2.12.2008
Tveir brandarar og ein sorgarsaga
Hér talar ráðherrann sem hefur innan við 5% fylgi samkvæmt nýjasta þjóðarpúlsi Gallups og skal engan undra. Hann vill að skríllinn "stilli mótmælum í hóf" og veit greinilega ekki að einmitt þannig hafa mótmælin verið. Þau hafa verið svo hófstillt miðað við aðstæður að erlendis þykja Íslendingar vera algjörar geðluðrur. Enn hefur ekkert ofbeldi átt sér stað, engar eignir verið skemmdar - fólk hefur bara verið að tjá gremju sína, örvæntingu og örvilnan.
Ráðherrann finnst þróunin í þjóðfélaginu og ólgan "að mörgu leyti skiljanleg" og fattar ekki að við hin eigum ekki milljóna, tugmilljóna, hundruð milljóna eða milljarðahluti í Byr eins og hann. Maður verður að giska því auðvitað má enginn vita hve stór hlutur hans er og hvers virði. Allt svo opið og gegnsætt eins og hann jánkaði og lofaði í Háskólabíói á borgarafundinum um daginn. Klöppum fyrir Árna.
Þetta rakst ég á á Eyjunni, fór inn á vefinn, vafraði þar um og skellihló. Glænýr fréttavefur segist nú þegar á fyrsta degi vera "Fremsti fréttaskýringavefur landsins"! Það vantar ekki sjálfsöryggið á þeim bænum. Fyndnast fannst mér að ritstjórnin segist óháð stjórnmálaflokkum og hagsmunasamtökum. Allir kannast við Óla Björn og Jónas. Friðbjörn Orri er helst þekktur fyrir frjálshyggjuskoðanir sínar og hann var (er kannski enn) formaður Frjálshyggjufélagsins. Saman hafa Friðbjörn Orri og Arthúr rekið "Leiðandi verðbréfavefinn" m5 og "Fremsta sjávarútvegsvef landsins" Sax. Það þarf ekki að grufla lengi á vefnum AMX til að sjá hvaða stjórnmálaskoðanir og hagsmuni þar er verið að upphefja, hverja vitnað er í og hverjir fá þar hásæti - þótt óháður vefur sé. Takk fyrir að kæta mig, strákar! Þið eruð með húmorinn í lagi.
Sorgarsöguna las ég hjá Illuga Jökulssyni sem fékk bréf. Alvöru handskrifað bréf í umslagi. Ég táraðist. Árni fjármálaráðherra ætti að lesa þetta og sjá sóma sinn í því að gera eitthvað í málinu í stað þess að tuða yfir að mótmælum sé stillt í hóf. Hverju ætli hann haldi annars að fólk sé að mótmæla? Veðrinu?
Bloggar | Breytt 3.12.2008 kl. 12:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
2.12.2008
Hámark niðurlægingarinnar?
Eða kannski bara Íslandsmet í smekkleysi.
Það er búið að rýja okkur inn að skinni. Gera okkur gjaldþrota, svipta okkur ærunni, leggja orðstír okkar í rúst. Ótta og óöryggi hefur verið troðið upp á þjóðina. Búið er að haga málum þannig að í fyrsta sinn upplifa Íslendingar þá skelfilegu tilfinningu að skammast sín fyrir þjóðerni sitt. Stoltið er í lágmarki eða horfið, landar okkar erlendis verða fyrir aðkasti. Þjóðin er í sárum, við erum ævareið, sár, dofin, gráti nær... og gott betur.
Í erlendum fjölmiðlum lesum við greinar og viðtöl þar sem okkur er ýmist vorkennt eða við verðum fyrir háðsglósum. Það vekur furðu meðal þroskaðra lýðræðisþjóða að enginn hafi verið handtekinn fyrir a.m.k. fjársvik, enginn stjórnmála- eða embættismaður hafi sagt af sér og viðurkennt þannig ábyrgð sína, mótmæli almennings eru svo friðsamleg að útlendingum þykir furðu sæta.
Svo blasir þetta við ferðamönnum sem koma til landsins á Keflavíkurflugvelli. Er hægt að leggjast lægra? Á hvers vegum er þetta? Hvaða snillingur á hvaða auglýsingastofu lét sér detta þetta í hug? Hnuplað héðan.
Ég krefst þess sem Íslendingur með örlítinn snefil af stolti eftir, að þessi lágkúra verði tekin niður nú þegar!
Viðbót: Auglýsingaspjöldin hafa nú verið tekin niður í Leifsstöð, sjá hér. Ég er þakklát fyrir það.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (46)
1. desember er flottur afmælisdagur. Ég veit allt um það, því það er afmælisdagurinn minn. Þegar ég var lítil stelpa voru það forréttindi fyrir afmælisbarn að geta ævinlega haldið upp á afmælið sitt á sjálfan afmælisdaginn. Það gat ég, allir krakkar áttu frí í skólanum og gátu mætt í boðið OG... best af öllu - það var alltaf flaggað fyrir mér - hélt ég. Fram eftir aldri trúði ég því og þegar ég áttaði mig á hinu sanna - að það var ekki beint verið að flagga fyrir mér heldur fullveldinu - fékk ég lauflétt áfall sem stóð þó ekki ýkja lengi yfir, ef ég man rétt. En ég ákvað af lítillæti mínu að deila deginum með því. Það var fín tilfinning og ég var ekki mjög gömul þegar ég skildi þýðingu þessa dags.
Í dag ætla ég (ásamt fleirum) að bjóða í afmæli og ég vona að sem flestir mæti. Fullveldið okkar verður 90 ára - ég er aðeins yngri. En við höldum saman upp á daginn eins og venjulega, fullveldið, Rósa Guðna (jafnaldra mín), Rás 2 (25 ára krakki) og ég. En í þetta sinn er það ekki boð í heimahúsi með lítilli kók í glerflösku og lakkrísröri, súkkulaðiköku með kertum og stórkostlegum skreytingum eftir listamanninn Einar Jens, föðurbróður minn... heldur risastór þjóðfundur á Arnarhóli klukkan þrjú - á hefðbundnum afmælisveislutíma. Það verða haldnar ræður og allt. Kannski ekki beint í tilefni af mínu afmæli... en það gerir ekkert til vegna þess að alvörutilefnið er miklu, miklu mikilvægara.
Mætið í afmælið, gangið út af vinnustaðnum, standið með sjálfum ykkur, börnunum ykkar og barnabörnunum, komið og leggið ykkar af mörkum til að gera þennan afmælisdag sem eftirminnilegastan fyrir alla þjóðina (og mig ). Oft var þörf en nú er nauðsyn!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (56)
30.11.2008
Þorvaldur Gylfason í Mannamáli
Sá vísi maður, Þorvaldur Gylfason, var í Mannamáli á Stöð 2 í kvöld. Ég hef birt mörg viðtöl við hann úr Silfrinu og greinar úr blöðum. Hlustum á Þorvald, hann hefur svo margt fram að færa og hér er hann ómyrkur í máli. Ekki vita allir að hann er bróðir Vilmundar sem ég fjallaði um hér.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
30.11.2008
Silfur dagsins
Enn var Silfrið pakkað - fullt af flottu fólki og margt bar á góma. Þátturinn er ennþá aðeins einn tími og 20 mínútur. Hann þyrfti að vera miklu lengri þessar vikurnar og mánuðina. Ég fékk aftur póst frá Friðrik í Asíu sem sagði m.a.:
"Því miður þarf ég að kvarta aftur yfir Silfrinu. Ætluðum að horfa á það rétt eftir að því lauk (upptökuna) núna áðan, en þá var bara hljóð en engin mynd. Það er vissulega betra að hafa hljóð og enga mynd en mynd og ekkert hljóð. Best væri þó ef RÚV gæti gert þetta almennilega og haft þetta í lagi. Talaði við félaga mína í Kína og Þýskalandi og það er nákvæmlega sama vandamálið þar - hljóð án myndar." Ég benti Friðrik á að horfa á það í myndbandasafninu mínu og fékk póst frá honum til baka um að það hafi gengið prýðilega. En hér er Silfrið - sundurklippt að venju.
Vettvangur dagsins 1 - Katrín Oddsdóttir, Ástráður Haraldsson, Sigurður Ingi Jónsson, Kristinn Pétursson
Vettvangur dagsins 2 - Vilhjálmur Birgisson, Einar Árnason, Gunnar Axel Axelsson, Ragnar Þór Ingólfsson
Vettvangur dagsins 3 - Vilhjálmur Þorsteinsson, Guðrún Heiður Baldvinsdóttir
Benedikt Jóhannesson
Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.11.2008
Fáránleg þróun í launamálum
Fréttin hér að neðan er frá því á miðvikudagskvöldið. Kynbundinn launamunur eykst mjög samkvæmt einni viðamestu könnun sem gerð hefur verið hér á landi og nær yfir allan vinnumarkaðinn, ekki aðeins einstök stéttarfélög, fyrirtæki eða stofnanir. Munurinn hefur aukist um þriðjung á síðustu árum og er mun meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.
Þessu verður að breyta! Hvað ætli þessi setning hafi verið sagt oft undanfarna áratugi? Nú eru 33 ár frá kvennafrídeginum, sællar minningar, en við erum ekki komin lengra en þetta þótt við státum okkur af jafnrétti á ýmsum sviðum - réttilega eða ranglega. Og af Vigdísi sem fyrstu konunni sem kjörin var forseti í lýðræðislegum kosningum. Andskoti er þetta nú aumt. Ég treysti því að á hinu Nýja Íslandi sem verður í mótun næstu mánuði og ár verði tekið fast á þessu máli og það leyst farsællega. Takið í því sambandi sérstaklega eftir orðum Láru V. Júlíusdóttur í viðtalinu í seinni úrklippunni.
Það stakk í augu að á fréttamannafundinum voru aðeins þrír fulltrúar fjölmiðla og þar af tveir frá sjónvarpsstöðvunum. Ætli einhver skýring sé á því? Varla þykir málefnið svo ómerkilegt.
Þessi frétt er frá 11. september 2008 - annað innlegg í umræðuna. Þið munið kannski eftir þessu, en fréttin kom þegar ljósmæðradeilan var í algleymingi og var kaldhæðnislegt innlegg í kjarabaráttu kvennastéttar.
Bloggar | Breytt 30.11.2008 kl. 00:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
28.11.2008
Veruleikinn tekur skáldsögum fram
Eru fleiri en ég að verða uppgefnir á skáldsögunni veruleikanum? Hann er svo ótrúlegur að það jaðrar við vitfirringu. Skítamokstrinum linnir ekki og sífellt fjölgar sukk- og spillingarmálunum. Ef einhver hefði skrifað þessa sögu sem við erum að upplifa fyrir nokkrum árum, jafnvel nokkrum mánuðum, hefðum við ekki trúað einu einasta orði og flokkað sem skáldsögu eða fáránleika.
Um daginn birti ég myndband sem kallað var "Stórustu pissudúkkur í heimi" og var viðtal við blaðamann sem stýrði rannsóknarhóp sem fór í saumana á viðskiptum nokkurra af íslensku útrásarbarónunum og hlaut bágt fyrir hjá íslenskum bönkum og stjórnvöldum. Höfundur myndbandsins, Arnar Steinþórsson, hefur nú unnið úr því efni sem hann átti og útbúið 5 myndbönd í viðbót. Hér eru þau öll - að Pissudúkkunum meðtöldum - samtals 6. Þau eru mislöng en öll úr sama viðtalinu og með íslenskum texta.
Stórustu pissudúkkur í heimi - Peningahringrás
Rússagull
Lík í lestinni
Ísland lokast
Ekstrablaðið - Kaupþing
Pólitíkin dansar með útrásinni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
28.11.2008
Davíð Oddsson er alvarlegt vandamál
Bankastjórn Seðlabankans er vandamál sem mjög nauðsynlegt er að leysa sem allra fyrst - og þótt fyrr hefði verið. Við vitum þetta öll, viðurkennum það flest en stjórnvöld þráast við að leysa málið og skipta út. Davíð Oddsson er mesti vandræðagemlingurinn, neitar að hætta og bætir stöðugt við syndaregistrið. 90% þjóðarinnar vill losna við hann eins og sjá má hér. Miðað við þann ómælanlega skaða sem hann hefur valdið þjóðinni bæði innanlands og utan finnst mér stór spurning hvort hann falli undir skilgreininguna landráðamann eða föðurlandssvikara. Mér þætti fróðlegt að fá umræðu um hvað þyrfti til að vera metinn og dæmdur sem slíkur.
Meira að segja ungliðarnir í Flokknum, Heimdellingarnir, eru búnir að fá nóg eins og sjá má t.d. hér. Þá er mikið sagt. Og auðvitað hafa þeir líka rétt fyrir sér með Fjármálaeftirlitið. Þar þarf svo sannarlega að moka flórinn. Engu að síður er verið að færa þessum stofnunum enn meiri völd í hendur með frumvarpi Björgvins sem rætt er um í þessum skrifuðu orðum á Alþingi. Þessir menn hafa sýnt svo ekki verður um villst að þeim er alls ekki treystandi en engu að síður á að gera stofnanirnar enn valdameiri án þess að skipta um fólk. Fáránlegt.
Davíð og bankastjórn Seðlabankans eru langt í frá eina vandamálið sem íslenska þjóðin glímir við um þessar mundir eins og allir vita, en einhvers staðar þarf að byrja. Fá inn nýtt fagfólk sem er ekki er á mála hjá flokkunum og hreinsa til í stjórnkerfinu. Til þess þarf væntanlega að breyta fjölmörgum lögum og þá verður bara að gera það. En þá þurfum við nýtt fólk með nýja framtíðarsýn - og/eða gott, heiðarlegt fólk innan gömlu flokkanna með heilbrigða skynsemi sem hugsar ekki bara um rassinn á sjálfum sér og sínum... og auðvitað Flokknum. Það er nefnilega til slíkt fólk í flestum flokkum. Góð blanda af þessu tvennu væri upplögð og þjóðin vill kosningar - eins og sjá má í niðurstöðu þessarar nýju skoðanakönnunar Smugunnar.
En hér eru sýnishorn af tveimur nýjustu "glappaskotum" seðlabankastjóra. Hvað finnst fólki um þetta framferði mannsins? Var ekki komið nóg?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
27.11.2008
Hér er ræðan umdeilda
Katrín er hér að tjá sig sem einstaklingur en ekki fulltrúi HR eða nemenda. Þetta er fáránleg aðför að bæði Katrínu og málfrelsinu og samnemendum hennar til lítils sóma.
![]() |
Ræða Katrínar ekki tekin út |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (45)
27.11.2008
Íslensk spilling og íslensk bylting
Í Mogga í dag er athyglisverð grein eftir Jón Steinsson um að íslenskt lagaumhverfi sé mun hagstæðara fyrir óeðlileg viðskipti og viðskipti tengdra aðila en víðast hvar annars staðar. Jón segir að hvatar ráðandi hluthafa í fyrirtækjum landsins til þess að viðhafa óeðlilega viðskiptahætti hafi aldrei verið meiri. Ætlar Alþingi að hindra þetta með lagasetningu í ljósi þess, eins og Jón segir: "Sagan sýnir að fjármálakreppum fylgir oft á tíðum umtalsverð spilling í formi óeðlilegra viðskiptahátta tengdra aðila." Er ekki lag að flýta frumvarpi Álfheiðar Ingadóttur o.fl. um að heimila frystingu eigna útrásarbarónanna og gæta þess síðan með lagasetningu að sama ferlið geti ekki endurtekið sig? (Smellið þar til læsileg stærð fæst.)
Þessi grein var í Mogga í gær og fjallar um að við séum í miðri byltingu á Íslandi. Tökum öll þátt í henni! Því fleiri því líklegra er að hún takist. Og eins og Kristján segir - byltingar eru ekki endilega blóðugar, athugum það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.11.2008
Mikið svakalega hlakka ég til...
...að lesa þessa bók. Er reyndar byrjuð og strax í fyrsta kafla datt ég í þvílíka nostalgíu og gleymdi mér alveg í barnæskunni og uppvextinum. Við Guðmundur hljótum að vera á svipuðum aldri því upplifunin af fortíðinni er mjög svipuð hjá okkur báðum. Endurlitið er því eðlilega með sömu formerkjum. Ég er þegar búin að gefa systursyni mínum eintak í afmælisgjöf og kannski splæsi ég í jólagjafir líka. En fyrst ætla ég reyna að finna mér tíma til að klára bókina.
Ólína Þorvarðar skrifaði um bókina hér en hún hefur það fram yfir mig að vera búin að lesa hana. Guðmundur var í Silfrinu fyrir réttum mánuði síðan, 26. október, að ræða við Egil um bókina. Sú umræða kveikti hjá mér áhuga á henni og því sem Guðmundur er að skrifa um. Ég hef líka mikinn áhuga á sagnfræði og að skoða hlutina í ljósi sögunnar, þróunina og tengja við nútímann. Það er einmitt það sem mér heyrist í viðtalinu að Guðmundur sé að gera, enda er maðurinn sagnfræðingur. Hér er bloggfærsla höfundar frá 23. okt. þegar bókin var að koma í búðir. Hann er nú farinn að blogga hér. En hér er þetta fína viðtal við Guðmund Magnússon í Silfrinu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.11.2008
Skyldulesning
Í Mogganum í dag er mjög athyglisverð umfjöllun um lýðveldið og endurnýjun þess. Í viðtali við Gunnar Helga Kristinsson, stjórnmálafræðing, kemur fram að alls ekki sé óeðlilegt eða óalgengt að lýðræðið sé endurmetið og því jafnvel bylt á um 70 ára fresti og bendir hann í því sambandi á Frakkland og Bandaríkin. Hér er þetta - afskaplega holl lesning sem sýnir svo ekki verður um villst að við erum svo sannarlega á hárréttri leið með öll mótmælin og aðgerðirnar um þessar mundir þótt ríkjandi valdhafar hrópi "skrílslæti" og neiti að hlusta. Smellið þar til læsileg stærð fæst.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
26.11.2008
Spillingarfenið í Framsókn
Ég á bágt með að trúa því að fólk hafi almennt verið undrandi á viðtalinu við Bjarna Harðarson í Kastljósi í gærkvöldi og því sem hann bæði sagði og ýjaði að. Spillingin innan Framsóknarflokksins hefur verið opinbert leyndarmál áratugum saman. Ég vissi þetta löngu áður en ég fékk áhuga á pólitík og vissi ég þó ekki ýkja margt í þá tíð. Það sem við höfum ekki vitað eins vel er hvernig flokkurinn er fjármagnaður og hver(jir) kostuðu auglýsingaskrum flokksins og yfirhalningu frambjóðenda fyrir síðustu borgarstjórnar- og alþingiskosningar, enda bókhald flokksins harðlæst. En ýmsar grunsemdir hafa vaknað í gegnum tíðina og ekki fækkar þeim nú þegar ljóst er orðið hve greiðlega útrásarbarónum og bankastjórum gekk að koma þjóðinni á hausinn á meðan stjórnmálamenn sátu aðgerðarlausir hjá og létu þá komast upp með það. Enda vildi núverandi formaður og fyrrverandi ráðherra til ótalmargra ára ekki tjá sig um málið í tíufréttum kvöldsins á RÚV.
Ætli einhver Sjálfstæðismaður opni munninn um ástandið þar á bæ fljótlega? Varla er það skárra en í Framsókn. Af hverju heldur fólk að Davíð, Geir og co. haldi svona fast í stólana sína? Það kæmi mér nú ekki á óvart þótt einhver myndi syngja og verða þjóðhetja fyrir vikið, ég verð bara að segja það
Úr Kastljósi
Úr Tíufréttum
Ég hef verið að skima eftir umsögnum fjölmiðla um málið en fyrir utan RÚV hef ég ekkert séð nema á Vísi hér. Þar segir:
Bjarni Harðar: Flokkseigendur vildu Framsókn áfram við völd
Bjarni Harðarson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, segir að áhrifamenn í flokknum hafi lagt mikla áherslu á að endurnýja samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn eftir síðustu kosningar. Jón Sigurðsson, þáverandi formaður flokksins lýsti því yfir á kosninganóttina að flokkurinn hlyti að víkja úr stjórn eftir tapið.
Bjarni segir hins vegar í væntanlegri bók sinni að skömmu síðar hafi Jón skipt um skoðun og að til hafi staðið að tryggja Jóni, sem ekki var á þingi og Jónínu Bjartmars, sem missti sitt þingsæti, áframhaldandi ráðherradóma. Þetta kom fram í viðtali við Bjarna í Kastljósinu í kvöld.
Bjarni segist hafa barist hart gegn þessum áformum og meðal annars boðist til að segja af sér þingmennsku. Hann segir ljóst að sinnaskipti Jóns hafi orðið vegna mikils þrýstings frá flokkseigendafélaginu" sem sé hópur áhrifamanna innan flokksins. Þeim hafi verið mjög umhugað um að flokkurinn héldi völdum auk þess sem þeir hafi viljað koma í veg fyrir að Guðni Ágústsson yrði formaður flokksins. Bjarni segist telja að þessi áhersla valdamanna innan flokksins á að halda flokknum við völd hvað sem það kosti hafi eyðilagt flokkinn á undanförnum árum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (48)
25.11.2008
Þrjár þingræður Vilmundar Gylfasonar
Vilmundur Gylfason var stórmerkilegur maður, framsýnn hugsjónamaður og langt á undan sinni samtíð í flestu. Undanfarnar vikur og mánuði hefur mér oft orðið hugsað til hans - gagnrýni hans á spillingu á Alþingi og í stjórnkerfinu, hugmynda hans um meira lýðræði í verki, breytt kosningafyrirkomulag og fleira sem streymdi frá þessum eldhuga og hugsjónamanni.
Þeir sem vilja kynna sér Vilmund nánar eða rifja upp er bent á nýlega umfjöllun DV, vefsíðu Alþingis og ítarlega umfjöllun Wikipediu.
Ég hef minnst á Vilmund nokkrum sinnum í bæði skrifum mínum hér og athugasemdum hjá öðrum bloggurum, einkum þar sem verið er að fjalla um breytt landslag í stjórnmálum og kosningum. Í morgun birtist grein í Morgunblaðinu eftir Jón Baldvin Hannibalsson, þar sem hann nefnir eitt af baráttumálum Vilmundar, beint kjör forsætisráðherra. Í tilefni af því gróf ég upp þrjár þingræður Vilmundar, tvær frá nóvember 1982 og eina frá mars 1983. Varúð - þetta er löng lesning en áhugaverð er hún.
Í fyrstu ræðunni frá 18. nóvember 1982 tilkynnir Vilmundur að hann hafi sagt sig úr Alþýðuflokknum og boðar stofnun Bandalags jafnaðarmanna. Ég held að önnur ræðan, frá 23. nóvember 1982, sé ein sú frægasta sem flutt hefur verið á Alþingi Íslendinga. Þarna var verið að ræða vantraust á ríkisstjórnina eins og gert var á Alþingi í gær. Því miður á ég hvorki útvarps- né sjónvarpsupptöku af ræðunni en margir muna eflaust eftir flutningi hennar, svo áhrifamikill var hann. Þriðja ræðan er frá eldhúsdagsumræðum 14. mars 1983, í aðdraganda kosninga sem haldnar voru 23. apríl.
Það er stórmerkilegt að lesa þessar ræður, bera saman við ástandið eins og það er í dag og íhuga skoðanir Vilmundar og hugmyndir hans.
_______________________________________________________
18.11.1982
Sameinað þing: 19. fundur, 105. löggjafarþing.
Umræður utan dagskrár
Vilmundur Gylfason:
Herra forseti. Það munu vera þinglegir siðir að láta forseta Sameinaðs þings og háttvirta alþingismenn um það vita, að ég, 4. þingmaður Reykvíkinga, hef með bréfi, dags. 18. nóvember 1982, til háttvirts 2. þingmanns Reyknesinga, Kjartans Jóhannssonar, sagt skilið við minn gamla stjórnmálaflokk, Alþýðuflokkinn, og telst því ekki lengur til þingflokks þess flokks. Að því er séð verður hefur þessi tilfærsla engin áhrif á stöðu ríkisstjórnarinnar. Ég hef verið og verð í stjórnarandstöðu og hygg að svo sé einnig farið með minn gamla flokk. Það er, herra forseti, ævinlega sárt að skilja við samtök sem maður hefur tekið þátt í af lífi og áhuga, ekki vegna flokks heldur vegna fólks. En vindar lífsins munu áfram velta um þrátt fyrir þessa daga og þrátt fyrir allt.
Jafnframt, herra forseti, hefur í dag verið lögð fram þingsályktunartillaga um aðskilnað framkvæmdavalds og löggjafarvalds og beina kosningu forsætisráðherra. Þetta þingskjal verður eitt af stefnumálum samtaka sem eru í undirbúningi og munu nefnast Bandalag jafnaðarmanna. Ég vil þó skýrt taka fram, að hér er ekki um að ræða klofning af einu eða neinu tagi, eins og háttvirtur 2. þingmaður Reyknesinga gat réttilega um í sjónvarpi í fyrrakvöld, þó ekki væri nema þegar af þeirri ástæðu að við munum eiga samherja úr gamla flokkskerfinu þveru og endilöngu. Við myndum bandalag gegn flokkunum. Þetta er tilraun sem kannski heppnast, kannski misheppnast. Það verður að koma í ljós. Innan tíðar verður lögð fram málaskrá og nafnalisti miðstjórnar og enn síðar verða framboð kynnt.
Herra forseti. Í þingskjali með þingsályktunartillögu þeirri, sem lögð hefur verið fram í dag, eru ritgerðir eftir tvo fræðimenn, hvorn í sinni grein, þá dr. Gylfa Þ. Gíslason og Ólaf Jóhannesson núverandi hæstvirtan utanríkisráðherra. Það þarf auðvitað ekki að taka fram, að birting þessara ritgerða, sem birtust í einhverju ágætasta og umbótasinnaðasta tímariti sinnar tíðar, tímaritinu Helgafelli, árið 1945, hefur engar frekari pólitískar meiningar, heldur er hér leitast við að afla málstað fylgis með fræðilegum rökum. Vitaskuld skiptir máli, að inntak þessara ritgerða fer mjög saman við hugmyndir í ályktunargreinunum. Meira máli skiptir þó, að báðir hinir ungu háskólakennarar lögðu á það áherslu hvor með sínum hætti, en með áherslu á þjóðkjör, að lýðræði stafaði hætta af óeðlilegu flokkavaldi. Einmitt þetta verður snar þáttur í heimspeki Bandalags jafnaðarmanna, bandalagsins gegn flokkunum. Flokkavaldið, hið þrönga vald, hið fáa fólk, hefur gert þessari þjóð og þessu landi of mikið illt.
__________________________________________
23.11.1982
Sameinað þing: 20. fundur, 105. löggjafarþing. 88. mál, vantraust á ríkisstjórnina.
Vilmundur Gylfason:
Herra forseti. Væntanlegt Bandalag jafnaðarmanna verður andvígt núverandi ríkisstjórn. Ég stend því að vantrausti því sem mælt hefur verið fyrir hér í kvöld.
Verðþensla í landinu nemur næstum 70%, erlendar skuldir landsmanna nema nær 4 þúsund. Bandaríkjadölum á hvert mannsbarn, stjórnkerfið er forspillt. Margir háttvirtir alþingismenn hafa af því starfa að afla sér fylgismanna með setu t.d. í bankaráðum og Framkvæmdastofnun ríkisins. Á meðan blæðir landinu og hafið er ofnytjað.
Núverandi ríkisstjórn stendur fyrir frið. Hún stendur fyrir þær sögulegu sættir sem Morgunblaðið boðaði á sinni tíð. Þar eru Alþýðubandalag, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, þó að nokkrir þeirra séu að forminu til fyrir utan vegna persónulegrar styggðar. Og innan míns gamla flokks eru þau mörg, sem vilja fá að vera með, þrátt fyrir vantraustið í dag. Ég vísa í viðtal við háttvirtan þingmann Magnús H. Magnússon í Morgunblaðinu fyrir hálfum mánuði.
En friðurinn í núverandi hæstvirtri ríkisstjórn er friður gegn fólkinu í landinu, friður utan um ekki neitt. Þetta er friður hins þrönga og lokaða flokkavalds, friður til varnar völdum og hagsmunum. Þess vegna væri best að vantraustið væri samþykki og ríkisstjórnin færi þegar frá. Hvað svo?
Alþingi er skylt að gera tvennt áður en næstu alþingiskosningar fara fram. Koma því skikki á efnahagsmál sem hægt er, þó það sé auðvitað þolinmæðisverk sem tekur tíma, og ganga frá frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár. Þetta væri pólitískt óhæfuverk að efna til kosninga í skyndingu áður en slíku verki er lokið. Þess vegna á að kjósa í vor, þó svo hið þrönga valdakerfi sé nú ótt og uppvægt að efna í skyndingu til kosninga þegar það finnur hina þungu undirstrauma samfélagsins, hina hljóðlátu og ábyrgu uppreisn gegn því sjálfu.
Þegar núverandi hæstvirt ríkisstjórn, sem auðvitað hefur ekki aðeins glatað trausti samfélagsins heldur einnig sjálfstrausti og sjálfsvirðingu, hefur sagt af sér er það samt að fara úr ösku í eld, ef einhver ímyndar sér að háttvirtir þingmenn Geir Hallgrímsson og Kjartan Jóhannsson ráði við þau verkefni sem hæstvirtir ráðherrar Gunnar Thoroddsen og Svavar Gestsson hafa ekki ráðið við. Slæmt er það, en verra getur það verið. Slíkt er auðvitað engin lausn, í besta lagi brosleg hugmynd.
Nei, lausnin verður að vera öðruvísi hugsuð. Við reynum fyrst meirihlutastjórn á Alþingi. En væntanlega mun það ekki reynast fær leið. Við reynum þá minnihluta stjórn. Það er einnig ólíklegt að það gangi, en þó ekki útilokað. Ef það bregst verðum við að mynda ríkisstjórn utanþingsmanna. Vitaskuld eru þeir háttvirtir alþingismenn til, þverpólitískt talað, sem mundu sýna utanþingsstjórn fulla ábyrgð meðan verið væri að koma skikki á efnahagsmál, eftir því sem hægt er, og ganga frá drögum að nýrri stjórnarskrá.
Ég treysti til slíkra verka t.d. háttvirtum þingmanni Geir Gunnarssyni, Sighvati Björgvinssyni, Halldóri Ásgrímssyni og Eyjólfi Konráð Jónssyni. Á meðan þessu færi fram eru háttvirtir þingmenn Matthías Bjarnason, Helgi Seljan, Stefán Valgeirsson og Jón Hannibalsson að dunda við atkvæðaöflun í Framkvæmdastofnun ríkisins, bankaráðum ríkisbankanna og rándýrum fjölskylduhátíðum í Broadway.
Menn spyrja: Hver ætti að veita slíkri utanþingsstjórn forstöðu? Ég treysti t.d. Jóhannesi Nordal seðlabankastjóra til þess, manni sem hefur verið níddur sem ímynd kerfismennskunnar, en hefur nýverið gert heilli ríkisstjórn og ónýtu valdakerfi skömm til með því að freista þess að halda uppi landslögum og réttum leikreglum í verðtryggingarmálum, meðan fyrirgreiðslukerfið hefur skolfið og titrað, nítt og nagað og reynst ófært um einföldustu stjórnarathafnir.
Þeir háttvirtu alþingismenn eru til, meira að segja margir, sem mundu koma fram af fullri ábyrgð við slíkar aðstæður, þó svo flokkakerfið, hin þrönga lokaða lágkúra mundi auðvitað segja nei.
Þetta um ríkisstjórn og vantraustið. Samandregið er svarið einfalt. Ríkisstjórnin er ónýt og á að fara frá. Og bráðabirgðalögin, eignatilfærslan vegna hinnar heimatilbúnu kreppu hins ónýta stjórnkerfis, eiga auðvitað að falla. Ef menn og samtök þeirra hafa samið af sér, þá skulu stjórnvöld gefa samninga lausa. Það er einföld leið, ábyrgðin til fólksins.
Menn hljóta að sjá og skilja undirstrikun þeirrar staðreyndar að valdakerfið í landinu, hin þröngu og lokuðu flokksvöld, hin fölsku völd hafa brugðist, því að stjórnmálasamtök sem enn eru ekki formlega til þó undirbúningur sé vel á veg kominn, Bandalag jafnaðarmanna, hafa ein stjórnmálasamtaka sett fram skýrar tillögur um kjördæma- og stjórnarskrármál.
Síðan 1978 hefur setið stjórnarskrárnefnd undir forustu hæstvirts forsætisráðherra. Það að hann skuli enn sitja þar, þrátt fyrir sitt virðulega embætti nú, lýsir miklum metnaði en lítilli dómgreind.
Nýlega hafa háttvirtir alþingismenn séð vinnugögn stjórnarskrárnefndar. Vinnan er lítils, jafnvel einskis virði. Það er umskrift á nokkrum gömlum greinum stjórnarskrárinnar. Ekkert er komið um nútímaleg ákvæði eins og eignarréttarhugmyndir eða mannréttindi minnihlutahópa, ekkert um frelsi til tjáningar eða hagsmunasamtök. Og að því er kjördæmamálið sjálft varðar er nefndin í sömu sporum og hún var þegar hún byrjaði.
Með örfáum virðulegum undantekningum sitja þarna varðhundar valdsins, varðhundar hins þrönga flokksræðis og hugsa um sjálfa sig og völd sín, völdin gegn fólkinu í landinu. Væntanlegt Bandalag jafnaðarmanna hefur hins vegar flutt hér á Alþingi tillögur, sem ég veit að varla eiga enn mikinn hljómgrunn í þessu skelfilega húsi en ég er samt jafn sannfærður um að muni eiga fylgi að fagna út um hið víða og breiða land, ef tekst að brjótast fram hjá varðhundum valdsins og til fólksins sjálfs.
Við leggjum til að forsætisráðherra sé kosinn beinni kosningu í tvöfaldri umferð ef ekki næst hreinn meiri hluti í þeirri fyrri. M.ö.o., að landið verði eitt kjördæmi að því er tekur til framkvæmdavaldsins.
Við leggjum til að að því er tekur til löggjafarvaldsins verði kjördæmaskipun óbreytt.
Við leggjum til að algerlega verði skilið milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds, m.ö.o. að störf háttvirtra alþingismanna verði að setja landinu almennar leikreglur og síðan að hafa eftirlit með því að þessum almennu leikreglum sé fylgt.
Við leggjum til að mörkun utanríkisstefnu, sem vitanlega er afar viðkvæm fyrir eyland í Atlantshafinu miðju, verði af hendi Alþingis, enda verði annað hættulegt.
Og við leggjum til að þingrofsréttur verði afnuminn, m.ö.o. að kosið sé reglulega á fjögurra ára fresti. Þetta mun í senn leiða til styrkrar stjórnar og mikillar valddreifingar. Umfram allt eru þetta tillögur, þar sem hægt er að ná fullum og réttmætum sáttum milli þéttbýlis og dreifbýlis, í stað þess byggðastríðs sem gamla flokkakerfið ástundar um þessar mundir.
Vitaskuld eru að hluta til tvær þjóðir í landinu, sú sem byggir þétt og hin sem byggir dreift. Ekki má gera of mikið úr slíkri skiptingu, en það má heldur ekki líta fram hjá henni. Í þéttbýli er meiri þjónusta, erfiðara að komast úr og í vinnu, en samt um sumt meiri möguleikar. Í dreifbýli vítt hugsað er þessu öfugt farið. Við verðum að taka tillit til þessara staðreynda og umfram allt ná fullum sáttum. Forsvarsmenn gamla flokkakerfisins vilja ekki sættir. Þeir vilja ómerkilegt stríð. Þeir vilja stríð milli landshluta, aðstöðu til sinna eigin atkvæðaveiða.
Sú leið sem væntanlegt Bandalag jafnaðarmanna leggur til er fær. En hún felur miklu meira í sér. Hún felur það í sér að flokksvöldin, völd nokkurra hundraða karla og kvenna í svokölluðum stjórnmálaflokkum --- þar sem menn eru auðvitað fyrst og fremst að vernda aðstöðu í verkalýðshreyfingu eða verslunarráði --- á fjölmiðlum eða jafnvel í heimi lista og bókmennta verði brotin upp. Lýðræði verði gert virki og beint. Ekki aðeins á þessu sviði heldur mun fylgja í kjölfarið virki og raunverulegt lýðræði, ekki þröngt og lágkúrulegt flokksræði í hinum smærri einingum samfélagsins. Þetta eru m.ö.o. tillögur fyrir fólk, en ekki tillögur gegn fólki.
Háttvirtir alþingismenn eiga ekki að sitja í Kröflunefndum neins konar, ekki bankaráðum, ekki Framkvæmdastofnun ríkisins. Þeir eiga ekki að sitja í útvarpsráði og ákveða hvaða varðhundur valdsins fær að tala um daginn og veginn eða stjórna valdhlýðnum umræðuþáttum í sjónvarpi. Þetta lokaða valdakerfi verður brotið upp. Nú á rismikið fólk, allt fólk að fá sitt tækifæri. Nú skal bælingin í hinu niðurnjörvaða flokkavaldi vera á burt.
Ég vil eindregið hvetja þá sem á mál mitt kunna að hlýða að kynna sér fyrsta þingskjal væntanlegs Bandalags jafnaðarmanna, þingskjal um hreinan aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdavalds og beina kosningu forsætisráðherra, og þá sérstaklega klassískar ritgerðir þeirra Gylfa Þ. Gíslasonar og Ólafs Jóhannessonar. Þar er lýst með ljósum hætti hinum raunverulegu vandamálum íslenskrar stjórnmálasögu, hættum sem stafa af hagsmuna- og flokkavaldi.
Annað þingmál væntanlegs Bandalags jafnaðarmanna er um það bil að sjá dagsins ljós. Við viljum gefa fiskverð frjálst. Burt með oddamanninn, burt með ríkisvaldið. Samningar manna og samtaka þeirra eiga að vera frjálsir. Menn og samtök þeirra eiga að bera fulla ábyrgð á því sem þeir eru að gera og semja um. Ef húsin semja um hærra verð en þau geta greitt, þá eiga þau að fara á hausinn. En ríkið á ekki að greiða þeim bakreikninga með lækkuðu gengi, hækkuðu vöruverði fólksins í landinu. Við viljum frelsi, frelsi fyrir litlar einingar. Við viljum ábyrgð, ábyrgð fyrir einstaklinga og samtök þeirra. Við viljum að samningsgerð sé frjáls og við viljum að maðurinn sé frjáls.
Varðhundar valdsins eru víðar, varðhundar hins þrönga og lokaða flokkakerfis. Menn spyrja af hverju við í væntanlegu Bandalagi jafnaðarmanna tökum þá áhættu sem við gerum, því að ekki eigum við mikla peninga og ekki eigum við aðgang að stofnunum valdsins.
Ég vil segja pólitíska dæmisögu. Eitthvert veigamesta frumvarp sem við höfum staðið fyrir hér á Alþingi er frumvarp til laga um heimild til handa starfsfólki á stærri vinnustöðum að semja sjálft um kaup sitt og kjör eða hvað annað, þar með talin félagsmál og aðild að stjórn eða eignaraðild að fyrirtækjum. Þessi hugsjón hefur víða verið kynnt á vinnustöðum og er óhætt að segja að fólk hafi sýnt henni áhuga. Það veit að hér er verið að fjalla um aukin réttindi og aukin völd, að vísu dreifð, en þess sjálfs.
Við höfum þurft að sæta því, að í gamla flokknum er eitthvert apparat sem þeir kalla verkalýðsmálaráð. Þar sitja nokkrir tugir karla og kvenna sem meira og minna hafa atvinnu af störfum í þágu verkalýðshreyfingar. Aftur og aftur hefur þetta fólk kolfellt að gamli flokkurinn sem slíkur hafi nokkur afskipti af þessu máli, nú síðast fyrir nokkrum vikum. Við vitum hins vegar að þetta kerfi er rammfalski. Þetta fólk er ekki fulltrúar fyrir neinn nema sjálft sig og hagsmuni sína. Nú verður auðvitað að álykta afar varlega og ekki vil ég gera þessu fólki eða yfir höfuð nokkrum manni upp illar hvatir. En hagsmunavarsla af þessu tagi er stórhættuleg. Og umfram allt stendur hún framförum og frelsi fyrir þrifum.
Þessi litla dæmisaga segir mikla pólitíska sögu. Hún er lýsing á hagsmunavörslu gamla flokkakerfisins eins og það leggur sig. Helsti talsmaður gegn þessu frumvarpi á Alþingi hefur verið háttvirtur þingmaður Guðmundur J. Guðmundsson. Í vaxtamálum gengur hann ekki erinda síns fólks, svo mikið er víst. Og ég vil bæta við, að þrátt fyrir þetta og þrátt fyrir allt eru auðvitað góðar taugar í mínum gamla flokki. En þessi þrönga hagsmunavarsla er ekki aðeins ósæmileg, hún er beinlínis andlýðræðisleg. Hin þröngu flokksvöld teygja arma sína víða. Yfirstéttin hér á hinu háa Alþingi, dyggilega studd varðhundum valdsins, ekki síst á ríkisfjölmiðlum og flokksblöðum, hefur sína siði og sinar leikreglur. Og ég vil bæta því við að verið er að lýsa reglu þó svo að frá henni séu veigamiklar undantekningar.
Þið hafið heyrt þá hér í kvöld metast um það hver hafi skrökvað mest að þjóðinni á árum áður og hver minnst. Allir hafa þeir nokkuð til síns máls, satt er það. Svo koma þeir fjallhlaðnir skýrslum úr Þjóðhagsstofnun og lesa verðbólgutölurnar sínar. Þeir eru ekki ósammála um neitt sem máli skiptir. Í raun og veru eru þeir allir eins. Munurinn er aðeins sá, að sumir eru ráðherrar en aðrir vilja vera ráðherrar.
Ég vil segja sögu um hegðan valdakerfisins, aðferðirnar sem það hefur til þess að halda uppreisnarmönnum niðri, gagnrýni úti. Eftir myndun núverandi ríkisstjórn kom fljótlega 1. mars 1980. Þá átti að leiðrétta vexti samkvæmt lögum um efnahagsmál, Ólafslögum svokölluðum. Ég bað um orðið utan dagskrár til að spyrja hæstvirtan bankamálaráðherra, Tómas Árnason, hverju það sætti að það hefði ekki verið gert. Lögbrjóturinn kom í þennan ræðustól og hafði nánast það mikilvægast að segja, að umræður utan dagskrár væru hvimleiðar og spilltu fyrir eðlilegum þingstörfum, --- eðlilegum þingstörfum, sagði lögbrjóturinn. Og uppistaðan í frétt Ríkisútvarpsins þá um kvöldið var svofelld:
Alexander Stefánsson", sá sem var hér áðan, sem gegndi starfi forseta Neðri deildar í fjarvist Sverris Hermannssonar, sagði úr forsetastóli að þessi umræða sýndi nauðsyn þess að endurskoða reglur Alþingis við umræður utan dagskrár."
Þetta var þjóðinni sagt um umræður um lögbrot á hinu háa Alþingi. Svona dæmi má taka endalaust.
Annað dæmi er meðferð valdsins á háttvirtum þingmanni, Guðrúnu Helgadóttur, þegar hún reyndi að halda á lofti mannréttindum erlends pilts sem hingað kom til lands sem gestur. Valdið, fjölmiðlarnir hafði engan áhuga á prinsippinu, rétti mannsins til að hlýða samvisku sinni. Þeir hundeltu hins vegar háttvirtan þingmann með sitt eina áhugamál: Hvaða áhrif hefur þetta upphlaup, þessi uppákoma á stöðu valdsins í landinu?
Þriðja dæmið um meðferð hins samtryggða valds á okkur, sem sjáum í gegnum þetta næfurþunna og brothætta kerfi, sem samanstendur af nokkrum hundruðum karla og kvenna: Sýslumaður einn lætur án heimildar og umboðs Ríkisútvarpið hafa eftir sér róg um nýlátna erlenda stúlku og særða systur hennar eftir harmleik erfiðari en tárum taki.
Spurt er á Alþingi hvort ráðuneytið hafi séð ástæðu til að gera athugasemd við þessa framkomu, en áður hafði Blaðamannafélag Íslands, ein valddruslan til, ályktað til varnar sýslumanni. Valdakerfið bannar þessa fyrirspurn og ætlar ennfremur að brjóta landslög á spyrjanda með því að láta bannið ekki koma til atkvæðagreiðslu samdægurs eins og landslög þó mæla skýrt fyrir um.
Þetta er aðferð sem ríkisfjölmiðlar og flokksblöð taka fullan þátt í til þess að láta gagnrýni líta út sem gífuryrði og upphlaup. Valdakerfinu tókst þó ekki atlagan að þessu sinni því að flokksbræður stóðu með, þó með hangandi haus væri, umfram allt Alþýðubandalagið þó með. Það mun hafa verið verk hæstvirts fjármálaráðherra Ragnars Arnalds. Má upplýst fólk í landinu standa í þakkarskuld við hann fyrir það, að þessi aflaga valdakerfisins að einstaklingi geigaði. Tveir fyrrum flokksbræður stóðu hins vegar upp og þurftu endilega, um leið og þeir afsakandi tilkynntu að þeir væru meðmæltir, að flytja ástarjátningar til valdsins, segja að þeir væru nú samt á móti efni fyrirspurn, með rógi valdsins. Og eitt stórmennið sat þess utan hjá. Á þeim degi, þeirra sem ég þekki, var Alþýðuflokkurinn gamli lágkúrulegastur.
En hið þrönga flokksvald smýgur víðar. Meira að segja á bókmenntasviðinu vilja þeir taka af okkur ráðin, segja okkur hver er skáld og hver ekki. Og nú sný ég blaðinu við.
Á Morgunblaðinu, sem auðvitað er því miður óupplýst og þröngt flokksblað í vondum skilningi orðsins, hefur þó svona verið ort í síðustu bók höfundar:
Í svipnum hans sé ég æsku okkar
og eitthvað svo viðkvæman sumarstreng,
við skiljum vart þessi óblíðu örlög,
sem ætla sér, vinur, þinn góða dreng.
Við uxum úr grasi með glitrandi vonir
en gleymdum oftast að hyggja að því
að það er ekki sjálfsagt að sólin rísi
úr sæ hvern einasta dag eins og ný.
Og veröldin kom eins og vorbjört nóttin
með vinalegt bros og gleði til þín,
og lífið kom einnig með ótal drauma
í óvænta franska heimsókn til mín.
Nú bíðum við þess að bráðum komi
þessi broslausi dagur --- og svo þetta högg.
Þegar líf okkar er að lokum aðeins
eitt lítið spor í morgundögg.
Svona yrkir ekki nema ljóðsnillingur, meðal þeirra fremstu á tungunni sem nú eru til. En þetta þrönga og lokaða flokkakerfi, --- hafið þið hugsað um það? --- hefur lagst á hann vegna stöðu hans. Við bjuggum meira að segja til orðið sálmaskáld" sem háðsyrði. Jafnvel á þessu sviði láta þeir fólk ekki í friði. Það skal breytast, það verður að breytast. Við viljum gera uppreisn, en uppreisn innan þess ramma sem stjórnskipunin gerir ráð fyrir og aldrei öðruvísi. Við viljum gera uppreisn í grasrótinni úti á meðal fólks. Við treystum því að fólkið vilji. Við myndum ekki flokk, aldrei framar flokk, heldur laustengt bandalag laustengdra samtaka karla og kvenna, þar sem það ræður miðað við höfðatölu. Við vitum um okkar vanda. Hann er sá að þó að við séum ídealistar í dag, þá getum við verið orðin stofnun fyrr en varir. Engin hugsjón nær nema ákveðnum aldri, þá verður hún stofnun. Þess vegna verðum við alltaf að vita, væntanlegir þátttakendur í Bandalagi jafnaðarmanna, að þó sú þörf sé fyrir okkur í dag, þá er langt frá því að sú þörf vari til eilífðarnóns. Það kemur kannski fljótt og kannski seint, en það kemur að því að við förum að þvælast fyrir eins og gamla flokkakerfið gerir í dag. Þetta verðum við að vita.
Þeir munu ráðast að okkur með upphrópunum, með því að loka fjölmiðlunum. Þeir munu reyna að hæða okkur, reyna að láta allt líta út sem upphlaup eða gífuryrði. Ég nefni dæmi. Hæstvirtur ráðherra, Svavar Gestsson, segir á fundi flokks síns að fram séu að koma mörg aukaframboð. Ég endurtek, aukaframboð. Hugsið ykkur mannfyrirlitninguna, þá fyrirlitningu á skoðunum annarra sem felst í þessu litla orði. Og líklegt er að fjölmiðlakerfið kaupi þetta valdsins orð. Auðvitað vill Svavar Gestsson að aðeins hann sjálfur og Geir Hallgrímsson séu í aðalframboðum svo að þeir geti metist á um það hvor hafi skrökvað meira og þrasað svolítið um NATO. Þetta er þeirra kerfi og þeirra vald. Við hin erum aukapersónur, --- kannski auka-Íslendingar.
Þeir mega kalla væntanlegt bandalag sérframboð. En við eigum von og kannski erum við von. Við treystum því að fólkið í landinu sjái í gegnum valdhrokann, hið niðurnjörvaða vald með sama hætti og við gerum sjálf. Við höfum nefnt lausnir, en þær lausnir snúast auðvitað einvörðungu um svokölluð stjórnmál. Eftir sem áður er það einstaklingurinn, gleði hans og sorgir sem mestu máli skiptir. Hann er sjálfur bærastur til að ráða fram úr eigin málum. Til þess þarf hann aðeins þolanlegar aðstæður, frelsi og frið.
Ég þakka þeim sem hlýddu.
_________________________________________
14.03.1983
Sameinað þing: 66. fundur, 105. löggjafarþing.
Almennar stjórnmálaumræður
Vilmundur Gylfason:
Herra forseti. Undanfarið hefur verið starfað á Alþingi daga og nætur. Háttvirtir alþingismenn, sem margir hverjir hafa þann meginstarfa að sitja í sjóðum, nefndum og ráðum ríkisins og útdeila þaðan fjármagni og greiða án sjáanlegs ágreinings á milli flokka og fylkinga, eru nú allt í einu uppteknir á daginn og helst á nóttunni líka við að setja lög. Við þessar aðstæður er lagavinnan auðvitað hroðvirknisleg og í ólagi, en það skiptir þó ekki meginmáli. Fjórflokkarnir eru að fara í kosningar og að kosningum loknum ætla þeir ekki fyrst og fremst að setja lög, hvorki á daginn né nóttunni, heldur skipta upp á nýtt stjórnum, nefndum og ráðum á milli flokkanna í ljósi kosningaúrslita og halda síðan áfram með nákvæmlega sama hætti og verið hefur.
Það sem við erum að horfa á er sviðsetning til varnar hagsmunum. Fari svo að flokkarnir fjórir sigri í þessum kosningum með einum eða öðrum hætti er alveg ljóst að áfram verður haldið með nákvæmlega sama og óbreyttum hætti. Þá skipta kosningar í sjálfu sér ekki máli og ekki kosningaúrslitin. Þeir skipta aðstöðunni á milli sín. Sjálfstæðisflokkurinn í öllum sínum brotabrotum, þar sem Þorsteinn Pálsson hefur það hlutverk að koma háttvirtum þingmanni Eggert Haukdal inn á þing og styrkja þar með Framkvæmdastofnun ríkisins og þar sem Pálmi Jónsson hefur það hlutverk að koma háttvirtum þingmanni Eyjólfi Konráð Jónssyni inn á þing og styrkja þar með stjórnarandstöðuna, sá flokkur mun annaðhvort reyna að mynda stjórn með Framsóknarflokki eða, sem er líklegra, Alþýðubandalagi og svo skipta þeir aðstöðunni á milli sín. Þetta mun gerast nema nýtt afl komi til.
Gjaldþrot stjórnmálaflokkanna nú, þegar ríkisstjórn dr. Gunnars er að hrökklast frá, blasir við. Og við skulum muna að sama gerðist með síðustu meirihlutastjórn og þá næstsíðustu. Þeir kenna því núna um að þeir hafi misst meiri hluta í annarri þingdeildinni. Þetta er auðvitað rangt. Slíkur örlagavaldur er háttvirtur þingmaður Eggert Haukdal ekki. Ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar hafði meiri hl. og mistókst samt. Ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar hafði mikinn meiri hluta. Hún var sú sterka stjórn, sem hæstvirtur ráðherra Steingrímur Hermannsson ákallar nú í tíma og ótíma, og mistókst samt einnig.
Það verður að leita dýpri skýringa á mistökum í stjórnarfari og efnahagslífi heldur en í háttvirtum þingmanni Eggert Haukdal, sem fjórflokkakerfið hefur gert að skálkaskjóli ógæfu sinnar. Stjórnmálaflokkarnir sjálfir eru þröngar valdastofnanir sem standa ekki lengur fyrir stjórnmálaskoðanir, heldur fyrst og fremst fyrir hagsmunavörslu og þessa hagsmuni verja þeir af oddi og egg. Þeir eru stofnanir, en ekki hreyfingar. Ég spyr --- og hugsi menn sig nú vandlega um: Hver er munurinn á stjórnmálaskoðun háttvirts þingmanns Matthíasar Bjarnasonar og Guðmundar J. Guðmundssonar? Ég hef starfað hér í fjögur ár og ég svara: Enginn.
Ef þetta er svo, af hverju eru fjórflokkarnir þá að bjóða fram í fernu lagi, þegar allir vita að að afloknum kosningum geta þeir ekki myndað ríkisstjórn nema sem verður nákvæmlega eins og sú sem nú er að hrökklast frá? Svarið er að höfuðskýringin á þessu skoðanalega öngþveiti er hin bitra barátta um yfirráðin yfir sjóða- og skömmtunarvaldinu. Orðum spurninguna öðruvísi: Hversu mikið af því valdakerfi sem eftir er í Sjálfstæðisflokki rekur sig beint til yfirráða þeirra og fjármagnsskömmtunar í Framkvæmdastofnun ríkisins eða ríkisbönkum --- og Framkvæmdastofnun þóttumst við þó ætla að leggja niður fyrir mörgum árum --- og hvað eigum við hin að gera, sem höfum skömm og andstyggð á þeim atkvæðakaupum sem þar og annars staðar fara fram, stöndum fyrir utan þetta, viljum breyta því, en ekki og aldrei taka þátt í því?
En þarna er komið að kjarna málsins. Fjórflokkarnir eru í höfuðatriðum allir eins. Þeir eru ekki valkostur hver gegn öðrum. Blæbrigðamunur skoðana er meiri innan þeirra en á milli þeirra.
Þeir segja að við aðstandendur Bandalags jafnaðarmanna séum að spila á upplausnina, kynda undir óánægju, safna um okkur óánægðu fólki, eins og svo smekklega er orðað, en við spyrjum: Hver ber ábyrgðina á því hvernig komið er?
Auðvitað erum við, sem stöndum að Bandalagi jafnaðarmanna, gagnrýnin á stjórnarfarið samhliða bjartsýni á möguleika og getu fólksins í þessu landi. En mörg undanfarin ár hefur á vegum flokkakerfisins verið unnið að breytingum á stjórnarskrá lýðveldisins. Árangurinn hefur séð dagsins ljós og verið samþykktur hér, en bæði í miklum flýti og að undangenginni lítilli kynningu á meðal almennings. Árangurinn er sá einn að því er stjórnkerfið varðar að fjölga á alþingismönnum í 63. Árangurinn er sá einn. Þegar til átti að taka gat flokkakerfið ekki komið sér saman um neitt annað og ekki vegna hugsjóna, heldur vegna hagsmuna. Þetta frumvarp er fullkomin blekking, tilraun flokkakerfisins til að skrökva því að þjóðinni að eitthvert samkomulag hafi náðst í máli þar sem ekkert samkomulag hefur náðst nema um það að fjölga háttvirtum þingmönnum um þrjá. Það er allt og sumt.
Við höfum verið að lifa mestu aflaár í sögu lýðveldisins. Við erum matvælaframleiðendur á landinu og sjónum. Við höfum öll tækifæri til þess að byggja upp heilbrigt samfélag hins dreifða valds, hinna smáu eininga réttlætis, jafnaðar og mannlegrar reisnar. Samt horfum við á gegndarlausa skuldasöfnun, óviðráðanlega verðbólgu, efnahagskerfi sem er óheiðarlegt --- ég nefni skattsvik og óeðlilegar pólitískar fyrirgreiðslur og stjórnkerfi þar sem Alþingi er og hefur verið í fullkominni upplausn. En við viljum að allt öðruvísi sé farið að.
Við viljum að algerlega verði skilið á milti löggjafarvalds og framkvæmdavalds, að þeir sem eru kjörnir til löggjafarstarfa setji landinu lög og leikreglur og hafi eftirlit með framkvæmd þeirra, að komið sé í veg fyrir þau ósæmilegu atkvæðakaup og þá útdeilingu pólitískra greiða sem nú á sér stað og hefur átt sér stað. --- Fólk veit auðvitað mismikið um störf Alþingis, en ég get upplýst að hér um sali ganga háttvirtir þingmenn sem sjaldan eða aldrei flytja lagafrumvörp, en þar sem víxlabunkarnir standa út úr töskunum. Hér frammi á gangi er rekki fyrir dagblöð og fyrir óútfyllt víxileyðublöð. Vissum við þó ekki að Alþingi væri viðskiptabanki.
En það sem verður að skiljast er hvernig þetta kerfi, þetta samkrull löggjafarvalds og framkvæmdavalds, hefur valdið félagslegri og efnahagslegri ógæfu. Alþingi þarf að setja lög í verðbólgusamfélagi, t.d. um stig vaxta miðað við verðbólgu, en hvernig á Alþingi að geta það þegar annar hver háttvirtur alþingismaður situr við það á morgnana að skammta fjármagn úr sjóðakerfinu, hvort sem það heitir Framkvæmdastofnun, ríkisbankar eða eitthvað annað?
Það er þetta sem hefur ekki gengið upp, hefur meira og minna lamað alla hagstjórn, gert stjórnsýsluna forspillta og hefur t.d. gert prófkjörin víða svo bitur og ofsafengin sem raun ber vitni. Flokkarnir gömlu eru ekki að takast á um stjórnmálaskoðanir, heldur um aðgöngumiða að skömmtunarkerfinu.
Við viljum jafna kosningarrétt með því að í stað þingkjörs og þingræðisríkisstjórnar komi þjóðkjör og þjóðræði, m.ö.o. að forsætisráðherra sé kosinn beinni kosningu með einu og jöfnu atkvæði allra, án tillits til búsetu, í tvöfaldri umferð, hljóti enginn meirihluta í þeirri fyrri. Með þessu er kosningarréttur raunverulega jafnaður að svo miklu leyti sem hægt er og um getur náðst skynsamlegt samkomulag. Ég spyr einfaldrar spurningar, án þess að leggja dóm á þann mann að öðru leyti: Hver kaus hæstvirtan núverandi forsætisráðherra til slíkrar stöðu í des. 1979?
Við leggjum til að, að þessu gjörðu, sé hagur hinna dreifðu byggða réttur með því að hafa kjördæmaskipan og tölu þingmanna óbreytta. Með þessu á að nást fullkominn friður og skynsamlegt jafnvægi milli þéttbýlis og dreifbýlis, stjórnkerfi í okkar stóra landi sem leiðir annars vegar til styrkari efnahagsstjórnar og hins vegar mikillar valddreifingar til landshluta og sveitarfélaga.
Fjórflokkarnir snúast auðvitað gegn þessum hugmyndum. Þeir segja að verið sé að afnema þingræðið. Þetta er útúrsnúningur og orðaleikur. Að því er tekur til ríkisstjórnar er verið að leggja til það eitt að hana kjósi þjóðin en ekki þingið, enda má nú segja að þinginu hafi tekist misjafnlega til. Það er breytingin sem verið er að leggja til. En aðalatriðið er þó hitt, að fjórflokkarnir vita að ef skilið verður á milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds er um leið klippt á hin spilltu og óeðlilegu flokkavöld. Þá verða t.d. flokkablöðin ekki lengur rekin af pólitískum sjóðum. Þá mun aðstöðubraskið a.m.k. minnka.
Við skulum ævinlega hafa hugfast að ríkisbankarnir í þessu landi eru eldri en sósíalismi, enda mundi heiðarlegur heiðursmaður eins og háttvirtur þingmaður Birgir Ísleifur Gunnarsson ekki taka til máls eins og hann gerði hér í kvöld að tala um Weimarlýðveldið og Adolf Hitler --- þannig tala ekki sómamenn --- nema mikla hagsmuni sé verið að verja.
Sem þáttur í sömu valddreifingarhugmyndum leggjum við til að þegar menn og konur greiða atkvæði í kosningum geti þau merkt við og raðað upp á lista --- tekið einstaklinga af einum eða fleiri listum --- allt upp í tölu kjörinna þingmanna. Slíkar hugmyndir viljum við útfæra um samfélagið allt. Slík tillaga fjallar auðvitað um að flokkakerfið í landinu er ekki lengur mælikvarði á lífsskoðanir fólks og langanir. Ef einhverjir vilja t.d. kjósa konur sérstaklega eða einhver sjónarmið önnur, þá skipta þau sjónarmið máli og eiga sinn lýðræðislega rétt. Allt er þetta hægt og þetta er skynsamlegur valkostur gegn uppgjöf og upplausn flokkanna fjögurra.
Við trúum því, að hljóti þessar hugmyndir brautargengi fólksins í landinu muni félagskerfið einnig taka örum breytingum, lýðræði aukast og ábyrgð aukast. Við trúum því, að við séum valkostur gegn flokkakerfi sem var eðlilegt á sinni tíð, en er það ekki lengur. Annaðhvort gerist að hugmyndir okkar hljóta brautargengi eða hin félagslega stöðnun heldur áfram og upplausn fjórflokkanna heldur áfram.
Hin heimatilbúna kreppa, sem þeir tala um, hið heimatilbúna vonleysi, á að vera ástæðulaust. Í almennum efnahagsmálum leggjum við til að tímabili ábyrgðarleysis og inngripi ríkisvalds í samninga ljúki og um leið hefjist tímabil ábyrgðar einstaklinga og samtaka þeirra. Við viljum að einstaklingar og samtök þeirra semji með frjálsum hætti og beri að fullu og öllu ábyrgð á því sem samið er um. Þegar samið er um fiskverð t.d. á ríkisvaldið engin afskipti að hafa af því, heldur eiga kaupendur og setjendur að semja eins og frjálsir menn og bera að fullu og öllu ábyrgð á því sem samið er um. Það gengur ekki að ríkisvaldið beri ábyrgð á slíkum samningum, sem síðar eru innistæðulausir, og millifæri síðar til óhæfra atvinnurekenda með því að lækka gengið, skattleggi innflutning til að millifæra til þeirra sem sömdu um pappírsverðmætin.
Sama verður að gilda um kaup og kjör. Það er ekki og á ekki að vera hlutverk ríkisvaldsins að grípa inn í gerða samninga vegna þess að ábyrgðarlaust hefur verið samið. Mönnum og samtökum þeirra mun undrafljótt lærast að beri þeir ábyrgð á samningum, sem gerðir eru, er skynsamlega samið á grundvelli þeirra verðmæta sem til skipta eru. Við eigum að hafa trú á mannfólkinu og samtökum þess.
Þetta eru tillögur um grundvallarbreytingu í efnahagsgerðinni, þar sem ábyrgð á því sem menn gera og frelsið til þess skipta meginmáli. Inngripin í þágu hagsmuna hefur reynst röng leið og úr sér gengin og sem auk þess hittir ævinlega launafólkið fyrir. Þeir spyrja: Hvað ætlið þið að gera í efnahagsmálum? Við svörum og segjum: Þetta er það sem við ætlum að gera. Þetta eru till. sem munu leiða til jafnvægis á skömmum tíma vegna þess að fólki er treystandi ef stjórnkerfið er heilbrigt.
Herra forseti og góðir áheyrendur. Ég hef ekki séð ástæðu til þess að leika hinn hefðbundna leik flokkakerfisins og vil ekki vera að metast um fortíðina. Okkur er líka alveg sama. Fortíðin skiptir ekki meginmáli að þessu leyti. En við horfum til framtíðar. Við horfum á fjörbrot flokkakerfis, sem stendur ekki lengur fyrir mismunandi skoðanir fólksins í landinu, heldur forskrúfaða hagsmuni fárra, en um leið er þó atlaga að hinum mörgu. Þeir eru nú að sviðsetja ágreining til þess að geta skipt með sér upp á nýtt að afloknum kosningum.
Félagskerfið á Íslandi er staðnað og það er hættuleg stöðnun. Það svarar ekki lengur til þeirra meginhugmynda sem bærast í brjóstum fólksins í þessu landi. Það býst ekki til varnar á tölvuöld. Það er ekki fulltrúi fyrir þann húmanisma, fyrir það manngildi sem hlýtur að vera svar næstu framtíðar. Ef svo fer engu að síður að fjórflokkarnir hljóti brautargengi mun hin félagslega stöðnun halda áfram.
Bandalag jafnaðarmanna, hugmyndir okkar um breytt stjórnkerfi og dreift vald, ábyrgð og frelsi hinnar litlu einingar, er kall nýrrar tíðar gegn þessari þróun. Við erum bjartsýn vegna þess að þetta er hægt. Við erum bjartsýn vegna þess að við trúum því að þessar skoðanir eigi samhljóm um landið vítt og breitt, að tímabili stöðnunar og þessarar upplausnar ljúki og við taki ný hreyfanlegri og betri tíð. Það vorar brátt í þessu landi og við viljum að það vori víðar. --- Ég þakka þeim sem hlýddu.
___________________________________________
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
25.11.2008
Magnaður borgarafundur
Borgarafundurinn síðasta mánudagskvöld sem fjallaði um fjölmiðlana var magnaður (sjá tónspilara). Fundurinn í gærkvöldi var aldeilis ekki síðri. Ánægjulegt hve margir þingmenn og ráðherrar mættu og húsið var kjaftfullt. En Davíð Oddsson lét ekki sjá sig. Ég verð að játa að ég bjóst ekki við svona mikilli mætingu en hún sýnir hug og líðan almennings. Andrúmsloftið var rafmagnað og fólki var mikið niðri fyrir. Ég held að ég hafi aldrei upplifað andrúmsloft eins og á mótmælafundunum á Austurvelli og borgarafundunum. Íslendingar eru ekki mikið gefnir fyrir að láta heyra of mikið til sín, en á þessum fundum er hrópað, blístrað, klappað, púað og tjáningin í botni. Mér líkar þetta vel.
Ræðumenn voru allir frábærir, Einar Már gaf lífinu lit og Gunnar stjórnaði af mikilli festu og enginn komst upp með múður eða langlokur - hann reyndi eins og hann gat að kreista skýr svör upp úr ráðherrunum með misjöfnum árangri þó.
Ráðherrarnir stóðu sig misvel. Lítið reyndi á Einar K., Kristján Möller og Þórunni en hin voru plássfrekari og fleiri beindu orðum sínum til þeirra. Þorgerður var sköruleg en innihaldið ekki alltaf samkvæmt því. Össur gerði misheppnað grín að öllu. Geir og Ingibjörg Sólrún voru pólitíkusar fram í fingurgóma og gátu ekki með nokkru móti svarað neinu skýrt og skorinort, fóru alltaf út og suður í svörum sínum.
RÚV á mikið hrós skilið fyrir að senda beint út af borgarafundinum í Háskólabíói. Fyrir fundinn var umfjöllun um hann í Kastljósi og eftir fundinn í Tíufréttum. Frábærlega að verki staðið EN... ég fékk aftur tölvupóst frá Friðrik Berndsen, þeim sama og ég birti bréf frá hér. Friðrik segir m.a.:
"Hef verið að reyna horfa á útsendinguna úr Háskólabíói. Hún byrjaði vel í þetta skiptið, mynd ágæt og hljóð einnig, en svo var eins og menn hættu á vaktinni klukkan 21, því þá náðist bara ekki samband við RÚV lengur.
Erum hérna nokkrir íslendingar sem hópuðumst saman til að fylgjast með útsendingunni, bæði ferðalangar og aðrir sem starfa hér í Asíu, og vonbrigði voru mjög mikil með að þeim tækist ekki að klára þetta.
Ath: Útsendingin fór fram um miðja nótt hér svo fólk lagði á sig að vaka til að geta séð þetta."
Þetta kannast ég vel við, sérstaklega í beinum útsendingum af áhugaverðum atburðum. Þegar Geir og Björgvin voru með fundina í október klikkaði netútsending RÚV ansi oft. Það var eins og kerfið þyldi ekki álagið. Vill kannski einhver vekja athygli þeirra á RÚV á þessu og biðja einhvern sem hefur með málið að gera að skjóta hér inn athugasemd og útskýra hvað veldur þessu. Það er miklu auðveldara að skilja og jafnvel sætta sig við þetta ef fólk veit hvað veldur. Vonandi verður RÚV með beina útsendingu aftur af næsta fundi, mánudagskvöldið 8. desember. Þá verður kastljósinu beint að verkalýðshreyfingunni og lífeyrissjóðunum.
En hér er allt um fundinn frá RÚV í kvöld - Kastljós, fundur og tíufréttir. Fundinum sjálfum skipti ég í 3 nokkuð jafnlanga hluta. Ég varð ekki vör við að Stöð 2 minntist einu orði á fundinn að þessu sinni. En hér er heilmargt um fundinn.
Kastljós fyrir fundinn
Borgarafundur í Háskólabíói - fyrsti hluti
Borgarafundur í Háskólabíói - annar hluti
Borgarafundur í Háskólabíói - þriðji hluti
Tíufréttir eftir fundinn - Hlustið vel eftir viðhorfum ráðherrana,
hvað þau segja og hvernig þau segja það. Mér var ekki skemmt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
24.11.2008
Allir í Háskólabíó í kvöld!
Gunnar Sigurðsson, annar upphafsmanna borgarafundanna
og Margrét Pétursdóttir, einn frummælenda kvöldsins voru í Silfrinu í gær.
Davíð A. Stefánsson, hinn upphafsmaður borgarafundanna
og kona hans, Halla Gunnarsdóttir, blaðamaður voru í Mannamáli í gærkvöldi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.11.2008
Nauðgun á réttlætiskennd heillar þjóðar?
Ég hef verið að bisa við að vinna en get ekki með nokkru móti einbeitt mér að vinnunni. Silfri dagsins og fréttum er um að kenna og þeim tilfinningum sem hellast yfir mann á hverjum einasta degi. Silfrið var yfirþyrmandi. Þar talaði hver á fætur öðrum um ýmsar hliðar á því sem er að gerast í þessum skrifuðu orðum og snertir okkur öll, framtíð okkar, barnanna okkar, barnabarna og annarra afkomenda. Sjokkið verður meira með hverjum deginum - hverjum klukkutímanum liggur mér við að segja. Hvað er hægt að bjóða okkur mikið og hve lengi?
Ég setti inn allt Silfrið fyrr í dag hér, náði svo að horfa á það allt sjálf og hef verið að skoða sumt aftur. Þegar þátturinn er svona þéttur og fjölmennur þarf maður að taka inn svo mikið í einu að eitthvað hlýtur að fara fram hjá manni. Heilinn, að minnsta kosti minn, ræður ekki við þetta svo ég tók á það ráð að horfa aftur og hlusta betur eftir hinn daglega hörmunga- og spillingarskammt í fréttunum. Ég hef líka verið að lesa netmiðla og bloggsíður. Svei mér ef bloggið er ekki orðin besta fréttaveitan og greiningardeildin á landinu í dag auk sumra netmiðla og pistlaskríbenta.
Í augnablikinu er þetta efst í huga - viðtalið við Vilhjálm Bjarnason. Hlustið á hann aftur - vandlega - hvert einasta orð.
Hér er viðtalið við Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóra Glitnis, sem fékk 300 milljónir fyrir það eitt að fara fram úr rúminu og mæta til vinnu. Það eru brúttótekjur mínar fyrir nóvember í 3.000 ár. Vilhjálmur skírskotar til viðtalsins. Takið sérstaklega eftir því að viðtalið er 21. september, nákvæmlega 8 dögum fyrir hrun bankans.
Hér eru svo þrjú lítil dæmi um það sem Vilhjálmur var að tala um. Mennirnir sem komu Íslandi og þar með þjóðinni allri á kaldan klakann, gerðu okkur gjaldþrota og eyðilögðu orðstír okkar virðast eiga næga peninga. Þeir þrýsta á að skuldir þeirra séu felldar niður í gömlu bönkunum og ætla sér nú að kaupa allt góssið aftur. Leika sama leikinn, fara sama hringinn. Þeir hafa ekki verið látnir sæta neinni ábyrgð þótt í raun ætti að handtaka þá alla og bankastjórnendurna líka og fara ofan í saumana á gjörðum þeirra og blekkingarvefnum sem þeir spunnu. Gera allar eignir þeirra upptækar og leita uppi falda bankareikninga þeirra. Hve háum fjárhæðum skutu þeir undan sem liggja nú í bönkum í erlendum skattaparadísum og bíða þess að þeir kaupi Ísland aftur og leiki sama leikinn? Ég minni á umfjöllun Kompáss hér og viðtalið við danska blaðamanninn hér. Og greinarnar frá því á fimmtudaginn hér. Sama fólkið að gera sömu hlutina, bæði í bönkunum og viðskiptalífinu. Og nú pottþétt með leyfi, vitund og blessun stjórnvalda sem réðu sama liðið til starfa við "nýju" ríkisbankana og klúðruðu þeim gömlu. Tvö af þremur endurskoðunarfyrirtækjum sem nú eru að fara yfir bókhaldið störfuðu fyrir gömlu bankana og eru því að rannsaka eigin vinnubrögð og dæma í eigin sök. Traustvekjandi?
Um mögulega sölu TM og Kaupþings í Lúxemborg.
Um hið dularfulla skúffufyrirtæki Stím sem notað var til að auka verðmæti banka á pappírunum.
Hér er fréttaskýring Morgunblaðsins um Stím og svargrein Jóns Ásgeirs sem birtist ekki í Morgunblaðinu heldur í Fréttablaðinu. Lesið þetta í tengslum við það mál allt. Ætla stjórnvöld virkilega ekki að stöðva þennan farsa? Á að ræna okkur alveg upp á nýtt með þeirra blessun?
Ég veit ekki með ykkur - en réttlætiskennd minni er miklu, miklu meira en misboðið. Mér líður eins og henni hafi verið nauðgað ítrekað af Seðlabanka, Fjármálaeftirliti, bankastjórnendum, útrásarbarónum og það sem verst er - þeim sem áttu að gæta mín og minna, okkar allra - stjórnvöldum. Sagt er að fyrirgefningin sé okkur eðlislæg en mér er aldeilis engin fyrirgefning í huga, nema síður sé. Það eru liðnir tveir mánuðir og ekkert hefur gerst, enginn hefur axlað ábyrgð, sama sukkið og spillingin í gangi. Þau vissu þetta öll fyrir löngu. Það var búið að vara þau við - margoft - bæði af Íslendingum og útlendingum en þau gerðu ekkert. Lyftu ekki litlafingri til að bjarga þjóðinni sinni frá þessum hörmungum og létu hana fara til andskotans með lokuð augu. Hvers vegna? Getur einhver komið með frambærilega skýringu á því?
Ef ríkisstjórnin, seðlabankastjóri, forsvarsmenn Fjármálaeftirlitsins og þingmenn mæta ekki ÖLL á borgarafundinn í Háskólabíói í kvöld til að tala við okkur verður það lokahnykkurinn á veruleikafirringu þeirra og sýnir svo ekki verður um villst fyrirlitningu þeirra á "skrílnum" - þ.e. þjóðinni. Okkur - Litlu-Gunnu og Litla-Jóni.
Íslendingar flýja land - Framtíðarsýn Spaugstofunnar
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (40)
23.11.2008
Kemur þetta einhverjum á óvart?
Reynið svo ekki að segja okkur að kosningar séu ótímabærar. Það verður einfaldlega að kjósa með vorinu, eigi síðar. Annað er ótækt. Ríkisstjórnin er gjörsamlega rúin trúverðugleika og trausti. Hún talar ekki við þjóðina, segist vera svo upptekin við björgunaraðgerðir sem enginn veit hverjar eru. Ætli Geir og Ingibjörg Sólrún mæti á borgarafundinn annað kvöld? Þeim er boðið. "Þetta kjaftæði gengur ekki lengur" eru lokaorðin í pistli Einars Kára hér að neðan. Mæli hann manna heilastur.
Smellið á greinar þar til læsileg stærð fæst.
Þrír rithöfundar ræddu málin og einn flutti pistil í Mannamáli kvöldsins
Þráinn Bertelsson, Hallgrímur Helgason og Guðmundur Andri Thorsson
Einar Kárason er ómyrkur í máli
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
23.11.2008
Silfur dagsins - hljóð og mynd
Þeir hjá RÚV náðu að laga hljóðið á vefnum rétt áður en Silfrinu lauk í dag. En hvort sem það var þess vegna eða af öðrum ástæðum hef ég aldrei lent í öðru eins klandri og að klippa það og vinna í dag. Þurfti að fara með það í gegnum "endur-indexun" og nota tvær tölvur til að klára vinnsluna. Þau Sigríður Ingibjörg og Gunnar Axel reyndust erfiðust viðfangs en mér tókst að vinna bug á þeim fyrir rest.
Enn hef ég ekki haft tök á að horfa á allt Silfrið en það sem ég er búin að sjá var hreint frábært. Ekki einn einasti stjórnmálamaður. Ég hef sagt það áður og segi það enn - því færri stjórnmálamenn, því betra Silfur. Bendi á færslu Jennýjar í þessu sambandi, hún orðar þetta svo ágætlega. En hér er Silfur dagsins í bútum að venju.
Vettvangur dagsins 1 - Margrét, Gunnar, Haukur Már og Sigríður
Vettvangur dagsins 2 - Sigríður Ingibjörg og Gunnar Axel
Hallbjörn Karlsson
Vilhjálmur Bjarnason
Þorvaldur Gylfason
Gunnar Páll Tryggvason
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.11.2008
Silfur dagsins - í lit
Svona er Silfur dagsins. Nú skil ég betur hvernig heyrnarlausum líður þegar þeir horfa á t.d. beinar útsendingar í sjónvarpi sem er í sjálfu sér fróðlegt. Þeir sem vilja æfa sig enn betur í varalestri geta prófað fréttirnar, Spaugstofuna og Gott kvöld frá í gær hér. Allt hljóðlaust ennþá.
En ég get ekki haft neina skoðun á því sem þarna var sagt því ég kann ekki varalestur. Ég er ekki viss um að þeir hjá RÚV séu búnir að átta sig á því hve margir treysta á útsendingar á netinu því þar virðist ekki vera vefvakt á kvöldin og um helgar.
Vettvangur dagsins 1 - Margrét, Gunnar, Haukur Már, Sigríður
Vettvangur dagsins 2 - Sigríður Ingibjörg og Gunnar Axel
Ég held að það sé tilgangslaust að setja meira inn að sinni. Set þáttinn inn þegar búið er að laga þetta. Þeir mega þó eiga það hjá RÚV að netútsendingar eru ennþá í lit.
Viðbót: Nokkrum mínútum eftir að ég birti færsluna var hljóðið komið á netútsendinguna þannig að síðustu tíu mínúturnar eða svo eru með hljóði. Einnig er komið hljóð á a.m.k. fréttir gærkvöldsins. Ég er mjög þakklát.
_________________________________________
Viðbót 2: Mér barst tölvupóstur kl. 13:41 í dag og ég var rétt í þessu að fá heimild bréfritara til að birta innihald póstsins hér:
Sæl Lára Hanna
Þakka þér kærlega fyrir frábæra bloggsíðu. Þú stendur þig betur en bæði RÚV og 365 til samans.
Ég bý í Asíu og næ nánast aldrei að horfa á íslenskt efni vegna gallaðra útsendinga. Þetta er ömurlegt alveg. Nú þegar Silfrið er í gangi þá get ég séð mynd en fæ ekkert hljóð. Hélt fyrst að þetta væri tölvan mín og fór í bæinn á internetstofu og það var það sama.
Það ganga hamfarir yfir heima og maður er rosalega einangraður svona úti og treystir á RÚV og að þeir geri manni kleift að fylgjast með en svo er ekki. Ég er brjálaður alveg og þetta kostar alveg helling því maður verður að frá fréttir og fær þá símleiðis sem er ekki það sama og geta hlustað og horft.
Ég treysti því að þú framsendir þetta á starfsmenn RÚV. Það eru ömurlegt að ná ekki svona grunnþjónustu á tímum sem þessu. Geturðu gefið mér upp e-mail hjá einhverjum þungavigtarmanni hjá RÚV sem myndi láta sig þetta varða?
Ég veit um fólk sem er að reyna senda póst á kerfisstjóra RÚV víðsvegar úr heiminum til að gera athugarsemd við lélega þjónustu og það fær póstinn strax aftur í hausinn. Maðurinn tekur ekki einu sinni við póstinum!
Hvað er í gangi? Ótrúlega lélegt og til háborinnar skammar.
Friðrik
________________________________________________
Því er við þetta að bæta að RÚV er í miklu fjársvelti og hefur líklega ekki bolmagn til að veita betri þjónustu. Það er stutt síðan þar gekk yfir niðurskurður, uppsagnir og samdráttur. Mér finnst að í svona ástandi sem nú er í þjóðfélaginu sé ekki vanþörf á að efla ríkisfjölmiðilinn og leyfa honum að starfa óáreittum fyrir pólitísku valdi og þrýstingi. RÚV er fjölmiðill allrar þjóðarinnar og yfirvöldum ber að haga málum þannig að hann geti gegnt skyldu sinni gagnvart almenningi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)