Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ísland í gær

Enn var ég að grufla í fortíðinni, þó ekki nema nokkra mánuði aftur í tímann og margir hafa eflaust gleymt ýmsu sem hér kemur fram. Rifjum aðeins upp með aðstoð og í minningu Íslands í dag - eins og þátturinn var.

Þann 12. mars 2008 var lóð á Arnarnesi auglýst til sölu á tilboðsverði, aðeins 500.000.000 - fimmhundruð milljónir. Fasteignasalinn segir þetta tilvalið tækifæri fyrir "fjárhagslega frjálsa" einstaklinga og átti líkast til við auðjöfrana sem rændu þjóðina. Ætli lóðin hafi selst? Auglýsinguna sjálfa má sjá hér.

Pétur Blöndal, alþingismaður, tjáði sig um efnahagshorfurnar 13. mars 2008. Það var skrýtið að hlusta á Pétur sem var ekki beint spámannlegur í viðtalinu.

Hér er stórmerkileg umfjöllun og viðtal við fréttamann BBC, Stephen Evans, frá 7. apríl 2008. Fréttamaðurinn kom til landsins til að taka viðtal við Geir Haarde, forsætisráðherra, en þeir hafa gjörólíka sýn á málin, fréttamaðurinn og forsætisráðherrann.

Sölvi tók viðtal við Geir Haarde 29. apríl 2008. Það er stórfurðulegt að hlusta á Geir. Þetta er nákvæmlega fimm mánuðum áður en Glitnir var yfirtekinn.

"Bankarnir hagnast í kreppu" var yfirskrift þessa dagskrárliðar 7. maí 2008. Hér er talað við fulltrúa greiningardeilda tveggja banka, Glitnis og Kaupþings. Það er mjög athyglisvert að hlusta á þá í ljósi allra þeirra upplýsinga sem síðan hafa komið fram. Einhver kallaði greiningardeildir bankanna siðlausar auglýsingastofur þegar í ljós kom hvernig þær störfuðu.

Sá gjörningur sem hér er fjallað um, 19. maí 2008, kölluðu einhverjir "Mestu peningagjöf Íslandssögunnar" á þeim tíma. Þá voru felldir niður skattar á sölu hlutabréfa frá 2006 sem hefðu skilað ríkissjóði 60-80 milljörðum. Vinargreiði? Maður spyr sig. Ætli það hefði ekki verið hægt að nota það fé til góðra hluta, t.d. í heilbrigðiskerfinu? Árni Mathiesen réttlætir gjörninginn, Pétur Blöndal og Steingrímur J. ræða málið.

Að lokum er hér viðtal við Geir Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í tilefni af eins árs afmæli ríkisstjórnarinnar sem nú, 8 mánuðum seinna, er komin af fótum fram og deyr væntanlega drottni sínum einhvern næstu daga. Þetta er 26. maí 2008.


Hver gefur fyrirmælin?

Ég gekk fram hjá Austurvelli rétt fyrir tólf á leiðinni heim. Skömmu seinna heyrði ég af svölunum hjá mér að lögreglan varaði við einhverju. Ekki grunaði mig að það væri táragas. Um klukkan 1.45 fór ég aftur út á svalir og heyrði enn hávaða neðan úr miðbæ. Mig langar að vita, eftir að hafa séð ýmislegt með eigin augum og heyrt fjölmargar frásagnir sjónarvotta, séð myndir og myndskeið: Hver gefur lögreglumönnunum fyrirmæli? Er ríkislögreglustjóri í löggu og bófaleik? Dómsmálaráðherra? Forsætisráðherra? Hver?Þeir eru óskaplega viðkvæmir fyrir "valdstjórninni" og valdinu er óspart beitt á öllum vígstöðvum. Þetta viðtal við Björn Bjarnason er makalaust. Hitt er svo aftur annað mál að maður kastar ekki grjóti eða múrsteinum í fólk, hvort sem það eru lögreglumenn í óeirðabúningum eða aðrir. Slík framkoma eyðileggur ótrúlega mikið fyrir öðrum og annars konar mótmælum, friðsamlegum en kannski háværum. Lesið frásögn Heiðu hér. Hún kallar þetta fólk mótmælendasníkjudýr.

En hér eru fréttir gærdagsins - það er allt að verða vitlaus en Geir Haarde virðist ekki fatta það. Hann ÆTLAR að sitja áfram hvað sem tautar og raular. Hans lýðræði er bara á fjögurra ára fresti og þess á milli á pöpullinn að halda kjafti. Þvílík firring og valdníðsla. Samfylking í Reykjavík og víðar búin að álykta um stjórnarslit, minnihlutastjórn bíður átekta en Geir gat ekki heyrt á Ingibjörgu Sólrúnu að neitt hefði breyst. Þetta hlýtur að verða með sögulegri landsfundum hjá Flokknum.

Aukafréttatími RÚV klukkan 14

 

Mbl Sjónvarp

 

Kvöldfréttir Stöðvar 2

 

Ísland í dag - viðtal við forsætisráðherra

 

Kvöldfréttir RÚV

 

Kastljós - hér kennir ýmissa grasa og lítt kræsilegra

 

Tíufréttir RÚV

 

 Að lokum grein úr Mogga í gær eftir Herdísi Þorgeirsdóttur, prófessor

Herdís Þorgeirsdóttir - Mbl. 21.1.09


mbl.is Táragasi beitt á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er byltingin hafin?

Ég var að springa af stolti í dag - og svo aftur í kvöld. Er nýkomin heim eftir mótmælastöðu númer tvö. Þetta getum við, Íslendingar! Við erum búin að mótmæla þúsundum saman í 15 vikur. Í dag gerðist eitthvað stórt og mikið. Eitthvað brast sem getur ekki endað með neinu öðru en að ríkisstjórnin fari frá. Annað væri bara algjörlega út í hött. Enn eru þúsundir fyrir framan Alþingi og væntanlega stendur fólk vaktir. Gefið ykkur endilega fram ef þið getið tekið þátt í því.

Inni í Alþingishúsinu sat ríkisstjórn með tindátum sínum og talaði um hvort selja eigi áfengi í matvöruverslunum, vátryggingastarfsemi, greiðslur til líffæragjafa og fleira spennandi - sjá hér. Og forsætisráðherra kvartaði yfir að fá ekki vinnufrið!  W00t  Á hvaða plánetu ætli hann búi? Ég tók saman fréttaumfjöllun sjónvarpsstöðvanna í dag og kvöld. Þetta er magnað. Og aftur beitti lögreglan efnavopnum af mjög vafasömu tilefni.

Bein útsending RÚV sem hófst klukkan 14:10

 

Stöð 2 klukkan 17

 

Morgunblaðið Sjónvarp

 

Kvöldfréttir Stöðvar 2

 

Kvöldfréttir RÚV

 

Kastljós

 

Morgunblaðið Sjónvarp

 

Tíufréttir RÚV

 

 


Valdamenn landsins - Ómissandi fólk

Eða hvað?
 
Guðmundur Andri - Fréttablaðið 19.1.09

Silfur dagsins og Kryddlegin Baugshjörtu

Silfur dagsins olli ekki vonbrigðum frekar en venjulega. Stútfullt af flottu, málefnalegu fólki auk eins ráðherra. Aðeins einn Vettvangur dagsins að þessu sinni og af einhverjum ástæðum var Robert Wade ekki í þættinum eins og kynnt hafði verið heldur Anne Sibert, sú sem gerði skýrsluna með Willem Buiter. Vonandi tekur Egill upp viðtal við Wade áður en hann fer af landi brott - ef hann hefur ekki gert það nú þegar. En lítum á Silfrið (ég klippti Framsóknarinnslagið í lok þáttarins út, enda ekkert merkilegt þar.)

Í leiðinni bendi ég á magnaða grein Einars Más Guðmundssonar sem birtist í Morgunblaðinu í dag og Einar Már kallar Kryddlegin Baugshjörtu. Greinina má lesa í heild sinni hér (smella þar til læsileg stærð fæst).

Vettvangur dagsins - Egill Jóhannsson, Ingólfur Arnarson og Fjalar Sigurðarson

 

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra

 

Jón Ólafsson, prófessor í heimspeki - hlustið vandlega á Jón

Áður en hlustað og horft er á Willem Buiter og Anne Sibert er vert að rifja aðeins upp skýrslumálið alræmda. Flett var ofan af því reginhneyksli í fréttum RÚV 14. október sl. Ég trompaðist og hélt mikinn reiðilestur á blogginu sem einhverjir muna eflaust eftir og birti fréttina. Svo reið var ég að ég tvítók hana í sama myndbandinu til að árétta alvarleika málsins. Það er með hreinum ólíkindum að liðnir séu þrír mánuðir síðan ég skrifaði þennan pistil. Ekkert - og ég meina EKKERT - hefur verið gert. Við virðumst vera í nákvæmlega sömu sporum nú og þá. Ótrúlegt. Skýrsla þeirra Buiters og Sibert er viðhengd neðst í færslunni. 

En hér eru þau Willem Buiter og Anne Sibert í Silfrinu - Egill boðaði að viðtalið yrði textað í endursýningu í kvöld og ef þátturinn verður aðgengilegur á Netinu í endursýningu, sem endursýnt efni er yfirleitt ekki, set ég inn textaða útgáfu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Mótmælt víða um land

Það var heldur betur margt um manninn á Austurvelli í gær, töluvert fleiri en Mótmæli - 17.1.09 - Heilbrigðisstarfsfólksíðasta laugardag. Ræðumenn báðir mjög góðir. Og fleiri og fleiri fundir eru haldnir á sama tíma víða um land. Í gær voru haldnir fundir, að Austurvelli frátöldum, á Ísafirði, Akureyri, í Mývatnssveit, á Egilsstöðum og Selfossi. Vel mætt á alla fundina.

Mér þótti alveg sérstaklega vænt um að sjá heilbrigðisstarfsfólk á frívakt með skilti og grænar höfuðhlífar. Það kom augljóslega til að mótmæla hryðjuverkum ráðherra á heilbrigðiskerfi okkar Íslendinga, kannski einkum lokun St. Jósefsspítala í Hafnarfirði sem er algjört glapræði. Það má ekki láta Guðlaug Þór komast upp með þessar áætlanir, vítaverð vinnubrögð og glórulausa einkavinavæðingu á heilbrigðiskerfi sem forfeður okkar og -mæður byggðu upp með blóði, svita og tárum. Meðal annars gamla fólkið sem Sigrún talar um hér að neðan og er nú flutt hreppaflutningum eins og sauðfé. Hvað yrði um þetta fólk ef öldrunarþjónustan væri einkavædd og gengi fyrir græðgi auðmanna? Lesið t.d. þetta og þetta - þarna kristallast stefna frjálshyggjumannsins Guðlaugs Þórs Þórðarsonar í heilbrigðismálum. Óhugnanleg lesning og ekki gert ráð fyrir því sem varð efnahag Íslands að falli, grægðinni, sem er þó drifkraftur og uppistaða frjálsyggjunnar. Vonandi heldur heilbrigðisstarfsfólk áfram að koma í hópum eins og nú.

Sigrún Sverrisdóttir, mótmælandi í MývatnssveitFrumlegustu mótmæli dagsins fannst mér vera mótmælin í Dimmuborgum í Mývatnssveit en þau voru líka þau fámennustu - eðlilega. Þar kom fólk saman til að fleygja gúmmískóm í gullkálfinn sem tákns siðspillingar, valda og siðblindu. Svar dagsins á Sigrún Sverrisdóttir, landpóstur og bréfberi í Mývatnssveit. Þegar fréttamaður spurði hana af hverju hún væri mætt á mótmælin í Dimmuborgum svaraði Sigrún: "Af því þjófnaður hefur aldrei verið vel séður í Mývatnssveit og mér finnst alveg svívirðilegt hvernig er búið að fara með íslensku þjóðina. En svívirðilegast af öllu finnst mér hvernig farið er með gamla fólkið sem er búið að byggja upp landið okkar. Það er flutt hreppaflutningum eins og hvert annað rusl." Vel mælt hjá Sigrúnu fyrir utan að vera auðvitað alveg hárrétt. Góðir, Mývetningar!

Haldinn var fyrsti mótmælafundurinn á Austurlandi í Tjarnargarðinum á Egilsstöðum í gær. Ung kona, Þórunn Ólafsdóttir frá Fáskrúðsfirði, var driffjöður og skipuleggjandi fundarins. Ræðumenn voru Björgvin Valur Guðmundsson og Ingunn Snædal, sem bæði fluttu stuttar en kjarnyrtar ræður. Þær voru teknar upp og ég klippti saman það sáralitla myndefni sem ég hafði úr fréttunum og skeytti saman við ræðurnar þeirra. Takið viljann fyrir verkið. Hljóðið er gallað alveg fremst en lagast fljótlega. Áfram Austfirðingar!

Ég klippti saman fréttaumfjöllun sjónvarpsstöðvanna um fundina. Takið eftir gjörólíkum efnistökum fréttamanna fréttastöðvanna. Það er dæmigert að uppákomur eins og sú sem Ástþór Magnússon og Eiríkur Stefánsson stóðu fyrir fái meiri umfjöllun en ástæða fundarins, ræðurnar og samhugur þúsunda fundargesta. Myndefni frá fundunum á landsbyggðinni var harla lítið. Nánast ekkert frá Ísafirði og ekkert frá Selfossi. Og hvergi bútar úr ræðum eða neitt slíkt. Ef einhver á myndefni frá þessum fundum væri gaman að fá það eða vísun á það á netinu.

Viðbót: Hér er ræða sem flutt var á fundinum á Selfossi í gær.

Á fundinum á Austurvelli töluðu Gylfi Magnússon, lektor við HÍ, og Svanfríður Anna Lárusdóttir, sem nú er atvinnulaus. Ekki veit ég hvort Svanfríður Anna er sviðsvön, en mikið fjári stóð hún sig vel! Ég varð mér úti um ræðu Gylfa, en á eftir að bera mig eftir ræðu Svanfríðar Önnu. Ef hún sér þetta má hún gjarnan senda mér hana. En hér er glæsileg ræða Gylfa Magnússonar:

"Fundarstjóri, ágætu fundargestir.

Það leika naprir vindar um efnahagslíf heimsins um þessar mundir. Óvíða kaldari en á okkar hrjóstruga landi. Yfir okkur hellast slæmar fréttir, gjaldþrot, uppsagnir, niðurskurður, tap og skuldir. Hnípin þjóð hlustar. Reið og ráðþrota.

Það er erfitt að vera bjartsýnn við aðstæður sem þessar. Aðrar tilfinningar ríkja.

Gylfi Magnússon á Austurvelli 17.1.09Bölsýnin eykur enn á vandann. Til að endurreisa íslenskt efnahagslíf þarf margt. Eitt af því er bjartsýni. Þjóðin þarf að fá aftur trú á sjálfri sér og leiðtogum sínum. Trúa því að landsmenn séu á réttri leið.

Án þess koðnar allt niður áfram. Enginn þorir að sýna frumkvæði, hefja rekstur og ráða starfsfólk. Fólk sem getur unnið og vill vinna fær þá ekki vinnu. Atvinnutæki standa óhreyfð. Verðmæti eru ekki sköpuð.

Við hvorki viljum né þurfum aftur þá ofurbjartsýni og fífldirfsku sem gerði stjórnlausum áhættufíklum kleift að koma okkur á kaldan klaka. Með dyggri aðstoð og velþóknun ráðamanna sem létu fámennan hóp pappírsauðkýfinga fara um hagkerfið eins og engisprettur um akur.

Leiðtogar þjóðarinnar leyfðu hópi manna að sölsa undir sig öll helstu fyrirtæki landsins, skipta á milli sín öllum feitustu bitunum. Þeir léku sér með annarra manna fé. Ef einhvers staðar var fé án hirðis þá fengu þeir að hirða það. Þeir fengu meira að segja íslenska ríkisábyrgð fyrir mesta glannaskapnum. Umræðulaust. Enda réðu þeir umræðunni. Kváðu niður alla gagnrýni. Deildu og drottnuðu.

Það er komið miklu meira en nóg af slíku. Það hefur enginn trú á þessu lengur. Hvað gefur þá ástæðu til bjartsýni?

Jú, það er ýmislegt. Kannski fyrst og fremst það, að í lýðræðisríki eins og okkar þá ræður þjóðin á endanum. Hún velur þingmenn og forseta og getur skipt þeim út, hvort sem þeim líkar betur eða verr, þegar þeir hafa brugðist. Það verður án efa gerst við fyrsta tækifæri.

Þjóðin ræður stefunni. Hún getur ákveðið að sópa gamla hagkerfinu á öskuhauga sögunnar og reisa annað, nýtt og miklu betra á rústunum.

Til þess hafa Íslendingar alla burði. Við erum kraftmikil og vel menntuð þjóð, vinnusöm, útsjónarsöm og úrræðagóð. Okkur tókst á tuttugustu öld að byggja upp þjóðfélag sem við vorum stolt af með réttu. Friðsælt, opið og lýðræðislegt þjóðfélag með ein allra bestu lífskjör í heimi.

Við búum enn að öllu því sem þarf til að endurreisa þetta þjóðfélag og gera það enn betra. Fjármálakreppa eyðileggur ekki það sem mestu skiptir. Hún eyðir pappírsverðmætum.

Fólkið er enn hér. Menningin. Sagan. Auðlindir lands og sjávar. Ægifögur náttúran. Virðing fyrir lögum og reglum og trú á friðsamar lausnir. Þetta gerir okkur kleift að halda okkur í hópi þeirra þjóða heims sem búa best að þegnum sínum.

Vitaskuld bíður Íslendinga erfitt verkefni. Það er því miður nær óhjákvæmilegt að ástandið á eftir að versna á marga mælikvarða áður en Gylfi Magnússon á Austurvelli 17.1.09það fer að batna aftur. Það eru engar auðveldar lausnir í boði. Fjölmörg heimili og fyrirtæki eiga eftir að ganga í gegnum erfiða og þungbæra fjárhagslega endurskipulagningu. Ríkið þarf að skera niður og hækka skatta.

Þetta eru ekki skemmtileg verkefni. Það er hins vegar ekkert sem fyrir liggur sem er óviðráðanlegt. Því fer raunar fjarri. Byrðarnar verða þungar um tíma en ef þeim er skipt á sanngjarnan hátt þá verða þær engum óbærilegar.

Nýja hagkerfið fær í vöggugjöf gríðarlegar skuldir. Einkageirinn skuldar mikið og mun raunar aldrei endurgreiða nema hluta þess. Hið opinbera mun skulda talsvert meira en landsframleiðslu eins árs. Það eru skatttekjur fjölmargra ára.

Þetta er auðvitað ekkert fagnaðarefni. Það er ekkert skrýtið að margir bölvi þeim sem komu okkur í þessa stöðu. Það á líka að draga þá til ábyrgðar, bæði siðferðilega og lagalega. Undanbragðalaust. Uppgjör við fortíðina er nauðsynlegur liður í uppbyggingunni.

Skuldirnar eru samt ekki, frekar en annað sem við þurfum að takast á við, óviðráðanlegar. Það hafa ýmis ríki þurft að takast á við skuldir sem þessar og tekist það. Þeim mun örugglega fjölga á næstunni enda því miður ýmis dæmi um ríki sem eru með lítið skárra fjármálakerfi en hið helsjúka íslenska kerfi var orðið undir lokin.

Það má líka ekki gleyma því að Ísland býr, þrátt fyrir allt, að sterku lífeyriskerfi. Það hefur fengið þungt högg. Eftir stendur samt mun betra kerfi en flestar aðrar þjóðir búa að. Þjóðin er líka ung. Það skiptir miklu að íslenska ríkið þarf ekki að hafa verulegar áhyggjur af lífeyrisskuldbindingum landsmanna, ólíkt mörgum nágrannaríkja okkar.

Hvað þarf á að gera? Það þarf að teikna upp nýtt hagkerfi með nýjum leikstjórnendum og nýjum leikreglum.

Um flesta þætti þess er líklega breið samstaða. Flestir vilja bæði öflugan einkageira og opinberan geira. Sá síðarnefndi heldur uppi velferðarkerfi og tryggir öllum aðgang að góðri menntun og heilsugæslu. Hið opinbera setur leikreglurnar og sér til þess að þeim sé fylgt. Þar þarf ýmsu að breyta.

Gylfi Magnússon á Austurvelli 17.1.09Einkageirinn skapar verðmæti og skatttekjur. Hann þarf að losna við meinsemdir útrásarvíkinga, með öll sín eignarhaldsfélög, "Group", bókhaldsbrellur, vogaðar stöður, skattaskjól, eigna- og stjórnunartengsl, pólitísk tengsl og hvað þetta nú allt saman heitir. Þetta er hluti af því sem fara þarf á öskuhauga sögunnar. Ekkert af þessu skapaði nein raunveruleg verðmæti.

Í stað þess getur komið blómlegt atvinnulíf með fleiri og smærri fyrirtækjum, dreifðara en einfaldara eignarhaldi, meiri valddreifingu, meira gagnsæi, hraustlegri samkeppni, meiri nýsköpun, fleiri tækifærum fyrir alla. Opið, sanngjarnt og heilbrigt efnahagslíf.

Það þarf mörgu að breyta. Fyrst hugarfarinu. Sú hugmyndafræði sem kom okkur í núverandi stöðu er andlega gjaldþrota. Þeir sem fóru fyrir henni þurfa að víkja strax af sviðinu og láta öðrum eftir uppbygginguna. Hvort sem þeir eru í stjórnmálum, stjórnkerfinu, fyrirtækjarekstri, fara fyrir hagsmunasamtökum eða voru bara í klappliðinu.

Fyrsta skrefið til fyrirgefningar er að þetta fólk rétti fram sáttarhönd og axli ábyrgð með því að víkja. Því miður hefur lítið sést til þeirrar sáttahandar ennþá. Það glittir bara í löngutöng.

Allt þetta fólk má auðvitað starfa að uppbyggingunni en það má ekki og getur ekki stjórnað henni. Þeir sem strönduðu þjóðarskútunni eiga ekki að stýra henni af strandstað. Þeir geta ekki hvatt landa sína til dáða. Það hefur enginn trú á þeirra lausnum. Þeir mega hins vegar leggjast á árarnar með öllum hinum. Á almennu farrými.

Með nýrri sýn og nýrri forystu verða Íslendingum allir vegir færir. Okkur vantar ekkert annað til að hefja endurreisn Íslands."


Hvað er Íslandi EKKI fyrir bestu?

Og hverjum er ekki sama um Landsfund Sjálfstæðisflokksins? Góðar spurningar. Öðru máli gegnir um laugardagsfundina á Austurvelli, Ísafirði, Akureyri, Selfossi og í dag í fyrsta sinn á Egilsstöðum. Engum ætti að vera sama um þá - hvort sem fólk vill kalla þá mótmælafundi, samstöðufundi eða hvað sem er. Það skiptir minnstu máli. Öllu máli skiptir að mæta og láta þannig í ljós óánægju sína með ótrúleg viðbrögð stjórnvalda og stjórnkerfisins við efnahagshruninu og afleiðingum þess og krefjast úrbóta. Enn er verið að svalla og sukka á kostnað almennings á Íslandi. Lesið bara þetta, t.d. Ef satt reynist er verið að mergsjúga okkur ennþá meira og líkast til með vitund og samþykki stjórnvalda. Bjarga vinum sínum fyrir horn, skítt með afleiðingarnar fyrir þjóðina. Svo kemur Geir í sjónvarpsviðtal og segist ekkert skilja í því af hverju erlendur gjaldeyrir skilar sér ekki inn í landið til að styrkja krónuna! Það þarf enginn að segja mér að hann viti þetta ekki.

Einhverjir lásu kannski þennan pistil þar sem bent var á Eirík Guðmundsson og pistlana hans í Víðsjá. Ég ætla að birta hér þann sem var í Víðsjá í fyrradag, fimmtudag. Í honum kemur glöggt fram hve siðblindir stjórnmálamenn eru... eða hraðlygnir. Er ekki ástæða til að andæfa slíkum hugsunarhætti á Austurvelli - svo dæmi sé tekið?

Eiríkur Guðmundsson - Víðsjárpistlar

Hvað er Íslandi EKKI fyrir bestu?

Það var gaman að heyra í Birni Bjarnasyni dómsmálaráðherra á Morgunvaktinni í morgun. Björn ræddi Evrópumál, enda nýbúinn að senda frá sér bók sem heitir Hvað er Íslandi fyrir bestu? Í þeirri bók fjallar Björn, ef marka má baksíðuna, um stöðu Íslands í hnattvæðingunni, um þátttöku íslands í Schengensamstarfinu, hann spyr hvaða aðferðum beri að beita við töku ákvarðana um Evrópusamstarfið, og hvaða kosti íslendingar eiga í gjaldmiðilsmálum, svo eitthvað sé nefnt, þetta kemur allt fram á baksíðu bókarinnar.

Björn BjarnasonUndir lok viðtalsins á Morgunvaktinni í morgun, var það borið undir Björn hvort það væri ekki undarlegt að hér á landi hefði enn enginn axlað ábyrgð því ástandi sem nú ríkir á Íslandi. Umsjónarmaður gerði því skóna að í öðrum löndum væru menn fyrir löngu búnir að segja af sér. Björn virtist koma af fjöllum, hann sagði að í útlöndum væru menn ekki að segja af sér út af svona hlutum, þar segðu menn af sér af persónulegum ástæðum. Hverjir eru að segja af sér í útlöndum þótt vandinn sé mikill, í öllum löndum, sagði Björn efnislega. Af orðum Björns mátti ráða að á Íslandi hefði ekkert það gerst, sem ekki hefði gerst í öðrum löndum. Afsagnir hér væru því út í hött.

Það var fróðlegt fyrir dauðlegan hlustanda Ríkisútvarpsins að fá innsýn, svo snemma morguns, inn í það hvernig ráðamenn, og í þetta sinn, forystumaður í Sjálfstæðisflokknum hugsa. Um það, hvað Íslandi sé fyrir bestu, nú, í miðjum janúarmánuði árið 2009. Áfram halda fjölmiðlar að spyrja forkólfa um það hvað Íslandi sé fyrir bestu. Hvers vegna? Jú, vegna þess að sömu menn, sömu kólfar, halda áfram að stjórna landinu, þrátt fyrir það sem gerst hefur, þeir halda áfram að ráðleggja mönnum að sækja um mikilvægar stöður, og ráða í þessar sömu stöður. Þeir halda áfram að skrifa bækur með titlinum: Hvað er Íslandi fyrir bestu? Því skyldu menn sem vita hvað Íslandi er fyrir bestu, segja af sér, snemma morguns eða síðla nætur, nei hér hefur ekkert það gerst sem kallar á slíkt.

Íslendingar bera gæfu til að eiga menn sem vita hvað þjóðinni er fyrir bestu, eini vandinn er sá að þjóðin fór á hausinn á meðan þeir réðu ríkjum. Á forsíðu Morgunblaðsins í dag segir að skuldir íslenska ríkisins séu um 2200 milljarðar- 2200 milljarðar, eiga menn að segja af sér út af því? Nei, menn segja af sér út af einhverju persónulegu, ef þeir gera í buxurnar prívat, en ekki ef þeir hafa fylgt og trúað blint á hugmyndafræði, sem gert hefur heila þjóð gjaldþrota. 2200 milljarðar, það er á engan hátt persónuleg tala, að því leyti hefur Björn Bjarnason rétt fyrir sér.

Hvað er best fyrir Ísland? Að fulltrúar þeirrar hugmyndafræði, sem nú er búin að setja þjóðina á hausinn, haldi áfram að stjórna landinu? Að menn sem pissuðu í buxurnar af samúð með Bandaríkjamönnum þegar flogið var á turnana í New York árið 2001, en treysta sér ekki til að fordæma afdráttarlaust og án undanbragða fjöldamorðin í Palestínu, haldi áfram að stjórna landinu? Hvað er best fyrir Ísland? Það hlýtur að vera orðið ljóst að þeir kónar sem mestu hafa ráðið á Íslandi, undanfarin ár vissu ekki hvað Íslandi var fyrir bestu. Ef þeir hefðu vitað það væri þjóðin ekki í þeirri stöðu sem hún er í. Að minnsta kosti ÞAÐ ætti að liggja ljóst fyrir. Meira að segja góðir og gegnir Sjálfstæðismenn átta sig á því. En, Björn Bjarnason, hann virðist enn halda að það sé nokkur eftirspurn eftir því sem honum, og hans félögum finnst vera þjóðinni fyrir bestu - ég dreg reyndar ekki þekkingu Björns á Schengensamstarfinu í efa.

Sennilega heldur Björn Bjarnason að íslenska þjóðin bíði spennt eftir Sjálfstæðisflokkurinnlandsfundi Sjálfstæðisflokksins!!! Að við bíðum spennt eftir einhverjum niðurstöðum landsfundar sjálfstæðisflokksins. Að við séum á nálum, yfir því hvað muni gerast á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Hér hlýtur að vera eitthvað grín í gangi - Þröstur Helgason, blaðamaður Morgunblaðsins, skrifar athyglisverðan pistil í miðopnu blaðsins í dag; Þröstur segir: ,,Hvers vegna ætti okkur ekki að vera sama um það hvað sjálfstæðisflokkurinn ályktar um Evrópusambandsaðild á landsfundi sínum eftir nokkra daga? Á undanförnum vikum og mánuðum hefur nánast allt snúist um þennan blessaða landsfund. .... Sjálfstæðismenn virðast svo uppteknir af þessum fundi að það kemst ekkert annað að. Það er engu líkara en þeir hafi slegið lífinu í þessu landi á frest þar til fundurinn er afstaðinn. Á meðan dýpkar kreppan. Á meðan eykst reiðin. Á meðan átta landsmenn sig alltaf betur og betur á því að þessi flokkur hefur brugðist. Á meðan minnkar fylgið við sjálfstæðisflokkinn." Þetta segir Þröstur Helgason í Morgunblaðinu. Og ekki lýgur Mogginn.

Að lokum þetta:
Á Íslandi undanfarin ár hefur verið rekin glórulaus stefna. Við höfum fjarlægst Norðurlöndin, þokkalegustu samfélög í heimi, og nú er svo komið að við getum varla nefnt okkur í sömu andrá og þau. Við erum úti í mýri. Þökk sé mönnum sem héldu, að þeir vissu hvað væri Íslandi fyrir bestu. Og þessir menn halda ÁFRAM að segja Íslendingum hvað þeim er fyrir bestu. Áfram eru þeir spurðir: Hvað er íslandi fyrir bestu? Ég bið forláts, en þetta gengur einfaldlega ekki upp. Það eru meira að segja til Sjálfstæðismenn sem átta sig á því, þess vegna hefur fylgið hrunið af sjálfstæðiflokknum. 2200 milljarðar, stendur á forsíðu Morgunblaðsins í dag, og ekki lýgur Mogginn. ,,Það liggur í augum uppi að ályktun Sjálfstæðisflokksins um Evrópusambandsaðild á ekki eftir að skipta miklu máli." Stendur í Mogganum í dag. ,,Flokkurinn hefur einfaldlega ekki nægilegt traust til þess að hafa afgerandi áhrif á það hvað þjóðin ætlar að gera í þessum efnum." Stendur í Mogganum í dag. ,,Hann er ekki sá ráðgjafi sem maður myndi kjósa sér í mikilvægum efnum þessa dagana." Stendur í Mogganum í dag. ,,Hugmyndalega er hann gjaldþrota." Stendur í Mogganum í dag.

Herra Björn Bjarnason, hvað er Íslandi fyrir bestu? Herra Hannes Hólmsteinn Gissurarson, hvað er Íslandi fyrir bestu? Herra Geir Haarde, hvað er Íslandi fyrir bestu?

Nei, þetta er að verða gott, þið hljótið að sjá það.

______________________________________________________

Hér er greinin í Morgunblaðinu eftir Þröst Helgason sem Eiríkur vitnar í.

Þröstur Helgason - Mbl. 15.1.09

Og góðar umræður í Kastljósi í gærkvöldi.

Síðan spyr ég aftur sömu spurninga og fyrir viku:

Ó, þjóð mín þjóð... 

Hvar ertu?

Hvar eruð þið, sem skrifið svo fjálglega um ástandið og spillinguna?
Hvar eruð þið, sem ræðið um byltingu í heitu pottunum og á kaffistofunum?
Hvar eruð þið, sem fordæmið bankamenn og útrásarauðmenn?
Hvar eruð þið, sem skammið ríkisstjórn, alþingismenn og embættismenn?
Hvar eruð þið, sem hallmælið gróðærinu og viljið annað siðferði?
Hvar eruð þið, sem eruð ósátt við aðgerðir og aðgerðaleysi ráðamanna?
Hvar eruð þið, sem viljið réttlæti öllum til handa, ekki bara sumum?
Hvar eruð þið, sem hafið tapað á hlutabréfakaupum?
Hvar eruð þið, sem hafið tapað á peningamarkaðssjóðum?
Hvar eruð þið, sem hafið tapað lífeyrinum ykkar?
Hvar eruð þið, sem eruð ósátt við að bankarnir afskrifi skuldir auðmanna?
Hvar eruð þið, sem viljið ekki selja þeim fyrirtækin aftur skuldlaus?
Hvar eruð þið, sem horfið á aldraða foreldra flutta hreppaflutningum?
Hvar eruð þið, sem viljið jafnræði?
Hvar eruð þið, sem sjáið húsnæðislánin ykkar rjúka upp?
Hvar eruð þið, sem hafið misst vinnuna?
Hvar eruð þið, sem viljið kosningar og nýja stjórn?
Hvar eruð þið, sem teljið réttlætiskennd ykkar misboðið?
Hvar eruð þið, sem eruð að lenda í heljargreipum verðtryggingar - sumir aftur?
Hvar eruð þið, sem viljið láta frysta eigur auðmanna?
Hvar eruð þið, sem fordæmið leynd og ógegnsæi aðgerða stjórnvalda?

Hvar er samviska ykkar?


Piparúðapælingar

Frétt ein í tíufréttum RÚV vakti athygli mína umfram aðrar í gærkvöldi. Hún fjallaði um að Landsspítalinn hefði gefið út meðferðarleiðbeiningar vegna piparúða og táragass. Fréttin var svona:

 Ekki er nokkur leið að skilja fréttina öðruvísi en að piparúði og táragas sé eiturefni af vondri sort. Baneitraður andskoti sem getur haft skelfilegar afleiðingar fyrir fórnarlömbin. Engu að síður hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu notað piparúða á mótmælendur þrisvar á stuttum tíma - einu sinni sl. vor og tvisvar síðla árs 2008. Af frásögnum sjónarvotta að dæma og myndum og myndböndum frá atburðunum er afar umdeilanlegt hvort ástæða var til svo harkalegra viðbragða. En ekki er ætlun mín að meta það hér og nú, enda var ég ekki vitni.

Svanur Gísli Þorkelsson, margfróður bloggari, skrifaði pistil um daginn þar sem hann segir svolítið frá piparúða. Ég vitna hér í pistil Svans:

"Bannað er að nota piparúða í stríði samkvæmt I.5 grein alþjóðlega sáttmálans um efnavopn sem undirritaður var árið 1993 og varð að alþjóðlegum lögum 29. apríl 1997.  Sáttmálin er viðauki við hinn svokallaða Genfarsáttmála sem hefur verið í gildi frá því 1925...

...Á Íslandi er piparúði notaður af lögreglu en ólöglegt er fyrir almenning að bera eða beita slíku vopni."

Það er semsagt bannað að nota piparúða í stríði samkvæmt alþjóðlegum samningum og hann er flokkaður sem efnavopn.

Engu að síður notar lögreglan á Íslandi þetta baneitraða efnavopn gegn mótmælendum í einhverjum almestu og alvarlegustu hamförum af mannavöldum sem dunið hafa yfir þjóðina. Þegar ekkert er í rauninni sjálfsagðara og eðlilegra en að fólkið í landinu mótmæli - og það harðlega. Og bæði lögregla og stjórnvöld vita að mótmælin eru rétt að byrja þar sem ekki bólar á að nokkuð breytist eða hinir ábyrgu axli sína ábyrgð, hvorki pólitíska, siðferðilega né annars konar. Það er löngu vitað hverjir eru ábyrgir - þeir vilja bara ekki viðurkenna það. Sjáið þetta til dæmis. Enn ganga allir lausir og allir sitja sem fastast í sínum stöðum og embættum.Er nema von að fólk mótmæli!

Þetta er afskaplega athyglisvert, stórfurðulegt og eiginlega verulega óhugnanlegt. Ég mæli með því að yfirvöld og lögregla endurskoði notkun sína á efnavopnum. Er ekki nóg að valda fólkinu í landinu efnahagslegum, sálrænum og tilfinningalegum skaða? Þarf að valda fólki skaða af völdum efnavopna líka?


Borgarafundurinn í Háskólabíói var magnaður

Mikið var gott að fá að sjá borgarafundinn í Háskólabíói í sjónvarpinu fyrst maður gat ekki verið þar sjálfur - sem á auðvitað við mestalla þjóðina. Þetta var magnaður fundur. Ég get einhvern veginn ekki ímyndað mér hvernig landsbyggðarfólki líður sem ekki hefur tækifæri til að mæta á mótmælafundi, borgarafundi eða annað sem er í deiglunni a.m.k. hérna fyrir sunnan. Það skiptir svo miklu máli - bara fyrir sálina - að fylgjast með því sem er að gerast og vera hluti af því. Vita og finna að flestum líður nákvæmlega eins og manni sjálfum og að fjöldi fólks er að vinna að hugmyndum, tillögum og lausnum í allra þágu.

En hér er upptakan af fundinum sem ég klippti niður í búta eftir ræðumönnum og svo eru spurningar og svör síðast. 

Raffaella Tenconi, hagfræðingur hjá Straumi í London (glærur neðst)

Robert Wade, prófessor í stjórnmálahagfræði (grunnræða hans er hér)

 

Herbert Sveinbjörnsson, heimildamyndagerðarmaður og aðgerðasinni

 

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, stjórnsýslufræðingur

 

Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs

 

Spurningar og svör


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Áskorun til fjölmiðlafólks

Ég er forviða á fjölmiðlum landsins, flestum hverjum. Nú fékk ég í fyrsta sinn að upplifa það, að komast ekki á mótmæla- eða borgarafund vegna veikinda. Varð að sitja heima og treysta á upplýsingar fjölmiðla og fyrst fundinum var hvorki sjónvarpað né útvarpað beint fær maður aðeins eftiráupplýsingar. Hamrað hefur verið á því undanfarna mánuði að góðar, ítarlegar og gegnsæjar upplýsingar til almennings skipti sköpum við að afhjúpa, fræða, skýra og fá þjóðina með í að byggja upp framtíðina.

Skemmst er frá því að segja, að eini miðillinn sem hefur staðið sig sæmilega sómasamlega er RÚV. Í gærkvöldi var bæði sagt frá fundinum í fréttum kl. 19 og 22, sem og viðtal við Robert Wade í Kastljósi. Ekki var minnst á fundinn í hádegisfréttum Bylgjunnar eða kvöldfréttum Stöðvar 2. Ísland í dag fjallaði um Idolið og kjólana á Golden Globe. Kompás fjallaði um krabbamein í hundum. Örsmáar fréttir um að húsfyllir væri í Háskólabíói birtust á mbl.is og visir.is.

Eftir að fundi lauk var ég friðlaus. Í tíufréttum RÚV hafði verið ýjað að sprengjum sem varpað var á fundinum og smátt og smátt, eftir lestur bloggs fundargesta, varð mér ljóst að það var sprengjuregn. Ég þaut milli netmiðlanna en fann smánarlega lítið. Allar aðrar upplýsingar varð ég að fá úr bloggum og tölvupósti. Þetta var á dv.is og þetta á Smugunni. Eyjan birti líka umfjöllun og tengdi í Smuguna. RÚV-vefurinn er dyntóttur í meira lagi og ég komst ekki inn á útvarpsfréttirnar.

Í morgun bjóst ég við ítarlegri umfjöllun prentmiðlanna, Morgunblaðsins og Fréttablaðsins, um fundinn og allar sprengjurnar sem þar var varpað. En viti menn... Þetta er það eina sem kom um fundinn í Mogganum - engin efnisleg umfjöllun.

Háskólabíó fylltist - Mbl. 13.1.09

Og þessi agnarsmáa klausa var í Fréttablaðinu, sem er örþunnt í dag í stað þess að vera stútfullt af greinum og fréttaskýringum af atburðum undanfarinna daga. Það liggur við að þeir hefðu allt eins getað sleppt þessu alveg. Aumara verður það varla.

Salurinn þéttskipaður - Fbl. 13.1.09

Aftur á móti var viðtal við Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur á Morgunvakt Rásar 1 í morgun og RÚV tók fundinn upp og boðaði sýningu á honum eftir tíufréttir á miðvikudagskvöld. Blaða- og fréttamenn fjölmiðlanna eru á nákvæmlega sama báti og við hin - þeim líður eins og okkur. Þeir eru auk þess upp til hópa heiðarlegir, klárir og vilja gera vel. Af hverju láta þeir þagga niður í sér? Hverju er þeim hótað? Hver hótar þeim?

Ég skora á íslenska fjölmiðlamenn og -konur að stíga fram, standa með þjóðinni og sjálfum sér og upplýsa okkur um það sem er að gerast í þjóðfélaginu, á bak við tjöldin og í forarpyttum stjórnmála, stjórnsýslu og fjármála. Láta ekki múlbinda sig lengur. Ráðherra hótaði Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur í gær. Hún sýndi hugrekki, lét það sem vind um eyrun þjóta og lét þjóðinni í té mikilvægar upplýsingar. Ég treysti því að hún standi við orð sín og fylgi þeim eftir. Segi allri þjóðinni sögu sína, ekki bara þeim sem voru í Háskólabíói. Ef allir sem eitthvað vita, bæði fjölmiðlafólk og viðmælendur þess, feta í fótspor hennar með heiðarleika og hugrekki, eigum við von.

Að lokum tek ég ofan minn ímyndaða hatt fyrir RÚV, útvarpi og sjónvarpi.

Viðtal við Robert Wade í Kastljósi

 

Umfjöllun í RÚV-fréttum um borgarafundinn í gærkvöldi


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband