23.8.2008
Seilst í gullkornabankann
Það er lítt við hæfi á gleðidögum, þegar þjóðin fagnar árangri handboltalandsliðsins, að vera með gagnrýni á pólitík og þess háttar. Ég seildist því í gullkornabankann sem stækkar ört og setti saman gamanmyndband sem þarfnast ekki frekari skýringa - held ég. Nú hlæjum við og skemmtum okkur! Áfram Ísland!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Upp er runninn enn einn niðurlægingardagurinn í stjórnmálasögu Reykjavíkur - eða kjörtímabilsins - sem nú er ekki nema rétt rúmlega hálfnað. Grímulaus valdagræðgi hefur vaðið uppi og að þessu sinni er það hinn fylgissnauði Óskar Bergsson, húsasmiður og virkjanasinni, sem hlaut náð fyrir augum Sjálfstæðisflokksins, sem hrifsaði völdin í janúar sl. Óskar þessi lenti aðeins í 3. sæti í prófkjöri Framsóknarmanna fyrir síðustu kosningar þótt hann hafi stefnt á 1. sætið. Flokkurinn hans hlaut heil 4.056 atkvæði af 64.895 í kosningunum, eða rétt rúm 6%. Flokknum var einfaldlega hafnað af kjósendum. Í síðustu skoðanakönnun sem birt var fékk flokkurinn 2,1% sem þýðir að borgarbúar hentu honum út á hafsauga. Hinn nýi meirihluti hefur ekki meirihluta atkvæða á bak við sig þótt hann hafi mann umfram minnihlutann, eins og sjá má af tölum í þessum pistli. En Óskar var tilbúinn til að gerast nýjasta viðhaldið og við fáum að heyra uppsett verð innan skamms.
Valkyrjan og vélstýran Anna K. Kristjánsdóttir sagði í pistli á bloggi sínu þann 13. desember 2006 m.a. þetta:
"Í maí síðastliðnum voru haldnar borgarstjórnarkosningar í Reykjavík. Annað sæti Framsóknarflokksins vermdi Óskar Bergsson trésmiður eftir að Anna Kristinsdóttir hafði afþakkað sæti á framboðslista flokksins. Reykvíkingar höfnuðu Óskari Bergssyni. Með atkvæðum okkar létum við það heyrast svo ekki væri um villst að við höfnuðum þeim skoðunum sem Óskar Bergsson stóð fyrir, sem o
Það nægði ekki.
Hinn nýi borgarstjóri, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, dró Framsóknarflokkinn upp úr foraðinu og hlóð á hann bitlingum sem aldrei fyrr. Ekki einungis fékk aðstoðarmaðurinn fyrrverandi ekki einungis ótrúleg völd miðað við atkvæðamagn á bakvið sig, heldur fékk trésmiðurinn sem við höfnuðum algjörlega, tæpar 380 þúsundir í laun á mánuði fyrir setu í Framkvæmdaráði borgarinnar og skipulagsnefnd auk þess sem hann tók að sér skipulagsvinnu fyrir Faxaflóahafnir fyrir litlar 6500 krónur á tímann. Samtals eru þetta 770 þúsundir á mánuði. Var einhver að tala um spillingu? Nú hanga þeir Björn Ingi Hrafnsson fyrrverandi ættingi minn og félagi hans Óskar Bergsson í pilsfaldinum, ef ekki pilsfaldinum hans Villa, þá í pilsfaldi Hönnu Birnu sem er nánast sú eina í borgarstjórnarmeirihlutanum sem hægt er að hanga í pilsfaldinum á. Ekki líst mér á stöðu mála."
Þessi orð Önnu benda ótvírætt til þess að Óskar Bergsson sé síður en svo mótfallinn spillingu af neinu tagi. En nú heitir nýi borgarstjórinn Hanna Birna Kristjánsdóttir, sá fjórði á rúmum tveimur árum. Nú er það hún sem dregur Framsóknarflokkinn upp úr foraðinu og við fáum að heyra um bitlingana á borgarstjórnarfundinum í dag. Vilji borgarbúa er hunsaður algjörlega, bæði viljinn sem fram kom í kosningunum og í skoðanakönnunum. Til hvers erum við að kjósa? Til hvers að gera skoðanakannanir? Stjórnmálamönnum virðist fyrirmunað að hlusta á kjósendur og þeir eru með alls konar undanfærslur þegar reynt er að ganga á þá. Þeir hugsa ekki um annað en að komast að kjötkötlunum til að hygla sér og sínum og eru örlátir með eindæmum.
En einhverra hluta vegna er mér efst í huga núna samúð með borgarstarfsmönnum. Í rétt rúmlega tvö ár hafa þeir þurft að lúta þremur herrum og nú fá þeir þann fjórða. Ég get ímyndað mér þreytuna, ergelsið og pirringinn hjá borgarstarfsmönnum samfara því að verkefni eru sett ókláruð ofan í skúffu, kúvending á stefnu í ýmsum málum svo ekki sé minnst á nýjasta útspilið - að einkavæða sorphirðuna í Reykjavík. Sorphirðan hefur verið með ágætum og í eina skiptið sem ég hef þurft að leita til þeirra sem þar stjórna var málið leyst farsællega samdægurs. Til hvers að breyta því sem gengur svona vel? Hvaða pótintátar á vegum Sjálfstæðisflokksins - nú eða Framsóknar - eiga að fá þennan spón úr aski borgarinnar? Ég finn til með borgarstarfsmönnum og votta þeim samúð.
Ég skrifaði pistil 10. maí sl. undir yfirskriftinni Það er engin spilling á Íslandi, er það? Þar var megininntakið vafasamur samningur sem Orkuveita Reykjavíkur (Guðmundur Þóroddsson og Alfreð Þorsteinsson) gerði við Sveitarfélagið Ölfus til að "greiða fyrir" leyfum fyrir virkjunum á Hellisheiði og á Hengilssvæðinu, þar á meðal Bitruvirkjun. Með tilkomu Óskars Bergssonar í meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur er Bitruvirkjun aftur komin á dagskrá, illu heilli. Óskar er mikill stuðningsmaður Bitruvirkjunar. Hann vill leggja ómetanlega náttúru við bæjardyr íbúa höfuðborgarsvæðisins og aðalútivistarsvæði Hvergerðinga í rúst auk þess að eitra fyrir okkur öllum með m.a. brennisteinsvetnismengun. Ég skrifaði pistla um þá mengun m.a. hér og hér. Veit Óskar ekki hvað er í húfi? Ef hann er svona illa upplýstur á hann ekki að gegna neinum ábyrgðarstöðum. En ef hann veit það en hunsar er siðferðinu verulega ábótavant.
Rök Óskars fyrir Bitruvirkjun eru m.a. þessi (leturbr. mín): "...það er alveg ljóst að ýmsar háhitavirkjanir og ýmsar virkjanir sem við Íslendingar eigum hafa verið heilmikið aðdráttarafl fyrir ferðaþjónustuna og ekki færri ferðamenn sem koma til að skoða það hvernig við nýtum okkar hreinu, endurnýjanlegu orku en líka til þess að sjá og upplifa ósnortna náttúru." Ég trúði ekki mínum eigin eyrum þegar ég heyrði hann segja þetta í beinni útsendingu af borgarstjórnarfundi 20. maí sl., hringdi því strax í Ráðhúsið og bað um endurrit af þessum dagskrárlið fundarins. Þetta er orðrétt eftir Óskari haft. Það er alveg ljóst að Óskar Bergsson þekkir ferðaþjónustuna nákvæmlega ekki neitt og veit ekkert hvað hann er að tala um frekar en Ólafur Áki Ragnarsson, sveitarstjóri Ölfuss, þegar þetta var haft eftir honum.
Þessi ummæli Óskars eru í takt við það sem kemur fram í þessum pistli og myndbandinu sem birt er þar. Hvernig stendur á því að svona fólk velst til forystu í flokkum og sveitarstjórnum? Fæst ekkert betra? Er þetta fólkið sem er tilbúið til að selja sálu sína og samvisku hverjum sem er í hvaða tilgangi sem er? Því meira sem ég sé og heyri því minna skil ég.
Réttlætiskennd minni er stórlega misboðið og mér finnst verið að hafa mig að fífli... hvað eftir annað. Það er vond tilfinning og verður ekki gleymd fyrir næstu kosningar, svo mikið er víst. Og hvað er þetta rugl búið að kosta? Hvað yrði gert við fólk sem neitaði að borga útsvar þegar því er sóað í svona vitleysu?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
19.8.2008
Það er svo gott að hlæja
Ég get endalaust hlegið að þessum tveimur náungum. Þeir eru yndislega óborganlegir. Þetta eru breskir leikarar, John Bird og John Fortune. Það sem mér finnst einna skemmtilegast þegar ég horfi og hlusta á þá, er að finna samnefnara viðmælandans hér á landi... sem tekst yfirleitt. Nefni engin nöfn.
Bird og Fortune byrjuðu með grínþátt sinn árið 1999 og eru enn að. Þessir tveir kumpánar eru bara eitt atriði í þáttunum þeirra. Þeir skiptast á að leika viðmælandann og fara á kostum. Ég hef áður sett hér inn eitt eða tvö myndbönd með þeim og vona að ég sé ekki að endurtaka mig. Njótið...
Íhaldsþingmaðurinn
Sendiráðunautur í Washington
Aðmíráll í breska flotanum
Ráðgjafi Gordons Brown, forsætisráðherra
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.8.2008
Af hverju EKKI Bitruvirkjun?
Morgunblaðið í gær var uppfullt af Óskari Bergssyni, bjargvætti Helguvíkurálvers, Sjálfstæðisflokks, verktaka og gróðahyggju. Maður fann næstum áþreifanlega fyrir návist Alfreðs Þorsteinssonar, guðföður Framsóknarmanna í Reykjavík og fyrrverandi einvalds Orkuveitu Reykjavíkur til ótalmargra ára. Eins og sjá má hér styður aðeins um fjórðungur kjósenda nýjasta meirihlutann í Reykjavík. Íslenskt lýðræði í hnotskurn?
Bitruvirkjun var nefnd 25 sinnum í blaðinu - geri aðrar framkvæmdir betur! Nú er talað eins og virkjunin sú sé það eina sem geti komið efnahag Íslendinga til bjargar. Það er þó fjarri lagi. Í myndbandinu hér að neðan er upprifjun á sögu baráttunnar gegn Bitruvirkjun frá 30. október 2007 til 21. maí 2008. Takið sérstaklega eftir tilvitnun í orð Óskars Bergssonar í lok myndbandsins. Þar á hann einn skoðanabróður sem sagt er frá hér. Ég á ekki von á að fleiri séu svona miklir kjánar - eða upplýsa það að minnsta kosti ekki á opinberum vettvangi. Væntanlega mun ég á næstunni endurbirta bloggfærslur mínar frá þessari baráttu. En byrjum á þessu:
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (33)
Eða kannski frekar "Leyndarmál og lygar í pólitík"? Búið er að segja og skrifa svo margt um tragíkómedíuna í Ráðhúsinu að ekki er á bætandi og ef til vill ekki á færi nema örgustu hörkutóla að meðtaka allt sem hér kemur fram. Ég hef engan séð mæla skrípaleiknum bót. Flestir eru reiðir, sárir, undrandi og fjölmargir hreinlega æfir. Stór orð fjúka og margt er látið flakka. Skiljanlega, því sjaldan hefur okkur kjósendum birst óheiðarleikinn, valdafíknin og tækifærismennskan eins grímulaus og nú.
Mitt innlegg - í bili - eru þessi myndbönd. Ég fann í fórum mínum upptöku af Kastljósi frá 22. janúar sl. þegar síðasta valdarán var framið í Reykjavík. Eða á ég að segja þarsíðasta? Ég klippti saman viðtölin við fráfarandi og verðandi borgarstjóra þá og nú til að fólk geti borið saman það sem okkar ástsælu, sannleikselskandi, traustvekjandi og heiðarlegu stjórnmálamenn segja. Skýringar þeirra, afsakanir, réttlætingar og annað kjaftæði.
Við skulum byrja á fráfarandi borgarstjórum þá og nú.
Síðan eru það verðandi borgarstjórar þá og nú. Athygli vekur að það var Vilhjálmur en ekki Ólafur sem kom í Kastljósið 22. janúar.
Báða Kastljósþætti má sjá í upprunalegri útgáfu ef tvísmellt er á eitthvert myndbandið hér vinstra megin undir fyrirsögninni "Nýjustu myndböndin". Þá birtist listi yfir öll myndbönd sem ég hef hlaðið inn og tekið skal fram að ég hef ekki sett nema brot af þeim í pistla. Fjöldi myndbanda nálgast nú óðum hundraðið. Munum þetta allt saman fyrir næstu kosningar. Tími gullfiskaminnis kjósenda er liðinn.
Síðan er hér samanklippt umfjöllun Kastljóss um skýrslu starfshóps um REI-málið frá 6. og 7. febrúar sl. Nú eru einmitt sömu flokkar við völd í borginni og voru þá. Ég bendi sérstaklega á þennan pistil og myndband í þessu sambandi auk athyglisverðra athugasemda. Verður þetta verklag tekið upp aftur núna þegar virkjana- og stóriðjuflokkarnir tveir eru aftur við völd? Er þetta það sem borgarbúar vilja?
Að lokum minni ég á úrslit i Reykjavík í síðustu sveitarstjórnarkosningum og nýjustu skoðanakönnunina um fylgi flokkanna. Flestum er sjálfsagt í fersku minni talan 6.527 - nóg var tönnlast á henni á sínum tíma og hún þótti fáránlega lág. En man einhver eftir tölunni 4.056? Hún er miklu lægri! Reikni nú hver sem reikna vill atkvæðafjölda og styrk nýja meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur miðað við kosningar og skoðanakönnun.
Úrslit í Reykjavíkurborg 2006
B - Framsóknarflokkurinn
4.056 atkvæði (1 fulltrúi)
D - Sjálfstæðisflokkurinn
27.823 atkvæði (7 fulltrúar)
F - Frjálslyndir og óháðir
6.527 atkvæði (1 fulltrúi)
S - Samfylkingin
17.750 atkvæði (4 fulltrúar)
8.739 atkvæði (2 fulltrúar)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 04:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
14.8.2008
Harmleikur í Ráðhúsinu
Tragíkómedía í ótal þáttum.
Varúð! Ekki fyrir stjórnmálamenn eða viðkvæmar sálir.
Aðgangur ókeypis fyrir landsbyggðarfólk
en innifalinn í útsvari Reykvíkinga.
Kynningarmyndband (Trailer) - stutt útgáfa
Kynningarmyndband fyrir lengra komna, fréttafíkla og fullorðna - löng útgáfa
Bloggar | Breytt 15.8.2008 kl. 21:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (37)
12.8.2008
Auðmannablús og bankastjóraraunir
Þeir sem lesa bloggið mitt reglulega muna kannski eftir þessum pistli sem ég skrifaði 20. apríl sl. Þar var ég meðal annars að spá í hvaða menn væri verið að vernda og þóknast með "innspýtingu í efnahagslífið" sem helst virðist felast í því að reisa sem flestar virkjanir, álver og jafnvel olíuhreinsistöð. Einstakri, dýrmæti náttúru Íslands skal fórnað fyrir rándýra jeppa, sumarbústaði, utanlandsferðir, munað, óhóf og einkaþotur auðmanna. Ég vitnaði í atriði úr Spaugstofunni...
"Munið þið eftir vel klædda manninum (Pálma) sem stóð á gangstétt í Ingólfsstræti (hjá Sólon) og þusaði þessi ósköp um ástandið í landinu og skort á viðbrögðum stjórnvalda við því? Hann sagði:
Það er bara hreinlega að verða deginum ljósara að það er ekki búandi í þessu þjóðfélagi. Það virðast ekki vera nein takmörk fyrir því hvernig hægt er að fara með okkur þegnana. Ég er til dæmis nýbúinn að kaupa mér 8 milljón króna jeppa og hjólhýsi á afborgunum. Og þegar þetta bætist við afborganirnar af nýja eldhúsinu mínu og heita pottinum og hérna... já, og lánið af sumarbústaðnum... og flatskjáinn og snjósleðann minn og fjórhjólið og frúarbílana... þá bara ræð ég ekkert við þetta lengur! Og svo hækka þeir vextina til að gera endanlega út af við mann. Og hvað gera stjórnvöld? Ekki neitt! Þetta á ekki að líðast í siðmenntuðu þjóðfélagi!"
Ég var að leita að grein í Morgunblaðinu í kvöld og rakst þá á þetta litla viðtal frá 2. júlí sl. Hér er verið að fjalla um kvótaniðurskurðinn.
Takið sérstaklega eftir þessari setningu: "Efnahagsumhverfið er þannig að maður er á mörkum þess að geta lifað lífinu..." HA?!
Er þetta ekki auðmaðurinn og útgerðarmaðurinn úr Eyjum sem á meðal annars Toyota umboðið og svífur milli staða á landinu á einkaþyrlu? Hann segist vera á mörkum þess að geta lifað lífinu! Hamingjan góða! Hvernig er hægt að bjarga þessum vesalings manni? Er þyrlueldsneytið orðið svona dýrt? Söfnun, einhver...?
Ég hafði ekki áhuga á að fletta upp í sköttum fólks og keypti ekki skattablað - en veit einhver hvað þessi maður borgaði í skatta? Það væri fróðlegt að vita í ljósi þessara ummæla. Ég veit ekki hvort ég á að hlæja eða gráta!
Annar maður hefur tjáð sig um orkusölu Íslendinga til útlendinga - það er bankastjóri Landsbankans, Sigurjón Þ. Árnason. Ég man eftir útvarps- og sjónvarpsviðtölum þar sem hann tjáði sig hvað eftir annað um að Íslendingar eigi að nýta sér hátt orkuverð í heiminum og selja útlendingum orku til að bjarga efnahagsástandinu. Þó græða bankarnir á tá og fingri. Ég hugsaði með mér: "Hvaða hagsmuna eiga hann eða Landsbankinn að gæta? Er Landsbankinn kannski viðskiptabanki Norðuráls? Hluthafi í Geysi-Green? Af hverju er bankastjóri að tjá sig um virkjanir og stóriðjuframkvæmdir og hvetja til þess að Íslendingar selji auðlindina sína úr landi? Er eitthvað annað á bak við orð hans en einskær umhyggja fyrir almenningi, viðskiptavinunum?" Ég fann ekki í fórum mínum þessi viðtöl þrátt fyrir langa og tímafreka leit en ég fann vitnað í orð hans víða þegar ég gúglaði, t.d. hér og hér. Og ég fann þetta líka. Ein setning í þessari frétt fékk mig til að glotta við tönn og hugsa til orða margnefnds Stefáns Arnórssonar í títtnefndu Spegilsviðtali (sjá tónspilara).
Í fréttinni, sem fjallar um félag Landsbankans og Landsvirkjunar um endurnýjanlega orkuvinnslu erlendis, segir: "Fáar þjóðir í heiminum búa yfir jafnmikilli þekkingu á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og Íslendingar" og á þessari fádæma miklu þekkingu virðist samningurinn byggja.
En ef hlustað er á viðtalið við Stefán heyrum við þetta í niðurlagi viðtalsins:
Stefán: ...þannig að Íslendingar þurfa að taka á þessum umhverfismálum á miklu, miklu breiðari hátt en gert hefur verið til þessa.
Jón Guðni: En nú erum við alltaf að tala um að kenna heiminum að nýta jarðhitann þannig að við þurfum þá kannski að fara að taka okkur tak, eða hvað?
Stefán: Ég veit nú ekki hvað ég á að segja um þetta, en mér finnst stundum að Íslendingar ofmeti sig svolítið. Í hvert einasta skipti sem er heimsmeistarakeppni í handbolta þá ætlum við á verðlaunapall, ef ekki að verða heimsmeistarar - og mér finnst að við högum okkur alveg eins í þessum efnum, í okkar viðhorfum eins og í handboltanum.
Það skyldi þó aldrei vera að Íslendingar hafi ekki eins mikla þekkingu á jarðhitaorkumálum og þeir halda? Verðum við kannski Ólympíumeistarar í handbolta innan skamms?
Nú er búið að tala yfir okkur kreppu mánuðum saman og telja fólki trú um að allt sé á beinni leið til andskotans nema því aðeins að við seljum erlendum auðhringum orkuauðlindina okkar - eins og hún leggur sig. Þessir menn eru ekki að hugsa um atvinnuhorfur einstaklinga á Norðurlandi eða Vestfjörðum - hag og kjör íbúa þar. Ekki aldeilis. Almenningur er að kikna undan vöxtum, verðbótum (fer beint í hagnað bankanna) og vöruverði og þá kvartar maður eins og Magnús Kristinsson, sem líklega veit ekki aura sinna tal, um að hann geti ekki lifað lífinu. Og bankastjórar, sem hafa meiri tekjur á mánuði en almenningur getur skilið og ausa í sjálfa sig enn meira fé í formi kaupréttarsamninga hvetja til þess að framtíð komandi kynslóða sé seld úr landi, þjóðarbúið ofurselt á klafa erlendrar stóriðju og börnin okkar og barnabörnin bundin þjónkun við erlend ál- eða olíufyrirtæki um ókomna framtíð. Og til hvers? Hvert er aðalatriði málsins? Þetta kannski?
Eru menn, sem tala og haga sér þannig, verðir trausts okkar? Erum við tilbúin til að selja landið okkar til að þóknast þeim og gera þá enn ríkari? Hvað myndi gerast ef við gengjum í ESB? Fengjum við þá tækifæri til að skipta við erlenda banka og losna undan ofurvaldi og kverkatökum þessara? Treystir fólk stjórnmálamönnunum sem spila með þeim? Óttast þeir inngöngu í ESB af því þá missa þeir einhver völd og jafnvel kverkatakið á þjóðinni? Á hvaða refilstigu er gróðahyggja og skammtímahugsun nokkurra valda- og fégráðugra manna að leiða íslensku þjóðina sem fylgir þeim þögul og niðurlút eins og lamb til slátrunar?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Á þessum níu mánuðum sem ég hef bloggað hafa verið skrifaðar ótalmargar, stórkostlegar athugasemdir við pistlana mína. Sumar langar, aðrar stuttar en svo innihaldsríkar margar hverjar að þær ættu heima sem sjálfstæðir pistlar. Svo dettur maður stundum inn á pistla annarra sem skrifa athugasemdir við manns eigin - og þannig var það í þessu tilfelli.
Þann 28. júní sl. skrifaði ég pistilinn Var "Fagra Ísland" tálvon eða blekking? og birti þar myndband sem ég hafði klippt saman. Örstutt athugasemd við hann leiddi mig áfram að þessum sem ég birti hér. Ég ætlaði að birta hann fyrir löngu og fékk leyfi höfundar, en tíminn hefur hlaupið ansi hratt í sumar og annir verið miklar svo ég er núna fyrst að drífa í þessu.
Höfundur pistilsins er ung kona, Dagný Reykjalín. Í tölvupósti sem hún sendi mér þegar ég bað um leyfi til að birta pistilinn sagði hún m.a.: "Þessi grein er reyndar skrifuð út frá sjálfri mér og minni túlkun á þessari kynslóð og því hvernig ég þekkti afa minn. Ég er ekki að reyna að leggja honum orð í munn og ég vona að enginn túlki það þannig. Það er hins vegar hollt að hugsa til þess hvernig kynslóðin sem byggði landið hugsaði um framtíðina og horfa svo á það hvernig við erum að fara með hana."
En pistill Dagnýjar, sem eins og sjá má er skrifaður daginn eftir náttúrutónleika Bjarkar og Sigur Rósar, hljóðaði svona:
Framtíðin sem byggir á fortíðinni
Ég vaknaði eldsnemma í býtið, allt var með kyrrum kjörum hérna heima en ég gat ekki sofnað aftur. Tónleikarnir í gærkvöldi voru í fersku minni, ég fylgdist með þeim á netinu. Tónlistin var frábær, stemmningin greinilega skemmtileg en mér fannst samt pínulítið vanta uppá að þau segðu milli laga hver áherslan í baráttunni væri. Kannski var nægur áróður á staðnum sem skilaði sér ekki yfir netið, og líklega voru þessi 30.000 manns nokkuð viss á málstaðnum. En árla morguns fór ég eitthvað að hugsa, og setti saman þessa færslu:
Afi minn var Haraldur Guðmundsson, rafvirki á Dalvík. Hann var maður síðustu aldar, einna mestu tæknibreytinga og framfara í Íslandssögunni. Hann var fæddur í Skagafirði þann 28. apríl 1920, menntaður í Iðnskólanum á Akureyri og var um tíma kallaður Halli Edison fyrir færni sína við að gera við ýmis rafmagnstæki.
Hann var samtímamaður Halldórs Laxness og um tíma herbergisfélagi Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. Hann var sjálfstæðismaður í gegn enda sjálfstæðisbarátta Íslendinga í algleymi á mótunarárum hans. Sjálfstæðisbaráttan snerist um að vera óháður skilningssljóu yfirvaldi og það að nýta krafta einstaklingsins í þágu allrar þjóðarinnar. Í þá daga var þjóðernishyggjan nauðsynleg í baráttunni fyrir sjálfstæði.
Í sjálfstæðisbaráttunni endurspeglaðist stolt yfir náttúrunni og auðmýkt yfir kröftum hennar. Þegar við náðum að tendra rafmagnsljós komumst við út úr vetrarmyrkrinu og þar var einn sigur á náttúrunni unninn. Margir sigrar fylgdu í kjölfarið; heita vatnið úr jörðinni kynti húsin okkar og betri farartæki gerðu okkur kleift að klífa fjöll og sigla firði. Maðurinn vann sífellt nýja sigra á annars ógnarvaldi náttúrunnar. Þetta ógnarvald bar með sér óttablandna virðingu.
Halli afi var virkjunarsinni af gamla skólanum. Á ferðum sínum um landið mat hann ár og vatnsföll í megavöttum, sama hversu litlar sprænurnar væru. Hann starfaði m.a. við að reisa Blönduvirkjun á sínum tíma og virkjaði einnig bæjarlækinn sem enn í dag veitir æskuheimili hans orku til daglegra starfa. Öll nýting á landsins gæðum átti hins vegar að fela í sér virðingu fyrir náttúrunni og öflum hennar. Þess vegna var hann ekki síður ákaflega mikið og einlægt náttúrubarn, og jafnvægi í náttúrunni var honum mikilvægt. Það fól í sér hógværa nýtingu. Hann var veiðimaður, sem lá bæði á greni í marga sólarhringa til að vernda fuglavarpið og veiddi hæfilegt magn af rjúpu í jólamatinn.
Ég er sannfærð um að þrátt fyrir að Halli afi hafi verið hlynntur því að nýta náttúrunnar gæði fyrir fólkið í landinu þá gæti hann í engu móti samþykkt svo gerræðislegar framkvæmdir sem framundan eru.
Í fyrsta lagi vegna þess að þær hafa ekki þjóðarhag að leiðarljósi heldur þjóna fyrst og fremst fjárhagslegum hvötum alþjóðlegra stórfyrirtækja sem í eðli sínu leita þangað sem orkan er ódýrust. Það þýðir að íslenska þjóðin fær eins lítið og mögulegt er fyrir orkuna en fórnar því sem er henni verðmætast af öllu, því sem mótaði sjálfsmynd hennar.
Í öðru lagi vegna þess að þær sýna hvorki hógværð né virðingu fyrir íslenskri náttúru eða landslagi. Frá hinu stærsta til hins smæsta.
Í þriðja lagi vegna þess að þær rýra framtíðarmöguleika komandi kynslóða og binda þær til þjónustu við alþjóðleg stórfyrirtæki sem eru ekki þekkt fyrir að aumka sig yfir litla manninn ef það þjónar ekki hagsmunum þeirra. Hvers vegna ættum við að vera eitthvað öðruvísi í þeirra augum en aðrir, annarsstaðar í heiminum.
Þegar ég hugsa um öll þau ferðalög um landið sem ég fór með afa og ömmu, þar sem afi þekkti nærri hverja þúfu, skil ég betur hvernig 20. aldar þjóðin hugsaði. Við í nútímanum erum hins vegar komin langt úr takti við þennan hugsunarhátt og erum að missa tengslin við það sem mótaði okkur.
Kannski er náttúruvernd of rómantískt hugtak fyrir okkur nútímafólkið sem erum knúin áfram af efnislegum gæðum, þrátt fyrir að það hafi verið helsti drifkraftur sjálfstæðisbaráttunnar á síðustu öld og gerði okkur að því sem við erum í dag.
Halli afi lést á þjóðhátíðardaginn 17. júní árið 2000, daginn sem íslensk jörð skalf undir fótum okkar.
--------------------------------------------------------------------
Í seinni athugasemd sinni, þegar ég var búin að svara henni, segir Dagný m.a.: "... ég er ekki í nokkrum vafa um hvað 20. aldar sjálfstæðismaðurinn hefði valið stæði hann frammi fyrir þessum spurningum núna. Hann hefði hugsað laaaangt fram í tímann, miklu lengra en það sem er verið að gera núna, og hefði hugsað um hag afkomenda sinna langt framar síns eigin.
En þetta væri samt sem áður erfitt vegna þess að krafan um praktískar skyndilausnir er svo rík. Glópagullinu er veifað framan í okkur. En við eigum ekki að hlusta á vælið í þeim sem halda því fram að allt falli hérna í eymd og volæði ef við förgum ekki Íslandi. Þeir sem hafa sterka sjálfsmynd, hafa val og kunna að forgangsraða ná að bjarga sér sjálfir. Ef við virkjum allt sem hægt er að virkja fyrir alþjóðleg stórfyrirtæki sem senda gróðann úr landi, höfum við ekki aðeins misst þetta val heldur líka fórnað því sem býr til sjálfsmyndina. Hvar verðum við þá?
Við höfum alltaf verið rík af því stoltið yfir landinu og fólkinu okkar höfum við ekki getað metið til fjár, og sennilega ekki kært okkur um það fyrr en núna. Þetta eru allt siðferðilegar spurningar eins og Stefán segir í viðtalinu góða."
Þarna í lokin er Dagný að vísa í Spegilsviðtalið við Stefán Arnórsson (sjá tónspilara) sem ég nefndi meðal annars í síðasta pistli. Á meðan við eigum ungt fólk sem hugsar og skrifar eins og Dagný er enn von.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
Mér hefur fundist æði fróðlegt og á köflum hrollvekjandi að fylgjast með umræðunni sem hefur átt sér stað í fjölmiðlum undanfarna viku um úrskurð umhverfisráðherra um að heildstætt mat á umhverfisáhrifum fari fram vegna fyrirhugaðs álvers á Bakka og tengdra framkvæmda. Þar hefur hver á fætur öðrum komið fram með ótrúleg gífuryrði, ýmist krítað hressilega eða farið með pólitískar möntrur og hagrætt sannleikanum til að réttlæta sinn málstað. Mér er spurn: Trúir almenningur þessu fólki?
Einkum hefur mér fundist málflutningur framsóknarforkólfanna Guðna og Valgerðar furðulegur - en þó svosem ekki búist við bitastæðari "rökum" úr þeirri átt. Ef ég hefði tíma til þess gæti ég líklega tekið ummæli þeirra og fleiri sem hafa tjáð sig um málið og tætt í mig nánast hverja setningu - en því miður hef ég minni en engan tíma. Þó verð ég að játa að ég er ekki sérfróð um framkvæmdirnar fyrir norðan og ég hef aldrei séð t.d. Gjástykki með eigin augum, bara á myndum. Vildi óska þess að fá einhvern tíma að skoða svæðið með Ómari Ragnarssyni og skemmtilegum jarðfræðingum. Kannski verður mér að þeirri ósk minni þótt síðar verði.
Ég hef áður minnst á móður mína í pistlum á þessu bloggi - þá vitneskju sem hún ól okkur systur upp í um hve heppnar við værum að hafa fæðst á þessu yndislega fallega landi með sína undursamlegu náttúru, hreina lofti og tæra vatni. Því betur sem ég hef kynnst hinum stóra heimi, af eigin raun eða í gegnum fjölmiðla, því betur hef ég áttað mig á hvað hún var að meina. Mér er enda fyrirmunað að skilja það fólk sem er tilbúið til að fórna landinu, fegurð þess, hreinleika, gæðum, auðlindum, ásýnd, orðspori og efnahag á altari Mammons. Á altari græðgi og stundargróða. Þegar upp er staðið er þetta nefnilega spurning um siðferði eins og lesa má um hér.
Mamma dáði Ómar Ragnarsson mjög. Ekki fyrir að vera fyndinn skemmtikraftur eða snjall laga- og textasmiður heldur fyrir að sýna henni - og okkur öllum - náttúru Íslands frá ótalmörgum hliðum í sjónvarpinu. Hún missti aldrei af Stikluþætti eða hvaða þætti sem var þar sem Ómar sýndi náttúru Íslands og gjarnan staði sem enginn hafði tök á að komast á og sjá með eigin augum - nema hann. Mömmu langaði alltaf að fara í flugferð með Ómari og þess iðrast ég mest að hafa aldrei haft samband við Ómar og beðið hann að fara með þessa elsku í flugferð yfir hennar heittelskaða land. Ég hefði borgað honum stórfé fyrir. Nú er það of seint.
En aftur að Bakka, álverum og virkjunum. Ég botna ekkert í því, hvað sem ég reyni, hvernig fólk getur mögulega haft á móti því að vanda vinnubrögð og gera allt sem í þess valdi stendur til að raska sem minnst okkar einstæðu náttúru - því einstæð er hún. Heildstætt mat á umhverfisáhrifum ætti að vera sjálfsagt, alltaf, alls staðar, því allt er þetta jú samhangandi. Ég reyndi ítrekað að benda á þetta í pistlum um Helguvík og Bitruvirkjun. Það er ekkert við því að segja að reist sé hús og það kallað álver - þ.e. byggingin sem slík - ef fólk vill hafa hana í bakgarðinum og dást að þeim kumbalda. En álver þarf orku og orkuflutningsleiðir. Og í tilfelli Helguvíkur til dæmis er seilst inn á svæði annarra sveitarfélaga og heimtað að þar verði virkjað, náttúran eyðilögð og háspennulínur lagðar um víðan völl og ekki eru þær neitt augnayndi. Það verður að skoða hlutina í samhengi, annað er einfaldlega fáránlegt.
Ég minnist þess að mér fannst jarðfræðin ekkert spennandi þegar ég var í skóla í den. Enda bækur fátæklegar, engar eða fáar skýringarmyndir og aldrei farið í vettvangsferðir. Maður botnaði ekkert í þessum fræðum og kennarar oft illa til þess fallnir að kenna þau. Svo fór ég í Leiðsöguskóla Íslands. Eina námsefnið sem kennt var báðar annirnar var jarðfræði - og ekki að ástæðulausu. Kennarinn, Jóhann Ísak Pétursson, skipti sköpum. Hann var sjálfur svo áhugasamur og fullur aðdáunar á námsefninu að það skilaði sér rækilega til nemendanna. Jóhanni Ísak tókst á einum vetri að gera okkur öll, um 30 manns, að einlægu jarðfræðiáhugafólki og það voru áhöld um það hvor aðilinn skemmti sér betur í tímum, kennarinn eða nemendurnir. Fyrirlestrarnir og framsetning Jóhanns Ísaks var með eindæmum skemmtileg og fróðleg. Þennan jarðfræðivetur hjá honum lærði ég enn betur að meta sérstöðu Íslands og hafi hann ævinlega þökk fyrir.
Mér varð hugsað til hans þegar ég hlustaði á viðtal við Ómar Ragnarsson í Morgunútvarpi Rásar 1 á föstudagsmorgunn (sjá tónspilara). Þar talar Ómar um Gjástykki og hve einstakt það er í veröldinni. Ómar segir m.a. eftir að hafa útskýrt sérstöðu svæðisins á heimsvísu: "Fyrir Gjástykki eru menn að vonast til að fá 30 MW. Það mun útvega 20 störf í álverinu á Bakka. Þessi 20 störf hafa góðir menn reiknað út að gefi virðisauka á við 7 störf í sjávarútvegi." Og Ómar spyr hvort við séum tilbúin til þess að fórna þessum heimsverðmætum fyrir 20 störf í álveri á Bakka. Ekki ég.
Hvernig stendur á því að Íslendingar eru á fjórum fótum, skríðandi fyrir amerískum auðhringum, tilbúnir til að fórna fyrir þá einstæðri náttúru Íslands þegar þessir sömu Ameríkanar geta hæglega virkjað sín eigin háhitasvæði og fallvötn, til dæmis í Yellowstone, og reist álverin sín heima hjá sér? Þeir eiga feikinóg af orku bæði í jarðhita og fallvötnum. En þeir vilja það ekki. Af hverju ekki? Af því þeir gera sér grein fyrir því hvaða verðmæti eru fólgin í háhitasvæðunum og fallvötnum og þeir vilja ekki menga meira heima hjá sér. Þess vegna veifa þeir dollurum framan í fávísa Íslendinga sem kunna ekki að meta landið sitt og einblína á skyndigróða. Og selja þeim auk þess orkuna á útsöluverði. Þeir eru klókir, Kanarnir, og vita sem er að alltaf er nóg af fólki með dollaramerki í augum, djúpa vasa og jafnvel drauma um pólitíska framtíð sem er tilbúið til að loka augum og eyrum og láta slag standa. Selja landið... og ekki hæstbjóðanda, heldur lægstbjóðanda, alþjóðlegum auðhringum sem svífast einskis og bera ekki virðingu fyrir nokkrum hlut nema peningum.
Ég minni á að Norðmenn hættu við að reisa álver á Reyðarfirði af umhverfisástæðum.
Annað sem opnaði augu mín fyrir því hve jarðfræði Íslands er stórmerkileg var þegar ég byrjaði að keyra og leiðseigja erlendum ferðamönnum. Á hverju ári koma hingað jarðfræðikennarar, jarðfræðinemar, jarðfræðingar og aðrir vísindamenn í þeim fræðum til að virða fyrir sér fræðin með eigin augum. Hér er allt sem þeir hafa verið að kenna, læra og rannsaka uppi á yfirborðinu, sýnilegt með berum augum. Ísland er draumaland þessa fólks og ég skil ekki af hverju við gerum ekki meira út á einmitt það. Mér er t.d. minnisstæður portúgalskur jarðfræðikennari í framhaldsskóla sem ég sótti á flugvöllinn og keyrði á hótel í Reykjavík. Hann hafði dreymt um í 30 ár að koma til Íslands og loksins var draumurinn að rætast. Hann ætlaði að leigja bíl og var búinn að kortleggja þriggja vikna ferð af mikilli kostgæfni. Konan hans, sem var með honum, sagði að hann hefði varla sofið dúr af spenningi í fleiri vikur fyrir brottför. Þau voru vopnuð góðum myndavélum og hann ætlaði að nota afraksturinn við kennsluna. Þessi maður átti ekki nógu sterk lýsingarorð yfir það, hve Ísland væri mikið draumaland allra sem fengjust við jarðvísindi því hér væri hægt að sjá ALLT. Sköpunarsögu jarðarinnar frá A til Ö. Þessu eru sumir Íslendingar tilbúnir til að fórna fyrir fáein störf og nokkrar krónur í vasann.
Málflutningur stjórnmálamanna í þessum málum finnst mér vægast sagt brjóstumkennanlegur og einkennast af hreppapólitík og/eða atkvæðaveiðum. Verið er að slá sjálfum/sjálfri sér upp með klisjukenndum ummælum en rök og málefnaleg umræða látin lönd og leið. Hér er samantekt úr fréttum RÚV og Stöðvar 2 frá 31. júlí til 6. ágúst. Þetta er langt myndband, rúmar 18 mínútur, en ég bið fólk að hlusta með gagnrýnum huga. Útvarpsfréttir um málið eru samanklipptar eftir dagsetningu í tónspilaranum merkt - Heildarmat Bakki 1, 2, 3 og 4.
Hér er stutt úrklippa úr Kastljósþætti fyrir kosningar með ummælum Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar. Bara til upprifjunar. Hún minnist reyndar ekki á Bakka en hún minnist á Helguvík og rammaáætlun áður en haldið er áfram með virkjanir og álver. Og hún talar um ábyrgð stjórnvalda en nú fela allir ráðherrar sig á bak við ákvörðunarrétt sveitarfélaga. Svikin kosningaloforð?
Mér fannst þessi umræða í Kastljósi 5. ágúst sl. furðuleg - af beggja hálfu. Guðni fullur af innihaldslausum frösum og Katrín kom út eins og argasti stóriðju- og virkjanasinni. Kannski er hún það. Hún var í bullandi vörn í stað þess að vera stolt af sínum ráðherra, og hún tekur ansi stórt upp í sig þegar hún fullyrðir að það sé mikill stuðningur við álver á Bakka í Samfylkingunni! Össur segir það reyndar líka. Er þetta virkilega rétt? Hvað segja félagar í Samfylkingunni? Hvað segja kjósendur Samfylkingarinnar? Hvenær ætlar fólk að átta sig á því að stuðningur við álver þýðir líka stuðningur við virkjanir og þá eyðileggingu og mengun sem af þeim hlýst?
Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, stóð sig með eindæmum vel í Kastljósi kvöldið eftir, þann 6. ágúst. Henni tókst að skýra mál sitt vel og skilmerkilega - en það sem eftir stóð engu að síður var hve ferlið er skelfilega flókið. Jóhanna reyndi hvað eftir annað að hanka Þórunni sem svaraði fimlega og útskýrði eins vel og hægt var auk þess að þurfa hvað eftir annað að leiðrétta Jóhönnu. Þótt Jóhanna hafi greinilega reynt að undirbúa sig, og enginn frýr henni vits, var augljóst að hún skildi ekki þetta ferli og ég lái henni það ekki. En Þórunn vissi nákvæmlega hvað hún var að segja og gera og ég tek ofan fyrir henni fyrir það.
Að lokum vara ég fólk eindregið við að trúa hinum endalausa áróðri um "hreina og endurnýjanlega" jarðhitaorku. Þessu er slengt framan í okkur í tíma og ótíma þegar réttlæta á virkjanaæðið. En þessi vinsæli, ofnotaði frasi stenst ekki nánari skoðun. Ekki ef virkja á eins ágengt og fyrirhugað er - ég vil kalla það rányrkju - bæði á Norðurlandi og fyrir sunnan. Það er nefnilega ekki sama hvernig og hve mikið er virkjað í þessu sambandi. Ég kom lauslega inn á þetta mál í þessum pistli og enn og aftur vísa ég í Spegilsviðtal í tónspilaranum við Stefán Arnórsson, prófessor í jarðefnafræði. Hlustið á Stefán og vonandi hef ég tök á að fjalla nánar um þetta síðar.
Stefán segir nefnilega "...að tvö sjónarmið séu ríkjandi um nýtingu jarðvarma. Annað er að nýta hann með hámarkságóða í huga yfir ákveðið tímabil og þá er gjarnan miðað við afskriftatíma mannvirkja sem nýta orkuna. Hitt er að nýta hann með sem næst sjálfbærum hætti þótt full sjálfbærni náist aldrei. Full sjálfbærni þýðir að nýting hefur engin umhverfisáhrif og þannig er ekki hægt að nýta auðlindir í jörðu. Það er hins vegar hægt að hafa það að leiðarljósi, að auðlindirnar nýtist sem lengst - ekki aðeins núlifandi kynslóðum, heldur komandi kynslóðum einnig. Þegar upp er staðið er það siðferðileg spurning hvort sjónarmiðið er haft að leiðarljósi." Það er kjarni málsins.
Bloggar | Breytt 11.8.2008 kl. 13:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
4.8.2008
Stórfrétt sem féll í skuggann
Þegar mikið er að gerast hér heima og erlendis vill stundum fara svo að fréttir falla í skuggann á þeim sem metnar eru stærri hjá fréttastofum fjölmiðlanna. Það er svosem eðlilegt, tíminn er naumur og mannafli skorinn við nögl. En ég vona að það verði meiri umfjöllun um þessa frétt og ég hvet alla til að hafa augu og eyru opin. Þetta er stórmerkileg frétt... finnst mér.
Ég fann umfjöllun um málið í fréttum Stöðvar 2 þann 1. ágúst og svo var nokkuð löng frétt um það í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í gær, 3. ágúst. Getur einhver bent mér á fleira? Útvarpsfréttin er í tónspilaranum - merkt Fréttir - RÚV - Áhyggjur S.þ. af kynjamisrétti, vægum dómum o.fl. - og hana má einnig hlusta á hér. Ég þarf að hlaða inn myndböndum í gegnum YouTube í augnablikinu þar sem ekki er búið að laga þann möguleika hjá Moggabloggi eftir bilunina.
Hér er verið að fjalla um mismunun og ofbeldi gagnvart konum, vægar refsingar í kynferðisbrotamálum, mansal, umtalsverðan launamun kynjanna og fleira. Á Íslandi. Verslunarmannahelgin má ekki stela senunni frá slíkum fréttum svo ég bíð eftir frekari umfjöllun fjölmiðla því fréttin verðskuldar mikla athygli.
Viðbót: Stöð 2 fjallaði aftur um þetta mál í fréttum í kvöld, 4. ágúst. Ég bætti þeirri frétt aftan við hina og uppfærði myndbandið.
Bloggar | Breytt 8.8.2008 kl. 13:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
31.7.2008
Miðborgarrölt í hitasvækju
Ég fattaði fyrir löngu af hverju ég valdi að fæðast á Íslandi... ja, sumir segja að maður velji sér foreldra og fæðingarstað, hvað svo sem til er í því. Ástæðan hlýtur að vera sú að ég þoli ekki hita. Um leið og hitastigið er komið yfir 20 gráður verður mér ómótt, ég verð máttlaus, finnst ég ekki geta andað og heilastarfsemin hrynur. Sellurnar bráðna líklega. Þetta er ekki þægilegt. Maður getur þó klætt af sér fjárans kuldann.
Mér var of heitt í gær og ég fann fyrir verulegri vanlíðan og heiladoða. Ég gat ekki með nokkru móti unnið og viftan sem ég hef alltaf í gangi í vinnuherberginu gerði ekkert gagn. Það endaði með því að ég fór út og tók Kötlu hvolp með mér. Katla er Vestfirðingur, alsystir Skutuls, flutti til mín 4. júlí og er að venjast borgarlífinu. Ég hélt að kannski yrði auðveldara að anda úti. Það reyndist tálvon.
Ég kippti myndavélinni með og tók nokkrar myndir af því sem á vegi mínum varð í hverfinu mínu, miðbænum.
Það er mikið rætt um nýjan Listaháskóla og hve illa byggingin passar inn í götumyndina við Laugaveg. Hér er slíkt dæmi sem er langt komið - skrímslið á bak við Naustið við Vesturgötuna. Ég mun aldrei skilja af hverju þetta var leyft.
Þegar búið var að rífa kofaskriflin sem voru á bak við Naustið kom í ljós einstaklega falleg bakhlið sem ég vonaði að fengi að vera í friði. En svona lítur svo bakhlið nýbyggingarinnar út - norðurhliðin Tryggvagötumegin, og felur hina fallegu bakhlið Naustsins. Mikið er Reykjavík að verða grá, svört og glerjuð. Allur sjarmi að hverfa.
Hann Hjálmtýr V. Heiðdal sendi mér nokkrar myndir sem hann tók af bakhlið Naustsins sem ég minnist á að ofan. Hér sést svo greinilega hvað hún er skemmtileg - með kvistum, kýraugum og ég sé ekki betur en að grunnar allra húsanna séu hlaðnir. Er þetta nú ekki fallegri sjón og betur við hæfi í þessum borgarhluta en svarta báknið í myndinni á undan?
Við gerðum okkur ferð inn í Alþingisgarðinn. Hann er mjög gróinn og fallegur, algjör vin í miðbænum. Þar sat einn maður á bekk og las. Á Austurvelli sást hins vegar varla í gras, svo þéttsetið var þar. Inn í garðinn kom svo fólk sem var að leita að bekk í skugga... á Íslandi.
Þetta fólk horfði út um gluggann á Alþingishúsinu í átt að Ráðhúsi Reykjavíkur og hugsaði sjálfsagt sitt í hitasvækjunni.
Öndum og gæsum við Ráðhúsið virtist standa alveg á sama um borgarstjórnarraunir mannfólksins og voru afslappaðar við sólböð undir suðurgluggum hússins.
Hér hefur hjólreiðamaður komið sér vel fyrir á bekk í Fógetagarðinum og fengið sér lúr. Þetta er sjaldgæf sjón í Reykjavík.
Katla gerði sér dælt við hjólabrettastráka á Ingólfstorgi og einn vildi leyfa henni að prófa. Hún þorði ekki og forðaði sér bara í skuggann. Henni var líka heitt.
Í Fischersundi gerði svart villidýr árás úr launsátri á Kötlu. Það var með naumindum að mér tókst að bjarga henni frá klóm fnæsandi, svarta kattarins sem virðist ráða þar ríkjum. Við vorum báðar dauðskelkaðar og ætlum að muna að fara ekki aftur á þessar slóðir.
Við enduðum göngutúrinn á Landakotstúni sem oftar. Þótt Kristskirkja sé falleg bygging finnst mér gamla kirkjan eiginlega fallegri - á sinn hátt.
Að lokum - Katla að spóka sig á Austurvelli.
Bloggar | Breytt 4.8.2008 kl. 22:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (32)
Hinn þreytti frasi virkjana- og álverssinna um að virkjað sé "í sátt við náttúruna" er alveg einstaklega kaldhæðnislegur. Þeim finnst allt í lagi að stúta náttúrunni og virkja bæði jarðhita og fallvötn - af því það er svo mikið "í sátt við náttúruna". Náttúran er semsagt mjög sátt við að láta leggja sig í rúst. Jæja, já.
Ég hafði ekkert sett mig inn í virkjanamálin í neðri hluta Þjórsár en vitað af umræðunni. Hef haft meira en nóg á minni könnu við að kynna mér og skrifa um virkjanir á Hellisheiði og Hengilssvæðinu auk þess að fylgjast með umræðunni um fyrirhugaða olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Inn á milli reyni ég svo að finna tíma til að vinna fyrir mér.
En mér var boðið austur í síðustu viku til að kynna mér málið svolítið og ég hef eiginlega verið í hálfgerðu sjokki síðan. Ekki vitað hvernig ég ætti að nálgast málið, svo skelfilegt er það. Svo las ég viðtal í Morgunblaðinu á sunnudag við Björn Sigurbjörnsson í Gróanda, Grásteinum í Helgadal. Í viðtalinu segir Björn m.a. frá því þegar faðir hans, sem stundaði garðyrkju í Fossvoginum eða á Bústaðablettinum, var hrakinn frá lífsstarfi sínu af yfirvöldum í Reykjavík, þá 65 ára að aldri. Þetta var árið 1966 og það átti að byggja. Jarðýtur óðu yfir æskuheimili Björns.
Ég sé ekki betur en að svipað sé að gerast við Þjórsá. Þar er valtað yfir bændur og aðra landeigendur, þeir þvingaðir til að samþykkja að landinu þeirra verði drekkt og smánarlegar bætur greiddar af Landsvirkjun, sem hefur her lögfræðinga til að neyða fólk til samninga. Einhverjir bændanna þurfa að hætta búskap um nokkurra ára skeið á meðan framkvæmdir standa yfir en er sagt að þeir geti svo komið aftur og haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist. Semsagt - hypjaðu þig að heiman og frá lífsviðurværinu, svo geturðu komið aftur þegar við erum búnir að athafna okkur. Hvað á að gera við féð og kýrnar á meðan? Getur bóndi, kannski á efri árum, bara farið sisvona og komið svo aftur seinna og tekið upp þráðinn? Hve mikið af landi hans, túnum og ökrum verður þá komið undir vatn? Eitthvað hljómar þetta nú ólíklega.
Hér er nefnilega ekki verið að tala um virkjanir og uppistöðulón í óbyggðum eins og Kárahnjúka, heldur í byggð - og það fallegri og blómlegri byggð. Þjórsá er lengsta fljót á Íslandi, um 230 km. Það er mun lengri vegalengd en frá Reykjavík til Víkur í Mýrdal (186 km) og örlítið styttri en frá Reykjavík til Blönduóss (244 km). Nokkrar virkjanir eru í efri hluta Þjórsár, næst hálendinu, en nú er ætlunin að virkja á láglendi - í byggð. Áhrifin ná alla leið suður fyrir þjóðveg nr. 1 þar sem Urriðafoss drynur skammt sunnan við nýju Þjórsárbrúna. Hann mun hverfa.
Hópnum sem ég var í samfloti með var boðið í mat á lífræna búinu í Skaftholti. Hjónin Guðfinnur Jakobsson og Atie Bakker voru höfðingjar heim að sækja og mig langar að koma þangað aftur... og aftur. Eftir matinn komu heimamenn til skrafs yfir kaffisopa og einn af þingmönnum Sunnlendinga, Björgvin G. Sigurðsson (sá sem tók skóflustunguna, munið þið?) mætti og ræddi stuttlega við fólkið áður en hann rauk í burtu aftur. Björgvin kvaðst mótfallinn virkjunum í neðri hluta Þjórsár - en tók engu að síður skóflustungu að álverinu í Helguvík sem mögulega gleypir orkuna sem framleidd verður í þeim virkjunum. Skrýtið.
Ýmislegt kom fram á þessum stutta fundi með heimamönnum og greinilegt að þeir voru mjög ósáttir við framgang Landsvirkjunar og málið allt. Hver vill sjá heimahögunum og lifibrauðinu drekkt með uppistöðulóni? Landsvirkjun hefur auk þess komið þannig fram við fólk að enginn treystir fyrirtækinu eða orðum lögfræðingahers þeirra. Nú þegar hafa þeir gengið á bak orða sinna - af því eitthvað hentar þeim betur en það sem áður var lofað. Traust fyrirtæki?
Sem dæmi um slíkt er fyrirhugað Hagalón. Upphaflega var áætlað að það yrði 114 metra (yfir sjávarmáli) en Landsvirkjun breytti því í 116 af því það hentaði þeim betur. Það munar um tvo metra. Gerir fólk sér grein fyrir hvað 116 metrar eru gríðarlegt dýpi? Snúum þeim yfir á borgarmál. Flestir íbúar höfuðborgarsvæðisins kannast við glerturninn sem reistur hefur verið við Smáratorg í Kópavogi. Hæð hans er 78 metrar. Hallgrímskirkjuturn er 72 metrar. Ef gert er ráð fyrir um 3 metrum á hverja hæð jafnast 116 metra djúpt lón á við 38 hæða íbúðarhús. Það er ekkert smáræði.
Hér er mynd af svæðinu sem drekkt verður fyrir Hagalón. Þarna eru ægifagrar, vel grónar eyjar úti í ánni þar sem búfé hefur aldrei verið beitt svo gróður hefur fengið að vaxa þar óáreittur. Aðeins smábrot af stærstu eyjunni mun standa upp úr lóninu eins og agnarlítið sker því þarna verður lónsdýptin 10-12 metrar (4 hæða hús). Vinstra megin, þar sem birtan hamlar sýn, er Hekla og horft er til suðurs.
Miðað við þær upplýsingar sem fram komu, og þær voru töluverðar, er Þjórsármálið afskaplega flókið og að mörgu að hyggja. Ég þekki ekki nema brotabrot af því - en það brotabrot nægir mér til að ákveða að leggja mitt af mörkum. Ég er ekki nema eitt atkvæði, eitt bréf, ein athugasemd - en við höfum séð nú þegar hverju samtakamátturinn getur áorkað. Íbúar við Þjórsá þurfa hjálp og stuðning okkar hinna. Og eins og segir í auglýsingunni um breytingu á aðalskipulagi Flóahrepps: "Þeir sem ekki gera athugasemdir innan tilskilins frests teljast samþykkir tillögunni". Ég vil alls ekki teljast samþykk tillögunni og skora á alla sem vilja það ekki heldur að senda inn athugasemd. Þetta tekur kannski 10-15 mínútur af lífi ykkar, kostar ferð í pósthús eða póstkassa og eitt frímerki.
Mér skilst að það sé of seint að gera athugasemdir við framkvæmdir í Skeiða- og Gnúpverjahreppi - norðan þjóðvegarins - en ekki sunnan hans, í Flóahreppi þar sem Urriðafossvirkjun er fyrirhuguð. Tillagan gengur í stórum dráttum út á að heimila virkjun og allt það rask sem henni fylgir. Hér er vefur Flóahrepps og þar getur fólk kynnt sér tillöguna nánar. Hér er Þjórsárvefurinn þar sem hægt er að lesa sér til um málið og framgöngu þess. Hér getur fólk séð uppkast af athugasemd við tillögunni til að senda Flóahreppi. Skriflegum athugasemdum skal skila til Flóahrepps, Þingborg, 801 Selfoss - merkt aðalskipulag - fyrir 1. ágúst 2008. ÞAÐ ER NÆSTA FÖSTUDAG! Nú þarf að hafa hraðar hendur og drífa í þessu.
Ég byrjaði pistilinn á að tala um frasann "að virkja í sátt við náttúruna". Ég hef aldrei heyrt talað um "að virkja í sátt við fólkið í landinu". Aldrei. Er ekki kominn tími til að taka tillit til fólksins í landinu (kjósendanna - atkvæðanna) og ná sáttum við það? Er ekki kominn tími til að spyrja til hvers á að virkja og fyrir hvern áður en ætt er áfram og einstök náttúra Íslands lögð í rúst? Það finnst mér.
Eins og ég sagði fyrr í pistlinum hef ég ekki sett mig nægilega vel inn í Þjórsármálin svo ég á ekki mikið ítarefni um þau. En þetta átti ég - álit Ragnhildar Sigurðardóttur, vistfræðings, um mögulegt hrun laxastofnsins í Þjórsá ef af virkjun verður. Þetta er aðeins ein af mörgum viðvörunum sem komið hafa fram varðandi afleiðingar virkjana í neðri hluta Þjórsár.
Ég átti líka í fórum mínum þessa frétt um kostnað við störf í stóriðju - því auðvitað fer rafmagnið sem framleitt verður í Þjórsá til stóriðju. Stóriðjusinnar sjá ekkert annað, engar aðrar lausnir.
Hér er svo samantekt úr fréttum af moldroki við Hálslón. Þetta er fylgifiskur uppistöðulóna. Viljum við að hin búsældarlegu héruð á Suðurlandi hverfi í þykkan mökk? Hvað segja nágrannasveitarfélögin um það?
Bloggar | Breytt 9.8.2008 kl. 14:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (43)
Ég hreifst af myndskeiði í lok tíufrétta RÚV um daginn, klippti það út og birti hér. Í athugasemd kom fram að listamaðurinn er Hjalti Stefánsson, myndatökumaður RÚV á Austurlandi, og hafði hann útbúið byrgi þar sem hann kom sér fyrir og beið til að ná þessum myndum. Mikla þolinmæði og natni þarf til að ná slíkum myndum svo mikið er á sig lagt. Ég skora á báðar sjónvarpsstöðvar að sýna fleiri svona myndskeið í lok allra frétta. Eftir að horfa á heilan fréttatíma sem fjallar að mestu um erfiðleika og hörmungar jafnt innanlands sem utan er sálfræðilega mjög jákvætt og róandi að fá svona falleg myndbrot af fegurð náttúrunnar í kringum okkur. Þau mættu vera miklu fleiri og svolítið lengri.
Hjalti var aftur á ferðinni í tíufréttum á miðvikudagskvöldið og nú með myndir af hinum gullfallega fugli, Jaðrakan, sem er nokkuð útbreiddur farfugl á Íslandi. Um hann stendur m.a. á vef Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum - en þar er aðallega verið að fjalla um nafnið. Mér finnst sú umfjöllun sérlega skemmtileg því þar koma bæði gelíska og færeyska við sögu:
Jaðrakan er heiti á fuglinum Limosa limosa islandica sem er vaðfugl af snípuætt, rauðbrúnn á háls og bringu, með langt beint nef, raddmikill fugl og glæsilegur. Jaðrakaninn er farfugl og voru varpstöðvar hans aðeins á Suðurlandi fram eftir 20. öld en nú finnst hann í öllum landshlutum.
Af orðinu eru fjölmörg afbrigði, flest í karlkyni og kvenkyni.
Í greininni "Fuglsheitið jaðrakan" lýsir Helgi Guðmundsson útbreiðslu afbrigða orðsins og sögu þess. Helgi setur fram tvær tilgátur um uppruna orðsins. Samkvæmt þeirri fyrri er orðið samsett úr orðunum jaðar og kárn sem talið er merkja 'kráka' eða 'hrafn'. Samkvæmt síðari tilgátunni er orðið tökuorð úr gelísku, sbr. skosk-gelíska adharcan og írska adhaircín. Gelísku orðin eru höfð um vepju (Vanellus vanellus) en í færeysku eru orðin jaðrakona, jarðarkona höfð um keldusvín (Rallus aquaticus).
Elsta heimild um orðmyndina jaðrakárn í íslensku er handritið AM748 I 4to, frá því um 1300 eða frá öndverðri 14. öld. Orðmyndirnar jaðraka, jaðraki finnast frá því um 1600. Orðmyndin jaðrakan kemst snemma inn í kennslubækur en elsta dæmið er frá Sveinbirni Egilssyni 1848. Helgi telur bókmálsáhrif hafa orðið til þess að þessi orðmynd hefur orðið ofan á í nútímamáli en í rannsókn hans á dreifingu afbrigða orðsins á Suðurlandi á þessi orðmynd sér ekki sérstakt útbreiðslusvæði.
Myndirnar eru fengnar að láni af hinni frábæru fuglasíðu www.fuglar.is sem Félag fuglaáhugamanna á Hornafirði heldur úti af miklum krafti og ég hvet alla til að skoða. Þar eru ótrúlega margar og fallegar fuglamyndir ásamt margs konar upplýsingum um fugla.
Í gærkvöldi var svo sýnt myndskeið frá Seljalandsfossi og þar er engu síðri listamaður á ferðinni, Vilhjálmur Þór Guðmundsson, myndatökumaður Sjónvarpsins. Ég hef farið með ótalmarga erlenda ferðamenn að og á bak við Seljalandsfoss og þeim þykir það mikið ævintýri. Hvað ætli margir Íslendingar eigi eftir að upplifa þetta? Hér eru glæsilegar myndir Kjartans Péturs af fossinum sem hann er nýbúinn að setja inn á bloggið sitt. Skoðið líka ótrúlegar myndir af hellinum Búra í nýjustu færslu Kjartans!
Hér eru þessi tvö fallegu myndbrot klippt saman. Megum við fá meira að sjá, takk.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
24.7.2008
Er þetta tilviljun eða árangur?
Ég hætti mér ekki út í þær heimspekilegu hugleiðingar hvort eitthvað sé tilviljunum háð eða ekki - hvort tilviljun sé til eða ekki. Engu að síður hvarflar það að mér þegar ég lít um öxl og skoða mál sem ég hef skrifað um og framvindu þeirra. Er þetta tilviljun eða árangur? Blanda af hvoru tveggja? Eða bara hrein og klár slembilukka? Ég hef ekki hugmynd um það.
Ég er ekki svo vitlaus að halda að ég ein geti lyft einhverju grettistaki enda hafa fleiri tjáð sig um málin sem ég tíni til hér að neðan og kannski myndað þrýsting. En ég held aftur á móti að ef fólk hefur skoðanir, rökstyður þær á sannfærandi hátt, kemur þeim á framfæri og stendur saman - þá sé hægt að hafa áhrif. En hver sem skýringin er finnst mér pælingin skemmtileg.
Hvað sem gagnrýnendur bloggsins segja, og þá kannski sérstaklega þeir sem hafa horn í síðu Moggabloggsins, er bloggið orðinn öflugur miðill og góður vettvangur til að vekja athygli á ýmsum málum sem fólki finnst að betur mætti fara eða séu vel gerð. Blogg er ekki bara "...skammir eða raus á fremur illa skrifaðri íslensku..." eins og Víkverji sunnudagsins 29. júní sagði í Morgunblaðinu. Auðvitað er misjafn sauður í mörgu fé á blogginu eins og annars staðar og áhugamál bloggara margvísleg, en það er auðvelt að vinsa úr og finna þá sem maður vill lesa - hvort sem þeir eru skoðanabræður og -systur eður ei.
Sveitarstjórnarkosningar verða eftir tæp tvö ár og við getum búist við að stjórnmálamenn fari að brosa við okkur eftir kannski eitt og hálft. Þá verður gott að geta flett upp í blogginu og hermt upp á þá sitthvað sem hefur bjagast, afbakast eða ekki verið efnt á kjörtímabilinu. Þetta verða fyrstu kosningarnar þar sem þetta verður hægt með þessu móti vegna þess hve margir blogga og blogglestur orðinn almennur. Kannski er liðin tíð að stjórnmálamenn geti treyst á gullfiskaminni kjósenda.
En ég ætlaði að fara í örlitla upprifjun, tína til nokkur mál og vera svolítið sjálfhverf. Margt hefur gerst á stuttum tíma og margir lagt hönd á plóginn. Lítum á málið...
Ég skrifaði m.a. þetta (sjá listann) og þetta og þetta - svo gerðist þetta:
Ég skrifaði þetta og birti myndband. Síðan skrifaði ég þetta og birti annað myndband. Í framhaldi af því gerðist þetta og þá var auðvitað upplagt að gera þetta:
Það er ekki langt síðan ég skrifaði þetta og birti myndbönd með pistlinum. Skömmu seinna kom þetta:
Enn styttra er síðan ég skrifaði þennan pistil og í framhaldinu gerðist þetta:
Eins og ég sagði hér að ofan er ég ekki svo vitlaus að þakka sjálfri mér þetta allt saman. En ef þetta er ekki tilviljun ætti ég kannski að árangurstengja bloggið mitt. Ætli það sé hægt - og þá hvernig?
Bloggar | Breytt 8.8.2008 kl. 15:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
23.7.2008
Ráðgjöf óskast í tölvumálum
Ég er að gefast upp á Windows Vista eftir að hafa notað það í tæpt ár. Ætla að skipta aftur yfir í XP áður en ég reyti af mér restina af hárlufsunum og er að búa mig undir breytinguna. Ég er alveg ágætlega mikill tölvunörd og kann ýmislegt fyrir mér í þeim efnum og kvíði aðallega einu...
Það er að flytja tölvupóstinn minn úr Windows Mail (Vista) aftur yfir í Outlook Express (XP). Ég hef aldrei kært mig um Outlook og haldið tryggð við Outlook Express í gegnum tíðina og hyggst gera það áfram. Ég hef geymt nánast allan minn tölvupóst frá árinu 1999 en þá lærði ég að flytja póst á milli tölva þegar ég fékk mér nýja. Þetta er fjársjóður, tugþúsundir tölvuskeyta, sem ég vil alls ekki glata - enda tek ég samviskusamlega afrit af þeim eins og öðrum gögnum.
Ég veit hvar pósturinn er geymdur - í hvaða möppum og undirmöppum í báðum stýrikerfum. En pósturinn í Windows Mail er *.eml á meðan pósturinn í Outlook Express er *.dbx. Það var ekkert mál að flytja OE póstinn yfir í WM en ég hef ekki fundið neina leið til baka. Hvorki í "Export" né "Import" og ekki dugar heldur að flytja yfir og breyta bara úr *.xxx í *.yyy eins og stundum nægir til að fá hlutina til að virka.
Getur einhver mér fróðari leiðbeint mér við verkefnið? Sá hinn sami fær umsvifalaust gúrústatus í mínum huga.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (55)
21.7.2008
Fjárfestar og einkavæðing
Þessi pistill er svar við athugasemd við þann síðasta og fjallar að mestu leyti um fjárfesta, einkavæðingu og íslenska pólitík. Þeir sem hafa áhuga á að skilja þennan pistil verða að lesa athugasemd nr. 12 sem Sigurður Þorsteinsson skrifaði við síðasta pistil minn. Vonandi hef ég gert ágætri athugasemd hans sæmileg skil með þessum pistli.
__________________________________________
Sigurður... mér finnst þú snúa svolítið út úr orðum mínum á þinn vingjarnlega, kurteisa og ljúfa hátt. Það má vel vera að pistlarnir mínir um náttúruvernd séu betri en aðrir (NB - náttúruvernd, ekki umhverfisvernd - þar er munur á). En ég hef skoðanir á fleiri málum og þegar peningahyggjan er beinlínis farin að hafa áhrif á náttúruna og verndun hennar get ég ekki orða bundist.
Liður 1: Til að byrja með vil ég taka fram, að eins og ég segi í upphafsorðunum er þetta skrifað í framhaldi af myndbandinu sem ég birti í síðasta pistli og vísar því beinlínis í slíka og þvílíka fjárfesta. Ég er að sjálfsögðu ekki að tala um venjulegt fólk sem fjárfestir í innanstokksmunum, húsnæði eða menntun sinni og barnanna sinna. Ég er heldur ekki að tala um þennan venjulega Pétur og Pál og Jónínu og Guðrúnu sem fjárfesta hluta af sparifé sínu í hlutabréfum í hinum og þessum fyrirtækjum. Jafnvel ekki þá sem slá lán og veðsetja húsnæði sitt til að spila með á hlutabréfamarkaðnum. Þetta fólk er vitanlega að hugsa um að græða nokkrar krónur á fjárfestingunni, en hefur engin áhrif á stjórn fyrirtækisins og fylgist jafnvel ekkert með öðru en því, hvort hlutabréfin séu að lækka eða hækka í verði. Hefur ekki hugmynd um hvernig fyrirtækinu er stjórnað, hvaða laun það greiðir eða hvaða hlutverki það gegnir í víðara samhengi - jafnvel pólitísku.
Ég er að tala um stóru fjárfestana, þessa sem höndla með milljarða á milljarða ofan og svífast einskis. Fjárfesta, hvort sem þeir eru innlendir eða erlendir, sem líta á almenning í landinu - svosem hvaða landi sem er - sem algjört aukaatriði, bara ef þeir geta grætt. Lastu athugasemdirnar við síðasta pistil sem ég benti á? Þar sem sagt var t.d. frá SMS skeyti frá auðmanni til stjórnmálamanns. Ég er að tala um þannig fjárfesta.
Ég hef aldrei unnið við fjármál eða hlutabréf eða neitt þvíumlíkt og hef lýst því yfir í pistlum hér á blogginu mínu að ég hafi enga sérþekkingu á slíkum málum - nema síður sé. Ég er því vissulega áhugamanneskja eins og þú segir. En ég er hluti af þessum almenningi sem horfir í forundran á hina ríku verða ríkari án þess að botna upp né niður í hvernig þetta sé hægt. Ég horfi á þessi mál sem fullkomlega óinnvígð að öllu leyti en furða mig gjarnan á því hve fárra spurninga er spurt, einkum af fjölmiðlum sem um þessi mál fjalla. Hvernig gat þetta til dæmis gerst sem lýst er í myndbandinu í pistlinum hér á undan? Og hver á hvað í hvaða fyrirtæki eða Group eða hvað sem þessir strákar kjósa að kalla ungana sína?
Endur fyrir löngu kom út bók - mig minnir að hún hafi einfaldlega heitið Kolkrabbinn - þar sem farið var ofan í saumana á tengslaneti einstaklinga og fyrirtækja. Mér sýnist vera góður jarðvegur fyrir aðra slíka til að skýra eignarhald og brask með allt milli himins og jarðar.
Staðreyndin er nefnilega sú að þessir stórtæku "fjárfestar" eru gjarnan að spila með líf og afkomu almennings. Fyrirtæki sem við þurfum öll að skipta við að einu eða öðru leyti og ef þeir klúðra málunum erum það við sem borgum brúsann. Dæmi um það eru t.d. flugfélögin og matvöruverslanirnar. Þeir tapa eða gleypa of mikið sjálfir - það fer beint út í verðlagið sem almenningur er að sligast undan. Hver á Iceland Express? Síðast þegar ég vissi voru að mestu leyti sömu eigendur að IE og Icelandair. Mér gæti skjátlast því ég hendi ekki reiður á hver á hvað hverju sinni. Ég þurfti að fara tvisvar til Englands í vor og sumar með stuttu millibili og ég gat ekki séð neinn verðmun á fargjöldum þessara tveggja flugfélaga. Eiga ekki sömu menn Hagkaup, Bónus og 10-11 og svo aftur sömu menn Nóatún og Krónuna? Þetta eru tveir stærstu aðilarnir á matvörumarkaðnum á svæði þar sem 60-70% landsmanna búa. Og matur er lífsnauðsyn, ekki lúxus, þannig að allir þurfa að skipta við eitthvert þessara fyrirtækja.
Liður 2: Ég hef ekkert á móti samkeppni nema síður sé - þar sem hún á við og ef hún er raunveruleg og marktæk. Við erum svo lítið land með svo fáum íbúum að samkeppni getur ekki þrifist á öllum sviðum. Fyrirtækin bera sig einfaldlega ekki. Í einkavæðingarferli Íslendinga hafa verið gerð svo mörg og svo stór mistök að það hálfa væri nóg. Ég held að í því sambandi nægi að nefna bankana og grunnnet Símans. Nú er svo hægt og rólega verið að einkavæða heilbrigðisþjónustuna sem að mínu mati eru mikil mistök og síðast í gær komu fréttir um "útboð" á þjónustu a.m.k. hluta af Strætó. Ég efast stórlega um að það stuðli að lækkun fargjalda, tíðari ferðum, betra leiðakerfi og því sem þarf til að fá fólk til að nota almenningssamgöngur frekar en einkabílinn. Og ég þekki engan sem kannast við heilbrigðiskerfið í Bandaríkjunum, sem er að stærstum hluta einkavætt, sem getur hugsað sér að breyta því góða kerfi sem foreldrar okkar, afar, ömmur, langafar og langömmur börðust fyrir að koma á - þar sem allir hlutu ódýra og góða heilbrigðisþjónustu án tillits til stéttar, stöðu eða efnahags. Engan.
Tilhneigingin í einkavæðingu á Íslandi hefur verið sú, að upp spretta mörg fyrirtæki í sömu greininni þegar allt er gefið frjálst, en fljótlega kemur í ljós að reksturinn borgar sig ekki, markaðurinn er of lítill, og smátt og smátt - stundum mjög hratt samt - gleypir sá fjársterki (eða sá með bestu pólitísku samböndin eða besta aðganginn að lánsfé í bönkum) alla þá litlu og eftir stendur eitt, kannski tvö fyrirtæki (Samkeppnisstofnun gerir athugasemd), jafnvel að hluta til í eigu sömu manna. Verð er samræmt, samkomulag gert um verðlagningu og allir eru ánægðir - nema ég og þú sem þurfum að borga brúsann.
Við Íslendingar eigum miklar og verðmætar auðlindir - t.d. fiskinn í sjónum og orkuna í fallvötnum og jarðhita. Búið er að einkavæða fiskinn í sjónum. Það var gert með kvótakerfinu þar sem einstaklingum var gefinn fiskveiðikvóti sem gengur nú kaupum og sölum eins og hver önnur hlutabréf. Afleiðing þeirrar einkavæðingar eru öllum kunn. Kvótaeigendur gáfu fögur loforð um um að halda kvótanum í byggð en sviku þau öll og skildu eftir sig sviðna jörð - byggðarlög um allt land hafa nánast lagst í eyði og atvinnusköpun og -uppbygging verið fátækleg. Afleiðing þess er sú að verið er að stúta gjörsamlega ómetanlegri náttúru Íslands til að virkja fossa og jarðhita - til að afla orku fyrir mengandi stóriðju. Álver og kannski olíuhreinsistöð. Þetta hangir nefnilega allt saman. Einkavæðing - virkjun - stóriðja - fjárfestar - gróði - peningahyggja.
Nú blasir við að einkaaðilar ásælist orkuauðlindirnar okkar sem verða æ verðmætari eftir því sem orkuskorturinn eykst í heiminum. Stjórnvöld virðast ætla að nánast gefa þessa auðlind erlendum auðhringum í formi orku til álvera í stað þess að hinkra og sjá til hvernig veröldin þróast. Það á að gera okkur fjárhagslega háð öflum sem gæti ekki verið meira sama um land og þjóð - á meðan þeir sjálfir hagnast. Er nokkur furða að maður mótmæli? Það er verið að arðræna íslensku þjóðina - aftur. Ég get ekki setið þegjandi undir því.
Þú segir í athugasemd þinni: "Það hættulegasta í pólitískri umræðu, er að pólitíkin er of lítið fagleg og of mikið lík trúarbrögðum. Fólk étur allt of mikið upp vitleysuna eftir hvort annað til þess að þjóna flokkspólitískum hagsmunum, í stað þess að nálgast viðfangsefnið á faglegan hátt."
Ég er ekki í neinum flokki, þjóna engum flokkspólitískum hagsmunum, enginn stjórnmálaflokkur er áskrifandi að atkvæði mínu og ég hvorki tala né skrifa með flokkspólitík í huga. Ég veg og met orð og gjörðir út frá minni eigin almennu skynsemi og því sem ég sé, skynja og finn. Flokkapólitík er mér ekki að skapi og alls ekki hreppapólitíkin, sjálfhverfan innan kjördæmanna og atkvæðaveiðarnar. Ég vil að fólk - bæði kjósendur og stjórnmálamenn, fari að hugsa um heildina - ekki bara sérhagsmuni hvers landshluta fyrir sig, svo ekki sé minnst á sérhagsmuni einstakra frambjóðenda, þingmanna eða ráðherra. Ég fyrirlít slíka pólitík en því miður er hún það sem gildir á Íslandi.
Ég vil líka að dustað verði rykið af hugmynd Vilmundar heitins Gylfasonar frá 1983 um persónukosningar þvert á flokka og lista. Það gæti orðið landinu til mikillar blessunar ef sú hugmynd yrði útfærð af sanngirni og skynsemi.
Þetta er langt svar við athugasemd þinni, Sigurður. En nú sem endranær er mér mikið niðri fyrir. Ég geri mér grein fyrir því að ég er lítil... agnarsmá raunar... Ég á enga peninga, hef engin völd. En sem betur fer bý ég í þjóðfélagi þar sem ég má segja skoðun mína. Hvort ég verð látin gjalda þess á einhvern hátt verður tíminn að leiða í ljós. Annað eins hefur gerst í þessu "frjálsa lýðræðisríki".
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Þetta var yfirskrift pistils sem ég skrifaði 5. desember sl. og fjallaði m.a. um hina yfirgengilegu peningadýrkun í samfélaginu. Hún kemur fram alls staðar - það er varla til neinn þáttur í umhverfinu sem ekki er smitaður af peningadýrkun sem ég vil frekar kalla græðgisvæðingu.
Í framhaldi af myndbandinu í síðasta pistli varð mér hugsað til þess sem ég skrifaði fyrir tæpum 8 mánuðum - fyrir gengisfall, hrun á verð- og hlutabréfamarkaði, svokallaðan samdrátt og krepputal - en eftir a.m.k. eitt stjörnuhrap. Ég ákvað að endurbirta pistilinn og um leið vara við hugtakinu "fjárfestir" og tengdum orðum - hvort sem sá er innlendur eða erlendur. Fjárfestum fylgir alltaf krafan um hámarkshagnað af viðkomandi fjárfestingu og þar eru hagsmunir almennings aldrei hafðir í huga. Svokölluð samkeppni verður fyrr en varir að fákeppni, verð hækkar og þjónusta versnar. Slíkt virðist vera eðli einkavæðingar þrátt fyrir fögur fyrirheit einkavæðingarsinna um annað.
Í þessu sambandi bendi ég á athugasemdir nr. 1 og 11 við síðasta pistil eftir þá Sævar og Bjarna. Ef þetta er satt sem þeir segja voru óprúttnir menn ansi nálægt því að selja og einkavæða orkuauðlindir okkar. Hrollvekjandi tilhugsun. Verum á verði, vörumst spillta stjórnmálamenn og gráðuga, samviskulausa eiginhagsmunaseggi. Eins og Ásgeir segir í athugasemd nr. 8 við áðurnefndan pistil er það OKKAR að breyta ástandinu með aðhaldi, þrýstingi og atkvæðum okkar.
_________________________________________________
Ég hef lengi furðað mig á fréttamati fjölmiðla hvað varðar peninga og auðmenn. Allt annað í lífinu virðist vera hjóm eitt hjá því hver græðir hve mikið og á hverju, hver hlutabréfavísitalan er eða hvað þær nú heita þessar úrvalsauravísitölur, hvað hefur hækkað og hvað lækkað hverju sinni.
Sérstök innslög eða fréttatímaaukar eru um "markaðinn" eins og t.d. hjá Stöð 2 í kringum hádegið - kl. 12:15 í dag var Markaðurinn hádegi og kl. 12:31 var Hádegisviðtal markaðarins. Síðan var Markaðurinn kl. 18:20.
Bankar og aðrar fjármálastofnanir eru með fréttir oft á dag um hvernig peningamarkaðurinn er að gera sig þá stundina og fréttir af hve margar milljónir, milljónatugir eða milljarðar gengu kaupum og sölum þann daginn tröllríða öllum fréttatímum á öllum fjölmiðlum. Það þótti auk þess tilefni í sérstaka frétt þegar viðskiptaþátturinn Í lok dagsféll niður kl. 16:20 þann 3. des. sl. eins og sjá má hér.
Í gærkvöldi var fyrsta frétt í sjónvarpsfréttum Ríkissjónvarpsins mannaskipti auðmanna hjá FL Group. Það var þriðja frétt í kvöldfréttum Stöðvar 2 og fyrsta frétt í sexfréttum Ríkisútvarpsins.
Menn hverfa frá störfum með tugmilljóna starfslokasamninga, sagt er frá þeim nýjasta hér. Þó var maðurinn sagður með 4 milljónir á mánuði á meðan hann gegndi starfinu og hefði líkast til getað lagt aura til hliðar fyrir mögru árin eins og við hin þurfum að gera.
Á sama tíma les maður þetta... og þetta... og þetta... svo dæmi séu nefnd. Þessar sögur nísta í gegn um merg, bein og hjarta og maður spyr sig hvað þarf til að snerta við réttlætiskennd almennings og fjölmiðlafólks. Af hverju er svona mikið fjallað um auðmennina í fjölmiðlum en svona lítið um fátæktina... um þá sem minna mega sín og þjóðfélagið kemur illa fram við?
Ísland best í heimi... hvað?
Ég hef verið að reyna, ásamt mörgum öðrum, að benda á þá firringu sem á sér stað í virkjanafíkn og stóriðjuæði vissra aðila í þjóðfélaginu og afleiðingar þeirrar skammsýni. Afleiðingarnar snerta hvert einasta mannsbarn á Íslandi í formi loftmengunar, lyktmengunar, eyðileggingar á þeirri dásamlegu náttúru sem við höfum öll hlotið í arf frá forfeðrum okkar og -mæðrum ásamt þenslu, verðbólgu, hækkandi vöxtum, innflutningi tugþúsunda erlendra verkamanna og almennt versnandi lífskjörum. Fáir hlusta og fjölmiðlar sofa á verðinum. Enginn fjölmiðill virðist tilbúinn til að kryfja málið og fjalla um það á vitrænan hátt og í heildstæðu samhengi. Fréttablaðið hefur gert heiðarlegar tilraunir, en þær nægja ekki til að gera svo gríðarlega alvarlegu og yfirgripsmiklu máli nauðsynleg og verðskulduð skil.
Ég minni á að fyrir síðustu alþingiskosningar var eftir því tekið að upp spruttu umhverfisverndarsinnar í öllum flokkum sem mærðu náttúruvernd og lofuðu öllu fögru. Nauðsynlegt er að breyta lögum, að minnsta kosti tvennum, en hver er að sinna því? Enginn á þingi eftir því sem ég best veit.
Árið 2004 kom út merkileg ljóðabók eftir Sigfús Bjartmarsson sem hann kallaði Andræði. Bókin er leikur með orð og Sigfús leikur af mikilli snilld. Bókin skiptist í 11 kafla og hver kafli hefur inngangsljóð. Ég ætla að leyfa mér að birta hér tvö ljóð ásamt inngangsljóðum hvors kafla. Það var erfitt að velja því ljóðin eru hvert öðru betra og beinskeyttara.
5
Svo mælti
maður við annan mann
sem hjá hlutafjármarkaðarins hástökksmethafa
í flokki hörmangarafélaga vann:
Sá skal mæra samkeppnina
sem hana kaupir upp.
Og ljóðið sjálft er svona og ég tileinka það Hannesi Smárasyni og öðrum tugmilljóna-auðmönnum:
Vit er
veraldar
gengi.
Og
gott
er hátt
gengi en
hættar þó
en lágu við
að lækka
lengi.
Jú
vit er
vandmeðfarið
og valt.
Kúlið
getur óðara
orðið svo
kalt.
9
Svo mælti
maður við annan mann
sem hjá innsta aðstoðarkoppi æðstaráðsritara
landseigendaflokksins vann:
Fjórðungi bregður til flokks
en frekar bregður hinum
til hagsmuna
hans.
Ljóðið hljóðar svo - ég tileinka það Alþingi og ríkisstjórn, sem með réttu ættu að fara með stjórnartaumana - og sem lofa öllu fögru fyrir kosningar:
Í upphafi
skal efndirnar
skoða.
Jú
fagurt
galar formaður
sem fögnuðinn vill
fólki sínu
boða.
Og
ljúft er
að leggja svo
með lygasögnum
slag eftir
slag.
Jú
sjaldan
lifir kosningaloforð
kjördag.
Og
marga
mun sverja
eiðana sá
sem alla
svíkja
má.
Jú
enginn
tryggir atkvæðin
eftir á.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
17.7.2008
Getur þetta verið satt?
Það sem fram kemur í þessu myndbandi er ævintýralega ótrúlegt. Getur þetta virkilega verið satt? Ég á alveg óskaplega erfitt með að kyngja þessu, hvað þá að skilja hvernig þetta var og er hægt. Ætli það séu fleiri dæmi um svona vinnubrögð? Á hverju eru svona menn?
Mikið megum við - þessi skítblönku - vera fegin að hafa ekki átt hlutabréf í þessu fyrirtæki.
Bloggar | Breytt 19.7.2008 kl. 09:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
16.7.2008
Er gamli, góði Geir kominn aftur?
Undanfarið hef ég gagnrýnt forsætisráðherra fyrir framkomu sína við fjölmiðlafólk - og þar með þjóðina - eins og sjá má hér og hér. Hann hefur verið önugur og hvumpinn og neitað að svara spurningum. Almannatengillinn og flokksbróðir Geirs, Ólafur Hauksson, réð honum heilt í fréttum Stöðvar 2 nýverið og hvatti hann til að breyta framkomu sinni. Það virðist hann hafa gert, enda er hann í vinnu hjá þjóðinni og honum ber að standa skil á störfum sínum gagnvart henni.
Þar sem ég bjó til myndband um önuga framkomu forsætisráðherra er mér að sjálfsögðu bæði ljúft og skylt að búa til annað myndband um ljúfmannlega framkomu hans. Ég mátti til... Engu að síður vara ég bæði fjölmiðlafólk og almenning við. Ekki láta breytta framkomu slá ryki í augu ykkar. Haldið áfram að spyrja áleitinna spurninga og setja hlutina í samhengi. Geir hefur töfrandi bros - en oft leynist flagð undir fögru skinni eins og þar stendur og pólitíkin hans hefur greinilega ekkert breyst.
Undir lok myndbandsins er úrklippa úr helsti frétta Stöðvar 2 í gærkvöldi. Samsetningin er óborganleg og afskaplega kaldhæðnisleg. Hvort hún er af ásettu ráði gerð, þ.e. uppröðunin, veit ég ekki en ég gerði mér altént mat úr henni. Þetta er allt í gríni gert eins og sjá má - en gríni fylgir ávallt alvara.
Bloggar | Breytt 8.8.2008 kl. 15:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
14.7.2008
Ábyrgðarleysi og sóðaskapur
Leiðsögumenn erlendra ferðamanna eru þeir sem kynnast ferðamönnunum best á meðan þeir staldra við, áhuga þeirra á landinu, ánægju með það - og kvörtunum yfir því. Leiðsögumenn þurfa að leysa hvers manns vanda, fræða, skýra, svara, hugga, græða og almennt redda því sem redda þarf hverju sinni. Þeir gegna jöfnum höndum hlutverki sálfræðinga, fræðara og reddara. Leiðsögumenn eru á ferðinni um allt land og koma á flesta þá staði sem heimsóttir eru í skipulögðum - og óskipulögðum ferðum ferðaskrifstofa og annarra.
Yfirvöld ferðamála ættu því að leggja eyrun við þegar leiðsögumenn tala og taka fullt mark á þeim. Þeir vita nákvæmlega hvernig ástandið er á öllu mögulegu um allt land.
Í sumar hafa heyrst fjölmargar kvartanir frá leiðsögumönnum um ástand salerna víðs vegar um landið. Þau eru lokuð, biluð eða jafnvel ekki fyrir hendi á fjölförnum stöðum þar sem margir rútufarmar af ferðamönnum staldra við á hverjum degi til að njóta náttúrufegurðar Íslands - og þá eru ótaldir allir sem ferðast um á einkabílum eða bílaleigubílum. Við Íslendingar erum auðvitað sjálfir þar á meðal. Hversu viljugir og fjölhæfir sem leiðsögumennirnir eru geta þeir ekki leyst þetta tiltekna vandamál.
En þeir geta látið vita af vandanum og hafa gert það af miklum krafti það sem af er sumri, m.a. í viðtölum við fjölmiðla. Nokkrir leiðsögumenn hafa einnig skrifað um málið á bloggsíður sínar og nægir þar að nefna Úrsúlu, Guðjón og Berglindi. Fjallað var um málið í hádegisfréttum RÚV núna áðan og í Fréttablaðinu í morgun var viðtal við Börk Hrólfsson, leiðsögumann, sem ég set inn hér að neðan. Börkur er þekktur fyrir að tala tæpitungulaust og það gerir hann hér sem endranær.
Takið eftir svörum ferðamálastjóra: "....þótt Ferðamálastofa sjái um uppbyggingu salerna sé það ekki hennar hlutverk að sjá um rekstur þeirra." Hvers hlutverk er það þá? Við hvern á að tala? Hver ber ábyrgð á því að náttúruperlur okkar séu ekki útmignar og -skitnar og mishuggulegur pappír fjúkandi um allar grundir? Spyr sú sem ekki veit og ég vildi gjarnan sjá fjölmiðla grafa það upp og halda áfram að spyrja.
Í tónspilaranum ofarlega til vinstri eru samanklipptar tvær fréttir um málið, önnur frá 3. júlí sl. og hin frá í hádeginu í dag - merkt: Fréttir - RÚV - 3. og 14.7.08 - Salernismál í ólestri - Kári Jónasson, leiðsögumaður og Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)