mál eru það sérstaklega"? Heldur hann að fólk hafi SVONA mikið gullfiskaminni?

Þetta var í tíufréttum RÚV í kvöld - hagur af útrásinni lítill og peningum komið undan í erlend skattaskjól. Ísland, eitt landa, hunsaði tilmæli OECD um herta löggjöf. Skyldi þetta mál tengjast því sem Bjarni var að segja? Reyni svo einhver að segja að ábyrgð stjórnvalda sé léttvæg! Það er ansi aum aðgerð að skipta bara út nokkrum ráðherrum!

Svo var fjallað meira um Reynismál Traustasonar og DV í Kastljósi. Fín eftirfylgni og mikið svakalega var ég sammála Þóru Kristínu - í einu og öllu. Hún glansar í hverju málinu á fætur öðru. Agnes Braga og Sigurður G. ræddu þetta mál líka meðal annarra í Íslandi í dag, sjá hér.

 Hér er yfirlýsingin frá Reyni Traustasyni sem þau voru með og vitnuðu í.

Yfirlýsing Reynis Traustasonar

 


Enn eitt upplýsingavígið fallið með skömm

DVÉg tek undir með Þórhalli hér. Þetta símaviðtal átti fullt erindi við almenning. Ýjað hefur verið að undirlægjuhætti einstakra ritstjóra eða blaðamanna gagnvart eigendum sínum eða öðrum fjársterkum aðilum sem eru í aðstöðu til að skaða þá en engin konkret dæmi komið upp á yfirborðið - fyrr en núna. Mér fannst þetta koma úr hörðustu átt, frá manninum sem hefur talað af kokhreysti um sjálfstæða ritstjórn sína og hvers sonur skrifaði þetta 10. október sl. Eftir fyrri yfirlýsingar er fall Reynis himinhátt og trúverðugleikinn gjörsamlega horfinn. Þetta er þyngra en tárum taki.

Þetta var nefnilega ekkert smámál. Að Sigurjón hafi enn verið með krumlurnar í Landsbankanum á einn eða annan hátt, kippaReynir Traustasonndi í spotta fyrir aðalskuldarana, Jón Ásgeir og Stoðir - það er stórmál sem enginn fjölmiðill hefur ennþá grafið almennilega upp. Hver hótaði Reyni? Hver grátbað Reyni? Ég held ekki að það hafi verið Björgólfur. Frekar Jón Ásgeir, Hreinn, Sigurjón eða... ja, koma fleiri til greina? Eflaust. Hver er/var viðskiptabanki DV eða rekstraraðila þess? Var hótað að gjaldfella lán? Loka sjoppunni? Reynir talar ekki nógu skýrt út um það. En hann verður að gera það. Allra hluta vegna - ekki síst fólksins í landinu. Við VERÐUM að geta treyst einhverjum og það eru ansi fáir eftir. Og ef Reynir gerir alvöru úr þeirri hótun sinni að lögsækja Jón Bjarka og/eða RÚV gengur hann endanlega frá orðstír sínum dauðum.

Og viðbrögð hins óþekkta, grátbiðjandi og hótandi manns bera þess síður en svo merki að þetta sé smámál. Þvert á móti. Þá hefði kannski ekki verið svona hart lagt að ritstjóranum að birta ekki frétt sem áður hafði þó birst á Eyjunni. Hverjir aðrir en Sigurjón, sem Jón Bjarki talaði við í síma, vissu að verið væri að vinna fréttina?

Ég þurfti að vinna í kvöld en hef ekki getað það. Mér hefur verið líkamlega illt, mér er ennþá bumbult og ég er óendanlega sorgmædd. Mér finnst einhvern veginn að allir séu í því að svíkja þjóðina, ljúga að henni og gefa skít í hana. En ekki Jón Bjarki. Ég tek ofan fyrir stráknum - þetta heitir að vera ærlegur og láta stjórnast af sannfæringu sinni. Það mættu fleiri gera, ekki síst þingmennirnir. Ég vona að fleiri blaðamenn feti í fótspor Jóns Bjarka og þeim veitir greinilega ekkert af því að vera með upptökutæki á sér í framtíðinni.

Kastljósið 15. desember 2008 - útskrift af samtalinu er hér

 

Sýn Henrýs Þórs á málið

Henrý Þór Baldursson - 16.12.08


Gjaldþrot sem skiptimynt

Í Kompási kvöldsins á að fjalla um óprúttna aðila sem notfæra sér neyðarástand fólks til að græða. Ég veit ekki meira en fram kemur í þessari stiklu hér að neðan en þetta hljómar ótrúlega. Þátturinn er í opinni dagskrá á Stöð 2 klukkan 19.20.

En ég var að reka augun í frétt á Vísi þar sem lögmaður hótar málssókn ef þátturinn verður sendur út. Ég hef trú á að Kompássmenn láti það sem vind um eyru þjóta. Og ég sé ekki betur en að þetta sé sami lögmaður og varði annan náungann í handrukkunar- og líkamsárásarmálinu sem Kompás fjallaði um nýverið.

 


Litið um öxl á orð, efndir, álit og yfirlýsingar

Lesendur þessarar síðu vita að mér finnst oft fróðlegt að líta um öxl. Rifja upp orð, efndir, álit og yfirlýsingar, bera saman og spá í hver hefur haft rétt fyrir sér og hver rangt - og hvað er á bak við orð manna. Upphaflega ætlaði ég aðeins að birta tvö myndbönd en þetta vatt upp á sig. Ég á svo mikið efni í gullakistunni að erfitt er að velja og hafna.

Lítum til að byrja með á nýársávarp forsætisráðherra frá 31. desember 2007, fyrir næstum ári síðan. Eðli slíkra ávarpa er að vera innihaldslaust, upphafið, staðlað kjaftæði um allt og ekkert og þetta ávarp er engin undantekning. Eftir hálfan mánuð fáum við nýtt ávarp. Það þarf ekki að vera spámannlega vaxinn til að vita hve gjörólíkt það verður. Í þessu nýársávarpi er tæpt á öllu þessu klassíska blaðri = við erum svo góð í náttúruvernd (kanntu annan, Geir?), orkan okkar er svo hrein og endurnýjanleg (meðvituð lygi), efnahagurinn er mjög traustur (W00t), sama, gamla mærðin um tungumálið, rithöfundana sem varðveita það o.s.frv. sem er gleymt um leið og ávarpinu lýkur - sem sagt, allt er í góðu lagi = tómt bull. En... pöpullinn, sem enn lítur upp til valdsins og trúir því, er friðaður.

Hér er aftur á móti "áramótaávarp" Sigurjóns Þ. Árnasonar, þáverandi bankastjóra Landsbankans, frá 28. janúar 2008 - eftir ársuppgjör bankans. Hann lætur þess ekki getið að lokað hafi verið fyrir millibankalán til íslenskra banka um mitt ár 2007 og að þá hafi bankinn sótt eyðslufé í vasa sparifjáreigenda ýmissa landa með góðum árangri. Sigurjón fékk bónusinn sinn og bankinn græddi á pappírunum eins og sést á sjálfumglöðum svipnum á bankastjóranum. Takið sérstaklega eftir annars vegar kröfum Sigurjóns til stjórnvalda hvað "jákvæða umgjörð fjármálastofnana" varðar og hins vegar meðvirkni fréttamannsins og leiðandi spurningum hans. Hlustið líka á orð Sigurjóns um allt eftirlitið sem bankarnir þurfi að sæta sem nú hefur komið í ljós að var nákvæmlega ekkert. Ekki neitt. 

Það er varla hægt að hafa svona yfirlit án innkomu Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar. Hann er fenómen sem, þrátt fyrir andstreymi, gefst aldrei upp. Gengur ekki af trúnni hvað sem á dynur. Fróðlegt væri að fá "einkaviðtal" við Hannes Hólmstein í Kastljósi eða Silfrinu núna og heyra skýringarnar og réttlætingarnar sem frá honum kæmu. Eða kannski uppgjöfina? En VARÚÐ - í Sjálfstæðisflokknum eru fjölmargir lærisveinar hans, þar af þó nokkrir á Alþingi. Þetta viðtal er frá 4. apríl 2008.

Þetta viðtal við viðskiptablaðamann hjá Daily Telegraph, Ambrose Evans-Pritchard, er mjög athyglisvert. Hann hefur bæði rétt og rangt fyrir sér - vitum við núna. En varla er annað hægt en að líta á orð hans sem alvarlega viðvörun. Hver hlustaði? Athugið aftur leiðandi spurningar og hvernig fréttamaðurinn kemur inn með sín prívatinnslög. Viðtalið er frá 27. júní 2008 og hvað var þá að gerast hjá íslenskum stjórnvöldum? Allir á leið í sumarfrí eða...?

Að lokum kemur neyðarlagaávarp Geirs Haarde, forsætisráðherra. Bara svona til upprifjunar. Gríðarlega mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þetta ávarp var flutt og daglega hefur verið grafinn upp þvílíkur spillingarskítur að það hálfa væri nóg. Lögfræðingar draga neyðarlögin í efa, enda samin undir pressu á örskömmum tíma, en það er alltaf gott að rifja upp - við erum svo fjári fljót að gleyma. Ávarpið er frá 6. október sl., fyrir 2 mánuðum og 9 dögum - og 9 mánuðum og 6 dögum frá nýársávarpinu.

Ég hef aldrei hampað Steingrími J., hugnast hann ekkert sérstaklega þótt ég viðurkenni fúslega að vera stöku sinnum sammála honum. En þegar ég rakst á þetta mátti ég til með að hafa það með sem nokkurs konar  "punchline" eða lokahnykk á færsluna. Eins og sjá má er þetta úr Kryddsíld Stöðvar 2 á gamlársdag 2007.


Kverúlantasilfur dagsins

Í Silfrinu voru fjömargir eðalkverúlantar en aðeins einn málsmetandi maður samkvæmt skilgreiningu DV, Illugi Gunnarsson, alþingismaður og fyrrverandi stjórnarmaður í sjóði 9 hjá gamla Glitni sem mikið hefur verið fjallað um. Lesið skoðun Þorleifs Ágústsonar á Illuga þætti í Silfrinu. Ég held að Agli verði seint fullþakkað fyrir þátt hans í að veita aðhald og fletta ofan af spillingunni í íslensku þjóðfélagi, bæði í Silfrinu og á blogginu.

En hér er þátturinn - í bútum eins og venjulega. Ég vil enn og aftur ítreka þá skoðun mína að lengja þáttinn, það veitir ekkert af í þessu ástandi. Beini því erindi beint til Páls Magnússonar að þessu sinni.

Vettvangur dagsins - Helgi Áss,  Eygló, Magnús og Þráinn

 Illugi Gunnarsson, "málsmetandi" alþingismaður

 

Símaviðtal við Sigrúnu Davíðsdóttur í London

 

Indriði H. Þorláksson, hagfræðingur og fyrrverandi ríkisskattstjóri

 

Jóhann G. Ásgrímsson, viðskiptafræðingur

 

Jón Gerald Sullenberger - ég styð lágvöruverslunina hans

 

Paul Hawken, rithöfundur og umhverfisverndarsinni.
Hér er viðtal við hann í Mogganum í dag
og hér er pistill Stefáns Gísla um Paul

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband