12.6.2009
Valtýr og vanhæfið
Bogi Nilsson, fyrrverandi ríkissaksóknari, sagði sig frá skýrslugerð um hrun bankanna í byrjun nóvember. Hann hafði verið ráðinn til verksins af Valtý Sigurðssyni, eftirmanni sínum í embætti. Bogi gerði hið eina rétta þegar hæfi hans var dregið í efa sökum fjölskyldutengsla, en sonur hans var framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Stoða. Hann hætti.
En Bogi gerði gott betur en að sýna heiðarleika og gott siðferði í þessu máli. Hann skrifaði merkilegt bréf sem ég hengi neðst í færsluna og hvet fólk til að lesa. Valtýr þrjóskaðist við og fannst hann ekki vanhæfur þótt sonur hans væri forstjóri Exista, eins stærsta hluthafans í stærsta bankanum. Valtýr sagði sig þó frá verkinu nokkrum dögum á eftir Boga. Nú þrjóskast hann við aftur.
Það sem mér finnst furðulegast er, að þessum mönnum og öðrum í svipuðum stöðum, bæði í embættismannakerfinu og stjórnmálunum, er í sjálfsvald sett hvort þeir meta sig vanhæfa eða ekki. Stór mál, meðferð þeirra og niðurstaða geta semsagt oltið á siðferði eins manns.
Jafnvel þótt sonur Valtýs hafi ekki stöðu grunaðs, jafnvel þótt Valtýr hafi sagt sig frá málum sem viðkoma sérstökum saksóknara (sjá bréf hans í viðhengi neðst í færslunni), jafnvel þótt Valtýr sé strangheiðarlegur, gegnheill og góður maður - hann er samt vanhæfur til að gegna embætti ríkissaksóknara um þessar mundir. Mér finnst það einhvern veginn segja sig sjálft. Mér finnst líka að hann eigi ekki sjálfur að vera sá sem metur hæfi sitt eða vanhæfi. Það er ekki sanngjarnt gagnvart honum, hvað þá þjóðinni.
Nú þekki ég ekki hvernig kerfið virkar, en mér þætti ekki ólíklegt að Valtýr, í krafti stöðu sinnar, geti haft aðgang að alls kyns gögnum og jafnvel haft áhrif á framvindu mála. Annað eins viðgengst nú aldeilis í þessu gjörspillta kunningjasamfélagi. Illugi segir kerfið ónýtt og byggt á spillingu, klíkuskap og sjálfumgleði. Hárrétt. Það er hvorki rétt eða siðlegt að setja Valtý í þessa aðstöðu - né heldur að hafa þann vafa hangandi yfir öllum málum sem viðkemur rannsókninni. Eva Joly hefur hárrétt fyrir sér - Valtýr verður að víkja alveg úr starfi ríkissaksóknara. Annað er siðlaust og viðheldur tortryggni.
Hér er svolítil upprifjun á máli Boga og Valtýs frá í byrjun nóvember og svo nokkur atriði um mál Valtýs nú. Ég hef þetta í tímaröð og meti svo hver fyrir sig.
Kastljós 3. nóvember 2008
Fréttir RÚV 4. og 6. nóvember 2008
Morgunblaðið og Fréttablaðið 4. og 7. nóvember 2008
Tíufréttir RÚV 10. júní og kvöldfréttir 11. júní 2009
Kastljós 11. júní 2009
Eva Joly í Íslandi í dag 11. júní 2009
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
11.6.2009
Fyrirspurnir og svör Jóhönnu
Þetta fór fram á Alþingi í morgun. Nú vitum við afstöðu forsætisráðherra og væntum þess að nú verði sett í blússgírinn og því breytt sem breyta þarf til að hægt sé að halda áfram leitinni að réttlætinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
10.6.2009
Eva Joly, réttlætið og fimmta valdið
Stundum er sagt að allt sem þurfi sé pólitískur vilji til að eitthvað sé framkvæmt. Vel má vera að svo sé á stundum, en oft er það ekki nóg. Það þarf vilja fimmta valdsins, embættismanna í opinberum stofnunum og ráðuneytum.
Nú er staðan til dæmis þannig, að Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur hafa verið við völd nokkuð lengi. Þeir flokkar hafa reyndar verið við völd stóran hluta síðustu aldar og fyrstu sjö ár þessarar. Sá ósiður hefur tíðkast á Íslandi, og ekki aðeins í opinbera geiranum, að í lykilstöður eru skipuð flokkssystkin, vinir eða venslafólk. Hæfni og menntun kemur málinu yfirleitt ekkert við þótt á því séu eflaust heiðarlegar undantekningar. Líkast til á þetta við alla flokka, en það hefur reynt meira á suma en aðra.
Æ sér gjöf til gjalda. Þessir pólitískt skipuðu embættismenn, og jafnvel nánir vinir fyrri valdamanna, hafa tögl og hagldir í kerfinu. Þeim er í lófa lagið að leggja stein í götu nýrrar ríkisstjórnar þar sem þeim hugnast ekki að aðrir flokkar en þeirra séu við völd. Þannig koma nýir ráðherrar til starfa í ráðuneyti sem er kannski með pólitíska andstæðinga þeirra í lykilstöðum sem hafa allt aðrar hugmyndir en ráðherrann um menn og málefni. Þetta er afleitt kerfi sem verður að breyta. Afnema verður æviráðningar og gera ráðherrum kleift að hafa í kringum sig fólk sem þeir geta treyst.
Þessar hugsanir hafa leitað á mig undanfarna daga og hvort þetta sé ástæða þess að Evu Joly hefur ekkert orðið ágengt í störfum sínum hér. Hún virðist hafa gengið á veggi og orðið fyrir ýmsum hindrunum. Á hana hefur ekki verið hlustað. Þetta er hneisa og skömm. Ég neita að trúa því að stjórnin sem nú situr vilji ekki rannsaka hrun bankanna. Ef þingmenn hafa lagt við hlustir í dag vita þeir að það hefur allt verið brjálað vegna þeirrar stöðu sem Eva Joly er í og orða hennar. Það þarf ekki annað en stikla í gegnum athugasemdir við þessa bloggfærslu Egils Helgasonar og þessa frétt á Eyjunni. Flest annað ber að sama brunni. Nú þarf ríkisstjórnin að vanda sig. Ragna brást skjótt við og skipaði nýjan ríkissaksóknara í málum sem snúa að þessari rannsókn. Nú bíðum við eftir auknu fjármagni í rannsóknina og fleiri saksóknurum eins og Eva Joly bað um. Illugi Jökulsson skrifaði frábært bréf til ríkisstjórnarinnar á blogginu sínu - sjá hér. Ég tek undir hvert einasta orð í þessu fína bréfi Illuga. Hengi líka neðst í færsluna Spegilsviðtal við undirritaða frá því fyrr í kvöld sem á rætur í bréfi mínu til ríkisstjórnarflokkanna - sjá hér.
Ég klippti saman fréttir RÚV og Stöðvar 2 í kvöld um mál Evu Joly. Fréttin á Stöð 2 er stórfurðuleg. Þar talar "fréttakonan" um að "stjórnvöldum sé stillt upp við vegg" og að Joly vilji að "dælt sé peningum í rannsóknina". Tíundað er hver kostnaður af störfum Joly sé við rannsóknina og svo er klykkt út með að Eva Joly hafi neitað viðtali við Stöð 2 í dag. Hljómar dálítið eins og fréttin hafi verið sett upp sem hefnd fyrir það. Hún fór reyndar heldur ekki í viðtal hjá fréttastofu RÚV - bara í Kastljós. Og myndmálið er augljós skilaboð líka. Tveir karlar sýndir ábúðarmiklir við skrifborðin sín með tölvurnar fyrir framan sig. Svo er Eva Joly sýnd í förðun og hárgreiðslu fyrir sjónvarpsupptöku eins og tildurrófa og súmmað inn á rós í vasa. Hvað ætli "fréttakonunni" hafi gengið til? Þetta fannst mér ekki faglega unnin frétt.
Fréttir RÚV og Stöðvar 2 - 10. júní 2009
Eva Joly í Kastljósi 10. júní 2009
Meira um Evu Joly til upprifjunar.
Silfur Egils 8. mars 2009
Fréttir RÚV 8. mars 2009
Mbl-Sjónvarp 9. mars 2009
NRK2 - Eva Joly um Ísland í norska útvarpinu 12. mars 2009
Hjá Önnu Grosvold í NRK 13. mars 2009
Formlega ráðin - Fréttir Stöðvar 2 og RÚV 28. mars 2009
Fyrirspurn til dómsmálaráðherra - Alþingi 8. júní 2009
Norsk heimildarmynd um Evu Joly - fyrri hluti
Heimildarmynd - seinni hluti
Bloggar | Breytt 12.6.2009 kl. 01:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
9.6.2009
Ríkisstjórnin og réttlætið
Seint í gærkvöldi sendi ég þingmönnum og ráðherrum stjórnarflokkanna bréf. Líka utanþingsráðherrunum. Mér var mikið niðri fyrir að venju og ég var óttaslegin. Er það enn. Ég held að samfélagssáttmálinn sé að rifna í tætlur, aðallega vegna skorts á upplýsingum og réttlæti. Réttlætið er einna mikilvægast af öllum þáttum samfélagsins og ein af grundvallarforsendum vonarinnar. Íslenska þjóðarsálin hrópar á réttlæti og þráir von. Réttlætiskennd almennings er líklega dýpri en nokkru sinni og þjóðarsálinni stefnt í voða ef réttlætið nær ekki fram að ganga. Ég held að við getum flest verið sammála um það. En hér er bréfið.
_______________________________________
Ágætu þingmenn og ráðherrar Vinstri grænna/Samfylkingar,
Eflaust kannast flest ykkar við skrif mín á blogginu svo ég eyði ekki tíma í að kynna mig.
En mér er mikið niðri fyrir. Ég er óttaslegin. Það er ekki langt í að ég verði skelfingu lostin. Ekki aðeins vegna óvissrar framtíðar, bæði fjárhagslegrar og annars konar, heldur einnig vegna ókyrrðarinnar, undirtónsins í samfélaginu, undiröldunnar. Ég held að ekki sé langt þangað til allt verður vitlaust og það hefur ekkert með flokkapólitík að gera. Flokkapólitíkina er hægt að hemja, tala til, semja um, stýra upp að vissu marki. En ekki mannssálina. Þjóðarsálina. Hún hefur sitt eðli óháð öllum flokkum og pólitík. Sál íslensku þjóðarinnar er um það bil að bresta.
Stundum finnst manni eins og fólk missi jarðsambandið um leið og það sest á þing. Kannski á það við eitthvert ykkar, ég vona þó ekki. Ef ekki þá hljótið þið að finna þessa undiröldu sem þyngist með hverjum deginum sem líður. Kannski hafið þið ekki mikinn tíma til að lesa blogg, athugasemdir og fleira á netinu sem gefur til kynna ástandið í samfélaginu. En þið verðið að vita þetta, hvernig sem þið aflið vitneskjunnar.
Ég þarf ekkert að tíunda hvað komið hefur fyrir íslenska þjóð. Við vitum það öll. Þið eruð í afleitu hlutverki við að moka grómtekinn flórinn eftir fyrirrennara ykkar. En í mestu vinsemd langar mig að benda ykkur á, að að minnsta kosti einhver ykkar virðast hafa misskilið hlutverk sitt - og vilja þjóðarinnar. Þið eruð um það bil að missa þjóðina og ef svo fer verða það ykkar stærstu mistök og gæti reynst afdrifaríkara en nokkurn grunar. Örvæntingin er skelfileg. Hvað tekur fólk til bragðs sem hefur engu að tapa lengur?
Búsáhaldabyltingin í vetur gekk ekki aðeins út á "vanhæfa ríkisstjórn". Hún gekk líka út á gagnsæi, upplýsingar og ekki síst réttlæti. Ekkert af þessu höfum við fengið. Og eftir þessu er kallað... og það hátt. Þolinmæði almennings er ekki söm og áður - og verður kannski aldrei framar. Við höfum lært okkar lexíu - en hafið þið lært ykkar?
Hinum almenna Íslendingi svíður að fá ekki nema lágmarksupplýsingar, gagnsæið er ekkert og lítið bólar á réttlætinu. Mig langar að biðja ykkur að lesa tvo nýlega bloggpistla: Með stein í maga og verk í hjarta og Heimsk þjóð með gullfiskaminni? Takið sérstaklega eftir hinum miklu viðbrögðum og á hvaða nótum þau eru. Icesave-málið er gríðarlega stórt og eldfimt - en við fáum engar upplýsingar um það. Hvernig ætlist þið til að fá þjóðina með ykkur - sem er lífsnauðsynlegt fyrir stjórnina - ef þið gefið henni ekki upplýsingar um það sem verið er að steypa yfir hana?
Vonandi er ekkert ykkar í þeim hópi sem tekur ekki mark á neinu nema það birtist annaðhvort í prentmiðlum eða ljósvakamiðlum. Þjóðarsálin er á netinu. Á blogginu og Facebook. Ef þið fylgist ekki með þessum miðlum eruð þið ekki með á nótunum, svo einfalt er það.
Það verður að auka gagnsæið í íslenskri stjórnsýslu og stjórnarathöfnum. Gefa skýringar, útskýra fyrir okkur eins og við séum 10 ára börn. Ef embættismannakerfið leyfir það ekki verður að skipta þar um fólk. Það verður að dæla út upplýsingum - með skýringum á mannamáli. Af hverju hefur ríkisstjórnin ekki ráðið sér fólk til að sinna upplýsingastreymi og útskýringum til almennings og fjölmiðla?
Einna mikilvægast er að þjóðin viti að verið sé að róa öllum árum að því að réttlætið nái fram að ganga. Eitt af því almikilvægasta sem bráðabirgðastjórnin gerði fyrir þjóðina, að öllu öðru ólöstuðu, var að ráða Evu Joly til starfa sem ráðgjafa sérstaks saksóknara. Ef þið viljið og hafið tíma til að rifja upp viðtalið við Evu Joly í Silfri Egils er það hér:
Eva Joly í Silfrinu 8. mars 2009
Ég bið ykkur líka að lesa þessa bloggfærslu: Straumur vonar. Þarna segi ég m.a.: "Það gerist ekki oft að einhver höfði svona sterkt til heillar þjóðar. Undanfarna daga hefur farið straumur um þjóðfélagið - straumur vonar. Ferill, framkoma og ekki síst orð Evu Joly vöktu þá von með þjóðinni að ef til vill nái réttlætið fram að ganga þrátt fyrir allt - þótt síðar verði. Við skynjum öll hve nauðsynlegt það er og munum öll leggja okkar af mörkum ef með þarf. Að minnsta kosti við sem höfum hreina samvisku - og það er meirihluti þjóðarinnar. Ég efast ekki um það eitt augnablik."
Þið gáfuð okkur von þegar þið réðuð Evu Joly til starfa. Vonin er einn sterkasti þáttur mannssálarinnar og mannlegra tilfinninga. Fólk getur umborið og þolað alls kyns óáran ef það eygir von, ekki síst um réttlæti. Eins og Eva Joly sagði í viðtalinu: "...því er þörf á réttlæti. Það er fyrir öllu. Þetta fólk má ekki komast upp með þetta. ... Aðeins innanlandsrannsókn getur leitt það í ljós. Þið hafið ekki rétt til að sleppa þessari rannsókn." Eva sagði jafnframt: "Réttlæti er grundvallaratriði fyrir hvert þjóðfélag, samfélagssáttmálinn og skilningur á því að vera þjóð og búa saman."
Er ekki kominn tími til að þjóðin fái fregnir af störfum Evu Joly, hinna erlendu sérfræðinga sem hún ætlaði að útvega og að okkur verði skýrt frá gangi mála? Við bíðum og bíðum en heyrum ekkert. Þörf samfélagsins fyrir réttlæti er meiri en orð fá lýst og eins og áður sagði er hægt að umbera margt ef við sjáum fram á að réttlætinu verði fullnægt.
Ég fylgist mjög vel með undiröldu þjóðarsálarinnar og nafn Evu Joly er ávallt tengt þessari von. Hún er holdgervingur vonar íslensku þjóðarinnar. Enda er réttlæti grundvallaratriði.
Ég skrifa þetta bréf af heilum hug og miklum velvilja þótt ekki sé ég í flokknum ykkar. Á morgun eða hinn birti ég bréfið á bloggsíðu minni og svörin frá ykkur - ef einhver berast. Ef einhver svarar en vill ekki að ég birti svarið bið ég þann hinn sama að geta þess.
Með vinsemd og hóflegri virðingu,
Lára Hanna Einarsdóttir
www.larahanna.blog.is
______________________________________
Viðtakendur bréfsins voru alls 36 og þegar þetta er skrifað hef ég fengið fjóra tölvupósta og eina upphringingu. Einn svarpósturinn var hraðskrifuð lína á hlaupum frá Guðfríði Lilju (Vg) sem þakkaði fyrir póstinn og sagðist svara betur í kvöld. Símtalið var frá Svandísi Svavarsdóttur (Vg). Hún náði ekki í mig, skildi eftir skilaboð í talhólfinu, ég reyndi að hringja í hana um leið og ég gat en náði ekki í hana. Við höfum semsagt ekki náð saman ennþá. Póstarnir þrír sem eftir eru fara hér á eftir. Þeir eru frá Álfheiði
Ingadóttur (Vg), Jónínu Rós Guðmundsdóttur (S) og Ólínu Þorvarðardóttur (S).
Þingmenn og ráðherrar eru væntanlega önnum kafið fólk sem fær mikinn póst eins og Ólína nefnir. Maður kemst aldrei yfir að svara öllu, það þekki ég mjög vel af eigin reynslu undanfarið ár. Ég er þakklát fyrir þó þau svör sem ég fékk. Ég les ekkert sérstakt í það að fá ekki meiri viðbrögð þótt það hefði verið vel þegið, en vona þó að allir hafi a.m.k. lesið bréfið og tekið innihaldið til alvarlegrar athugunar. Athyglisvert fannst mér að svarendur eru allt konur. En hér eru bréfin þrjú:
Sæl Lára mín Hanna og takk fyrir þessa brýningu og alla pistlana.
Já ég les bloggið a.m.k. þitt og var búin að renna yfir athugasemdirnar. Ég er líka hrædd við þessa reiði og ekki síður óttann sem menn eru haldnir. Okkur er held ég alveg ljóst að við þurfum að ná betri árangri í því að opna stjórnsýsluna og ég vona að í þessu Icesave máli muni öll gögn koma uppá borðið strax og málið verður lagt fram á alþingi. Það geta ekki verið margir dagar í það. Einhvern veginn endist okkur ekki sólarhringurinn þessa dagana, fyrst Icesave og svo 170 milljarða niðurskurður næstu 3 árin. Það er skelfilegt verkefni get ég sagt þér.
En takk fyrir aftur og aftur. Kv. Álfh
Takk fyrir bréfið Lára Hanna - ég skynja líka undirölduna og um leið að það er auðveldlega hægt að slá á hana með skýringum og upplýsingum - ég deili því sjónarmiðum þínum um að veita þurfi upplýsingar og mun leggja mitt á þær vogarskálar að slíkt verði veruleiki.
Kær kveðja Jónína Rós
_______________________
Sæl Lára Hanna mín og takk fyrir bréfið.Ég hef setið í óðaönn við að svara þeim sem hafa sent mér áskoranir að undanförnu. Svar mitt hef ég nú birt á blogginu hjá mér líka, svo það er alveg ljóst hver mín afastaða í þessu máli er http://olinathorv.blog.is/blog/olinathorv/entry/893088/
Ég hef kynnt mér þetta mál svo vel sem mér er unnt og komist að þeirri niðurstöðu að það sé réttast af okkur að taka þessum samningi og leysa þjóðina þar með af þeim klafa sem er að kollsliga atvinnulíf okkar og lífskjör. Vissulega þýðir þetta þyngri byrðar á okkur öll - en við vissum að það yrðu lagðar á okkur byrðar. Og við sem ætlum að búa í þessu landi verðum að taka við þessum byrðum og axla þær. Ef ekki sjálfra okkar vegna, þá framtíðarinnar vegna. Það er ekki sanngjarnt. Það er ekki réttlátt. En hver á að reisa landið við? Gerir það einhver fyrir okkur? Við verðum sjálf að taka hleðslugrjótið, stein fyrir stein, og bera það að byggingunni. Það er erfitt, ég veit það. Við erum misvel til þess búin að axla þessi þyngsli - en hver er hinn kosturinn? Að loka landinu?
Hefur þú aðra leið? Hefur einhver bent á aðra færa leið?
Þetta mál hefur reynst þingmönnum afar erfitt. Það er ekki auðvelt að móta yfirvegaða skoðun þegar barin eru búsáhöld í eyrun á manni og póstkerfið fyllt af áskorunum sem sendar eru margsinnis af sama fólkinu. Það er ekki þægilegt að taka við skítkasti og skömmum fyrir skoðun sína. Einmitt þess vegna er mikilvægt að maður sé sjálfur sáttur við afstöðu eigin afstöðu og að hún sé vel ígrunduð.
Ég hef svarið þess eið að hlýða samvisku minni og láta þjóðarhag ráða afstöðu minni til hvers máls. Það hyggst ég gera í þessu máli sem öðrum. Slík afstaða kallar á kjark - því vitanlega væri auðvelt núna að dansa bara eftir háværustu röddunum. Ég er bara ekki þannig kona - og nú er meira í húfi en persónulegar vinsældir. Nú er hagur þjóðar í húfi.
Ég ætla að greiða atkvæði með þessum samningi, og bið þig að virða ákvörðun mína.
Þín bloggvinkona - þinn þingmaður,
Ólína Þorvarðardóttir.
Ég fékk lengsta SMS sem ég hef fengið frá Svandísi fyrr í kvöld. Sá það fyrst núna, heyri ekkert í símanum þegar hann er ofan í tösku. En svona hljóðuðu skilaboðin:
Agalegt að vera tölvulaus og á leið út á land þegar mig langar virkilega að skrifa þér línur.
Ég deili áhyggjunum yfir því að við tölum ekki nógu opið. Við verðum að opna umræðuna og allar upplýsingar miklu betur. Verkefnin eru hrikaleg - niðurskurður og sparnaður. Og líka þar sem það kemur illa niður.
Ég hef þá einlægu skoðun að fólk sem vill jöfnuð og félagslegt réttlæti eigi að sitja undir stýri í gegnum þennan erfiða tíma. AGS mun reynast okkur erfiður en engan veginn eins erfiður þó og það, ef okkur auðnast ekki að halda þjóðinni upplýstri og trausti í samfélaginu á það sem verið er að gera.
Brýnast af öllu samt er að fólk eygi von. Alvöruvon fyrir sig og börnin sín. Í þágu þess vil ég vinna. Og vanda mig. Fólk eins og þú er algjörlega ómetanlegt á sinni síkviku, vakandi og gagnrýnu vakt. Heill þér!
Kveðja, Svandís
Sæl Lára Hanna og þakka þér fyrir póstinn.
Það er mikil ólga í samfélaginu, þar er ég þér sammála og hún veldur mér miklum áhyggjum. Þjóðin krefst réttlætis, gegnsæis og upplýsinga og stjórnvöld reyna að bregðast við þessari kröfu en verkefnið er yfirþyrmandi fyrir lítið stjórnkerfi.Í pósti þínum segir þú:
"Er ekki kominn tími til að þjóðin fái fregnir af störfum Evu Joly, hinna erlendu sérfræðinga sem hún ætlaði að útvega og að okkur verði skýrt frá gangi mála? Við bíðum og bíðum en heyrum ekkert. Þörf samfélagsins fyrir réttlæti er meiri en orð fá lýst og eins og áður sagði er hægt að umbera margt ef við sjáum fram á að réttlætinu verði fullnægt."
Það má segja að í dag höfum við fengið fréttir af Evu Joly og störfum hennar! Það voru þó ekki fréttirnar sem við vorum að vonast eftir. Ég er þó ánægð með að við höfum verið upplýst um stöðu mála því þá er hægt að bregðast við og bæta úr. Það er frábært að við höfum konu eins og Evu Joly sem ber í borðið og talar út um hlutina. Sem þingkona mun ég beita mér fyrir því að farið verði að ráðum Evu Joly. Ég fagnaði eins og flestir aðrir ákaft þegar hún kom til liðs við okkur í vor og fann fyrir þeirri von að réttlætinu yrði fullnægt. Þá von megum við ekki missa.
Bestu kveðjur
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir
____________________________________
Kæra Lára Hanna.
Takk fyrir bréfið og alla þína ötulu baráttu og vinnu. Ég finn að sjálfsögðu undirölduna sem þú talar um enda kraumar hún líka innra með mér eins og svo mörgum okkar.
Í takt við hugleiðingar þínar hefur mér undanfarið verið hugsað til hins góða slagorðs Öryrkjabandalagsins "Ekkert um okkur án okkar." Ég held að frá því í vetur megi heimfæra þetta slagorð upp á þjóðina alla og skilaboð hennar til stjórnvalda hvaða nafni sem þau nefnast - Ekkert um okkur án okkar.
Varðandi Ice-Save þá hlýtur það að vera eðlileg og réttmæt krafa að allar upplýsingar komi upp á borð svo allir - allir - geti sett sig inn í málin og tekið upplýsta afstöðu. Þannig á það að vera í öllum málum. Mikilvægum spurningum er í mínum huga enn ósvarað og ég vil skilja málið til fulls. Málið er ekki enn komið formlega fyrir þingið og því höfum við ekki gögn í höndunum. Þegar það kemur inn í þing ættu gögnin að verða opinber svo bæði ég, þú og aðrir nágrannar geti lesið og sett sig inn í málin. Ég hef sjálf sagt að ég hafi alla fyrirvara á Ice-Save og tel að sönnunarbyrðin hvíli hjá þeim sem telja þetta "einu leiðina". Málið allt er augljóslega afurð alls þess sem á undan gekk í haust og í vetur og þá ömurlegu aðstöðu sem Ísland var sett í - það er með ólíkindum hvernig þessi mál voru látin þróast og þyngra en tárum taki. Ljóst er að hvor leiðin sem farin er núna á þessum tímapunkti - að samþykkja eða hafna - getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Þær afleiðingar þarf að teikna betur upp í hvoru tilfellinu sem er, vega og meta hvort um sig og taka svo afstöðu út frá því. Það er algjört grunnprinsip að þjóðin sé ítarlega upplýst um málið og sé með. Ég veit ekki betur eins og ég segi en að þessi gögn komi einmitt öll upp á borð.
Og þá kemur einmitt að samfélagssáttmálanum. Ég er sammála þér um Evu Joly og hversu mikið grundvallaratriði það er að málin séu rannsökuð ofan í kjölinn með handleiðslu fremstu sérfræðinga, peningaslóðin sé elt og ALLT sé gert til að ná í fjármagnið hvar sem það er. Þetta MÁ EKKI KLÚÐRAST og hér má ekkert gefa eftir. Augljóslega sjá enn valdamikil öfl (og þau leynast mjög víða!) sér beinan hag að því að sem minnst sé rannsakað og að slóðin sé ekki elt. Ég segi aftur: Hér verðum við öll að leggjast á eitt sem áhuga höfum á þessum málum því að öflin sem vilja að þetta sé ekki gert eru augljóslega mörg og þræðirnir sterkir. Ég hef oftsinnis sagt það alveg frá því í haust að mér finnist við ekki eiga að sjá eftir einni krónu sem fer í rannsókn þessa máls - það sé einmitt einn meginþráður þess að við komumst í gegnum þetta saman að við getum öll gengið að því sem vísu að ALLT sé gert í þessum efnum. Ef þetta sé ekki gert (sem augljóslega hefði átt að gera af krafti strax í haust - hvílíkur dýrmætur tími sem liðinn er) þá er engin leið að hér geti skapast sátt. Ég fagnaði því mjög þegar Eva Joly var ráðin og vil að farið sé eftir hennar ráðum og sérfræðiþekkingu, punktur.
Upplýsingar, upplýsingar, upplýsingar - opnari vinnubrögð, það er leiðin fram á við. Það breytir ef til vill ekki þeirri djúpu efnahagskreppu sem við erum í - hún verður hér með okkur næstu árin (en um leið er mikilvægt að muna að henni MUN ljúka, þetta er tímabundið!) - en það breytir einmitt öllu um samfélagssáttmálann, að við séum öll með, vitum öll hvað er í gangi og á hvaða forsendum, og getum séð að snefill af réttlæti eigi að ná fram að ganga.
Læt þetta nægja í bili. Ég kemst ekki yfir helminginn af tölvupóstunum mínum og talhólfið mitt yfirfyllist ósvarað á hverjum degi en við höldum áfram að hlaupa... mér er sagt að byltingin sé maraþon er það ekki?!
Lilja
Sæl vertu, Lára Hanna, og afsakaðu hvað ég svara þér seint.
Þakka þér fyrir ítarlegt og vel rökstutt bréf. Ég tel mig fylgjast sæmilega vel með í fjölmiðlum - líka bloggi og opinberunarbók - og tek undir það með þér að þar fæst ágætur mælikvarði á stemmningu, strauma, angist og gleði. Við lifum enga venjulega tíma, Íslendingar. Traustið er svo að segja horfið, bæði innanlands en ekki síður traust annarra ríkja á okkur sem ábyrgu landi. Allar þær erfiðu og oft óvinsælu aðgerðir sem gripið verður til miða að því að efla traust og trú og gera Ísland aftur fjárhagslega sjálfstætt og öflugan hlekk í samfélagi þjóða.
Samningurinn við AGS, samningar um Icesave, niðurskurður í ríkisrekstri, baráttan gegn atvinnuleysi, lægri vextir, nýr gjaldmiðill og tryggur samastaður Íslands í Evrópu. Allt miðar þetta að sama marki að Ísland endurheimti stöðu sína og traust með því að gefa skýr skilaboð um stefnu og markmið stjórnvalda. Í mínum huga er og verður það aldrei kostur að loka landinu og segja sig úr lögum við umheiminn. Menn gerðu alvöru atlögu að því markmiði í haust með fyrrverandi seðlabankastjóra fremstan í flokki. Þeirri atlögu var góðu heilli hrundið. Leið okkar út úr kreppunni og til endurreisnar verður að vera í samvinnu við önnur ríki, sem hafa hagsmuni að verja, eins og við. Algjör uppstokkun ríkisstofnana, embættismannakerfið og opinberrar stjórnsýslu er einnig nauðsynleg forsenda þess að hér sé hægt að byggja betra samfélag.
Að síðustu, um Evu Joly. Hún stendur fyrir sínu sú kona og hefur þann dásamlega eiginleika að hrista upp í valdastrúktúr feðraveldisins svo um munar. Ég er sammála þér um það að almenningur treystir Evu Joly. Það geri ég líka. Hún er mikill fengur á erfiðum tímum.
Með góðri kveðju,
Þórunn Sveinbjarnardóttir,
alþingismaður
Bloggar | Breytt 17.6.2009 kl. 21:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (70)
Hér er fjórði kafli í umfjöllun Ekstrablaðsins 2006 um íslenska auðjöfra. Þetta er skuggalegt. Smellið þar til læsileg stærð fæst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Þá er það þriðji kafli umfjöllunar Ekstrablaðsins 2006 um íslensku auðjöfrana. Smellið þar til læsileg stærð fæst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hér er næsti kafli í umfjöllun Ekstrablaðsins frá 2006 um íslensku auðjöfrana. Smellið þar til læsileg stærð fæst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Ég birti myndbönd eftir Arnar Steinþórsson 28. nóvember. Kíkið á þau og rifjið upp. Þarna spjallar Arnar við blaðamann sem stýrði rannsóknarhópi sem fór ofan í saumana á viðskiptum nokkurra íslenskra útrásarauðjöfra og spáir í hvaðan fjármagnið kemur. Blaðið var danska Ekstrablaðið og það hlaut bágt fyrir hjá íslenskum banka- og stjórnmálamönnum. Og íslenskum fjölmiðlum sem á annað borð minntust á málið. Prófið að gúgla: +Ekstrablaðið +2006 og sjáið hvað þið finnið. Allir að íhuga að lögsækja Ekstrablaðið. Mikið fjör.
Ég er sannfærð um að margir muna eftir þessu og alveg jafnsannfærð um að flestir geta lesið og skilið dönsku. Það sem ég á af þessari umfjöllun nær yfir 4 daga - frá 29. október til 1. nóvember 2006. Hér er dagur númer 1 - 29. október 2006. Smellið þar til læsileg stærð fæst.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
7.6.2009
Heimsk þjóð með gullfiskaminni?
Gífurleg reiði er í þjóðfélaginu vegna Icesave-samninganna. Mér heyrist sú reiði vera þverpólitísk með öllu þótt alltaf glitti í óþolandi og að því er virðist óhjákvæmilega flokkadrætti og skotgrafahernað. En svo eru þeir sem - ýmist af flokkspólitískum hvötum eða ekki - minna landsmenn á hvað þeir séu nú vitlausir og með mikið gullfiskaminni. Þetta Icesave-dæmi sé búið að vofa yfir mánuðum saman og sé ekkert nýtt. Þeir spyrja hvort við sem erum reið séum búin að gleyma því? Samningurinn eigi ekkert að koma á óvart - og því ekki að valda vonbrigðum eða reiði. Einmitt það.
Myndi einhver segja viðlíka við mann sem var að missa konu sína úr krabbameini sem þau höfðu barist við saman í tja... segjum þrjú ár? "Það þýðir ekkert að reiðast eða gráta, Palli minn. Þú ert nú búinn að vita í hvað stefndi svo lengi." Auðvitað dytti engum í hug að segja þetta. Mannssálin er skrýtin skepna og eitt af því sem einkennir hana er vonin. Þótt maður búist við hinu versta og viti að það komi þá vonar maður í lengstu lög að málin leysist farsællega. Hangir í voninni fram í rauðan dauðann. Alveg sama hvað um er að ræða. Barnalegt? Kannski. En mannlegt er það.
Þannig var það með íslensku þjóðina og Icesave. Við vonuðumst eftir réttlæti. Þótt ekki væri nema lágmarksréttlæti. Icesave-samningurinn á nákvæmlega ekkert skylt við réttlæti. Þar er verið að binda íslenskan almenning á skuldaklafa án þess að þessi sami almenningur hafi nokkuð til saka unnið, geti á neinn hátt varið sig eða haft áhrif á niðurstöðuna. Það er kjarni málsins. Samningurinn hefur verið yfirvofandi lengi. Við vonuðum það besta en fengum loks skellinn. Vondan, sáran, óréttlátan skell. Auðvitað erum við reið.
Ómar Valdimarsson kallar okkur gullfiska og segir reiðina skrípalæti. Egill Helgason hefur birt þrjár bloggfærslur til að sýna okkur fram á hvað þetta sé eðlileg niðurstaða. Við eigum að borga skuldir okkar. Í þeim síðasta minnir hann á hve Finnar voru stoltir af að hafa borgað skuldir sínar, einir þjóða, eftir fyrri heimsstyrjöldina. Mörður Árna segir of seint að vera svartsýn. Hann minnist reyndar ekki á hvort það er of snemmt eða seint að vera reiður. Einhverjir tala um lagatæknileg atriði og þar ber einna hæst gildi jafnræðisreglunnar. Allir innistæðueigendur eiga að vera jafnir, jafnt innlendir sem erlendir. Ég get tekið undir það, en ekki varist þeirri hugsun um leið hvort allir þjófar eigi ekki líka að vera jafnir. Allir glæpamenn. Verður Björgólfur Thor látinn borga eins og við hin? Ríkir eitthvert jafnræði milli okkar og hans? Verður Sigurjón Árnason, faðir Icesave og sem kallaði þessa reikninga "vöru" í sjónvarpsviðtali (sjá neðsta myndbandið hér), tekinn og fangelsaður eins og Lalli Johns eða Árni Johnsen? Hvítbókin auglýsir eftir Icesave-mönnum hér og Eyjan segir frá grein um útrásarglæpamennina hér, mbl.is hér.
Ég hef engu gleymt. Á alla sögu hrunsins í máli og myndum í tölvunni minni. Ég veit mætavel og hef margoft skrifað um hverjir eru ábyrgir. Ég kenni ekki Vg um Icesave og aðeins sumum í Samfylkingunni. Núverandi stjórn sem slíkri er ekki um að kenna. Hún er að þrífa skítinn eftir 20 ára óstjórn, geðveiki og græðgisvæðingu undanfarinna ára. Og það er holur hljómur í gagnrýni Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna. Ég get ekki með nokkru móti tekið mark á orðum þeirra, upphrópunum og ásökunum. Flokkarnir þeirra eru ábyrgir fyrir Icesave, svo mikið er víst. Icesave varð til á þeirra vakt og þeir gripu ekki til nauðsynlegra og vel mögulegra ráðstafana til að firra íslenskan almenning ábyrgð á þeim. Þeir, sem áttu að gæta hagsmuna almennings, steinsváfu á vaktinni. Við gjöldum þess nú.
Og ég er reið. Öskureið. Reiði mín er mjög eðlileg og ég tel mig eiga fullan rétt á að tjá hana án þess að vera uppnefnd gullfiskur eða eitthvað álíka niðurlægjandi. Að segja reiði mína óréttmæta eða kjánalega er í mínum huga svipað og að segja ekklinum Palla að hann sé aumingi ef hann reiðist vegna dauða konu sinnar og að sorg hans sé skrípalæti. Jafnvel þótt hann hafi vitað í hvað stefndi.
Mér er ekkert sagt um þessa samninga, enginn gerir neitt til að gera mér þá léttbærari, enginn útskýrir nokkurn hlut fyrir mér. Það er bara sagt að þetta sé nauðsynlegt. Þó segja lagaspekingar og ýmsir aðrir að svo sé ekki. Hverjum á maður að trúa? Hvar er réttlætið í þessu öllu saman? Hvar er réttlætið í því að þeir sem eru augljóslega ábyrgir ganga lausir, hafa það bara helvíti fínt, takk og baða sig í peningum eins og Jóakim Aðalönd? Þeir brutust inn hjá okkur og stálu öllu steini léttara. En okkur, fórnarlömbunum, er stungið inn fyrir glæpinn á meðan þeir, glæpamennirnir, ganga lausir og njóta þýfisins. Þó er vitað hverjir þeir eru og hvar er hægt að ná í þá.
Mig þyrstir eftir réttlæti. Ég vil fá upplýsingar. Ólafur Ísleifsson, hagfræðiprófessor, komst ágætlega að orði í fréttum RÚV í gærkvöldi. Ég tek undir orð hans: "Það getur vel verið að þetta séu ekki mistök. En það verður þá að minnsta kosti að sýna fólki fram á það".
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (119)
5.6.2009
Með stein í maga og verk í hjarta
Ég er með óþægilega, óttablandna ónotatilfinningu. Níðþungan stein í maganum og nístandi verk í hjartanu. Og ég er reið. Öskureið. Nú á að skrifa upp á himinháa skuldaviðurkenningu vegna Icesave. Sex hundruð og fimmtíu þúsund milljónir - 650 milljarða - með ótrúlega háum vöxtum miðað við t.d. það sem kemur fram hér. Bara vextirnir á ári eru 35 milljarðar. Hækkunin á tóbaki, áfengi, eldsneyti og bifreiðagjöldum fyrir rúmri viku skilar ríkissjóði 2,5 milljörðum á ári. Bara vextirnir af Icesave-skuldinni eru fjórtánföld sú upphæð. Sársaukafullur niðurskurður alls staðar í þjóðfélaginu nægir varla fyrir vöxtunum einum saman. Meintar eignir og útlánasöfn eiga að ganga upp í skuldina - en enginn veit með vissu hvers virði eignirnar og útlánasöfnin eru. Kannski einskis virði. Þetta er náttúrulega bara bilun.
Fyrir hrun vissi ég ekki að Icesave væri til og skammast mín ekkert fyrir að viðurkenna það. Ég fylgdist ekki mjög náið með því sem var að gerast í bankastarfsemi. En nú á ég að borga þessa endemis vitleysu - og börnin mín og barnabörnin líka. Kannski barnabarnabörnin. Ég er ekki sátt, lái mér hver sem vill. Ég vil ekki borga þetta - ég neita að borga skuldir sem ég ber enga ábyrgð á. Ég segi NEI!
Ég leit á þingpalla í dag og varð vitni að sirkusnum þar. Sá sirkus fólst aðallega í því að horfa upp á þingmenn flokkanna sem bera höfuðábyrgð á þeirri aðstöðu sem við erum í skammast út af upplýsingaskorti, leynd, fjarveru ráðherra og þingmanna stjórnarflokka... og Icesave-samningum. Þó var það á þeirra vakt sem Icesave og margt fleira varð til. Það voru þeir sem gáfu bankana fyrir lítið og afnumdu regluverkið. Það voru þeir sem flutu sofandi að feigðarósi. Þeir sáu um að skuldbinda þjóðina til að borga Icesave-sukkið. Þeir beittu nákvæmlega sömu leynd um allt milli himins og jarðar. Beittu ráðherravaldi, hunsuðu löggjafarþingið, gáfu skít í almenning í landinu. Þeim ferst að tala, hugsaði ég með mér - og fór. Þó hvarflar ekki að mér að samþykkja þennan Icesave-samning því ég hef engar forsendur til þess. Ég hef ekki fengið neinar þær upplýsingar sem gera mér kleift að meta málið. Þetta er nefnilega trúnaðarmál. Leyndó. Má ekki segja-mál. Enda "bara" um 650 milljarða að ræða. Síðast þegar ég vissi var þjóðarframleiðslan 1.500 milljarðar á ári. Við getum þetta ekki, svo einfalt er það.
Djöfull sem mig langar að segja "Helvítis fokking fokk", en ég er kurteis og vel upp alin og blóta því helst aldrei, a.m.k. ekki opinberlega.
Ég var að grufla og fann þessa umfjöllun úr Fréttablaðinu frá 16. júní 2005 - fyrir fjórum árum. Tveimur og hálfu ári eftir að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn færðu vinum sínum bankana á silfurfati. Þarna hafði Seðlabankinn nýlega hækkað stýrivexti í 9,5% til að hemja verðbólguna. Ég fann þá tölu í fróðlegu yfirliti Fjármálaráðuneytisins yfir árið 2005.
Frá sama mánuði, júní 2005, fann ég tvær greinar eftir Þorvald Gylfason sem voru athyglisverð lesning, svo ekki sé meira sagt. Sú fyrri er hér og seinni hér. Segið svo að enginn hafi varað við!
Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld var sagt að Hannes Smárason væri að selja íbúð sína í London fyrir 1,5 milljarða. Líklega er það þessi íbúð. Á Hvítbókinni er sagt frá glæsivillu sem hann ku eiga í Ameríku - sjá hér. Hann á líka tvö glæsihús í Reykjavík. Mér er í fersku minni þegar sagt var frá íbúðinni sem Sigurður Einarsson keypti sér rétt fyrir hrun fyrir 2 milljarða - sjá t.d. hér. Og hér er sagt frá óðalssetri Jóns Ásgeirs í Washington. Margir muna eftir þessari bloggfærslu Kjartans Péturs frá 14. október með loftmyndum af sveitasetrum banka- og auðmanna á Íslandi. Hvítbókin kíkti líka í heimsókn til þeirra fyrir skömmu - sjá hér. Svo er það Björgólfur Thor. Hann er ekki á flæðiskeri staddur, enda ætlar hann að láta okkur borga skuldirnar sínar eins og hinir auðjöfrarnir. Hann var myndaður með ríka og fræga fólkinu í Cannes nýverið - sjá hér. Og hann á snekkju, einkaþotu og kannski fleiri milljarðaleikföng. Við borgum. Björgólfur Thor á líka Nova-símafyrirtækið og ég bendi á að allir sem skipta við Nova eru að borga fyrir lifnaðinn og verðlauna Björgólf Thor fyrir að fara svona með íslensku þjóðina. Vinsamlegast bendið fólki á það.
Sem fyrr er gróðinn einkavæddur en tapið og skuldirnar þjóðnýtt.
Frétt Stöðvar 2 um íbúðasölu Hannesar Smárasonar í London.
Icesave var rætt í Kastljósi í kvöld. Ég tek undir með Þór Saari sem vill að við fáum Bretana til að leita uppi hina seku auðjöfra, leggja hald á eigur þeirra, finna leynireikningana þeirra í skattaskúmaskotum heimsins og hirða allt heila klabbið. Einhverjir milljarðar ættu að fást fyrir það. Og enn spyr ég eins og svo ótalmargir aðrir: "Hvað varð um alla þessa hundruð milljarða sem lagðir voru inn í Icesave, Kaupþing Edge og hvað þetta allt heitir?"
Kastljós 5. júní 2009
Ef einhver vogar sér að segja að ég sé öfundsjúk fær sá hinn sami rækilega á kjaftinn. Líðan mín stjórnast ekki af öfund frekar en flestra annarra. Ég er aftur á móti reið. Öskureið.
Viðbót: Ég held að ástæða sé til að minna á orð Michaels Hudson í Silfri Egils 5. apríl sl. Hann sagði að við ættum ekki að borga. Að við gætum það ekki. Ég minni líka á spurningar og svör Hudsons hér á síðunni í beinni 5. maí - íslensk þýðing hér.
Bloggar | Breytt 6.6.2009 kl. 01:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (94)
4.6.2009
Endurmat í skugga kreppu
Þessi fína grein eftir Sverri Jakobsson birtist í Fréttablaðinu í fyrradag. Ég mæli með lestri hennar - sem og bók Guðmundar Magnússonar sem Sverrir vitnar í, Nýja Íslandi. Það er góð bók og vel þess virði að lesa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.6.2009
Skyldulesning á Pressunni
Grein Ólafs Arnarsonar á Pressunni - Hagsmunaárekstrar yfirstéttarinnar - er skyldulesning. Ætlar spillingunni aldrei að linna? Á að láta svona sóðaskap viðgangast? Hér er umfjöllun DV um málið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.6.2009
Hrunið og feigðarósinn
Bloggar | Breytt 3.6.2009 kl. 00:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.6.2009
Fjárfestar og einkavæðing
Ég ætlaði að birta pistil með myndböndum um einkavæðingu og vitna í pistil sem ég skrifaði í júlí í fyrra. Ákvað svo að endurbirta hann allan sem eins konar formála. VARÚÐ - mjög langan formála en nauðsynlegan þeim sem síðar kemur. Hann er frá 21. júlí 2008. Í athugasemdum er líka vísað í áhugaverða pistla eftir aðra.
Ég geri lítið af því að rifja upp eldri pistla mína og gullfiskaminnið veldur því að þá sjaldan ég geri það kem ég sjálfri mér á óvart. Í minningunni skrifaði ég mest um náttúruvernd - aðallega Bitruvirkjun og olíuhreinsistöð á Vestfjörðum - fyrir efnahagshrunið - en svo kemur í ljós við nánari skoðun að ég var á kafi í skrifum um pólitík, peninga- og gróðahyggju og slíkum ósóma, auk þess að búa til og birta ýmiss konar myndbönd. Ef lesendur síðunnar hafa áhuga á eldri skrifum eru þau listuð eftir mánuðum vinstra megin á síðunni undir fyrirsögninni eldri færslur. En hér er pistillinn Fjárfestar og einkavæðing frá 21. júlí í fyrra. Hann er framhald af tveimur pistlum þar á undan eins og sjá má.
Þessi pistill er svar við athugasemd við þann síðasta og fjallar að mestu leyti um fjárfesta, einkavæðingu og íslenska pólitík. Þeir sem hafa áhuga á að skilja þennan pistil verða að lesa athugasemd nr. 12 sem Sigurður Þorsteinsson skrifaði við síðasta pistil minn. Vonandi hef ég gert ágætri athugasemd hans sæmileg skil með þessum pistli.
Sigurður... mér finnst þú snúa svolítið út úr orðum mínum á þinn vingjarnlega, kurteisa og ljúfa hátt. Það má vel vera að pistlarnir mínir um náttúruvernd séu betri en aðrir (NB - náttúruvernd, ekki umhverfisvernd - þar er munur á). En ég hef skoðanir á fleiri málum og þegar peningahyggjan er beinlínis farin að hafa áhrif á náttúruna og verndun hennar get ég ekki orða bundist.
Liður 1: Til að byrja með vil ég taka fram, að eins og ég segi í upphafsorðunum er þetta skrifað í framhaldi af myndbandinu sem ég birti í síðasta pistli og vísar því beinlínis í slíka og þvílíka fjárfesta. Ég er að sjálfsögðu ekki að tala um venjulegt fólk sem fjárfestir í innanstokksmunum, húsnæði eða menntun sinni og barnanna sinna. Ég er heldur ekki að tala um þennan venjulega Pétur og Pál og Jónínu og Guðrúnu sem fjárfesta hluta af sparifé sínu í hlutabréfum í hinum og þessum fyrirtækjum. Jafnvel ekki þá sem slá lán og veðsetja húsnæði sitt til að spila með á hlutabréfamarkaðnum. Þetta fólk er vitanlega að hugsa um að græða nokkrar krónur á fjárfestingunni, en hefur engin áhrif á stjórn fyrirtækisins og fylgist jafnvel ekkert með öðru en því, hvort hlutabréfin séu að lækka eða hækka í verði. Hefur ekki hugmynd um hvernig fyrirtækinu er stjórnað, hvaða laun það greiðir eða hvaða hlutverki það gegnir í víðara samhengi - jafnvel pólitísku.
Ég er að tala um stóru fjárfestana, þessa sem höndla með milljarða á milljarða ofan og svífast einskis. Fjárfesta, hvort sem þeir eru innlendir eða erlendir, sem líta á almenning í landinu - svosem hvaða landi sem er - sem algjört aukaatriði, bara ef þeir geta grætt. Lastu athugasemdirnar við síðasta pistil sem ég benti á? Þar sem sagt var t.d. frá SMS skeyti frá auðmanni til stjórnmálamanns. Ég er að tala um þannig fjárfesta.
Ég hef aldrei unnið við fjármál eða hlutabréf eða neitt þvíumlíkt og hef lýst því yfir í pistlum hér á blogginu mínu að ég hafi enga sérþekkingu á slíkum málum - nema síður sé. Ég er því vissulega áhugamanneskja eins og þú segir. En ég er hluti af þessum almenningi sem horfir í forundran á hina ríku verða ríkari án þess að botna upp né niður í hvernig þetta sé hægt. Ég horfi á þessi mál sem fullkomlega óinnvígð að öllu leyti en furða mig gjarnan á því hve fárra spurninga er spurt, einkum af fjölmiðlum sem um þessi mál fjalla. Hvernig gat þetta til dæmis gerst sem lýst er í myndbandinu í pistlinum hér á undan? Og hver á hvað í hvaða fyrirtæki eða Group eða hvað sem þessir strákar kjósa að kalla ungana sína?
Endur fyrir löngu kom út bók - mig minnir að hún hafi einfaldlega heitið Kolkrabbinn - þar sem farið var ofan í saumana á tengslaneti einstaklinga og fyrirtækja. Mér sýnist vera góður jarðvegur fyrir aðra slíka til að skýra eignarhald og brask með allt milli himins og jarðar.
Staðreyndin er nefnilega sú að þessir stórtæku "fjárfestar" eru gjarnan að spila með líf og afkomu almennings. Fyrirtæki sem við þurfum öll að skipta við að einu eða öðru leyti og ef þeir klúðra málunum erum það við sem borgum brúsann. Dæmi um það eru t.d. flugfélögin og matvöruverslanirnar. Þeir tapa eða gleypa of mikið sjálfir - það fer beint út í verðlagið sem almenningur er að sligast undan. Hver á Iceland Express? Síðast þegar ég vissi voru að mestu leyti sömu eigendur að IE og Icelandair. Mér gæti skjátlast því ég hendi ekki reiður á hver á hvað hverju sinni. Ég þurfti að fara tvisvar til Englands í vor og sumar með stuttu millibili og ég gat ekki séð neinn verðmun á fargjöldum þessara tveggja flugfélaga. Eiga ekki sömu menn Hagkaup, Bónus og 10-11 og svo aftur sömu menn Nóatún og Krónuna? Þetta eru tveir stærstu aðilarnir á matvörumarkaðnum á svæði þar sem 60-70% landsmanna búa. Og matur er lífsnauðsyn, ekki lúxus, þannig að allir þurfa að skipta við eitthvert þessara fyrirtækja.
Liður 2: Ég hef ekkert á móti samkeppni nema síður sé - þar sem hún á við og ef hún er raunveruleg og marktæk. Við erum svo lítið land með svo fáum íbúum að samkeppni getur ekki þrifist á öllum sviðum. Fyrirtækin bera sig einfaldlega ekki. Í einkavæðingarferli Íslendinga hafa verið gerð svo mörg og svo stór mistök að það hálfa væri nóg. Ég held að í því sambandi nægi að nefna bankana og grunnnet Símans. Nú er svo hægt og rólega verið að einkavæða heilbrigðisþjónustuna sem að mínu mati eru mikil mistök og síðast í gær komu fréttir um "útboð" á þjónustu a.m.k. hluta af Strætó. Ég efast stórlega um að það stuðli að lækkun fargjalda, tíðari ferðum, betra leiðakerfi og því sem þarf til að fá fólk til að nota almenningssamgöngur frekar en einkabílinn. Og ég þekki engan sem kannast við heilbrigðiskerfið í Bandaríkjunum, sem er að stærstum hluta einkavætt, sem getur hugsað sér að breyta því góða kerfi sem foreldrar okkar, afar, ömmur, langafar og langömmur börðust fyrir að koma á - þar sem allir hlutu ódýra og góða heilbrigðisþjónustu án tillits til stéttar, stöðu eða efnahags. Engan.
Tilhneigingin í einkavæðingu á Íslandi hefur verið sú, að upp spretta mörg fyrirtæki í sömu greininni þegar allt er gefið frjálst, en fljótlega kemur í ljós að reksturinn borgar sig ekki, markaðurinn er of lítill, og smátt og smátt - stundum mjög hratt samt - gleypir sá fjársterki (eða sá með bestu pólitísku samböndin eða besta aðganginn að lánsfé í bönkum) alla þá litlu og eftir stendur eitt, kannski tvö fyrirtæki (Samkeppnisstofnun gerir athugasemd), jafnvel að hluta til í eigu sömu manna. Verð er samræmt, samkomulag gert um verðlagningu og allir eru ánægðir - nema ég og þú sem þurfum að borga brúsann.
Við Íslendingar eigum miklar og verðmætar auðlindir - t.d. fiskinn í sjónum og orkuna í fallvötnum og jarðhita. Búið er að einkavæða fiskinn í sjónum. Það var gert með kvótakerfinu þar sem einstaklingum var gefinn fiskveiðikvóti sem gengur nú kaupum og sölum eins og hver önnur hlutabréf. Afleiðing þeirrar einkavæðingar eru öllum kunn. Kvótaeigendur gáfu fögur loforð um um að halda kvótanum í byggð en sviku þau öll og skildu eftir sig sviðna jörð - byggðarlög um allt land hafa nánast lagst í eyði og atvinnusköpun og -uppbygging verið fátækleg. Afleiðing þess er sú að verið er að stúta gjörsamlega ómetanlegri náttúru Íslands til að virkja fossa og jarðhita - til að afla orku fyrir mengandi stóriðju. Álver og kannski olíuhreinsistöð. Þetta hangir nefnilega allt saman. Einkavæðing - virkjun - stóriðja - fjárfestar - gróði - peningahyggja.
Nú blasir við að einkaaðilar ásælist orkuauðlindirnar okkar sem verða æ verðmætari eftir því sem orkuskorturinn eykst í heiminum. Stjórnvöld virðast ætla að nánast gefa þessa auðlind erlendum auðhringum í formi orku til álvera í stað þess að hinkra og sjá til hvernig veröldin þróast. Það á að gera okkur fjárhagslega háð öflum sem gæti ekki verið meira sama um land og þjóð - á meðan þeir sjálfir hagnast. Er nokkur furða að maður mótmæli? Það er verið að arðræna íslensku þjóðina - aftur. Ég get ekki setið þegjandi undir því.
Þú segir í athugasemd þinni: "Það hættulegasta í pólitískri umræðu, er að pólitíkin er of lítið fagleg og of mikið lík trúarbrögðum. Fólk étur allt of mikið upp vitleysuna eftir hvort annað til þess að þjóna flokkspólitískum hagsmunum, í stað þess að nálgast viðfangsefnið á faglegan hátt."
Ég er ekki í neinum flokki, þjóna engum flokkspólitískum hagsmunum, enginn stjórnmálaflokkur er áskrifandi að atkvæði mínu og ég hvorki tala né skrifa með flokkspólitík í huga. Ég veg og met orð og gjörðir út frá minni eigin almennu skynsemi og því sem ég sé, skynja og finn. Flokkapólitík er mér ekki að skapi og alls ekki hreppapólitíkin, sjálfhverfan innan kjördæmanna og atkvæðaveiðarnar. Ég vil að fólk - bæði kjósendur og stjórnmálamenn, fari að hugsa um heildina - ekki bara sérhagsmuni hvers landshluta fyrir sig, svo ekki sé minnst á sérhagsmuni einstakra frambjóðenda, þingmanna eða ráðherra. Ég fyrirlít slíka pólitík en því miður er hún það sem gildir á Íslandi.
Ég vil líka að dustað verði rykið af hugmynd Vilmundar heitins Gylfasonar frá 1983 um persónukosningar þvert á flokka og lista. Það gæti orðið landinu til mikillar blessunar ef sú hugmynd yrði útfærð af sanngirni og skynsemi.
Þetta er langt svar við athugasemd þinni, Sigurður. En nú sem endranær er mér mikið niðri fyrir. Ég geri mér grein fyrir því að ég er lítil... agnarsmá raunar... Ég á enga peninga, hef engin völd. En sem betur fer bý ég í þjóðfélagi þar sem ég má segja skoðun mína. Hvort ég verð látin gjalda þess á einhvern hátt verður tíminn að leiða í ljós. Annað eins hefur gerst í þessu "frjálsa lýðræðisríki".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
31.5.2009
VR-fjölskyldan illa tekin í bólinu
Kraftaverk gerðist í vetur - stjórn VR var velt af stóli. Ég þekki svolítið til frá því á árum áður, nefndi þetta í pistli í desember, og veit að þetta var kraftaverk. Kom enda öllum á óvart, líka sigurvegurum kosninganna. Ragnar Þór Ingólfsson hefur verið ötull við að upplýsa fólk um sannleikann.
Fréttin sem birtist af samsæri í stéttarfélaginu er með ólíkindum. "Eigendur" stéttarfélagsins með Gunnar Pál Pálsson í fararbroddi, sem töpuðu kosningunum geta ekki sætt sig við það. En þar virðist búa meira að baki en bara tap í kosningum til stjórnar í stéttarfélagi.
Talað er um "að viðhalda VR-fjölskyldunni", "að vera illa tekin í bólinu", "láta þau hafa fyrir því" og það sem stakk einna mest í augu og eyru: "Þetta er félagið okkar og okkar hagsmunir eru undir því komnir." Svona talar eða skrifar fólk sem missti meirihlutavald í stærsta stéttarfélagi landins. Hverjir eru þessir "við"? Hvaða hagsmuni er hér um að ræða? Varla hagsmuni fjöldans - þ.e. félagsmanna. Eru einhverjir sérhagsmunir þarna á ferð sem fólk vill ríghalda í á kostnað almennra félagsmanna? Maður spyr sig...
Undanfarin ár - kannski áratugi - hefur mikið verið talað um hve stéttarfélög eru orðin máttlaus. Að þau séu lítið annað en sumarbústaðaleigur eða eitthvað álíka léttvægt. Stéttarfélög hafa, með heiðarlegum undantekningum, ekki virkað sem skyldi sem hagsmunaafl fyrir félagsmenn sína. Svo mikið er víst. En í kreppunni reynir kannski meira á þau en í uppgangi undanfarið og mikilvægt að hinn almenni félagi fylgist vel með og taki þátt í starfinu. Einnig er mikilvægt að í forsvari sé heiðarlegt fólk án hagsmunatengsla við gömlu bankana og aðrar spillingarstofnanir. Vaknið, VR-félagar!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
Ég veit ekki hver(jir) er(u) á bak við Svarthöfðann í DV, en fjári er hann oft góður. Eins og skrifaður á mitt eigið lyklaborð núna síðast. Er það minnimáttarkennd sem fær Íslendinga til að halda sig besta, klárasta, flottasta og stórasta? Sjálfbirgingurinn ríður oft ekki við einteyming og ef engin er ástæðan til að berja sér á brjóst - þá er hún nánast búin til og síðan blásin upp. Baldur lýsir þessu þannig að margir Íslendingar séu eins og Pollýanna á sterum. En hér er Svarthöfðapistillinn og forsíðan sem hann vitnar í.
EINSTAKUR ÁRANGUR
Einhverjir vilja meina að mikilmennskubrjálæði hafi komið Íslendingum í þá ömurlegu stöðu sem nú blasir við gjaldþrota þjóð. Þetta er alrangt eins og allir sem þekkja sitt heimafólk hljóta að gera sér grein fyrir. Frumforsendan fyrir hallærinu er alls ekki stórmennskubrjálæði heldur þvert á móti sígild íslensk minnimáttarkennd sem brýst því miður fram í sameiginlegri þjóðarfirringu um að Íslendingar séu sterkastir, fallegastir, snjallastir og bestir í öllu.
Þessi firnasterka sjálfsblekking sem auminginn fyllir heimsmynd sína með til þess eins að kikna ekki algerlega undan eigin vanmætti er svo yfirþyrmandi að Íslendingar telja sig alltaf vera sigurvegara og langbesta. Jafnvel þegar þeir ná aldrei lengra nema í allra besta falli að vera næstbestir.
Samkvæmt íslenskum mælikvörðum er annað sætið sigursæti og FL Group og deCODE verðmæti. Fólk með óskerta sjálfsmynd bölvar þegar það lendir í öðru sæti, spýtir svo í lófana og strengir þess heit að gera betur næst og vinna. Þetta hvarflar ekki að Íslendingum. Þeim nægir að vera næstbestir vegna þess að þá eru þeir bestir. Þetta hljómar eins og mikilmennskubrjálæði en undir kraumar minnimáttarkenndin og vissan um að þeir geti aldrei orðið bestir.
Fyrir skömmu krækti landslið Íslands í handknattleik í silfur á ólympíuleikum og þjóðin trylltist. Landið varð stórasta land í heimi og ekki hefði verið hægt að fagna ákafar þótt gullið hefði unnist.
Ísland var þó ekki stórasta landið lengi og nokkrum vikum seinna rann stund sannleikans upp. Við erum smáð þjóð í gjaldþrota landi. Því miður fengum við ekki að búa lengi við leiðrétta sjálfsmynd þar sem Jóhanna Guðrún varð næstbest í Júróvisjón og sjálfsblekkingin skaut aftur upp kollinum. Við erum best og nú er þetta allt að koma. Svarthöfði er kominn með svo mikið ógeð á þessum hugsunarhætti vegna þess að við munum ekki ná okkur á strik fyrr en við gerum okkur grein fyrir að við erum dvergar og meðalmenni á alþjóðlegan mælikvarða þrátt fyrir höfðatölu.
Svarthöfði seldi því bókstaflega upp þegar hann sá forsíðu Fréttablaðsins í gær þar sem greint var frá einstöku afreki Eiðs Smára. Á yfir- og aðalfyrirsögn mátti skilja að hann hefði nánast sigrað í meistaradeild Evrópu einn síns liðs fyrir Barcelona. Vissulega er einstakt að landa svona stórum titli með því að sitja á varamannabekk en fyrr má nú fyrr vera. Heimspressan hefur aðra og réttari sýn á málið og Eiður sést einungis fagna sigrinum á síðum íslenskra blaða þannig að úti í hinum stóra heimi virðist hann ekki vera þessi lykilmaður sem Íslendingar vilja vera láta.
Við erum í svakalega vondum málum ef fjölmiðlar ætla ekki að fara að hysja upp um sig og byrja að endurspegla raunveruleikann frekar en búa til heimsmynd sem er lesendum þeirra og áhorfendum þóknanleg og í takt við landlæga minnimáttarkennd.
Ætla mætti miðað við þessa umfjöllun að Eiður Smári hafi unnið Meistaradeildina einn síns liðs og hjálparlaust. En eins og allir vita sem fylgst hafa með boltanum hefur hann sáralítið fengið að spila með um langa hríð og á því lítinn þátt í titlinum. Enda hefur mikið verið rætt um að hann skipti um lið. En þetta er dæmigerð þjóðrembuumfjöllun og svona hugsunarháttur stendur okkur fyrir þrifum í ýmsum málum - nú sem endranær.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
30.5.2009
Orðsnilld á Alþingi
Hér eru tvö sýnishorn af orðsnilld þingmanna á Alþingi Íslendinga - og ríkidæmi málefnanna. Ósanngjarn samanburður? Eflaust, en samanburður engu að síður og dæmigerður fyrir málefnafátækt allt of margra þingmanna þessa dagana og vikurnar. Samanburður sem sýnir líklega eina ómerkilegustu setningu sem sögð hefur verið í ræðustól Alþingis annars vegar - og hins vegar eina mögnuðustu ræðu sem þar hefur verið flutt. Ég hef ekki lagt á mig að hlusta mikið á "umræður" frá Alþingi undanfarið. Það fýkur alltaf í mig við þá hlustun og það er vond líðan.
Ég á þá ósk heitasta að alþingismenn hætti að líta á ræðupúlt Alþingis sem æfingasvæði fyrir ómálefnalegt skítkast og innihaldslaust blaður - eða kjörinn stað til að fullnægja athyglissýki og ganga í augun á ofstækisfullum kjósendum sínum. Við borgum þeim góð laun fyrir að vinna að hagsmunum okkar og gerum þá kröfu til þeirra ALLRA að þeir standi undir væntingum og vinni fyrir kaupinu sínu. Annars verða þeir settir af við fyrsta tækifæri.
Orðsnilld Eyglóar Harðardóttur 28. maí 2009.
Orðsnilld Vilmundar Gylfasonar 23. nóvember 1982 - sjá hljóðskrá hér fyrir neðan og prentaða ræðuna hér.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.5.2009
Komið, spámenn...
Nýr pistill Eiríks Guðmundssonar í Víðsjá á Rás 1 fjallar um þörf Íslendinga fyrir sannindi. Eiríkur tekur síst of djúpt í árinni. Þangað til sannleikurinn kemur í ljós verðum við í lausu lofti - og það er afleitt. Stjórnvöld verða að tala meira við þjóðina - og segja sannleikann.
Komið, spámenn
Á Íslandi er nú töluverð þörf fyrir mikil sannindi. Þjóðin þráir speki, þráir sannindi, helst dálítið dularfulla speki, sem sögð er á framandi máli, við munum taka Dalai Lama fagnandi, rétt eins og við tókum bandaríska kvikmyndaleikstjóranum David Lynch fagnandi á dögunum. Eins og við tókum Evu Joly fagnandi, þegar hún kom og sagði okkur, beint eða óbeint, að hér hefðu glæpamenn verið að verki.
Það er eftirspurn eftir erlendum sannindum, og það er ekki að ástæðulausu! Þjóðin trúir ekki innlendu spekingunum, treystir ekki á íslenskt hyggjuvit, og það er eðlilegt, það voru jú Íslendingar sem léku okkur grátt. Þess vegna bíðum við nú eftir því að einhver komi, með eitthvað. Við erum opin fyrir austrænni speki, norrænni speki, andlegum fróðleik við trúum við sem við okkur er sagt, vegna þess að við erum beygð og þurfum á einhverju að halda. Í því ástandi sem Íslendingar eru nú taka þeir á móti hverju sem er. Helst einhverju heimsfrægu. Dalai Lama er á leiðinni til landsins, hann virkaði reyndar ekki beysinn í myndinni sem sjónvarpið sýndi í gærkvöldi, hann var eins og hver annar grínari, sem stakk til dæmis upp á því að menn leystu deilur Palestínumanna og Ísraelsmanna með því að fara í lautartúr. Menn eiga bara að róa sig niður, sagði Dalai Lama. Og svo var það spekin um að hinir fátæku séu hamingjusamari en hinir ríku. Stórhættulegur boðskapur, fyrir þjóð í þeirri stöðu, sem Íslendingar eru nú.
En það er sannarlega engin ástæða til að ýta mönnum út af borðinu, þótt þeir komi furðulega út, í einum sjónvarpsþætti, það er sjálfsagt að hlusta á Dalai Lama, og raunar alla þá sem vilja færa okkur einhvern uppbyggilegan boðskap. Ekki veitir af.
En sumarið, ágætu hlustendur, það er strax byrjað að slæva mann. Áður en maður veit af er maður farinn að borða pönnukökur með kanilsykri undir berum himni, áður en maður veit af er maður orðinn heimskulegur í stuttbuxum, það er vonlaust að hugleiða hlutskipti sitt, af einhverri alvöru, á stuttbuxum. Ekki síst þess vegna, veitir ekkert af uppörvandi innspýtingu inn í hugarfarið, þótt maður nenni ekki endilega, að láta segja sér, að róa sig niður. En hættan er sú, ágætu hlustendur, í maílok, að fegurðin í náttúrunni slævi mann, að maður gleymi sér glápandi niður Flosagjá, að maður gleymi sér undir allt of háum hamravegg, gleymi sér við að bera smurolíu á reiðhjólið, eða lesandi Kvöldvísur við sumarmál, franska skáldsögu um hafið, ég veit það ekki, ég veit ekki til hvers heimurinn ætlast af manni, ég veit ekki hvernig ég á að taka öllum þessum ráðleggingum, veit ekki hvað á að gera, þegar grænu skuggarnir skríða á land, volgir upp úr funheitum hafdjúpunum.
Ég veit ekki hvernig á að lifa kreppuna af. Ég veit ekki hvort Dalai Lama hefur svarið, eða David Lynch, eða Eva Joly, eða villt blóm sem vaxa undir hamravegg, eða andlit sem speglast í djúpum hyl á Þingvöllum, ég bind reyndar af einhverjum ástæðum vonir við rússneska hljómsveitarstjórann Gennadij Rosdestvenskij, sem ég sá í sjónvarpinu í gær. Það var bara eitthvað í því, hvernig hann talar og ber sig að, þegar hann stjórnar hljómsveit. Hann ku vera á leiðinni til landsins.
En þannig er staðan, nákvæmlega núna, ágætu hlustendur, á Íslandi er nú töluverð þörf fyrir sannindi, við bíðum eftir fljúgandi dúfum með hálsbindi, við bíðum eftir því að sannleikurinn komi siglandi, utan úr heimi, við nemum hann í viðtali, sem verður sent út með íslenskum texta síðar. Þangað til verðum við - eins og hingað til - algerlega í lausu lofti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.5.2009
Einkavæðingin og afleiðingar hennar
Ég hvet alla sem mögulega geta til að horfa á myndina sem sýnd verður á RÚV í kvöld klukkan 22:20 - eftir Tíufréttir - sjá hér að neðan. Umfjöllunarefnið kemur okkur Íslendingum mjög mikið við, svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Þakka Dagnýju fyrir ábendinguna í athugasemd við síðasta pistil og tek að auki undir orð hennar þar. Látið sem flesta vita af þessari mynd.
Viðbót neðst í færslu: Umfjöllun Spegilsins í kvöld um myndina.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)