Færsluflokkur: Bloggar

Endurmat í skugga kreppu

Þessi fína grein eftir Sverri Jakobsson birtist í Fréttablaðinu í fyrradag. Ég mæli með lestri hennar - sem og bók Guðmundar Magnússonar sem Sverrir vitnar í, Nýja Íslandi. Það er góð bók og vel þess virði að lesa.

Endurmat í skugga kreppu - Sverrir Jakobsson - Fréttablaðið 2.6.09


Skyldulesning á Pressunni

Grein Ólafs Arnarsonar á Pressunni - Hagsmunaárekstrar yfirstéttarinnar - er skyldulesning. Ætlar spillingunni aldrei að linna? Á að láta svona sóðaskap viðgangast? Hér er umfjöllun DV um málið.

Hagsmunaárekstrar yfirstéttarinnar - Ólafur Arnarson - Pressan 3.6.09


Heimildarmynd um Evu Joly á RÚV í kvöld

 Af vef RÚV - 3. júní 2009 


Hrunið og feigðarósinn

Þessa ætla ég að lesa.

Þessa er ég að lesa.


Fjárfestar og einkavæðing

Ég ætlaði að birta pistil með myndböndum um einkavæðingu og vitna í pistil sem ég skrifaði í júlí í fyrra. Ákvað svo að endurbirta hann allan sem eins konar formála. VARÚÐ - mjög langan formála en nauðsynlegan þeim sem síðar kemur. Hann er frá 21. júlí 2008. Í athugasemdum er líka vísað í áhugaverða pistla eftir aðra.

Ég geri lítið af því að rifja upp eldri pistla mína og gullfiskaminnið veldur því að þá sjaldan ég geri það kem ég sjálfri mér á óvart. Í minningunni skrifaði ég mest um náttúruvernd - aðallega Bitruvirkjun og olíuhreinsistöð á Vestfjörðum - fyrir efnahagshrunið - en svo kemur í ljós við nánari skoðun að ég var á kafi í skrifum um pólitík, peninga- og gróðahyggju og slíkum ósóma, auk þess að búa til og birta ýmiss konar myndbönd. Ef lesendur síðunnar hafa áhuga á eldri skrifum eru þau listuð eftir mánuðum vinstra megin á síðunni undir fyrirsögninni eldri færslur. En hér er pistillinn Fjárfestar og einkavæðing frá 21. júlí í fyrra. Hann er framhald af tveimur pistlum þar á undan eins og sjá má.

_________________________________________

Þessi pistill er svar við athugasemd við þann síðasta og fjallar að mestu leyti um fjárfesta, einkavæðingu og íslenska pólitík. Þeir sem hafa áhuga á að skilja þennan pistil verða að lesa athugasemd nr. 12 sem Sigurður Þorsteinsson skrifaði við síðasta pistil minn. Vonandi hef ég gert ágætri athugasemd hans sæmileg skil með þessum pistli.

________________________________________

Sigurður... mér finnst þú snúa svolítið út úr orðum mínum á þinn vingjarnlega, kurteisa og ljúfa hátt. Það má vel vera að pistlarnir mínir um náttúruvernd séu betri en aðrir (NB - náttúruvernd, ekki umhverfisvernd - þar er munur á). En ég hef skoðanir á fleiri málum og þegar peningahyggjan er beinlínis farin að hafa áhrif á náttúruna og verndun hennar get ég ekki orða bundist.

Liður 1:  Til að byrja með vil ég taka fram, að eins og ég segi í upphafsorðunum er þetta skrifað í framhaldi af myndbandinu sem ég birti í síðasta pistli og vísar því beinlínis í slíka og þvílíka fjárfesta. Ég er að sjálfsögðu ekki að tala um venjulegt fólk sem fjárfestir í innanstokksmunum, húsnæði eða menntun sinni og barnanna sinna. Ég er heldur ekki að tala um þennan venjulega Pétur og Pál og Jónínu og Guðrúnu sem fjárfesta hluta af sparifé sínu í hlutabréfum í hinum og þessum fyrirtækjum. Jafnvel ekki þá sem slá lán og veðsetja húsnæði sitt til að spila með á hlutabréfamarkaðnum. Þetta fólk er vitanlega að hugsa um að græða nokkrar krónur á fjárfestingunni, en hefur engin áhrif á stjórn fyrirtækisins og fylgist jafnvel ekkert með öðru en því, hvort hlutabréfin séu að lækka eða hækka í verði. Hefur ekki hugmynd um hvernig fyrirtækinu er stjórnað, hvaða laun það greiðir eða hvaða hlutverki það gegnir í víðara samhengi - jafnvel pólitísku.

Ég er að tala um stóru fjárfestana, þessa sem höndla með milljarða á milljarða ofan og svífast einskis. Fjárfesta, hvort sem þeir eru innlendir eða erlendir, sem líta á almenning í landinu - svosem hvaða landi sem er - sem algjört aukaatriði, bara ef þeir geta grætt. Lastu athugasemdirnar við síðasta pistil sem ég benti á? Þar sem sagt var t.d. frá SMS skeyti frá auðmanni til stjórnmálamanns. Ég er að tala um þannig fjárfesta.

Ég hef aldrei unnið við fjármál eða hlutabréf eða neitt þvíumlíkt og hef lýst því yfir í pistlum hér á blogginu mínu að ég hafi enga sérþekkingu á slíkum málum - nema síður sé. Ég er því vissulega áhugamanneskja eins og þú segir. En ég er hluti af þessum almenningi sem horfir í forundran á hina ríku verða ríkari án þess að botna upp né niður í hvernig þetta sé hægt.  Ég horfi á þessi mál sem fullkomlega óinnvígð að öllu leyti en furða mig gjarnan á því hve fárra spurninga er spurt, einkum af fjölmiðlum sem um þessi mál fjalla. Hvernig gat þetta til dæmis gerst sem lýst er í myndbandinu í pistlinum hér á undan? Og hver á hvað í hvaða fyrirtæki eða Group eða hvað sem þessir strákar kjósa að kalla ungana sína?

Endur fyrir löngu kom út bók - mig minnir að hún hafi einfaldlega heitið Kolkrabbinn - þar sem farið var ofan í saumana á tengslaneti einstaklinga og fyrirtækja. Mér sýnist vera góður jarðvegur fyrir aðra slíka til að skýra eignarhald og brask með allt milli himins og jarðar.

Staðreyndin er nefnilega sú að þessir stórtæku "fjárfestar" eru gjarnan að spila með líf og afkomu almennings. Fyrirtæki sem við þurfum öll að skipta við að einu eða öðru leyti og ef þeir klúðra málunum erum það við sem borgum brúsann. Dæmi um það eru t.d. flugfélögin og matvöruverslanirnar. Þeir tapa eða gleypa of mikið sjálfir - það fer beint út í verðlagið sem almenningur er að sligast undan. Hver á Iceland Express? Síðast þegar ég vissi voru að mestu leyti sömu eigendur að IE og Icelandair. Mér gæti skjátlast því ég hendi ekki reiður á hver á hvað hverju sinni. Ég þurfti að fara tvisvar til Englands í vor og sumar með stuttu millibili og ég gat ekki séð neinn verðmun á fargjöldum þessara tveggja flugfélaga. Eiga ekki sömu menn Hagkaup, Bónus og 10-11 og svo aftur sömu menn Nóatún og Krónuna? Þetta eru tveir stærstu aðilarnir á matvörumarkaðnum á svæði þar sem 60-70% landsmanna búa. Og matur er lífsnauðsyn, ekki lúxus, þannig að allir þurfa að skipta við eitthvert þessara fyrirtækja.

Liður 2: Ég hef ekkert á móti samkeppni nema síður sé - þar sem hún á við og ef hún er raunveruleg og marktæk. Við erum svo lítið land með svo fáum íbúum að samkeppni getur ekki þrifist á öllum sviðum. Fyrirtækin bera sig einfaldlega ekki. Í einkavæðingarferli Íslendinga hafa verið gerð svo mörg og svo stór mistök að það hálfa væri nóg. Ég held að í því sambandi nægi að nefna bankana og grunnnet Símans. Nú er svo hægt og rólega verið að einkavæða heilbrigðisþjónustuna sem að mínu mati eru mikil mistök og síðast í gær komu fréttir um "útboð" á þjónustu a.m.k. hluta af Strætó. Ég efast stórlega um að það stuðli að lækkun fargjalda, tíðari ferðum, betra leiðakerfi og því sem þarf til að fá fólk til að nota almenningssamgöngur frekar en einkabílinn. Og ég þekki engan sem kannast við heilbrigðiskerfið í Bandaríkjunum, sem er að stærstum hluta einkavætt, sem getur hugsað sér að breyta því góða kerfi sem foreldrar okkar, afar, ömmur, langafar og langömmur börðust fyrir að koma á - þar sem allir hlutu ódýra og góða heilbrigðisþjónustu án tillits til stéttar, stöðu eða efnahags. Engan.

Tilhneigingin í einkavæðingu á Íslandi hefur verið sú, að upp spretta mörg fyrirtæki í sömu greininni þegar allt er gefið frjálst, en fljótlega kemur í ljós að reksturinn borgar sig ekki, markaðurinn er of lítill, og smátt og smátt - stundum mjög hratt samt - gleypir sá fjársterki (eða sá með bestu pólitísku samböndin eða besta aðganginn að lánsfé í bönkum) alla þá litlu og eftir stendur eitt, kannski tvö fyrirtæki (Samkeppnisstofnun gerir athugasemd), jafnvel að hluta til í eigu sömu manna. Verð er samræmt, samkomulag gert um verðlagningu og allir eru ánægðir - nema ég og þú sem þurfum að borga brúsann.

Við Íslendingar eigum miklar og verðmætar auðlindir - t.d. fiskinn í sjónum og orkuna í fallvötnum og jarðhita. Búið er að einkavæða fiskinn í sjónum. Það var gert með kvótakerfinu þar sem einstaklingum var gefinn fiskveiðikvóti sem gengur nú kaupum og sölum eins og hver önnur hlutabréf.  Afleiðing þeirrar einkavæðingar eru öllum kunn. Kvótaeigendur gáfu fögur loforð um um að halda kvótanum í byggð en sviku þau öll og skildu eftir sig sviðna jörð - byggðarlög um allt land hafa nánast lagst í eyði og atvinnusköpun og -uppbygging verið fátækleg. Afleiðing þess er sú að verið er að stúta gjörsamlega ómetanlegri náttúru Íslands til að virkja fossa og jarðhita - til að afla orku fyrir mengandi stóriðju. Álver og kannski olíuhreinsistöð. Þetta hangir nefnilega allt saman. Einkavæðing - virkjun - stóriðja - fjárfestar - gróði - peningahyggja.

Nú blasir við að einkaaðilar ásælist orkuauðlindirnar okkar sem verða æ verðmætari eftir því sem orkuskorturinn eykst í heiminum. Stjórnvöld virðast ætla að nánast gefa þessa auðlind erlendum auðhringum í formi orku til álvera í stað þess að hinkra og sjá til hvernig veröldin þróast. Það á að gera okkur fjárhagslega háð öflum sem gæti ekki verið meira sama um land og þjóð - á meðan þeir sjálfir hagnast. Er nokkur furða að maður mótmæli? Það er verið að arðræna íslensku þjóðina - aftur. Ég get ekki setið þegjandi undir því.

Þú segir í athugasemd þinni: "Það hættulegasta í pólitískri umræðu, er að pólitíkin er of lítið fagleg og of mikið lík trúarbrögðum. Fólk étur allt of mikið upp vitleysuna eftir hvort annað til þess að þjóna flokkspólitískum hagsmunum, í stað þess að nálgast viðfangsefnið á faglegan hátt."

Ég er ekki í neinum flokki, þjóna engum flokkspólitískum hagsmunum, enginn stjórnmálaflokkur er áskrifandi að atkvæði mínu og ég hvorki tala né skrifa með flokkspólitík í huga. Ég veg og met orð og gjörðir út frá minni eigin almennu skynsemi og því sem ég sé, skynja og finn. Flokkapólitík er mér ekki að skapi og alls ekki hreppapólitíkin, sjálfhverfan innan kjördæmanna og atkvæðaveiðarnar. Ég vil að fólk - bæði kjósendur og stjórnmálamenn, fari að hugsa um heildina - ekki bara sérhagsmuni hvers landshluta fyrir sig, svo ekki sé minnst á sérhagsmuni einstakra frambjóðenda, þingmanna eða ráðherra. Ég fyrirlít slíka pólitík en því miður er hún það sem gildir á Íslandi.

Ég vil líka að dustað verði rykið af hugmynd Vilmundar heitins Gylfasonar frá 1983 um persónukosningar þvert á flokka og lista. Það gæti orðið landinu til mikillar blessunar ef sú hugmynd yrði útfærð af sanngirni og skynsemi.

Þetta er langt svar við athugasemd þinni, Sigurður. En nú sem endranær er mér mikið niðri fyrir. Ég geri mér grein fyrir því að ég er lítil... agnarsmá raunar... Ég á enga peninga, hef engin völd. En sem betur fer bý ég í þjóðfélagi þar sem ég má segja skoðun mína. Hvort ég verð látin gjalda þess á einhvern hátt verður tíminn að leiða í ljós. Annað eins hefur gerst í þessu "frjálsa lýðræðisríki".


VR-fjölskyldan illa tekin í bólinu

Kraftaverk gerðist í vetur - stjórn VR var velt af stóli. Ég þekki svolítið til frá því á árum áður, nefndi þetta í pistli í desember, og veit að þetta var kraftaverk. Kom enda öllum á óvart, líka sigurvegurum kosninganna. Ragnar Þór Ingólfsson hefur verið ötull við að upplýsa fólk um sannleikann.

Fréttin sem birtist af samsæri í stéttarfélaginu er með ólíkindum. "Eigendur" stéttarfélagsins með Gunnar Pál Pálsson í fararbroddi, sem töpuðu kosningunum geta ekki sætt sig við það. En þar virðist búa meira að baki en bara tap í kosningum til stjórnar í stéttarfélagi.

Talað er um "að viðhalda VR-fjölskyldunni", "að vera illa tekin í bólinu", "láta þau hafa fyrir því" og það sem stakk einna mest í augu og eyru: "Þetta er félagið okkar og okkar hagsmunir eru undir því komnir." Svona talar eða skrifar fólk sem missti meirihlutavald í stærsta stéttarfélagi landins. Hverjir eru þessir "við"? Hvaða hagsmuni er hér um að ræða? Varla hagsmuni fjöldans - þ.e. félagsmanna. Eru einhverjir sérhagsmunir þarna á ferð sem fólk vill ríghalda í á kostnað almennra félagsmanna? Maður spyr sig...

Undanfarin ár - kannski áratugi - hefur mikið verið talað um hve stéttarfélög eru orðin máttlaus. Að þau séu lítið annað en sumarbústaðaleigur eða eitthvað álíka léttvægt. Stéttarfélög hafa, með heiðarlegum undantekningum, ekki virkað sem skyldi sem hagsmunaafl fyrir félagsmenn sína. Svo mikið er víst. En í kreppunni reynir kannski meira á þau en í uppgangi undanfarið og mikilvægt að hinn almenni félagi fylgist vel með og taki þátt í starfinu. Einnig er mikilvægt að í forsvari sé heiðarlegt fólk án hagsmunatengsla við gömlu bankana og aðrar spillingarstofnanir. Vaknið, VR-félagar!

 
Yfirlýsing stjórnar VR - mbl.is - 29.5.09

Sannleikur Svarthöfða - sterastyrkt sjálfsálit

Ég veit ekki hver(jir) er(u) á bak við Svarthöfðann í DV, en fjári er hann oft góður. Eins og skrifaður á mitt eigið lyklaborð núna síðast. Er það minnimáttarkennd sem fær Íslendinga til að halda sig besta, klárasta, flottasta og stórasta? Sjálfbirgingurinn ríður oft ekki við einteyming og ef engin er ástæðan til að berja sér á brjóst - þá er hún nánast búin til og síðan blásin upp. Baldur lýsir þessu þannig að margir Íslendingar séu eins og Pollýanna á sterum. En hér er Svarthöfðapistillinn og forsíðan sem hann vitnar í.

 EINSTAKUR ÁRANGUR

Einhverjir vilja meina að mikilmennskubrjálæði hafi komið Íslendingum í þá ömurlegu stöðu sem nú blasir við gjaldþrota þjóð. Þetta er alrangt eins og allir sem þekkja sitt heimafólk hljóta að gera sér grein fyrir. Frumforsendan fyrir hallærinu er alls ekki stórmennskubrjálæði heldur þvert á móti sígild íslensk minnimáttarkennd sem brýst því miður fram í sameiginlegri þjóðarfirringu um að Íslendingar séu sterkastir, fallegastir, snjallastir og bestir í öllu.

Þessi firnasterka sjálfsblekking sem auminginn fyllir heimsmynd sína með til þess eins að kikna ekki algerlega undan eigin vanmætti er svo yfirþyrmandi að Íslendingar telja sig alltaf vera sigurvegara og langbesta. Jafnvel þegar þeir ná aldrei lengra nema í allra besta falli að vera næstbestir.

Samkvæmt íslenskum mælikvörðum er annað sætið sigursæti og FL Group og deCODE verðmæti. Fólk með óskerta sjálfsmynd bölvar þegar það lendir í öðru sæti, spýtir svo í lófana og strengir þess heit að gera betur næst og vinna. Þetta hvarflar ekki að Íslendingum. Þeim nægir að vera næstbestir vegna þess að þá eru þeir bestir. Þetta hljómar eins og mikilmennskubrjálæði en undir kraumar minnimáttarkenndin og vissan um að þeir geti aldrei orðið bestir.

Fyrir skömmu krækti landslið Íslands í handknattleik í silfur á ólympíuleikum og þjóðin trylltist. Landið varð stórasta land í heimi og ekki hefði verið hægt að fagna ákafar þótt gullið hefði unnist.

Ísland var þó ekki stórasta landið lengi og nokkrum vikum seinna rann stund sannleikans upp. Við erum smáð þjóð í gjaldþrota landi. Því miður fengum við ekki að búa lengi við leiðrétta sjálfsmynd þar sem Jóhanna Guðrún varð næstbest í Júróvisjón og sjálfsblekkingin skaut aftur upp kollinum. Við erum best og nú er þetta allt að koma. Svarthöfði er kominn með svo mikið ógeð á þessum hugsunarhætti vegna þess að við munum ekki ná okkur á strik fyrr en við gerum okkur grein fyrir að við erum dvergar og meðalmenni á alþjóðlegan mælikvarða þrátt fyrir höfðatölu.

Svarthöfði seldi því bókstaflega upp þegar hann sá forsíðu Fréttablaðsins í gær þar sem greint var frá einstöku afreki Eiðs Smára. Á yfir- og aðalfyrirsögn mátti skilja að hann hefði nánast sigrað í meistaradeild Evrópu einn síns liðs fyrir Barcelona. Vissulega er einstakt að landa svona stórum titli með því að sitja á varamannabekk en fyrr má nú fyrr vera. Heimspressan hefur aðra og réttari sýn á málið og Eiður sést einungis fagna sigrinum á síðum íslenskra blaða þannig að úti í hinum stóra heimi virðist hann ekki vera þessi lykilmaður sem Íslendingar vilja vera láta.

Við erum í svakalega vondum málum ef fjölmiðlar ætla ekki að fara að hysja upp um sig og byrja að endurspegla raunveruleikann frekar en búa til heimsmynd sem er lesendum þeirra og áhorfendum þóknanleg og í takt við landlæga minnimáttarkennd.

Fréttablaðið 28.5.09 - Forsíða

Ætla mætti miðað við þessa umfjöllun að Eiður Smári hafi unnið Meistaradeildina einn síns liðs og hjálparlaust. En eins og allir vita sem fylgst hafa með boltanum hefur hann sáralítið fengið að spila með um langa hríð og á því lítinn þátt í titlinum. Enda hefur mikið verið rætt um að hann skipti um lið. En þetta er dæmigerð þjóðrembuumfjöllun og svona hugsunarháttur stendur okkur fyrir þrifum í ýmsum málum - nú sem endranær.


Orðsnilld á Alþingi

Hér eru tvö sýnishorn af orðsnilld þingmanna á Alþingi Íslendinga - og ríkidæmi málefnanna. Ósanngjarn samanburður? Eflaust, en samanburður engu að síður og dæmigerður fyrir málefnafátækt allt of margra þingmanna þessa dagana og vikurnar. Samanburður sem sýnir líklega eina ómerkilegustu setningu sem sögð hefur verið í ræðustól Alþingis annars vegar - og hins vegar eina mögnuðustu ræðu sem þar hefur verið flutt. Ég hef ekki lagt á mig að hlusta mikið á "umræður" frá Alþingi undanfarið. Það fýkur alltaf í mig við þá hlustun og það er vond líðan.

Ég á þá ósk heitasta að alþingismenn hætti að líta á ræðupúlt Alþingis sem æfingasvæði fyrir ómálefnalegt skítkast og innihaldslaust blaður - eða kjörinn stað til að fullnægja athyglissýki og ganga í augun á ofstækisfullum kjósendum sínum. Við borgum þeim góð laun fyrir að vinna að hagsmunum okkar og gerum þá kröfu til þeirra ALLRA að þeir standi undir væntingum og vinni fyrir kaupinu sínu. Annars verða þeir settir af við fyrsta tækifæri.

Orðsnilld Eyglóar Harðardóttur 28. maí 2009.

 

Orðsnilld Vilmundar Gylfasonar 23. nóvember 1982 - sjá hljóðskrá hér fyrir neðan og prentaða ræðuna hér.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Komið, spámenn...

Nýr pistill Eiríks Guðmundssonar í Víðsjá á Rás 1 fjallar um þörf Íslendinga fyrir sannindi. Eiríkur tekur síst of djúpt í árinni. Þangað til sannleikurinn kemur í ljós verðum við í lausu lofti - og það er afleitt. Stjórnvöld verða að tala meira við þjóðina - og segja sannleikann.

Eiríkur Guðmundsson - pistlar

Komið, spámenn

Á Íslandi er nú töluverð þörf fyrir mikil sannindi. Þjóðin þráir speki, þráir sannindi, helst dálítið dularfulla speki, sem sögð er á framandi máli, við munum taka Dalai Lama fagnandi, rétt eins og við tókum bandaríska kvikmyndaleikstjóranum David Lynch fagnandi á dögunum. Eins og við tókum Evu Joly fagnandi, þegar hún kom og sagði okkur, beint eða óbeint, að hér hefðu glæpamenn verið að verki.

Það er eftirspurn eftir erlendum sannindum, og það er ekki að ástæðulausu! Þjóðin trúir ekki innlendu spekingunum, treystir ekki á íslenskt hyggjuvit, og það er eðlilegt, það voru jú Íslendingar sem léku okkur grátt. Þess vegna bíðum við nú eftir því að einhver komi, með eitthvað. Við erum opin fyrir austrænni speki, norrænni speki, andlegum fróðleik við trúum við sem við okkur er sagt, vegna þess að við erum beygð og þurfum á einhverju að halda. Í því ástandi sem Íslendingar eru nú taka þeir á móti hverju sem er. Helst einhverju heimsfrægu. Dalai Lama er á leiðinni til landsins, hann virkaði reyndar ekki beysinn í myndinni sem sjónvarpið sýndi í gærkvöldi, hann var eins og hver annar grínari, sem stakk til dæmis upp á því að menn leystu deilur Palestínumanna og Ísraelsmanna með því að fara í lautartúr. Menn eiga bara að róa sig niður, sagði Dalai Lama. Og svo var það spekin um að hinir fátæku séu hamingjusamari en hinir ríku. Stórhættulegur boðskapur, fyrir þjóð í þeirri stöðu, sem Íslendingar eru nú.

Dalai LamaEn það er sannarlega engin ástæða til að ýta mönnum út af borðinu, þótt þeir komi furðulega út, í einum sjónvarpsþætti, það er sjálfsagt að hlusta á Dalai Lama, og raunar alla þá sem vilja færa okkur einhvern uppbyggilegan boðskap. Ekki veitir af.

En sumarið, ágætu hlustendur, það er strax byrjað að slæva mann. Áður en maður veit af er maður farinn að borða pönnukökur með kanilsykri undir berum himni, áður en maður veit af er maður orðinn heimskulegur í stuttbuxum, það er vonlaust að hugleiða hlutskipti sitt, af einhverri alvöru, á stuttbuxum. Ekki síst þess vegna, veitir ekkert af uppörvandi innspýtingu inn í hugarfarið, þótt maður nenni ekki endilega, að láta segja sér, að róa sig niður. En hættan er sú, ágætu hlustendur, í maílok, að fegurðin í náttúrunni slævi mann, að maður gleymi sér glápandi niður Flosagjá, að maður gleymi sér undir allt of háum hamravegg, gleymi sér við að bera smurolíu á reiðhjólið, eða lesandi Kvöldvísur við sumarmál, franska skáldsögu um hafið, ég veit það ekki, ég veit ekki til hvers heimurinn ætlast af manni, ég veit ekki hvernig ég á að taka öllum þessum ráðleggingum, veit ekki hvað á að gera, þegar grænu skuggarnir skríða á land, volgir upp úr funheitum hafdjúpunum.

Ég veit ekki hvernig á að lifa kreppuna af. Ég veit ekki hvort Dalai Lama hefur svarið, eða David Lynch, eða Eva Joly, eða villt blóm sem vaxa undir hamravegg, eða andlit sem speglast í djúpum hyl á Þingvöllum, ég bind reyndar af einhverjum ástæðum vonir við rússneska hljómsveitarstjórann Gennadij Rosdestvenskij, sem ég sá í sjónvarpinu í gær. Það var bara eitthvað í því, hvernig hann talar og ber sig að, þegar hann stjórnar hljómsveit. Hann ku vera á leiðinni til landsins.

En þannig er staðan, nákvæmlega núna, ágætu hlustendur, á Íslandi er nú töluverð þörf fyrir sannindi, við bíðum eftir fljúgandi dúfum með hálsbindi, við bíðum eftir því að sannleikurinn komi siglandi, utan úr heimi, við nemum hann í viðtali, sem verður sent út með íslenskum texta síðar. Þangað til verðum við - eins og hingað til - algerlega í lausu lofti.

Víðsjá 25. maí 2009


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Einkavæðingin og afleiðingar hennar

Ég hvet alla sem mögulega geta til að horfa á myndina sem sýnd verður á RÚV í kvöld klukkan 22:20 - eftir Tíufréttir - sjá hér að neðan. Umfjöllunarefnið kemur okkur Íslendingum mjög mikið við, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Þakka Dagnýju fyrir ábendinguna í athugasemd við síðasta pistil og tek að auki undir orð hennar þar. Látið sem flesta vita af þessari mynd.

Viðbót neðst í færslu: Umfjöllun Spegilsins í kvöld um myndina.

RÚV - The Big Sellout - Einkavæðingin og afleiðingar hennar


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband